Kemur ekki vor að liðnum vetri? Vakna ei nýjar rósir sumar hvert? spyr lagið Þrek og tár. Nú er jólabókaflóðið senn á enda, árið líka og jólin á næsta leiti. Og ég, sem hef fengið að ritstýra sex tölublöðum af bókablaði Heimildarinnar þennan veturinn, veit að vorið kemur og er þess fullviss að næsta sumar vakna nýjar rósir og að þegar kemur aftur að vetri verði bókablómin í fullum blóma þrátt fyrir frost og snjó. Ilmur þeirra mun aftur að nýju fylla vit okkar og ásjóna þeirra mun, eins og alltaf, birtast okkur sem spegill. Það er svo okkar að takast á við spegilmyndina.
Sjötta og síðasta bókablað Heimildarinnar í ár er eins konar uppgjörsblað, baksýnisspegill og sjónauki inn í framtíðina. Fimm höfundar prýða forsíðuna að þessu sinni, það eru þau Kristín Ómarsdóttir, Guðmundur S. Brynjólfsson, Rán Flygenring, Bragi Páll Sigurðarson og Kristín Eiríksdóttir. Í vikunni sem leið settust þau niður með mér, gæddu sér á gúmmelaði og fóru yfir árið, ekki bara bókmenntaárið sem leið, heldur allt hitt líka.
Þau ræddu, meðal annars, ógnandi gervigreind og muninn á vélum og mönnum og hvort hann væri yfir höfuð nokkur á tímum þar sem menn haga sér eins og vélar, hlýði skipunum í blindni og vélar reyna að líkjast mönnum. Guðmundi Brynjólfssyni þótti það þó skýrt að þótt vélar væru flestar á sjálfstýringu ætti það ekki við verk mannanna, þau væru viljaverk, byggð á ákvörðunum sem leiddu af sér gjörðir.
Hann sagði það einmitt spurningu um mennsku hvernig mannkynið tæki á „endalausri slátrun á fólki“ sem birtist því í myndum og máli, einna helst og fyrst og fremst af Gaza, þar sem börnin hafa meira að segja sjálf haldið blaðamannafund og biðlað til heimsins að bjarga þeim. Það er lítil leið að vita hvort eitthvert þessara barna er enn þá lifandi, eitt er víst, þau fá enga pakka, borða engan jólamat og hlusta á engin jólalög, þau sem lifa gera ekki mikið annað en það, að halda lífi. Samanburður á íslenskum börnum og palestínskum er mikilvægur, því hann leiðir í ljós að munurinn er enginn, nema aðstæðurnar.
Höfundarnir fimm voru allir sammála um mikilvægi þess að minnast þess hvað lægi að baki því að heimurinn hafi ekki enn hlustað á börnin þegar þau biðja okkur öll um að stöðva „endalausa slátrunina“ á þeim. „Þetta snýst bara um rasisma,“ sagði Kristín Eiríksdóttir og hinir tóku undir. Guðmundur velti því svo fyrir sér hverju þetta svokallaða samtal, sem alltaf væri verið að ræða, ætti að áorka þegar það ætti að fara fram á milli þeirra sem „slátra“ og þeirra sem gera lítið sem ekkert til að stöðva það.
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir veltir fyrir sér samtalinu, eða sviðsetningunni á því, í greiningu sinni á „þýska þjóðarsportinu“ sem felst í því að reyna að þagga niður í samtalinu og samanburði. Hún nefnir sem dæmi tvo blaðamenn og höfunda, sagnfræðinga og heimspekinga, þau Hönnuh Arendt og Masha Gessen en það sem þau eiga líka sameiginlegt er að vera gyðingar sem hafa þurft að flýja alræðishyggju og hafa verið gagnrýnd fyrir að síðar gagnrýna alræði annars staðar, meira að segja í sumum tilfellum fyrir sama miðilinn, tímaritið The New Yorker. Hannah Arendt þurfti að flýja Þýskaland nasista í seinni heimsstyrjöldinni og Masha Rússland dagsins í dag, fasista.
„Það er lítil leið að vita hvort eitthvert þessara barna er enn þá lifandi, eitt er víst, þau fá enga pakka, borða engan jólamat og hlusta á engin jólalög, þau sem lifa gera ekki mikið annað en það, að halda lífi“
Það sem tengir þau enn fremur er sú staðreynd að Masha Gessen hlaut um nýliðna helgi verðlaun til minningar um Hönnuh Arendt. Þegar Masha var á leið sinni til Þýskalands til að taka á móti verðlaununum komst hán að því að bæjaryfirvöld í bænum sem verðlaunaafhendingin átti að fara fram höfðu dregið stuðning sinn við afhendinguna til baka, sem og stofnunin sem veitti þau, vegna gagnrýni sem Masha hafði skrifað, esseyju titlaða Í skugga helfararinnar og birtist í The New Yorker fyrr í desember. Masha hafði gert það sem ekki mátti, gert í skrifum sínum samanburð á gettó sem gyðingum var komið fyrir í og Gaza dagsins í dag, sem lengi vel hefur verið lýst sem stærsta fangelsi í heimi undir berum himni.
Masha útskýrði að hugtakið, fangelsi undir berum himni, næði engan veginn að lýsa þeim veruleika sem fólk þar byggi við, heldur væri gettó, eins og þau sem gyðingum var skipað að búa í, nærtækara hugtak í dag í stríði Ísraels við Palestínu. Hán sagði í viðtali að þrátt fyrir að samanburðurinn ylli því að fólki væri misboðið, væri siðferðislega og pólitískt séð nauðsynlegt að bera þetta tvennt saman.
Það væri ekki hægt að taka helförina út fyrir sviga sögunnar og neita samanburði við hana. Það að hún hafi yfir höfuð gerst, að svona eitthvað hafi verið mögulegt, væri full ástæða til þess að vera alltaf að bera hana saman við aðrar hörmungar til þess að koma í veg fyrir að helförin gæti endurtekið sig. Masha sagði í ræðu sinni við verðlaunaafhendinguna, sem í stað þess að fara fram í stórum sal fór fram í litlu herbergi, að sú gagnrýni sem hán hefði hlotið á þeim forsendum að á Gaza væri verið að „smygla inn vopnum“ og þéttleiki byggðarinnar, íbúa, væri annar en í gettói gyðinga, væri ekki rétt þar sem þéttleiki gettóanna breyttist með tímanum og vopnum var vissulega smyglað þar inn, ásamt því að gyðingar reyndu, einhverjir þeirra allavega, að streitast á móti, sömu rök og Hannah Arendt hafði sett fram áratugum áður. Masha sagði að mikilvægasta munurinn sem væri hægt að draga fram í dag, á þessari stundu, væri tvíþættur. Í fyrsta lagi væri enn hægt að bjarga fólkinu á Gaza og svo það að í dag vitum við af helförinni, hvar hún byrjaði og hvert hún stefndi, annað en gyðingar fortíðar.
Að bera saman skrif Hönnuh og Masha er áhugaverður lærdómur. Í bók sinni Eichmann í Jerúsalem skrifar Hannah gagnrýnið um Ísraelsríki og hvernig það kaus að minnast helfararinnar, hvaða lærdóm David Ben-Gurion, stofnandi ríkisins og forsætisráðherra þegar nasistinn Eichmann var dreginn fyrir rétt í Jerúsalem fyrir stríðsglæpi sína, vildi draga af helförinni og að hverjum sá lærdómur átti að beinast. Arendt sagði mál Ísraelsríkis gegn Eichmann hafa byggt á því sem gyðingar þurftu að þola, þjáningu þeirra, en ekki því sem Eichmann gerði, eða hvaða verknaði hann framdi, eins hræðilegir og þeir voru.
Hannah skrifaði sjálf að ef þeir sem sátu í salnum á meðan réttarhöldunum stóð, áhorfendur, áttu að vera heimurinn og leikritið sjálft, réttarhöldin, víðmynd af þjáningu gyðinga, var raunveruleikinn fjarri leikritinu. Eftir að fjölmiðlamenn misstu áhugann eftir fyrstu tvær vikurnar breyttist salurinn, áhorfendurnir drastískt. Salurinn samanstóð af Ísraelum, „af þeim þau sem voru of ung til að þekkja söguna á eigin skinni,“ eða gyðingum sem höfðu þá ekki heyrt hana. „Réttarhöldin áttu að sýna þeim hvað það þýddi að búa meðal ekki-gyðinga, að sannfæra þau um að aðeins í Ísrael gæti gyðingur talist öruggur og lifað mannsæmandi lífi.“ Hannah Arendt myndi að öllum líkindum ekki hljóta verðlaun til heiðurs henni sjálfri í dag, eins og Salvör Gullbrá orðar það.
Natasha S., rithöfundur, ritstjóri og blaðakona, fædd og uppalin í Rússlandi, og Auður Ava rithöfundur skrifa uppgjörspistla um árið sem er senn að líða undir lok. Í pistlinum ber Natasha saman rússnesk og íslensk stjórnvöld. Hún segist virða Ísland fyrir margt og að í mörg ár hafi Ísland verið henni paradís þar sem öryggi og mannréttindi voru annað en tóm orð eins og í Rússlandi. Árið 2023 snerist fyrir hana um paradísarmissi sökum þess meðal annars að horfa upp á stjórnvöld á Íslandi setja flóttafólk á götuna og þar með refsa þeim fyrir að hafa valið líf í stað dauða og segir þau farin að líkjast rússneskum stjórnvöldum þegar þau velja sig á undan fólkinu, peninga en ekki líf. „Paradís er skáldskapur en veruleikinn er helvíti.“
Athugasemdir