Þessi grein birtist fyrir rúmlega 8 mánuðum.

Samtakamáttur íslensku þjóðarinnar

Ís­lend­ing­ar hafa und­an­farna viku sýnt sam­taka­mátt­inn í verki og boð­ið íbú­um Grinda­vík­ur að­stoð af ýms­um toga. Um það leyti sem versta skjálfta­hrin­an reið yf­ir sagði Víð­ir Reyn­is­son að mögu­lega væri „sögu­leg­ur at­burð­ur“ í vænd­um. Við lít­um yf­ir far­inn veg síð­ustu daga.


„Rýming – allir. Íbúar á Grindavíkursvæðinu. Rýmið svæðið með yfirveguðum hætti.“ Svona hófust sms-skilaboð sem Neyðarlínan sendi á íbúa Grindavíkur að kvöldi föstudagsins 10. nóvember.  

Jarðhræringar sem höfðu staðið yfir dagana á undan voru farnir að ágerast svo mjög að fólk var farið að upplifa sjóriðu á eigin heimilum. Fyrr um kvöldið boðuðu Almannavarnir til upplýsingafundar þar sem Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði að í vændum væri mögulega „sögulegur atburður“ sem Ís­lend­ing­ar hafa ekki upp­lif­að síð­an gaus í Vest­manna­eyj­um 1973. „Við tókumst á við það saman og við munum takast á við þetta saman og látum ekki hugfallast. Gangi ykkur vel og farið þið varlega,“ sagði Víðir. 

Laust herbergi, laus sófi

Strax um kvöldið var stofnaður Facebook-hópurinn Aðstoð við Grindvíkinga þar sem almenningur um allt land sýndi í verki hversu megnugur samtakamátturinn er. „Laust herbergi hér með einu 140 cm rúmi. Einnig sófi í stofunni,“ skrifaði Halldóra. „Tvö herbergi laus hjá okkur,“ skrifaði Gísli. 

Upp úr miðnætti höfðu tæplega þúsund íbúar Grindavíkur látið Rauða krossinn vita að þeir væru komnir í skjól, en um 3.700 manns búa í Grindavík. Tugir leituðu í fjöldahjálparstöðvar, flestir í Kórinn í Kópavogi, en þar voru fullorðnir, börn og gæludýr.

„Þetta er reynsla sem breyt­ir líf­inu“
William Skilling ferðalangur

Skjálftavirknin var gríðarlega mikil um nóttina, mest suðvestur af bænum sem talið var til marks um að kvikugangurinn hafi lengst enn frekar, jafnvel á haf út.  „Þetta er reynsla sem breyt­ir líf­inu,“ sagði Bretinn William Sk­ill­ing í samtali við Heimildina en hann þurfti að leita til fjöldahjálparmiðstöðvar ásamt kærustu sinni. 

Umdeilt boð

Laugardaginn 11. nóvember var fólk komið í var en margir höfðu orðið að skilja eftir bæði gæludýr og húsdýr. Öllum var bannað að fara inn á svæðið vegna hættu sem stafaði af jarðskjálftum og mögulegu eldgosi. Önnur Facebook-síða var stofnuð: Gæludýr í Grindavík. Þar var kortlagt hvaða dýr urðu eftir og hvar þau voru. 

„Skamm­astu þín, karlfausk­ur“

Um kvöldið setti íslenskur karlmaður umdeilda færslu inn í hópinn Aðstoð við Grindvíkinga þar sem hann bauðst til að aðstoða einstæða móður með barn. Þetta vakti umræður um þá sem misnotuðu sér neyð kvenna sem flúðu stríðið í Úkraínu. „Skamm­astu þín, karlfausk­ur,“ skrifaði einn við færslu mannsins. 

Á sunnudag byrjuðu að berast fregnir af stórri sprungu í byggðinni. Tilvist hennar var áður þekkt af staðkunnugum en nú virtist hún hafa gliðnað og jarðvegur fallið ofan í hana. „Þegar horft er í átt til bæjarins sést hvernig sprungan stefnir beint í gegnum miðjan bæinn,“ skrifaði Grindvíkingurinn Ingibergur Þórir Jónasson sem tók drónamyndir af sprungunni. 

Upp úr hádegi fengu fyrstu íbúarnir heimild til að fara inn á lokaða svæðið til að sækja gæludýr og ómissandi eigur. Byrjað var á íbúum Þórkötlustaðahverfis, sem er eins konar bær utan við bæinn í Grindavík. Í framhaldinu fengu fleiri hópar íbúa að fara heim. Miðað var við að fólk væri inni í hámark fimm mínútur, og fengu íbúar fylgd björgunarsveitarfólks frá bílastæðinu við Fagradalsfjall. 

Fangaði athygli erlendis

Á samverustund í Hallgrímskirkju vegna jarðhræringanna sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands: „Ég er stoltur og þakklátur yfir því að búa í samfélagi sem bregst svo vel við óvæntri ógn.“

Mánudaginn 13. nóvember birti Vegagerðin myndir af gríðarlegum skemmdum sem orðið höfðu á Nesvegi sem tengir Grindavík við Reykjanesbæ. Hann hafði verið notaður af björgunarsveitum og viðbragðsaðilum en ekki var lengur óhætt að veita þeim þá undanþágu vegna skemmdanna.

Erlendir fjölmiðlar sýndu umbrotunum mikla athygli. Sky News, Financial Times, Bloomberg, NRK, BBC, CBC, veðurfréttastofa FOX, Reauters og The Guardian er aðeins hluti þeirra sem fjölluðu um málið. 

Fjöldi íbúa var í bænum á þriðjudag að sækja eigur sínar þegar Grindavík var rýmd í skyndi eftir að nýir gasmælar Veðurstofu Íslands sýndu hækkað magn brennisteinsoxíð sem getur verið vísbending um að gos sé að hefjast. Rýmingin var raunar afturkölluð skömmu síðar en lögreglustjórinn á Suðurnesjum sagði að þá hafi verið of seint að hætta við. 

Í gær, fimmtudag, voru sex dagar síðan meiri háttar skjálftahrina reið yfir Grindavík. Slaknað hefur á skjálftum en kvikan leitaði enn til yfirborðs. Enn voru taldar líkur á eldgosi þegar blaðið fór í prentun.

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár