Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Fjárhagsstaðan í Reykjavík ein sú skásta á höfuðborgarsvæðinu

Skuldastaða þess hluta rekst­urs Reykja­vík­ur­borg­ar sem fjár­magn­að­ur er með skatt­tekj­um er betri en allra annarra sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu nema Kópa­vogs, sam­kvæmt töl­fræði­gögn­um um fjár­mál þeirra. Skulda­hlut­fall­ið er lægst í Reykja­vík og Kópa­vogi, skuld­ir á hvern íbúa lægst­ar í þeim sveit­ar­fé­lög­um og veltu­fjár­hlut­fall­ið, sem seg­ir til um getu sveit­ar­fé­lags til að borga skuld­ir sín­ar, er hæst í höf­uð­borg­inni.

Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar hefur versnað hratt síðustu misserin. Þegar fjárhagsáætlun var gerð fyrir síðasta ár var stefnt að því að reka þann hluta borgarinnar sem er rekinn fyrir skattfé, svokallaðan A-hluta, í 2,8 milljarða króna tapi. Niðurstaðan reyndist allt önnur og verri. Tapið var 15,6 milljarðar króna, eða 12,8 milljörðum krónum meira en áætlunin hafði gert ráð fyrir. 

Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar segja meginástæður þess að svona mikið tap hafi verið á A-hlutanum vera tvær. Annars vegar verðbólga og vaxtahækkanir sem hún hefur leitt af sér, sem hafi aukið fjármagnskostnað, aðallega vegna verðtryggðra lána, um marga milljarða króna. Verðbætur, afföll og gengismunur voru áætluð 1,4 milljarðar króna á síðasta ári en reyndust á endanum vera 6,6 milljarðar króna. Hins vegar er um að ræða þann halla sem er á rekstri á málaflokki fatlaðra, en hann var 9,3 milljarðar króna á síðasta ári.

Ekki skánaði staðan í lok síðustu viku þegar leiðrétting á ársreikningnum birtist í tilkynningarkerfi Kauphallar Íslands. Þar kom fram að við endurskoðun á reikningnum hafi verðbætur í sjóðstreymi verið oftaldar um tæplega 2,5 milljarða og lántaka vantalin um sömu fjárhæð. 

Næsti borgarstjóriEinar Þorsteinsson, fyrrverandi fréttamaður, mun taka við æðsta embætti borgarinnar um næstu áramót.

Borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar kynntu áætlanir um hagræðingu til að mæta erfiðari stöðu í desember í fyrra. Samkvæmt þeim er stefnt að því að rekstrarniðurstaða A-hlutans verði jákvæð frá og með árinu 2024. Í fimm ára fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er búist við sex milljarða króna tapi á honum í ár.  

Skuldaviðmið hækkað vegna faraldurs

Borgarfulltrúar minnihlutans í borginni, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, hafa farið mikinn í Morgunblaðinu og tengdum miðlum vegna þessa. Þar hafa sést fyrirsagnir á borð við „Rekstrarafhroð í borginni“, „Útlitið gæti ekki orðið svartara“ og „Hætta á greiðsluþroti að óbreyttu“. Sérstakur fréttaflokkur hefur verið búinn til á mbl.is undir yfirskriftinni „Fjárhagsörðugleikar Reykjavíkur“. 

Mikið var gert úr því að skuldahlutfall sam­stæðu Reykjavíkurborgar væri komið í 158 prósent, en ásamt A-hlutanum eru þar fyrirtæki sem borgin á að hluta eða öllu leyti. Fyrir vikið var Reykjavík eitt af 21 sveitarfélagi í landinu, sem fékk bréf frá innviðaráðuneytinu fyrr á árinu um að borgin stæðist ekki skuldaviðmið, en samkvæmt því mega skuldir samstæðu alla jafna ekki vera yfir 150 prósent. 

Bréfasendingin hefur þó engar afleiðingar. Við­miðið var nefnilega hækkað tíma­bundið upp í 200 pró­­sent með lögum sem Alþingi setti árið 2020 til að mæta efna­hags­­legum áhrifum heims­far­ald­­urs kór­ón­u­veiru. Sú heim­ild er sem stendur í gildi til loka árs 2025. Reykjavík hefur því út það ár að koma skuldaviðmiði samstæðunnar aftur undir 150 prósent.

Risastór fyrirtæki í eigu borgarinnar

Stærstu bitarnir í fyrirtækjahluta borgarinnar, B-hlutanum, eru Orkuveita Reykjavíkur og Félagsbústaðir, sem halda á þeim rúmlega þrjú þúsund íbúðum sem mynda félagslega íbúðakerfið í höfuðborginni. Bæði fyrirtækin eru rekin í umtalsverðum hagnaði og eiga mikið eigið fé. Enginn vafi ríkir á því að eignir þeirra eru meira virði en skuldirnar sem þau bera, sem þó eru umtalsverðar. Eiginfjárhlutfall Orkuveitunnar, sem á eignir upp á 450 milljarða króna, var 54,7 prósent um síðustu áramót og Félagsbústaðir, sem eiga eignir upp á 149,3 milljarða króna, voru með eiginfjárhlutfall upp á 56,1 prósent á sama tíma. Líkurnar á því að skattgreiðendur í Reykjavík þurfi að borga þessar skuldir eru því í besta falli hverfandi, og sennilega engar. 

Til viðbótar eru sameiginlegar stofnanir og fyrirtæki, sem sveitarfélög eiga saman, inni í B-hlutanum. Flest þeirra eru með sjálf­bæran rekstur og afla tekna sem duga fyrir kostn­aði, meðal annars greiðslu­byrði lána.

Þótt enginn deili sennilega um að fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar sé ekki góð þá hefur minna verið fjallað um hvernig hún er í samhengi við stöðu annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Er staða Reykjavíkur einsdæmi og til marks um óráðsíu þeirra sem stjórna borginni, eða er um kerfislegt vandamál að ræða sem hefur neikvæð áhrif á stöðu allra stóru sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu?

Til að finna slíkt út er hægt að skoða þrjár lykiltölur. Í fyrsta lagi skuldahlutfall A-hluta sveitarfélaganna. Í öðru lagi skuldir á hvern íbúa og í þriðja lagi peningalega stöðu hvers sveitarfélags um síðustu áramót, eða svokallað veltufjárhlutfall:

Skuldahlutfall A-hluta

Skuldahlutfall þess hluta reksturs Reykjavíkurborgar sem rekinn er fyrir skattfé hefur farið vaxandi á síðustu árum. Það var 85 prósent í lok árs 2017, skreið yfir 100 prósent árið 2021 og var komið í 112 prósent um síðustu áramót. 

Í samanburði við hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu er það hlutfall ekki hátt. Raunar er einungis eitt nágrannasveitarfélag, Kópavogur, sem er með betra skuldahlutfall, en þar er það 111 prósent og staðan því nánast sú sama og í Reykjavík. Hæst er skuldahlutfallið hjá Hafnarfjarðarbæ, 136 prósent, en þar fer það lækkandi. Í Mosfellsbæ er það 132,6 prósent, 130 prósent á Seltjarnarnesi og 125 prósent í Garðabæ. Í tveimur síðastnefndu sveitarfélögunum hefur skuldahlutfall A-hlutans hækkað gríðarlega frá 2017, og mun meira en hjá Reykjavík. Skuldahlutfall Seltjarnarness var 61 prósent í lok þess árs og skuldahlutfall Garðabæjar 84 prósent. Árið 2022 var það fyrsta síðan 2017 sem Reykjavík var ekki með lægsta skuldahlutfallið á höfuðborgarsvæðinu, og var þess í stað með það næstlægsta, einu prósentustigi meira en Kópavogur. 

Skuldir á hvern íbúa

Skuldir þess hluta Reykjavíkurborgar sem fjármagnaður er með skatttekjum uxu um 30 milljarða króna í fyrra og voru 174,5 milljarðar króna um síðustu áramót. Íbúar höfuðborgarinnar voru 139.875 á sama tíma. Það þýðir að hver íbúi skuldaði 1.247 þúsund krónur, ef skuldunum er deilt niður á íbúa. Um mikla aukningu er að ræða á skömmum tíma, eða tæplega 21 prósent. Þetta er þó næstlægsta skuld á íbúa hjá sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. 

A-hluti Hafnarfjarðar skuldaði 51,8 milljarða króna í lok síðasta árs. Þá höfðu þær skuldir aukist um tæp 12 prósent á einu ári. Íbúar Hafnarfjarðar voru 30.568 um síðustu áramót og skuldir á hvern þeirra því 1.695 þúsund krónur. Það eru hæstu skuldir á hvern íbúa hjá sveitarfélagi sem tilheyrir höfuðborgarsvæðinu. 

Skuldirnar eru næsthæstar í Garðabæ, eða 1.530 þúsund krónur á hvern þeirra 18.891 íbúa sem þar búa. Alls skuldaði Garðabær 28,9 milljarða króna í lok síðasta árs eftir að skuldir sveitarfélagsins jukust um 22,4 prósent á einu ári. 

Mosfellsbær skuldaði 20,2 milljarða króna um síðustu áramót og þegar þeirri upphæð er deilt niður á 13.430 íbúa sveitarfélagsins þá kemur í ljós að hver og einn þeirra myndi þurfa að greiða 1.502 þúsund krónur ef þeim væri gert að gera upp skuldirnar. Á Seltjarnarnesi, þar sem 4.674 búa, voru skuldirnar 6,8 milljarðar króna í lok árs í fyrra, og skuld á hvern íbúa því 1.455 þúsund krónur. Skuldirnar hafa vaxið gríðarlega síðan 2017, en þá voru þær 493 þúsund krónur á hvern íbúa. Skuld á hvern íbúa er því næstum þrisvar sinnum hærri nú á Seltjarnarnesi en þær voru fimm árum áður. Til samanburðar hafa skuldir á hvern íbúa í Reykjavík vaxið um 59 prósent á sama tíma. 

Það sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem er með lægstu skuldirnar á hvern íbúa er Kópavogur, sem skuldar alls 48,1 milljarð króna. Skuldir á hvern þeirra 39.810 íbúa sem þar búa voru því 1.209 þúsund krónur á mánuði.

Önnur leið til að líta á hlutina er að horfa á stöðuna hjá Reykjavík annars vegar og hinum fimm sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hins vegar. Samanlagt búa 247.248 á höfuðborgarsvæðinu, og þar af búa tæplega 57 prósent í Reykjavík. Samtals nema skuldir A-hluta sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins 330,3 milljörðum króna. Reykjavík heldur á 53 prósent þeirra skulda. Meðaltal skulda á íbúa hjá hinum fimm sveitarfélögunum var 1.451 þúsund krónur í fyrra, eða 16,4 prósent hærri en hjá Reykjavík.

Veltufjárhlutfall

Einn mikilvægasti mælikvarðinn sem vert er að skoða til að sjá hvort sveitarfélag ráði við skuldastöðu sína er svokallað veltufjárhlutfall. Það segir til um peningalega stöðu um áramót og þumalputtareglan er að mikilvægt sé að það sé yfir 1,0. Ef það er yfir þeirri tölu þá hefur sveitarfélagið laust fé um áramót og útistandandi skuldir sem gjaldfalla á árinu til að greiða allar lausaskuldir og afborganir á lánum á yfirstandandi ári. Frá lokum árs 2018 og fram að síðustu áramótum var Reykjavíkurborg eina sveitarfélagið sem var með veltuhlutfall yfir 1,0. Í lok árs 2021 var það 1,45 á meðan að það var 0,6 til 0,8 hjá hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. 

Áhyggjuefni er hversu mikið þetta veltuhlutfall lækkar milli ára hjá Reykjavíkurborg, en hjá A-hluta hennar var það komið í 1,07 í lok síðasta árs. Það var þó enn yfir 1,0 og borgin átti 10,2 milljarða króna í handbært fé 1. janúar síðastliðinn. Auk þess fékk Reykjavíkurborg, sem á 93,5 prósent hlut í Orkuveitu Reykjavíkur, um 5,1 milljarð króna í arðgreiðslu frá því fyrirtæki vegna frammistöðu síðasta árs. 

Þeir sem hafa áhyggjur af því að veltufjárstaða borgarinnar endurspegli einhvers konar yfirvofandi greiðslufall hafa ekki lýst yfir sömu áhyggjum af hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum, sem hafa verið með mun verra veltuhlutfall. Raunar er það undir 1,0 hjá öllum hinum sveitarfélögunum á svæðinu. Skást er það hjá Hafnarfirði, þar sem það er 0,96 og hækkar milli ára. 

Veltufjárhlutfall Garðabæjar lækkaði í 0,63 á síðasta ári, en stór breyta í ársuppgjöri Garðabæjar er sala á byggingarétti fyrir tæplega 3,7 milljarða króna. Þar munar mestu um sölu á Vetrarmýri til Arnarhvols, byggingarfélags sem er meðal annars í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Tekjur vegna þeirrar sölu voru um 16 prósent af öllum rekstrartekjum Garðabæjar í fyrra. Án þeirrar sölu hefði rekstur Garðabæjar verið í verulegu tapi, en var þess í stað í 736 milljóna hagnaði. Án þeirrar sölu hefði veltufjárhlutfallið líka verið neikvætt. 

Í Mosfellsbæ lækkaði veltufjárhlutfallið úr 0,78 í 0,6 milli ára og á Seltjarnarnesi fór það úr 0,6 í 0,4. Lægst vart það hjá Kópavogi, þar sem veltufjárhlutfallið lækkaði úr 0,59 árið 2021 í 0,35 í árslok í fyrra. 

Kjósa
32
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Ingibjörg Ottesen skrifaði
    Kæru Reykvíkingar. Nú er þörf á því að standa saman. Þetta er neyðarkall. Úr því að borgin stendur svona vel og þótt hún stæði mun verr, þá verðum við öll að minna Dag B. Eggertsson að hann fékk mjög mörg atkvæði út á það að hann minntist ósjaldan á að Sjáflstæðisflokkurinn hefði selt allan hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Núna er hann um það bil að fara selja hlutabréf í Ljósleiðaranum. Og hverjir haldið þið að kaupi? Hvernig fór með Mílu? Hver á Mílu núna?

    Við verðum að koma í veg fyrir að af þessu verði. Og Dagur B, Eggertsson, þú skalt gjöra svo vel að standa við gefin loforð!

    Samfylkingin er á blússandi siglingu, eigum við ekki að spyrja Kristrúnu Frostadóttur að því, hvort hún sé fylgjandi frekari einkavæðingu á grunnþjónustunni í landinu, og einnig hvort hún vilji klára að selja Íslandsbanka??????

    Þetta er mikilvægt, það er eins og stjórnmálamenn geti ekki unnt almennigni þess að fá arð af eigum sínum. Gæti það verið vegna þess að þeir fjölga sér svo ört. þá á ég auðvitað við að þeir fjölga í öllum nefndum og ráðum, hækka laun sín gífurlega og passa upp á að þau séu vísitölutryggð.

    ÉG hef alla tíð kosið Samfylkinguna, var með á mörgum fundum þegar Alþýðubandalag, Kvennalisti og Alþýðuflokkurinn var að reyna að sameina félagshyggjufólk. Sjáum nú til, hvar eru Allaballarnir núna? VG og svo Alþýðuflokkurinn sem barðist svo ötullega fyrir félagshyggju, blessuð sé minning Gylfa Þ. Gíslasonar. Hvar eru konurnar? Koma svo! Berjast! Eigum við að fá Skarpa í lið með okkur?
    0
    • ÁH
      Ásmundur Harðarson skrifaði
      Það stendur ekki til að selja Ljósleiðarann. Það er hins vegar vilji fyrir því að fá einkaaðila með í hóp eigenda. Borgin eða Orkuveitan verður áfram meirihlutaeigandi með 60% eignarhlut ef ég man rétt.
      0
  • JL
    Jón Logi skrifaði
    Ekki verður annað séð af þessari samantekt, en að mestu lausatökin á rekstri sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu séu þar sem sjálfstæðismenn halda um stjórnartaumana.
    3
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu