Síðustu tuttugu ár á Íslandi hafa verið lærdómsrík fyrir hagfræðinga. Sá sem þetta skrifar flutti til landsins árið 2003. Strax árið 2004 tók hlutabréfamarkaðurinn kipp, einkaneysla fór á skrið og viðskiptahalli myndaðist. Í byrjun 2005 virtust enn meiri kraftar vera á ferð. Dagblöðin voru í eigu aðila sem áttu viðskiptaveldi. Mörk stjórnmála og fjármála voru lítil sem engin eins og oft gerist í fjármálabólum. Fjármálaráðherra spurði á Alþingi: Drengir, sjáið þið ekki veisluna?
Í ársbyrjun 2006 var skýrsla Hagfræðistofnunar um fyrirkomulag gengismála á Íslandi kynnt með forsætisráðherra á fremsta bekk. Það var kafli í henni um bresti á fjármálamörkuðum og fjármálahrun, eins og hafði verið í ársskýrslu stofnunarinnar árið 2000. Skömmu síðar tóku erlendir fjárfestar að hræðast íslenska hagkerfið og gengi krónunnar og hlutabréfa lækkaði. Forstöðumaður Hagfræðistofnunar og Mishkin, einn höfunda skýrslunnar, skrifuðu þá traustsyfirlýsingu á íslenska fjármálakerfið sem virtist ná tilætluðum tilgangi þótt aðrir og sennilega mikilvægari þættir hafi einnig komið við sögu. Bólan sprakk ekki að þessu sinni.
Um sumarið 2007 sat ég samsæti sem haldið var í tilefni af komu bandaríska hagfræðingsins Edwards Prescott til landsins. Prescott sagðist ekki hafa áhyggjur af ástandi mála vegna þess að fjármagn og vinnuafl myndu halda áfram að framleiða þótt tjón yrði á efnahagsreikningum. Ég man líka eftir því að Pétur Blöndal lýsti því hvernig fyrirtæki á Íslandi mynduðu keðjur þannig að eitt fyrirtæki ætti annað og hagnaður í einu fyrirtæki, sem lyfti verði hlutabréfa í því, myndaði bókhaldslegan hagnað í allri keðjunni. Af þessu leiddi svo að fall eins fyrirtækis gæti leitt til þess að öll keðjan hryndi eins og síðar kom í ljós.
Um vorið 2008 bað kunningi minn í Landsbankanum mig um að hafa milligöngu um að fá Willem Buiter hagfræðing til þess að finna leiðir til að afla erlends gjaldeyris. Buiter og eiginkona hans Anne Sibert komu svo til landsins í júlí og héldu fyrirlestur þar sem fram kom að erlendir bankar vildu ekki lána þeim íslensku vegna þess að þeir hefðu ekki bakhjarl í seðlabanka. Stjórnvöld gætu gert eitt af þrennu. Þau gætu leitað eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, farið til Seðlabanka Bandaríkjanna eða veðsett náttúruauðlindir landsins til þess að fá lán frá erlendum fjármálastofnunum en því fylgdi þá þjóðnýting bankanna.
Hafði samband við Aliber
Fyrr um vorið hafði ég haft samband við annan hagfræðing sem ég var kunnugur en sá hafði rannsakað fjármálakreppur í áratugi. Robert Aliber var um þetta leyti kominn á eftirlaun frá Chicago-háskóla en jafnáhugasamur og áður um titring á fjármálamörkuðum.. Ég fékk fund með forsætisráðherra með honum morguninn 5. maí og eftir hádegi fórum við í Háskóla Íslands þar sem hann sagði hlutina umbúðalaust. Erlendir fjárfestar hefðu keypt krónueignir og hagnast á vaxtamun og nú þegar þeir hyrfu á brott lækkaði gengi krónunnar og verð á hlutabréfum hryndi. Fram undan væri gósentíð lögfræðinga.
„Þar bar helst til tíðinda að ekki var ákveðið að fórna erlendum eignum lífeyrissjóða til að bjarga bönkunum“
Um sumarið 2008 reyndu stjórnvöld að fá lánalínur frá öðrum seðlabönkum en án árangurs. Þau fengu einungis takmarkaðar lánalínur frá Norðurlöndunum með vandræðalegum skilyrðum um innanríkismál. Eftir fall Lehmann Brothers varð staðan vonlaus, Glitnir sá fram á að missa af gjalddaga og íslenska stjórnkerfið fylltist örvæntingu eftir að ákvörðun um að þjóðnýta bankann náði ekki að róa markaði. Áhlaup var gert á erlenda reikninga Landsbankans. Á föstudegi 3. október varð gamaldags áhlaup á krónuhluta bankanna þegar fólk fór í útibú þeirra og vildi fá innistæður sínar greiddar út. Um helgina lá mikill straumur fólks í Ráðherrabústaðinn. Þar bar helst til tíðinda að ekki var ákveðið að fórna erlendum eignum lífeyrissjóða til að bjarga bönkunum. Á sunnudeginum komu ráðgjafar fjárfestingabankans JP Morgan til landsins og sögðu okkar mönnum að ballið væri búið. Eftir helgina voru tveir bankar teknir yfir af ríkinu en stærsta bankanum, Kaupþingi, færður gjaldeyrisforði Seðlabankans. Afdrif hans eru ekki að fullu ljós enn þann daginn í dag. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, steytti síðar í vikunni skapi sínu á Íslandi og Kaupþing féll.
Í allri örvæntingunni voru þrjár réttar og afdrifaríkar ákvarðanir teknar. Sú fyrsta var að ábyrgjast ekki allar skuldir bankanna sem hefði leitt til greiðsluþrots ríkissjóðs vegna þess hversu stórir efnahagsreikningar bankanna voru. Önnur var sú að ábyrgjast innlendar innistæður í bönkunum sem kom í veg fyrir áhlaup á krónuhluta bankanna. Sú síðasta var að leita aðstoðar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Margar tilraunir til að endurskrifa söguna
Um tíma var tvísýnt um hvort Ísland fengi lán frá Rússlandi eða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Dag nokkurn birtist á heimasíðu Seðlabankans frétt um að Rússar hefðu ákveðið að veita Íslandi lán. Nokkru síðar sá ég fjölda enskumælandi hagfræðinga í Seðlabankanum; stjórnvöld höfðu brotið odd af oflæti sínu og gert það augljósa sem var að biðja um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var fylgt með góðum árangri þangað til að samstarfinu við sjóðinn lauk árið 2011. Það sem var merkilegt við þessa áætlun var að AGS samþykkti að nota fjármagnshöft til þess að koma í veg fyrir frekari veikingu krónunnar í stað þess að hækka vexti enn meira. Stjórnvöldum var sömuleiðis gefið svigrúm til þess að vernda hag þeirra sem verst urðu úti í skuldakreppunni.
„Bankar mega ekki verða svo stórir að seðlabanki geti ekki komið þeim til bjargar“
Þegar þetta er skrifað hefur að einhverju leyti fennt yfir þá atburði sem hér hefur verið lýst. Margir hafa reynt að skrifa söguna upp á nýtt. Ein sögutúlkunin er sú að hér hafi ekkert sérstakt gerst í aðdraganda áfallsins sem ekki var einnig að gerast erlendis. Önnur felst í því að leggja mesta áherslu á deilurnar við Breta og Hollendinga. Þriðja snýst um að innlend stjórnvöld hafi staðið sig vel í hruninu og eftirmálum þess, skuldirnar hafi lent á öðrum þjóðum og hagkerfið náð sér fljótt á skrið. Gallinn við allar þessar túlkanir, sem hver inniheldur auðvitað sannleikskorn, er sá að þær fyrirbyggja ekki að svipaðir eða aðrir líkir atburðir gerist í framtíðinni. Hér eru nokkur atriði sem ekki mega gleymast:
Engin ríkisstjórn myndi horfa aðgerðalaus á stóran viðskiptabanka falla. Þegar vel gengur hagnast eigendur banka, þegar illa gengur greiða aðrir, þ.e.a.s. skattgreiðendur, tjónið. En af þessu leiðir að þeir einstaklingar sem sækjast mest eftir því að eignast ráðandi hlut í viðskiptabanka eru áhættusæknir og einmitt þeir sem síst eru til þess fallnir að stjórna banka. Mikilvægt er sömuleiðis að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka þannig að skattgreiðendur ábyrgist ekki skuldsettar áhættufjárfestingar fjárfestingabanka og eigenda þeirra.
Bankar mega ekki verða svo stórir að seðlabanki geti ekki komið þeim til bjargar ef þeir verða uppiskroppa með laust fé og ríkissjóður ef þeir verða uppiskroppa með eigið fé. Of stórir bankar eru brothættir vegna þess að innistæðueigendur og erlendir bankar treysta þeim minna fyrir vikið.
Kerfi flotgengis og hreyfanlegs fjármagns er óstöðugt. Háir vextir laða að erlent fjármagn og gengi og eignaverð hækka. Þegar svo fjárfestum líst ekki lengur á blikuna reyna þeir að forða sér með því að selja krónueignir; gengi gjaldmiðilsins fellur þá og einnig verð á hlutabréfum og húsnæði og kreppa verður í hagkerfinu. Þess vegna verður seðlabanki ekki bara að beita vaxtatæki sínu heldur einnig gjaldeyriskaupum og -sölum til þess að stemma stigu við þessum kviku fjármagnshreyfingum.
Lánasamningar verða að vera í sama gjaldmiðli og tekjur lántaka þótt það kunni að borga sig fyrir hvern þeirra að taka erlend lágvaxtalán.
En stærsti lærdómurinn af þessu tímabili er að í markaðshagkerfi þarf að vera skýr rammi, lög og reglur og óvilhöll stjórnvöld. Eitt er að stjórnvöld hafi yfirlýsta atvinnustefnu, styðji við ákveðnar atvinnugreinar, annað að þau séu fyrst og fremst verkfæri þeirra hagsmuna sem þar liggja að baki.
Athugasemdir (2)