„Lífið er lærdómssamfélag og hver dagur á sína sögu,“ skrifaði Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, í einum af fjölmörgum pistlum í Heimildinni í ár þar sem fólk úr ólíkum áttum samfélagsins deildi því með lesendum hvaða lærdóm það hefur dregið af lífinu.
Lífið sjálft er stærsti lærdómurinn, eins og Magnús Þór komst að orði. „Fólk sem þú hittir á leiðinni límir saman heiminn þinn á sama tíma og þau eru meðleikendur í þinni mótunarsögu. Eru aðilarnir sem hjálpa þér að læra á lífið og vinna sigrana en líka þau sem verða fyrir því þegar þú gerir mistökin og stara með þér inn í ósigrana.“
Starfsbróðir hans úr kennarastéttinni var á svipuðum slóðum: „Að lifa er að læra þá list“, er niðurstaða Bjarna Stefáns Konráðssonar. Hann hefur lært að lífið er ekki metið í krónum og aurum og að virði fólks er ekki mælt í menntunarstigi þess. „Fólk sem skreytir sig með alls kyns menntun og gráðum en er stútfullt af fordómum og alhæfingum, er ómenntað að mínu mati.“
Menntavegurinn og skóli lífsins
Skólagangan og menntavegurinn eru mörgum samt sem áður hugleikin þegar farið er yfir það sem lífið hefur kennt okkur. Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur ólst upp þegar enginn var útivistartíminn og bílbelti voru aukaatriði. En æska landsins var ekki endilega frjálsari þá og minnist Helgi þess þegar hann sjö ára gamall fékk kjaftshögg frá kennaranum sínum. Hann rifjaði upp grunnskólagönguna og óskaði þess að allir hefðu bara verið aðeins duglegri að hrósa.
Björk Vilhelmsdóttir, félagsráðgjafi og fyrrverandi borgarfulltrúi, var rekin úr skóla rétt fyrir samræmdu prófin. Hún áttaði sig á því síðar meir að styrkleikar hennar voru ekki metnir og í störfum sínum sem félagsráðgjafi hefur hún lagt áherslu á að valdefla fólk með því að fela því ábyrgð á eigin lífi. „Vinnum með hvert öðru en ekki með hvert annað.“
Sigmundur Ernir Rúnarsson fjölmiðlamaður rifjaði upp hvernig krakkarnir í grunnskólanum hans voru flokkaðir eins og rusl, í þá sem voru nothæfir og hentuðu til endurvinnslu – og hina sem máttu missa sín, og áhrif þess á líf þeirra til fullorðinsára. Jafnvel til endalokanna. „Sjálfur fór ég inn að framan á íslenska menntaveginum. Ég get verið þakklátur fyrir það. Og ég var svo heppinn að njóta kennslu fólks sem trúði á skástu hliðar mínar. Það gafst ekki upp þótt ég gæti verið rellinn.“
Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, á tápmikla drengi en reynslan hefur kennt honum að grunnskólakerfið mæti þörfum drengja ekki nægilega vel. „„Það sem ég hef lært“ er annars vegar það að sem foreldri ber mér skylda til að vera vakandi fyrir því viðmóti sem synir mínir mæta í skólakerfinu og hins vegar að mér ber að standa með og standa vörð um drengina mína.“
Jónína Leósdóttir segist í gegnum árin hafa setið fleiri námskeið en hún hefur tölu á í stærstu menntastofnun heims, Skóla lífsins – skólanum sem hvert einasta mannsbarn er skráð í við fæðingu, hvort sem því líkar betur eða verr.
„Enginn getur nokkru sinni verið viss um að allar prófgráður séu í höfn og aðeins lygn sjór fram undan. Lífsins skóli gæti lumað á einhverju til viðbótar og dembt því fyrirvaralaust á okkur. Á sama hátt og við vorum innrituð við fæðingu, án þess að vera spurð, höldum við áfram að tilheyra nemendahópnum þar til við gefum upp öndina. Segir ekki gamall málsháttur að svo lengi læri sem lifi?“
Valdið til að bregðast við áföllum
Lífið dembir nefnilega ýmsu á okkur og Sigrún Erla Hákonardóttir skrifaði um valdið til að bregðast við áföllum. „Það sem verður að vera, viljugur skal hver bera“, sagði faðir hennar þegar hún missti eiginmann sinn í hörmulegu slysi fyrir aldarfjórðungi. Lífið hefur kennt henni að þó að áföllin breyti lífinu og sjálfinu á afdrifaríkan hátt, skiptir jafnmiklu máli hvernig við tökumst á við þau, með góðra manna hjálp. „Smátt og smátt lærði ég, buguð og brotin, að það eina sem við höfum vald á er hvernig við bregðumst við aðstæðum í lífinu.“
Hvernig á að bregðast við áföllunum er krefjandi. Flókið. Guðríður Haraldsdóttir skrifaði um sonarmissinn og orð sem trufla. „Þegar eitthvað slæmt kemur fyrir fólkið í kringum okkur, viljum við sennilega flest hjálpa, styrkja og hugga bæði með orðum og gjörðum og vonum auðvitað að það komi að gagni. Eftir að sonur minn lést í bílslysi fyrir nokkrum árum fékk ég ómetanlega hjálp, falleg orð og mikinn styrk frá góðu fólki allt í kringum mig. Ég upplifði líka annað en veit varla hvað hægt væri að kalla það, kannski stjórnsemi, klisjur, hugsunarleysi, alhæfingar, rassvasasálfræði? Þarna lærði ég þá mikilvægu lexíu að þótt margt fólk endurtaki sama hlutinn sé hann ekki endilega réttur.“
„Tárin eru góður farvegur tilfinninga hvort sem þau falla í gleði eða sorg“
Það er ekkert sem býr mann undir áföll, eins og Ragna Árnadóttir hefur komist að. „Það, að gera ráð fyrir hinu versta, er ansi lýjandi. Það býr mann ekki undir nein áföll, skyldi maður halda það, þau verða ekkert skárri við það.“ En það má gráta, líkt og Þuríður Harpa Sigurðardóttir hefur lært. „Erfiðleikar og sorg eru jafn sjálfsagðir förunautar og gleðin og velfarnaður og að tárin eru góður farvegur tilfinninga hvort sem þau falla í gleði eða sorg. Ég lærði að best er að takast á við sársaukann og veita honum farveg frekar en að byrgja hann inni.“
Konur eru konum bestar
Af 32 pistlahöfundum þetta árið sem skrifuðu um það sem þeir hafa lært á lífsleiðinni eru 22 konur. Konur eru konum bestar, líkt og segir í yfirskrift pistils Drífu Snædal sem leitaði til vinkvenna þegar hún lenti í þeim raunum að skrifa um hvað lífið hefur kennt henni. Drífa leit yfir farinn veg og fagnaði árangri í baráttu kvenna. „En það ber aldrei, ALDREI, að vanmeta nýjar leiðir feðraveldisins til að kúga og niðurlægja konur – og þannig undiroka þær. Feðraveldið finnur sér nefnilega alltaf nýjan farveg, er eins og stórfljót þar sem ein stífla verður til þess að nýr vegur er farinn. Það má því aldrei sofna á verðinum heldur finna nýjar leiðir til að bregðast við síbreytilegu feðraveldi.“
Feðraveldið kom nokkrum sinnum við sögu í pistlum um það sem lífið hefur kennt okkur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fagnaði 40 ára afmæli Kvennalistans í vor. Kvennaframboðið og Kvennalistinn kenndu henni að það skilar engu fyrir konur að vera prúðar og stilltar og spila samkvæmt reglum karlanna. Konur verða að óhlýðnast til að ná árangri. „Eins og öll rótgróin valdakerfi hefur feðraveldið einstaka hæfileika til að viðhalda sér og konur jafnt sem karlar geta stuðlað að viðhaldi þess. Vald spillir og algert vald spillir algerlega.“
Lífið er alls konar. „Lífið er Legó. Alla daga árið um kring er ég að velja þá kubba sem ég nota í fullbúna verkið sem líf mitt á endanum verður,“ skrifaði Annska Ólafsdóttir, sem ferðaðist um heiminn í leit að konunni sem væri frjáls, full af sjálfsást og ævintýraþrá. María Rut Kristinsdóttir hefur lært að lifa lífinu í lit. „Ég er að læra að vera ég. Ekki litla stelpan með fullorðinsheilann. Heldur bara fullorðna konan með fullorðinsheilann sem skilgreinir sig sjálf. Af því að ég má það – því ég á mig sjálf.“
Við tökumst á við lífið með ólíkum hætti en gerum það á hverjum degi. Sýn Karenar Kjartansdóttur á hversdagsleikann má vel tileinka sér á nýju ári: „Galdurinn felst í því að hversdagslegir hlutir verða að ævintýrum.“
Hér má nálgast greinaröð Heimildarinnar, „Það sem ég hef lært“, í heild sinni.
Athugasemdir