„Konan er að vakna. Hún veit að karlmenn hafa ráðið heiminum frá því sögur hófust. Og hvernig hefur sá heimur verið? Hann hefur löðrað í blóði og logað af kvöl.“
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna, 24. október 1975, var tileinkaður baráttunni „jafnrétti, framþróun og frið“. Íslenskar konur lögðu niður störf og öðluðust trú á að hægt væri að breyta heiminum. Á Lækjartorgi flutti Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, verka- og síðar þingkona, eldræðu um kynbundið misrétti og firringu þeirra sem telja sig hafa tilkall til valda og geta beitt þeim að vild.
„Ég trúi því að þessi heimur breytist þegar konur fara að stjórna honum til jafns við karla. Ég vil og ég trúi því að þið viljið það allar, að heimurinn afvopnist. Allt annað eru stjórnmálaklækir og hræsni. Við viljum leysa ágreiningsmál án vopna.“
Trúin sem birtist í ræðu Aðalheiðar var sú að konur þyrftu að komast til valda, til að breyta karllægri nálgun sem stýrði allri orðræðu og stefnumörkun. Eins og þegar þeir tveir tóku einhliða ákvörðun um að styðja innrás í Írak, fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.
Á þessum sama grunni voru Kvennalistinn og Kvennaframboðið stofnuð, þar fóru fram konur sem börðust fyrir jafnrétti, félagslegu réttlæti, umhverfis- og náttúruvernd og voru friðarsinnar, sem vildu leggja niður hernaðarbandalag, draga úr kjarnorkuvígbúnaði og auka friðarfræðslu.
Tæpar tvær vikur eru síðan íslenskar konur fóru aftur í kvennaverkfall. Í þetta sinn er ríkisstjórnin leidd af konu og skipuð jafnmörgum konum og körlum. Forsætisráðherrann tók sér stöðu á meðal kynsystra sinna í verkfalli sem byggði á og vísaði til sögunnar. Enda formaður flokks sem reistur er á fjórum meginstoðum kvennabaráttunnar; kvenfrelsi, félagslegu réttlæti, umhverfisvernd og alþjóðlegri friðarhyggju. Samkvæmt lögum flokksins er eitt af meginmarkmiðum hans að stuðla að „friðsamlegri sambúð þjóða“.
Forsætisráðherra hefur talað fyrir og barist fyrir þessum gildum allan sinn stjórnmálaferil.
Þremur dögum síðar sátu íslensk stjórnvöld hjá þegar 120 ríki greiddu atkvæði með ályktun um tafarlaust vopnahlé í stríðsátökum Ísraels og Palestínu.
Areej, hvar ertu?
„Areej, getur þú sagt mér hver staðan er á þér og fjölskyldu þinni? Ég bið að þú sért örugg.“
Hún er ung kona, vel menntuð og hefur sinnt mannúðarstörfum á Gaza. Á Facebook-síðu hennar kalla vinir hennar eftir svörum. Fólk hugsar til hennar, óttast um afdrif hennar og biður fyrir henni. Tveimur vikum eftir þetta innlegg barst loks svar: „Það er ekki í lagi með okkur, við erum ekki örugg og erum hrædd um fjölskylduna, ástvini og börnin.“
Árið 2012 ræddum við saman í síma á meðan hún var í felum undir stiga á sundurtættu heimili sínu. Heimilið sem hafði veitt fjölskyldunni skjól í hversdagslegu amstri hafði hrunið í loftárás, en undir stiganum fann fjölskyldan annars konar skjól. Þar hafðist hún við í fjóra daga, áður en vopnahléi var komið á.
Á meðan við töluðum saman spurði hún: „Heyrðir þú þetta?“ Í bakgrunni féllu sprengjurnar.
Hún lýsti örvæntingu, svefnleysi og skorti. Blóð- og púðurlyktinni sem lá í loftinu. Og djúpstæðri þrá eftir frið og frelsi.
Þytur í eldflaugum, stöðugur ótti og tilfinningin fyrir öryggi hverfur. Þar sem allir eru skotmörk og hvergi óhultir. Þegar líkaminn dofnar upp, læsist í varnarstöðu, álagið og áfallið er þess eðlis að hvorki er hægt að gráta né öskra. Börn tapa trausti til foreldra sem geta ekki verndað þau. Foreldrar missa vonina.
Ekkert er eins og áður. Þú getur ekki einu sinni sagt: Ég fæddist hér, því heimilið er ekki lengur til.
Síðasta færslan var brostið hjarta.
Hún heitir Mira
Palestínskur rithöfundur, Khaled Juma, skrifar um litla stelpu á leikskólaaldri. Andlit hennar er alsett sárum:
Hún heitir Mira.
Og þessi undur á andliti hennar
farangur af spurningum
enginn þorir að opna hann.
Á morgun, þegar lífið heldur áfram
mun aðdáandi spyrja: Hver eru öll spurningarmerkin á andliti þínu?
Hún mun hlæja og svara: Þú virðist ekki vita hvað stríð þýðir.
Hann bætir því síðan við að á bæði latnesku og arabísku merki Mira dásamlegt, friður á slavnesku og á albönsku þýði Mira gæska og góðvild. Reglulega birtir hann frásagnir af litlum börnum sem eru ýmist særð, látin eða munaðarlaus. Myndirnar sýna börnin lifandi, brosandi og glöð.
Eldræða Aðalheiðar hélt áfram árið 1975: „Kvöl þeirra er samviska vor. Við viljum mannúðina í öndvegið en grimmdina og græðgina á dyr.“
Einn grunnskóli á dag
Tæpur mánuður er liðinn frá grimmdarverkum Hamas gagnvart saklausum borgurum í Ísrael. Ísraelsmenn brugðust við með skýlausu hatri, hörðustu og blóðugustu árásum á Palestínu í áratugi. Gaza er eitt þéttbýlasta svæði jarðar, þar sem á þriðju milljón manna búa á svæði sem er á stærð við höfuðborgarsvæðið. Þar hefur staðan versnað með hverjum klukkutíma og „fórnarkostnaðurinn er mældur í lífum barna“. Hátt í fjögur þúsund börn hafa látið lífið á þessum þremur vikum, aðallega börn frá Palestínu, þar sem 420 börn eru myrt eða særð að meðaltali á dag.
420 börn. Allir nemendur grunnskólans á Egilsstöðum, á einum degi.
Öll þessi börn, sem og þau sem eru ýmist látin vegna árása Hamas á Ísrael eða haldið í gíslingu á Gaza, greiddu fyrir afmennskun með lífi sínu. Þúsund barna er saknað. Talsmaður Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna talar um Gaza sem „grafreit þúsund barna“.
Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteyg, dökkhærð stúlka
liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan brotin.
Þúsund barna er saknað. Frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk hafa svo mörg börn ekki látist á jafn skömmum tíma, fyrr en nú.
Og við sitjum hjá.
„Þegar börn eru stráfelld getur alþjóðasamfélagið ekki setið hjá.“
Árið 2014 skrifaði Katrín Jakobsdóttir aðsenda grein í DV: „Ef ekkert lát verður á ofbeldisverkum Ísraels og ríkið heldur áfram að brjóta alþjóðalög og almenn mannréttindi hlýtur sú spurning einnig að vakna hvort rétt sé að slíta stjórnmálasambandi við ríkið.“ Ári síðar samþykkti landsfundur Vinstri grænna ályktun um að Ísland ætti að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael.
Í greininni sem birtist í DV undir fyrirsögninni: Er tímabært að slíta stjórnmálasambandi? rifjaði forsætisráðherra upp söguna af því þegar Alþingi samþykkti árið 2011 að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki, skora á að leitað yrði sátta með friðarsamningum og minna á rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna. Um leið krafðist Alþingi þess að látið yrði af ofbeldisverkum, og mannréttindi og mannúðarlög yrðu virt. Að tillögunni stóðu allir flokkar, nema einn. Samstarfsflokkur hennar í ríkisstjórn, sá sem stýrir nú utanríkisráðuneytinu.
Maðurinn sem ákvað að greiða ekki atkvæði með ályktun Jórdaníu um tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum. Ályktun sem er í fullu samræmi við málflutning íslenskra stjórnvalda hingað til. Vegna þess að ekki náðist „samstaða um texta ályktunarinnar sem tók ekki til grimmdarverka Hamas og tók ekki með beinum hætti á gíslatöku Hamas, en yfir 200 manns eru enn í haldi, þar af 30 börn“.
Árið 2014 skrifaði Katrín: „Fréttamenn lýsa hryllingi þar sem börn að leik eru sprengd í loft upp og svo lítur maður út um gluggann og sér íslensk börn að leik úti í garði. Bandaríkjaforseti áréttar rétt Ísraelsmanna til að verja hendur sínar. Hvernig þætti okkur að heyra slík orð frá valdamönnum heimsins ef börnin okkar væru sprengd upp fyrir framan nefið á okkur?“
Eins og hnífur hjartað skar það,
Hjarta mitt, ó, systir mín,
Fyrirgefðu, fyrirgefðu,
Anginn litli, anginn minn.
Ég ætlaði að fordæma hann pabba þinn.
Sólarhringur, langur og hægur
„Sólarhringur er liðinn án þess að ég viti neitt um fjölskyldu mína. 24 tímar hafa liðið hægt og þungt án þess að hægt væri að heyra í þeim. Orð duga ekki til, tár duga ekki til og bænir duga ekki til að tjá hvernig mér líður núna.“
Annar viðmælandi frá árinu 2012 lýsti líðan brottfluttra Palestínumanna, helgina sem Íslendingar sýndu afstöðu sína með hjásetu.
Áður en ályktunin var lögð fram á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna var fjarskiptasamband á Gaza rofið. Blaðamenn voru drepnir, ráðist var á flóttamannabúðir, og árás á sjúkrahús varð 500 manns að bana. Hjálpargögnum hefur varla verið hleypt inn í landið og læknar neyddust til að hætta að reyna að sinna sjúklingum þegar allt var uppurið. Engin lyf er að fá og skortur er á mat. Rafmagns- og eldsneytisskortur hindrar matvælaframleiðslu. Heitar máltíðir þekkjast varla lengur. Norskur læknir segir ekki hægt að lýsa skelfingarástandinu sem þarna ríkir. Starfsfólkið á spítalanum hafði misst heimili og ástvini og var orðið örvæntingarfullt.
Engin borg venst myrkri og kulda, hungri og þorsta, dauða og stríði. Sama hversu oft er ráðist á hana.
„Sagðir þú árás á flóttamannabúðir?“
Svar íslenska utanríkisráðherrans við spurningu fréttamanns norska ríkisútvarpsins vakti eftirtekt. Hann hélt áfram: „Ef þú spyrð mig hvað mér finnst um árás á flóttamannabúðir, þá ertu að fullyrða að það hafi verið framin árás á flóttamannabúðir.“
Ísraelsher gekkst við loftárásum á flóttamannabúðir. En Bjarni Benediktsson áréttaði að það væri „spurning hvernig maður nálgast þetta. Eins og ég sé þetta þá er stríð í gangi gegn hryðjuverkamönnum.“
420 börn. Nánast heill Austurbæjarskóli á dag.
Í hvít föt á föstudögum
Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu heldur úti fréttavef. Á forsíðunni er frétt frá 24. október, um að forsætisráðherra Íslands sé í forystusveit alþjóðlegs friðarátaks kvenna. Á þessum vettvangi sendi hún frá sér ákall, ásamt öðrum fulltrúum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þar sem þess var krafist að blóðsúthellingar yrðu stöðvaðar, mannúðaraðstoð leyfð og samningaviðræður hafnar með þátttöku kvenna. Um leið voru konur hvattar til að standa að baki kvenleiðtogum sem „taka forystu um að fylkja liði í þágu friðar til að tryggja öryggi, reisn og réttindi óbreyttra borgara“. Tilgangurinn var að rísa upp í þágu óbreyttra borgara, ekki síst kvenna og barna, sem hafa lent í orrahríð í Ísrael, á herteknu svæðunum og öðrum átakasvæðum heimsins.
Í aðdraganda alþjóðlegrar viku kvenna, friðar og öryggis var skorað á konur að bæta einhverju hvítu við klæðnað sinn eða veifa hvítum fána á hverjum föstudegi frá og með 27. október.
Þann 27. október greiddu Íslendingar ekki atkvæði með ályktun um vopnahlé.
#WomenForPeace.
Mjúku og hörðu málin
Kvennafundur Sameinuðu þjóðanna var haldinn á öðrum alþjóðlegum baráttudegi kvenna, þann 8. mars. Við það tækifæri héldu Evrópuráðið og Fastanefnd Íslands hliðarviðburð, þar sem yfirskrift fundarins og megininntakið snerist um hvernig hægt væri að verja réttindi innflytjenda, flóttamanna og hælisleitandi kvenna og stúlkna. Forsætisráðherra setti fundinn og sagði að ekki væri lengur hægt að kalla jafnréttismál „mjúk mál“. Ekkert sé harðara en veruleiki kvenna og stúlkna á flótta.
Í ágúst var þremur þolendum mansals vísað út á götuna eftir að þær voru sviptar öllum stuðningi af hálfu ríkisins.
Fyrr í þessari viku var fjölskyldu frá Palestínu flogið burt að næturlagi í boði íslenskra stjórnvalda. Átta barna móðir hafði sóst eftir vernd, en var vísað úr landi með sjö börn af átta, þar af sex undir lögaldri. Brottflutningurinn fór fram á grundvelli reglugerðar sem heimilar stjórnvöldum að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd aftur á fyrsta áfangastað, en kveður ekki á um það. Fyrir liggur að fjölskyldan hefur ekki fengið vernd á Spáni og hefur engin réttindi þar. „Þau verða send til Palestínu,“ segir starfsmaður teymis fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hjá Reykjavíkurborg.
Ekkert er harðara en veruleiki kvenna og stúlkna á flótta, sem send eru aftur á átakasvæði, í umboði friðelskandi forsætisráðherra.
Í blárri kápu, rauðum kjól og með hvíta húð, flutti forsætisráðherra þjóðhátíðarávarp á Austurvelli. Íslenski fáninn blakti yfir höfði hennar, þegar hún sagði Ísland málsvara mannréttinda, lýðræðis og réttarríkis. „Hér eftir sem hingað til notum við rödd okkar til að tala fyrir réttindum kvenna og stúlkna, fyrir umhverfis- og loftslagsmálum, og fyrir friði og afvopnun.“
„Þetta er tími fyrir áhyggjur, kvíða og streitu, því við vitum ekki hvað bíður okkar,“ skrifar Areej frá Palestínu.
Friður mikilvægasta málefnið
„Friður er eitt mikilvægasta málefni allra tíma. Ekki síst nú,“ sagði Katrín við opnun friðarráðstefnu í Hörpu í síðasta mánuði.
„En, kæru vinir,“ sagði Katrín þegar hún ávarpaði landsfund Vinstri grænna. „Ekkert er jafn átakanlegt, jafn sorglegt, jafn ömurlegt, og að sjá afleiðingar stríðs af mannavöldum. Að heimsækja samfélag í stríði þar sem áfram þarf að reka skóla og sjúkrahús, þarf að sinna alls konar störfum. Áfram þarf að vera til, en markmiðin eru í raun aðeins þau að lifa af.“
Þegar Katrín lauk máli sínu dundi lófatakið. Í sex ár hefur ríkisstjórnin setið undir hennar stjórn. Stundum sagðist hún fá spurningu um hvort það væri þess virði. En hvorki hún né flokkurinn skoraðist undan ábyrgð og tækifæri til að hafa áhrif á og móta samfélagið.
„Það skiptir máli hver stjórnar.“
Orð eru eitt, gjörðir eru annað.
Undanfarið hefur málflutningur ríkisstjórnarinnar markast af því hver sagði hvað, hvenær og við hvern. Ákvörðun utanríkisráðherra gengur augljóslega gegn gildum og stefnu forsætisráðherra. En ef hún ætlar að vera trú sjálfri sér og gildum sínum þarf hún að bregðast við. Á meðan hún reisir ekki flaggið, lætur sér nægja að klæðast hvítu á föstudögum, tekur ekki afgerandi afstöðu þegar aðgerða er þörf, þá skiptir í raun engu máli hver aðdragandi ákvörðunarinnar var. Niðurstaðan er sú sama. Íslendingar sátu hjá. Ríkisstjórnin sem hún leiðir. Og rak síðan palestínska móður aftur heim með börnin.
„Kvöl þeirra er samviska vor.“
Athugasemdir (7)