„Látið Kína sofa, því þegar Kína vaknar mun heimurinn skjálfa“, eru ummæli sem stundum hafa verið eignuð Napoleon Bonaparte.
Hvort sem keisarinn hefur látið sér þetta um munn fara eða ekki er hitt staðreynd, Kína er löngu vaknað. Á síðustu áratugum hefur Kína orðið sífellt umsvifameira í alþjóðaviðskiptum og er í dag eitt stærsta efnahagskerfi heims. Eftir að Kína varð aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni í lok árs 2001 jókst erlend fjárfesting í landinu verulega og uppgangurinn mikill.
Bankahrunið og efnahagskreppan haustið 2008 hafði umtalsverð áhrif í Kína sem þá var orðið þriðja stærsta efnahagskerfi heims, aðeins Bandaríkin og Japan voru stærri. Kínverska efnahagskerfið byggði á þessum tíma að verulegu leyti á framleiðslu og útflutningi neysluvarnings fyrir Vesturlönd. Minnkandi eftirspurn í kjölfar kreppunnar olli umtalsverðu atvinnuleysi í Kína og árið 2009 voru um 40 milljónir atvinnulausra í landinu.
Hagkerfið náði sér fljótlega á strik og „kínverska ævintýrið“ eins og það var kallað hélt áfram. Það var ekki síst byggingaiðnaðurinn sem keyrði hjól atvinnulífsins áfram, og þar var ekki slegið af.
Byggt og byggt
Það kvað vera fallegt í Kína.
Keisarans hallir skína
hvítar við safírsænum.
Línurnar hér að ofan eru upphaf ljóðs eftir Tómas Guðmundsson. Margir geta tekið undir með skáldinu að víða er fallegt í þessu stóra landi og vissulega eru þar skínandi keisarahallir. Þótt keisararnir hafi á sínum tíma haft rúmt um sig í glæstum salarkynnunum þætti þeim líklega nóg um allan þann aragrúa bygginga sem sprottið hafa upp í landinu á síðasta áratug eða svo. Í viðtali bandaríska hagfræðingsins Mark Williams við sjónvarpsstöðina CNN árið 2021 kom fram að þá væru um það bil 30 milljónir óseldra fasteigna í Kína og til viðbótar væru um 100 milljónir fasteigna sem þegar hefðu verið seldar en enginn byggi í.
„Í Kína eru ekki bara fasteignafyrirtæki í vandræðum. Um síðustu áramót voru 8,5 milljónir Kínverja á svonefndum svarta lista yfirvalda“
Í áðurnefndu viðtali sagðist Mark Williams telja að fram undan væri samdráttur á húsnæðismarkaðnum í Kína og því myndu fylgja erfiðleikar, boginn hefði verið spenntur of hátt. Hann reyndist sannspár. Þegar áðurnefnt viðtal fór fram 2021 var farið að braka í undirstöðum fasteignarisans Evergrande, eins stærsta fyrirtækis Kína. Tilraunir til að bjarga fyrirtækinu stóðu lengi yfir en báru ekki árangur. Í lok janúar á þessu ári var tilkynnt að Evergrande yrði tekið til skiptameðferðar, skuldir fyrirtækisins jafngiltu þá 40 þúsund milljörðum íslenskra króna (hvað eru mörg núll í þeirri tölu?). Mörg önnur kínversk fasteignafyrirtæki hafa einnig átt í erfiðleikum og komist í þrot.
8,5 milljónir á svarta listanum
Í Kína eru ekki bara fasteignafyrirtæki í vandræðum. Um síðustu áramót voru 8,5 milljónir Kínverja á svonefndum svarta lista yfirvalda, langstærsti hlutinn er fólk á aldrinum 18–59 ára. Ástæða þess að einstaklingur lendir á þessum svarta lista er sú að viðkomandi hefur ekki getað staðið í skilum með afborganir af húsnæðisláni eða svonefndu rekstrarláni, vegna fyrirtækis.
Og það er ekkert grín að lenda á svarta listanum, sá sem þar er getur ekki keypt flugmiða og ekki notað greiðslukort í verslunum. Sá skuldugi getur ekki fengið vinnu hjá ríkinu, sama gildir um fjölskyldu hans. 8,5 milljónir eru um það bil 1 prósent fólks á vinnualdri í landinu, og þeim sem eiga í greiðsluerfiðleikum hefur fjölgað mikið að undanförnu, það helst í hendur við aukið atvinnuleysi.
Útflutningurinn jókst til muna
Minni útflutningur og samdráttur í byggingariðnaði hefur valdið kínverskum stjórnvöldum áhyggjum. Þau hafa gripið til aðgerða, meira um það síðar í pistlinum. Og þær aðgerðir hafa skilað árangri, sem hafa vakið athygli og komið á óvart. Spá hagfræðinga víða um heim, sem Reuters-fréttastofan birti fyrir skömmu, gerði ráð fyrir að útflutningur frá Kína myndi aukast um 1,9 prósent á fyrstu tveim mánuðum ársins. Útflutningurinn jókst hins vegar um 7,1 prósent.
Það eru einkum Rússland og Indland ásamt löndum í Afríku og Suður-Ameríku sem eiga þar stærstan hlut. Aukningin kemur sér vel fyrir Kínverja en bitnar að sama skapi á mörgum öðrum löndum þar sem framleiðendur geta ekki keppt við innflutninginn frá Kína. Á fundi leiðtoga margra Evrópuríkja, með kínverskum ráðamönnum, í Peking í desember sl., lýstu evrópsku leiðtogarnir áhyggjum vegna fjölda verksmiðja sem verið væri að reisa í Kína, kannski margfalt fleiri en þörf er fyrir. Kínverjar framleiða nú um það bil þriðjung alls iðnvarnings í heiminum. Það er meira en Bandaríkin, Þýskaland, Japan og Suður-Kórea framleiða til samans, samkvæmt tölum frá Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna.
Framleiða allt milli himins og jarðar
Kínverjar framleiða allt milli himins og jarðar: stál, bíla, bílavarahluti, sólarsellur, vindmyllur, vinnupalla, alls kyns raftæki, verkfæri, húsgögn, skartgripi, fatnað, síma, tölvur og leikföng, svo fátt eitt sé nefnt.
Fyrir örfáum árum voru kínverskir bílar mjög sjaldséð sjón utan heimalandsins en nú sjást þeir þar æ oftar, tegundirnar orðnar fjölmargar og gæðin sögð jafnast á við það sem best gerist í heimi bifreiðanna. Bílarnir eru einungis eitt dæmi um sókn Kínverja inn á markaði þar sem þeir létu áður lítið að sér kveða.
Lægra verð vekur grunsemdir
Austan hafs og vestan finnst mörgum Kínverjar orðnir nokkuð frekir til fjörsins, ef svo má að orði komast. Stóraukinn innflutningur á alls kyns varningi frá Kína, á hagstæðu verði, bitnar á framleiðendum í öðrum löndum, einkum og sérílagi ef verðið frá þeim kínversku er hagstæðara. Stundum er sagt að kaupendur kaupi með veskinu, velji ódýrari kostinn ef tveir eru í boði.
Upp á síðkastið hafa komið fram efasemdir varðandi verðlagningu á útflutningsvarningi Kínverja. Talsmenn Evrópusambandsins segjast hafa sannanir fyrir því að Kínverjar hafi niðurgreitt bíla sem fluttir eru úr landi og í undirbúningi sé að leggja sérstakan toll á rafmagnsbíla sem fluttir eru til Evrópu frá Kína. Hve háir tollarnir verða liggur ekki fyrir á þessari stundu. Kínverjar neita því að bílar sem fluttir eru úr landi séu með einhverjum hætti niðurgreiddir. Sama gildi um aðrar vörur sem framleiddar eru í landinu.
Mikill innflutningur kínverskra vara hefur lengi verið þyrnir í augum bandarískra ráðamanna. Donald Trump lagði í forsetatíð sinni refsitolla á fjölmarga kínverska vöruflokka, þeir eru enn í gildi og stjórn Joe Biden setti enn fremur hömlur á útflutning margs konar tæknivarnings til Kína.
Krókur á móti bragði
Til að komast hjá tollahindrunum senda Kínverjar nú í auknum mæli margs kyns vörur, næstum fullunnar, til landa sem ekki sæta tollahindrunum, til dæmis Víetnam, Malasíu og Mexíkó. Þar er lögð lokahönd á varninginn og hann síðan seldur til Bandaríkjanna og Evrópu, sem framleiðsla viðkomandi lands, en Kína hvergi getið.
Hagstætt verð á kínverskum vörum hefur líka aukið viðskipti þjóða Suður-Ameríku og Afríku við Kína, og dregur að sama skapi úr viðskiptum þessara þjóða við Bandaríkin og Evrópu.
Athugasemdir