Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Um heimsenda og hlátur

Í Hóm­erskvið­um finn­ast víst eng­in dæmi um að heil­brigt fólk hlæi, þar hlær eng­inn nema fá­vit­ar, geð­sjúk­ir og þeir sem skugga­ver­ur hafa heltek­ið, en hef­ur þú kom­ið til Fen­eyja?

Um heimsenda og hlátur

„Skarphéðinn stóð með reidda öxina og glotti við.“

– Brennu-Njáls saga, 120. kafli.

*

Mér hefur verið sagt að í Hómerskviðum finnist engin dæmi um að heilbrigt fólk hlæi. Í þeim bókum hlæja víst einungis fávitar og þeir sem eru bilaðir á geði – nú eða þá þeir sem skuggaverur hafa heltekið. Engir hlæja nema þeir.

Þennan fróðleiksmola hef ég frá vinkonu minni. Hún er fróð um marga hluti. Við höfðum verið að ræða eðli hláturs. Hlátur er ekki einleikinn. Þaðan barst talið að hinum síglottandi Skarphéðni Njálssyni frá Bergþórshvoli og senunni við Lögberg þar sem reynt er til þrautar að ná sættum vegna vígs Höskuldar Hvítanessgoða. Það vildi nefnilega þannig til að við vorum bæði nýbúin að endurlesa Njálu. Í slíku spjalli er síðan auðvitað ekki nema spölkorn sem skilur að höfund Njálu og höfundinn Hómer, enda eru þeir líkir náungar um margt. Þessi vinkona mín hefur hins vegar þann furðulega kæk að gjarnan þegar umræður eru komnar á rekspöl – inn á áhugaverðar slóðir, jafnvel farið að glitta í einróma niðurstöðu – þá grípur hún orðið óforvarendis og beinir til manns hnitmiðari spurningu um eitthvað allt annað og allsendis ótengt. Þetta veit ég og það hefði því ekki átt að koma mér á óvart að rétt eftir að hún hafði sleppt orðinu um skuggaverurnar sem valda hlátri samkvæmt Hómer, þá spurði hún, án þess að hafa einu sinni „en“ að formála: „Hefurðu komið til Feneyja? Og ef svo, hvers minnist þú þaðan? Feneyjar?“

Þessari vinkonu minni leiðast niðurstöður. Hún forðast þær eins og brennt barn eldinn. Mig grunar að það tengist því að niðurstöður eru endastöðvar. Líklega er það þess vegna sem hún grípur gjarnan til þessa bragðs. Og í þetta skiptið, svona til að taka af allan vafa, endurtók hún orðið: „Feneyjar?“ 

*

Reiði hvers manns er í galli en líf í hjarta,

minni í heila, metnaður í lungum, hlátur í milti.“

 – Fóstbræðrasaga, (Úr Flateyjarbók), 21. kafli.

*

Nú vill svo til að ég hef komið til Feneyja. Og reyndar oftar en einu sinni. Og fyrst minnst er á minningar þá hefur mér oft einmitt fundist að Feneyjar séu nálægt því að að vera eins og minjasafn fyrir frummyndir skynjunar. Þegar skynjanir storkna, gjarnan í örlítið afmynduðu formi, þá verður jú til minning. Feneyjar eru einhvern veginn raunverulegri en raunveruleikinn, eins og frummyndirnar í kenningum Platóns eru skarpari en skuggar þeirra sem dansa fyrir augum okkar hversdagslega. Feneyjar kalla þannig fram næmari skynjun en flestar aðrar borgir, hefur mér fundist. Ég hef á tilfinningunni að ástæða þess sé ekki síst hin sérstæða hljóðvist sem þar er. Slík borg, þar sem engir bílar eða ökutæki finnast, verður fyrir sveitamanni af norðurhjara furðulega þögul, eiginlega svo að loki maður augunum, þá hljómar hún helst eins og maður sé innanhúss frekar en utandyra – þótt maður standi úti á miðri götu.

Strætin eru þröng, líkari gangi eða fordyri í húsi. Þau eru líka skjólgóð, þessi völundarhús sem göturnar teikna, þannig að í ofanálag er í Feneyjum nær alltaf logn. Á Íslandi er aldrei logn nema innandyra. Öll skynjun manns ber því keim þess að vera í skjóli, undir þaki, ekki úti undir berum himni.

Hljóðin eru samt þarna. Þau læðast út um opna glugga eða gegnum rifur á gluggahlerum. Hláturroka berst eins og gára á vatni eftir stígnum á móti manni. Og aldrei finnst mér það bregðast að í Feneyjum, að kvöldi til, heyri ég einhvern andlitslausan mann eða konu spila á píanó í fjarska. Oftast er þar leikið af færni en þó ekki lýtalaust – örlítið hikandi á stöku stað – til að taka af öll tvímæli um að þar er spilað í alvöru, ekki af plötu. Oftast hljómar það í mínum eyrum sem leikið sé eftir nótnabókum eftir Chopin en þar kann mér að skjátlast. Kannski er það Schumann, kannski Liszt, ég er enginn sérfræðingur í þessari gerð tónlistar. Ég nota „Chopin“ líklega sem einhvers konar regnhlífarhugtak yfir tónlist á strætum Feneyja. En það er ekki alltaf heldur gott að segja nákvæmlega hvert lagið er því það eru sveiflur í tónhæðinni, hún hækkar og lækkar, hún fellur að og frá, ekki ólíkt öldum við strönd.

Þar sem strætin í Feneyjum eru svona hálfvegis innanhúss, þá berast manni hljóðin heldur ekki beint til eyrna því á leið sinni að hljóðhimnunni speglast þau á ótal veggjum, yfirborði skipaskurða, götusteinum, framstæðum búðarskiltum og gluggagleri … Maður heyrir bergmál af tónlist. Raunar mætti segja að maður heyri bergmál af bergmáli, svo rennblautir eru tónarnir þegar þeir finna eyru manns á endanum. Hljóðin draga því bókstaflega upp hljóðmynd – mjög margbrotna – af þessu borgarrými, byggingunum, götunum, öllu sem þar er. Maður er því í raun að hlusta á mynd af borginni. Einhvers staðar, nær eða fjær, það er engin leið að vita, er einhver við opinn glugga að leika nocturnu eftir Chopin á píanó með aðstoð hundrað húsveggja. Í lokin slær hann eða hún feilnótu og bjargar sér með því að henda í eitt sígilt saltkjöt-og-baunir-túkall í lokin og slá svo fast á grunnbassanótuna á eftir. Áheyrandi hans klappar og hlær innilega. Nema náttúrlega það hafi verið píanóleikarinn sjálfur sem þarna skellti uppúr, glettnis- eða grallarahlátri, til að fela vandræðaganginn yfir mistökunum. Það er engin leið að segja hver þar hló.

*

„Eigi ætla eg hlátur hennar jafngóðan

sem þú, segir Ósvífur.“

–  Brennu-Njáls saga, 11. kafli.

*

Ég hef komið mér upp þeim vana að sækja heim Myndlistartvíæringinn yfir síðustu sýningarhelgina. Það er ákjósanlegur tími, fáir túristar á ferli, engin skemmtiferðaskip, gisting á viðráðanlegu verði. Önnur ástæða fyrir því að vera þarna lokadagana er sú að verkin eru farin að láta á sjá. Það er búið að horfa svo mikið á þau: Málningin er byrjuð að flagna í horninu í loftinu vegna rakans, myndvarparnir farnir að flökta – og það tekur því ekki að dytta að þessu úr þessu, sýningunni er alveg að ljúka. Skálarnir sem um vorið voru óaðfinnanlegir, bláhvítir, eru sumir orðnir næsta óhrjálegir. Næstum eins og litlir mineatúr minjagripir, um svipaða tilfinningu og þá sem heltók Byron þegar hann kleif rústir Koloseums í fyrsta Evróputúrnum. Ég held að forgengileikinn hljóti að eiga sína heimaleiki í Feneyjum. 

Síðast sótti ég Feneyjar heim fyrir rúmu ári, í nóvember 2019. Strætin voru rennvot þegar ég og ferðafélagi minn gengum upp frá bátastrætóstoppistöðinni að hótelinu. Bleytan stakk í stúf við skýlausan himininn. Þegar við komum á hótelið sögðum við til nafns, sögðumst eiga pantað. Luca í receptioninni spurði á lélegri ensku:

„Já, herra, er það svo?“

Ég varð heldur hvumsa og svaraði:

„Já, það er svo, finnurðu ekki pöntunina í tölvunni?“

„Nei,“ ansaði hann „tölvurnar okkar voru hér undir deskinum en þær stóðu í hnédjúpu vatni í flóðinu í nótt. Hér á jarðhæðinni virka engin rafmagnstæki.“

Niðurstaðan varð sú að Luca bað okkur að greina frá pöntununum eftir minni og tiltaka lengd dvalar og hve mikið við hefðum samþykkt að greiða fyrir. Þetta skrifaði hann niður á bleðil og svo handsöluðum við samninginn.

Dagana á undan, í nóvember 2019, hafði gert mestu flóð sem dunið höfðu á Feneyjum um áratugaskeið. Feneyingar kalla það aqua alta, hátt vatn, þegar flóð fer meira en metra upp fyrir það sem venjulegt má kallast.

Daginn áður hafði háflæði farið nærri tveimur metrum. Luca sagði okkur að nærri 90% borgarinnar hefðu farið undir vatn þá um nóttina. „Áður var þetta undantekning, sjaldgæft eins og snjókoma í Róm! Gerðist með áratugabili. En nú er þetta að verða daglegt brauð, eins og snjókoma á Íslandi kannski!“ sagði hann og hló grallaralega um leið og hann rétti aðstoðarmanni sínum vasaljós. Sá hvarf síðan inn í myrkvað bakherbergi. Líklega að reyna að koma rafmagninu aftur á. Viðeigandi að maður að nafni Luca færi öðrum manni ljós, hugsaði ég.

Morguninn eftir komumst við ekki út af hótelinu, reyndar komumst við ekki niður í matsalinn. Það var sjór yfir öllu á jarðhæðinni. Luca sendi herbergisþjónustuna upp með skínandi svört gúmmístígvél og veifaði og hló til okkar þegar við óðum sjóinn og út um dyr hótelsins.

*

„Þá tekur hann úr geirnaglann úr spjótinu

 og skaut til hans með hlátri miklum.

 – Fljótsdæla saga, 16. kafli.

*

Hvílík uppfinning: Stígvél. Ég minnist þess að hafa heyrt af útvarpsviðtali við gamla konu. Það var tekið í tilefni af stórafmæli, gott ef hún var ekki orðin aldargömul. Í ljósi þess að hún hefði lifað mestu breytingartíma Íslandssögunnar, séð tvær heimsstyrjaldir, heimsfaraldra, frostavetur, orðið vitni að rafmagnsvæðingunni, tilkomu útvarps og sjónvarps, símans, tölvunnar, nefndu það! … þá spurði spyrillinn hvað stæði nú upp úr þegar hún liti til baka, hvað hefði nú verið stærsta breytingin, mesta byltingin sem hún hefði lifað. Það stóð ekki á svarinu: Það voru gúmmístígvélin. Í þúsund ár hafði þjóðin verið blaut í fæturna, svo einn daginn komu stígvélin. Það vita allir unglingar sem af tískuþrjósku hafa vaðið slabb í strigaskóm að það er fátt glataðra en að vera blautur í fæturna. Samt hafði ég aldrei hugsað út í þetta fyrr.

Þarna sem ég göslaðist áfram um Feneyjastrætin á spánýjum vaðstígvélum hugsaði ég hvers vegna hvergi sæist stytta af manninum eða konunni sem fann upp gúmmístígvélin? Svo missti ég mig aðeins og fór að hugsa um hina sem ættu skilið styttu en lægju eilíflega óbættir hjá garði: Gaurinn sem fann upp lykilinn undir mottunni, hvað með hann? Og sá eða sú sem fyrst fann upp á því að bræða ost? Ímyndaðu þér lífið án bráðins osts, ímyndaðu þér lífið án vaðstígvéla …

„Stígvél“. Þetta orð hefur vafist fyrir mér frá því ég var strákur. Það meikar akkúrat helmings sens. Hálfvegis skiljanlegt. Og það er einhvern veginn verra en ef það væri 100% merkingarlaus vitleysa. „Stíg“ er augljóslega dregið af sögninni að stíga. Það er skiljanlegt svo sem, þetta er nú einu sinni búnaður til að ganga í. En „vél“? Það er fullkomlega óviðeigandi. Skór er ekki vél. Vélar hafa innri hreyfiafl eða -getu; þær knýja, eru ekki knúnar. Og það vita allir sem gengið hafa í stígvélum að þrátt fyrir alla þeirra kosti þá þarf maður ennþá að ganga í þeim. Það gera þau ekki fyrir mann.

Í þessum þönkum geng ég framhjá röð af götusölum. Hin frjálsi markaður er fljótur að sjá tækifæri í náttúruhamförum, eins og öfgaflóðum. Mangararnir sem áður seldu regnhlífar og minjagripi eru auðvitað farnir að selja stígvél! Og nema hvað, skiltin yfir básunum þeirra upplýsa í einni svipan þessa ráðgátu æsku minnar: „Stivale! Stivale! Stivale!“

Það hefur ekki þurft neitt stafsetningarséní til að leiðrétta merkinguna utan á pappakassanum sem geymdi þessa nýju gerð af ítölskum skóm þegar þeir rötuðu fyrst í hilluna í kaupfélaginu. Með einfaldri og innbyggðri merkingarleit og tilviljunarhljóðvarpsummyndun verður „stivale“ að „stígvélum“.

Það var svo fullnægjandi að leysa þessa gömul orðagátu, sem svo lengi hafði angrað mig, að ég hét mér því að bera þessa nýfundnu lausn ekki undir nokkurn mér fróðari mann. Þetta var svo góð tilfinning að ég vildi ekki taka neina áhættu með þessa niðurstöðu. 

*

„Allir horfðu á og hlæja að honum.

Hann fer ekki að því. “–

 Finnboga saga ramma, 5. kafli.

* 

Annan daginn okkar hafði vatnið sjatnað nokkuð. Strætin voru nú á þurru landi á ný. Við skunduðum út á sýningarsvæðið snemma morguns í strigaskóm.

Síðdegis tókum við, ég og ferðafélagi minn, stefnuna á litáíska skálann en komum að luktum dyrum. Verkið sem hann hýsti, Sea and Sun, og fjallaði reyndar um yfirvofandi náttúruvá, hafði eyðilagst í einu flóðinu fyrr í vikunni. Því yrði ekki bjargað úr þessu, sagði vingjarnlegur dyravörður, sem baðst afsökunar á því að við hefðum farið fýluferð. Við enduðum í lokapartíi í off-venue-skála einhverra efnaðra furðufugla frá Rússlandi. Við gættum ekki að okkur og meðan við gúffuðum í okkur snittur og drukkum freyðivín flæddi að. Hús Rússanna var orðið að eyju og við að skipbrotsmönnum á strigaskóm. Við ákváðum að bíða eftir að það byrjaði að falla frá, þáðum annað glas og fylgdumst með listapésunum sniffa kampavín og dansa af því að það átti að dansa, hlæja af hálfvolgum tryllingi og hvetja áfram plötusnúðinn sem augljóslega hafði verið fluttur inn frá hinum dreifðari byggðum Rússlands til að spila Sovét-popp fyrir fólkið í Feneyjum. Plötusnúðurinn virtist ekki vera „in on the joke“. Það kemur fyrir, býst ég við. Á endanum gáfumst við upp á að bíða eftir sjávarföllunum, fórum úr skónum, hnýttum skóreimarnar saman og hengdum skóna yfir hálsinn, brettum upp buxnaskálmarnar, þökkuðum fyrir okkur og gengum út.

Vatnið var dýpra en daginn áður. Stígvél hefðu varla dugað, sögðum við okkur til að afsaka klúðrið. Og samt átti vatnið enn að hækka daginn eftir, sagði Luca. Sjórinn var ekki eins kaldur og ég hafði búist við. Kannski er það vegna þess að ég er íslenskur, en mér virðist sjór alltaf vera kaldari en hann reynist síðan í raun og veru. Þetta er eflaust lært genaviðbragð, praktískur ótti.

Það var gaman að ganga svona um þessa sjávarslóða, við hlógum tístandi og eflaust galsafullum hlátri; notuðum símana sem vasaljós. Með þá að vopni kunnum við fótum okkar forráð, sáum til botns, í götusteinana. Við vorum tæknilega að vaða síkisvatnið. Það virkaði nú ekki alltof hreint í skurðunum. Ég viðurkenni það að ég velti því fyrir mér hvernig klóak- og skolphreinsimálum væri háttað í Feneyjum. Ég þvoði fæturna nokkuð vandlega þegar ég kom upp á hótel.

*

„Skarphéðinn hló að og spurði

hví hún abbaðist upp á arfasátuna.

– Brennu-Njáls saga, 124. kafli.

*

Síðasta daginn okkar vöknuðum við snemma. Það var enn að falla að og þótt strætin væru þurr höfðum við lært okkar lexíu. Fórum í stígvélum í þetta skiptið.

Að kvöldi dags, klukkan sex, skelltu dyraverðirnir á hátíðarsvæðinu í lás. Kvöldflóðið var byrjað að láta á sér kræla. Við ferðafélagarnir urðum að gæta að hvar við stigum niður fæti, velja leiðir sem lágu hærra því sumar gangstéttirnar lágu svo lágt, voru undir svo miklu vatni, að það hefði flætt yfir og ofan í stígvélin ef maður hefði stolist til að fara stystu leiðina milli tveggja punkta. Ungur Ameríkani hafði leyst vandann með því að fara í stuttbuxur og vera skólaus. Honum voru allir vegir færir. Vinahópurinn hvatti hann áfram. Hann gekk beint af augum, óð hnédjúpan sjóinn en leit ekki niður. Fljótlega gerðist hið óumflýjanlega: hann steig útaf bakkanum og fór á bólakaf í síkið. Þetta minnti á glæfrabragð í kvikmynd eftir Buster Keaton. Óvænt og fullkomlega framkvæmt.

*

„Þorsteinn skellti upp, hló og þá mælti Þórólfur:

Til ills höfum vér þig upp dregið er þú hlærð að óförum vorum.“

Svarfdæla saga, 2. kafli.

* 

Nærri Markúsartorginu áðum við og horfðum út yfir kanalinn í átt að heilögum Georgi. Þetta var í ljósaskiptunum og himinninn var tilkomumikill: Sólin var að setjast, á sinn sér-feneyska, fölbleika og rykuga hátt, rétt eins og hún er búin að vera að gera á málverkum endurreisnarmálaranna í nærri sex hundruð ár. Himnarnir á þeim málverkum eru ekkert úr lausu lofti gripnir. Þeir eru ekki einu sinni frumlegir. Þeir hanga yfir Feneyjum enn þann dag í dag.

Á stöpli við bakkann, milli okkar og sólsetursins, stendur skuggamynd af götuspilara og leikur á tenórsaxófón. Kvöldkulið hefur keim af niðurstöðu. Saxófónistinn blæs af lífs og sálar kröftum í háspenntan lúðurinn. Hann spilar titillagið úr kvikmyndinni Títanik á meðan sólin sest á vestræna menningu.

*

„Og er Illugi vissi að þeir ætluðu

að höggva hann þá hló hann

og mælti svo: Nú réðuð þér það

af er mér var nær skapi.“

– Grettis saga, 82. kafli.

*

Það var enn að falla að, en Markúsartorgið var á þurru. Flóðið átti ekki að ná hámarki fyrr en um miðnæturbil. Við komum okkur fyrir á Caffè Florian, skáluðum skylduskál fyrir gamla fastakúnnanum þar, fyrstu barflugunni, flagaranum Casanova. Caffè Florian hefur verið starfrækt frá  1720. Það er eins og margt í vestrænni menningu, löngu orðið að klisju. Og samt kem ég jafnan þar við, þrátt fyrir útbelgda prísana, því rétt eins og Elvis, Bach og hugmynd um klisju þá er Caffè Florian klisja vegna þess að það er ekki sem verst.

Það eru furðulega fáir á ferli eftir sólsetur í Feneyjum. Það kom mér því í opna skjöldu þegar gömul vinkona gengur allt í einu hjá. Hún hefur um árabil búið í Bandaríkjunum og því orðið langt síðan við sáumst en einu sinni, reyndar fyrir langalöngu þegar hún var unglingur, gætti hún barnanna minna. Hún kom meira að segja út til Frakklands sem einhvers konar au-pair eitt sumarið sem við bjuggum þar. Þar lærði hún að drekka ljóst ósætt rósavín með klökum og því miður líka að reykja sígarettur, grunar mig, þótt hún hafi nú sem betur fer aldrei neytt þessara hluta í óhófi eftir því sem ég best veit. Óvæntir fagnaðarfundir. Og við gátum ekki annað en skellt uppúr í forundran yfir fegurð hendinganna þarna á veröndinni hjá Florian á meðan kvöldflóðið sótti í sig veðrið og vatnið mjakaði sér inn eftir torginu.

Við ákváðum að gera okkur glaðan dag og gengum borgina á enda til að finna veitingastað sem kunningi hafði bent okkur á. Sá bjó eitt sinn í Feneyjum, heimavanur og sagði þetta sinn eftirlætis veitingastað. Þar sátum við þrjú því fram eftir kvöldi í vaðstígvélunum okkar á meðan vatnið sleikti sessurnar á stólunum. Þjónarnir voru á grænum klofstígvélum, yfirþjónninn í gulum vöðlum. En allir voru þeir hinir hressustu og hlógu stórkallalega þegar þeir gösluðust um salinn með sjávarréttina á stórum plöttum. Mikið gaman, mikið grín. Nafn staðarins var enda þannig að ekkert var hægt að gera annað en að hlæja að því, aftur og aftur, eiginlega viðstöðulaust: Il paradiso perdutto.

*

„Glúmur veik heim og setti að honum hlátur og brá honum svo við að hann gerði fölvan í andliti og hrutu úr augum honum tár þau er því voru lík sem hagl það er stórt er.“

– Víga-Glúms saga, 28. kafli.

*

Á leiðinni heim á hótel, áður en leiðir skildu, bar okkur aftur að Markúsartorginu. Þar var ekki sála á ferli, löngu búið að stóla upp á Caffè Florian, loftið alveg kyrrt eins og í kvikmyndaveri, gusurnar í vaðstígvélunum bergmálandi milli húsveggjanna. Og þar sem við óðum yfir mannlaust torgið kveða við þung högg, stórar klukkur, kirkjubjöllurnar slá tólf á miðnætti.

Við litum hvert á annað: gamla barnapían, ferðafélagi minn og ég. Við staðnæmdust öll. Ljósasería sem strengd er eftir húsunum kringum torgið speglaðist í kyrru svörtu vatninu og minnti mig svo ekki varð um villst á lokamínúturnar í kvikmyndinni Títanik. Eitt andartak leið okkur eins og við værum leikarar í einhverri illa hugsaðri og þvingaðri senu í afar tilgerðarlegri kvikmynd. Skyndilega fann ég síðan fyrir léttum taktföstum krampa í þindinni. Það hefur verið kippur af sama meiði og hinn síglottandi Skarphéðinn Njálsson fann fyrir þegar þeir feðgar gengu af þinginu um árið, fullvissir um það báðir að 129. kaflinn væri þegar skrifaður og að Bergþórshvoli yrði úr því vart bjargað frá eldi. Kippirnir ágerðust, og smituðust okkar í milli. Áður en varði stóðum við öll þarna þrjú í okkar svörtu stígvélum, í síhækkandi svörtu vatni, á Markúsartorgi, á miðnætti og skellihlógum. Þessi hlátur var þó óneitanlega dálítið kynlegur enda dró hann dám af ákveðinni tegund af taugaveiklun, því er ekki að leyna. Kannski skyldur því þegar viðmælandi reynir í örvæntingu að beina talinu að einhverju öðru þegar niðurstaðan blasir við.

Og samt hljómaði hann líka ögrandi eða þrjóskufullur; eins og ótímabær yfirlýsing um síendurtekna og þó ævinlega tímabundna frestun heimsendis.

*

„Skarphéðinn stóð hjá og þagði og glotti við.“

– Brennu-Njálssaga, 128. kafli.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár