Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Sjálfsaginn stærsta áskorunin

Sam­komu­bann og til­heyr­andi tak­mörk­un á íþrótt­a­starfi hef­ur sett strik í reikn­ing­inn hjá ungu íþrótta­fólki, sem margt hvert er vant að mæta á lang­ar íþróttaæf­ing­ar dag­lega, eða jafn­vel oft­ar. Íþrótta­fólk­ið sem hér deil­ir sög­um sín­um er hins veg­ar upp til hópa metn­að­ar­fullt og hug­mynda­ríkt og á það sam­eig­in­legt hvað með öðru að hafa beitt ýms­um brögð­um til að halda áhug­an­um lif­andi, lík­am­an­um í formi og hug­an­um sterk­um með­an á sam­komu­bann­inu stend­ur.

Sjálfsaginn stærsta áskorunin
Kynnist sjálfum sér betur „Maður hefur lært að mótivera sjálfan sig og sýna sjálfum sér sjálfsaga. Líka að taka meiri ábyrgð á sjálfum sér og treysta sjálfum sér fyrir því að það sem maður gerir sé nóg,“ segir fótboltamarkmaðurinn Torfi Geir Halldórsson. Mynd: Heiða Helgadóttir

Daglegt líf hjá Torfa Geir Halldórssyni einkennist alla jafna af mikilli íþróttaiðkun. Hann átti það jafnvel til að mæta á fótboltaæfingu, fara svo á styrktaræfingu og loks á handboltaæfingu, allt á sama deginum. Undanfarið hefur hann einbeitt sér alfarið að fótboltanum, en hann er markmaður, æfir með meistaraflokki Vals og spilar jafnframt með yngri landsliðum. Í gegnum íþróttirnar er hann vanur því að vera í miklum samskiptum við fólk en hefur, eins og svo margir, æft einn að undanförnu. „Auðvitað er stundum svolítið erfitt að vera alltaf bara einn að æfa, það er aðeins erfiðara að mótívera sig svoleiðis heldur en á venjulegum æfngum. En maður lætur sig hafa það og gerir gott úr þessu.“

Hann fær styrktaræfingar sendar frá þjálfaranum sínum og býr svo vel að hafa aðgang að lóðum, ketilbjöllum og æfingahjóli heima hjá sér. Hann fer líka út að hlaupa og út í fótbolta eða körfu með þeim vinum sínum sem hann hefur mátt umgangast, því þeir eru með honum í bekk. „ Auðvitað saknar maður þess að mæta á æfingar og vera partur af hópnum og svoleiðis en ég er svo heppinn að besti vinur minn er með mér í bekk. Það hjálpar að geta verið aðeins með vinum sínum, það er gott fyrir andlegu heilsuna.“

Hann segist passa upp á rútínuna, fara snemma að sofa og borða hollan mat. Hann þurfi nú í fyrsta sinn að gæta þess hvað hann lætur ofan í sig, því venjulega þurfi hann að hafa fyrir því að borða öll þau kolvetni sem líkaminn þarf. Hann segist lítið gera af því að liggja yfir Netflix eða einhverju slíku. „Maður dettur alveg í Fifa eða eitthvað svoleiðis, þegar maður er búinn að læra og taka æfngu,“ segir hann. 

Að lokum segist hann hafa kynnst sjálfum sér betur á þessu skrýtna tímabili. „Maður hefur lært að mótivera sjálfan sig og sýna sjálfum sér sjálfsaga. Líka að taka meiri ábyrgð á sjálfum sér og treysta sjálfum sér fyrir því að það sem maður gerir sé nóg.“

ÍþróttasysturÞær Helga og Birna æfa báðar skíði, auk þess sem Helga æfir golf og Birna fótbolta.

Rífast minna og gera fleira saman

Systurnar Helga og Birna Grímsdætur, sem eru 12 og 10 ára gamlar, hafa báðar tvær æft íþróttir af kappi frá því þær voru mjög ungar. Þær hafa komið víða við í íþróttunum en um þessar mundir leggja þær báðar mikla áherslu á skíðaiðkun, auk þess sem Helga æfir golf allt árið og Birna fótbolta. Þær segja báðar að þeim hafi gengið nokkuð vel að halda sér við efnið, þó að þær hafi ekkert komist í fjallið lengi eða á aðrar æfingar. „Mér finnst þetta bara ganga mjög vel. Ég geri alltaf eitthvað á hverjum degi og fylgist vel með þeim æfingum sem þjálfarinn setur fyrir á Sportabler. Ég sakna þess samt rosalega að komast ekkert á skíði,“ segir Helga og vonast innilega til þess að snjórinn verði ekki allur farinn, þegar samkomubanninu verður aflétt. „Það er verið að plana skíðaæfingu 4. maí, svo það er ennþá smá möguleiki,“ segir hún.

Systir hennar, Birna, fær sendar æfingar frá fótboltaþjálfaranum sínum, sem hún gerir samviskusamlega. „Stundum eru þetta tækniæfingar, spark- eða teygjuæfingar. Svo koma stundum hugaræfingar líka. Þá eigum við kannski að skrifa niður tíu atriði sem við erum þakklátar fyrir, tíu atriði sem okkur finnst ganga vel í íþróttinni og önnur tíu um það sem okkur finnst mega ganga betur. Þetta kennir okkur að verða betri liðsfélagar og hugsa um allt það sem maður getur verið þakklátur fyrir.“

Þær systur hafa mikinn félagsskap hvor af annarri og af öðrum fjölskyldumeðlimum í samkomubanninu. „Núna hef ég miklu meiri lausan tíma og get gert hluti eins og að taka til í herberginu mínu eða læra að prjóna. Við förum líka oft í göngutúr eða út að hjóla, fjölskyldan, svo við erum öll búin að ná frekar vel saman. Sambandið okkar Birnu er líka eiginlega betra. Við rífumst minna,“ segir Helga og Birna tekur undir það. „Já, þetta gengur bara vel hjá okkur. Við höfum oft verið á æfingum hvor á sínum tímanum en nú gerum við miklu meira saman, eins og að fara út að hlaupa,“ segir hún. 

Fínt að æfa heimaEldi Ellingsen finnst bara gaman að æfa að heiman. Þá þurfi hann aldrei að drífa sig og enginn að skutla honum á æfingu.

Notar þvottagrindina fyrir ballettstöng

„Ég æfi í stofunni heima. Er með dýnu við hliðina á mér og nota eitthvað til að styðja mig við, eins og til dæmis þvottagrind eða stól,“ segir Eldur Ellingsen, tólf ára nemandi við Listdansskóla Íslands. Hann hefur æft ballett í nokkur ár og er vanur að mæta á æfingar fimm sinnum í viku, í tvo eða jafnvel þrjá klukkutíma í senn. Núna, eftir að æfingar voru lagðar af vegna samkombannsins, fara æfingarnar fram í streymi á netinu. Það komi tvær á dag, annars vegar með stangaræfingum og hins vegar styrktaræfingum. „Ég æfi í svona 45 mínútur í einu núna,“ segir Eldur. „En það er samt svolítið misjafnt. Það fer eftir því í hvernig stuði ég er.“

„Mér finnst þetta bara gaman“

Eldur er í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum. Þar er sirkusnámskeið í námskránni og því fær hann útrás fyrir að leika listir sínar í gegnum það, nú þegar engar æfingar eru. Annars finnst honum það fyrirkomulag að æfa heima, í staðinn fyrir að mæta á æfingar, alveg ágætt. Til dæmis geti hann klárað tímana þegar hann langar til, í stað þess að vera bundinn við ákveðinn tíma, því þeir séu sendir út í streymi sem hann geti horft á þegar hentar. „Mér finnst þetta bara gaman. Nú þarf maður ekkert að drífa sig og enginn að skutla manni á æfingar og svoleiðis,“ segir hann, en bætir því við að hann sakni samt dansfélaga sinna og vonist þrátt fyrir allt til þess að æfingar hefjist á ný um leið og samkomubanninu léttir. 

Einveran mikil viðbrigðiAndrea Sif Pétursdóttur ver alla jafna bróðurparti dagsins í fimleikasalnum innan um margt fólk, því hún er í meistaraflokki í hópfimleikum hjá Stjörnunni auk þess að vera þar hópfimleikaþjálfari með ábyrgð á þjálfun stelpna á öllum aldri.

„Það mun taka tíma að ná öllu upp aftur“

„Þetta hafa verið mikil viðbrigði,“ segir Andrea Sif Pétursdóttur, sem er í meistaraflokki í hópfimleikum hjá Stjörnunni, auk þess að vera þar hópfimleikaþjálfari með ábyrgð á þjálfun stelpna á öllum aldri. Líf hennar tók því heldur betur stakkaskiptum með samkomubanninu, þar sem hún er vön því að verja bróðurparti allra daga í fimleikasalnum. „Við sem erum í fimleikum erum á miklu lengri æfingum en flestar íþróttir. Við erum langflest vön að æfa tvo og hálfan til þrjá tíma í senn,“ segir Andrea. „Heimaprógrömmin sem við erum að gera núna eru ekki svo löng. Þau byggja á upphitun og þreki í lokin,“ segir hún og lýsir því að hún setji fyrir fjölbreyttar æfingar, þar sem stólar, fullar vatnsflöskur og annað sem fyrirfinnst á heimilinu er nýtt, auk þess sem mikið sé unnið með líkamsþyngdina og teygjur. „Það eru samt fáir að gera mikla fimleika heima, nema kannski helst þeir sem eru með garðtrampólín. Við mælum samt eiginlega ekki með því.“

Eitt af því sem Andrea og aðrir iðkendur hafa gert til að auðvelda sér fjarveruna er að æfa saman í gegnum Facetime eða Zoom. „Það er skemmtilegra en að vera bara ein inni í stofu. Vandinn við fimleika er hins vegar sá að við getum ekki gert okkar tækniæfingar heima eða úti, eins og til dæmis þau sem æfa fótbolta geta gert. Ég er ekki einu sinni búin að gera einn kollhnís síðustu fimm vikur.“

Af þessum sökum séu hugaræfingar afar mikilvægar þessa dagana. „Þá förum við í gegnum ákveðna hluti í huganum, eins og tiltekið stökk eða dans. Það er svo mikil æfing fyrir hausinn að vera í fimleikum. Þú þarft að geta séð þig fyrir þér í loftinu, hvernig þú sérð loftið, gólfið og veggina. Það þarf að viðhalda því, alveg eins og líkamlega styrknum.“

„Það er svo mikil æfing fyrir hausinn að vera í fimleikum“ 

Hún heldur að það muni taka tíma fyrir iðkendur að byrja aftur að gera flóknar æfingar. „Það mun taka tíma, því við erum ekki vön að taka löng frí frá íþróttinni. Þetta er orðin of löng pása og ég held að mörg okkar séu virkilega farin að „kreiva“ að byrja aftur. Ég held að það verði basl að byrja aftur en við komumst í gegnum það.“

Andrea Sif segir þjálfun hennar á yngri flokkunum hjálpa henni sjálfri að halda sér við efnið. „Ég held það hjálpi mér mikið, því þegar ég er að setja saman æfingu fyrir þær er ég að peppa sjálfa mig í leiðinni. Svo peppast þær upp á móti við það að sjá mig gera æfingarnar, svo þetta fer vel saman.“

ValsararPabbi þeirra Gabriels og Dominiks, Ágúst Björgvinsson, er þjálfari karlaliðs Vals í körfubolta svo Hlíðarendi hefur verið eins og annað heimili þeirra allra.

Armbeygjur, sipp, plankar og amerískur fótbolti

Bræðurnir Dominik og Gabriel æfa báðir tveir körfubolta með Val af miklu kappi. Á milli æfinga eru þeir jafnan með annan fótinn í Valsheimilinu að fylgjast með öðrum æfingum eða horfa á Valsliðin spila. Pabbi þeirra, Ágúst Björgvinsson, er nefnilega þjálfari karlaliðs Vals í körfubolta svo Hlíðarendi er annað heimili þeirra allra. 

Gabriel er í 5. bekk en æfir með strákunum í 6. og 7. bekk. Það gerir reyndar bróðir hans líka og gefur eldri strákunum lítið eftir, þótt hann sé talsvert yngri, eða sjö ára. Pabbi þeirra segist ekki hafa haldið stífum æfingum að strákunum sínum í samkomubanninu, enda hafi hann fyrir reglu að ýta ekki körfuboltanum að þeim. 

Bræðurnir segja báðir að það sé dálítið skrýtið að fara allt í einu aldrei niður í Valsheimili. „Þetta er dálítið skrýtið og ég sakna þess að fara á æfingu. Það er líka leiðinlegt að hitta ekki vini sína,“ segir Gabriel. Dominik segir að þetta sé bara fínt. „Ég fer bara út að hlaupa, geri armbeygjur og planka og svoleiðis. En það eru nokkrir strákar sem ég hlakka til að hitta, eins og besti vinur minn í Val, sem heitir Bjarni, og svo líka vinir hans Gabriels.“ 

Þeir bræður hafa gert mikið af því að sippa og fara út að hjóla. Svo spila þeir körfuboltatölvuleik sem pabbi þeirra segir hjálpa við að skapa áhuga og auka við leikskilning, auk þess að þeir læri ýmsar hreyfingar í gegnum leikinn sem þeir eru ekki farnir að læra á æfingum. Svo eru bræðurnir báðir hrifnir af amerískum fótbolta. „Mig langar í alvöru rúgbí-bol, hjálm og takkaskó,“ segir Dominik að lokum.

Á æfingu í stofunniTvíburasysturnar Dagbjört og Bergdís eru í sýningarhópi í Dansi Brynju Péturs. Núna mæta þær daglega í opna danstíma á Instagram sem skólinn stendur fyrir.

„Við erum heppnar að hafa hvor aðra“

Þær Dagbjört Hildur og Bergdís Fjóla Pálsdætur eru afar samrýndar tvíburasystur. Þær æfa báðar dans í Dans Brynju Péturs, eru saman í bekk og tilheyra sama vinahópnum líka. „Við erum alltaf saman,“ segir Dagbjört og Bergdís tekur undir það. Undir venjulegum kringumstæðum dansa þær í um það bil tvær klukkustundir á dag. Þær eru báðar í yngri sýningarhópi dansskólans, æfa og sýna ýmsar tegundir af street-dansi.  

Dagbjört og Bergdís segja mikið félagslíf vera í dansskólanum og þar séu allir miklir vinir. Hópurinn geri til dæmis mikið af því að nota frumleikann og semja dansa saman. Það hafi því talsverð áhrif á líf þeirra að komast ekki á æfingu. „Við söknum vina okkar mjög mikið. Það er alltaf alveg rosalega gaman á æfingum, svo það er leiðinlegt að komast ekkert að dansa með þeim,“ segir Bergdís. Núna mæta þær í staðinn daglega í opna danstíma á Instagram sem skólinn stendur fyrir og dansa í stofunni heima hjá sér. „Við erum alla vega heppnar að hafa hvor aðra til að dansa við,“ bætir hún við. 

„Nú eru þetta orðnir bestu vinir okkar“ 

Þær systur hafa æft dans í fjögur ár. Þær féllu fyrir honum strax í fyrsta tíma. „Það varð strax skemmtilegt svo við urðum strax spenntar að mæta á æfingarnar og vera í kringum allt þetta peppaða fólk, þó að við værum kannski svolítið feimnar fyrst og höfðum enga nema hvor aðra. Svo eignuðumst við fljótt góða vini og nú eru þetta orðnir bestu vinir okkar,“ segir Dagbjört.  

Þær systur eru fimmtán að verða sextán ára, svo þær eru í 10. bekk grunnskóla. Bergdís segir að það sé skrýtið að vera að klára grunnskóla á svona skrýtnum tímum. „Það er skrýtið að missa af öllum „síðustu“ hlutunum í grunnskóla, eins og síðustu árshátíðinni og það er mikil óvissa. Við vitum til dæmis ekki hvort það verður útskriftarferð.“

Saknar laugarinnarSkúli Thor Ásgeirsson, 17 ára sundmaður úr Ægi, hefur æft sund í tíu ár og er vanur að æfa tvo og hálfan til þrjá klukkutíma á dag, sex daga vikunnar, og suma morgna líka.

Leysa áskorun frá þjálfaranum á hverjum degi

„Ég sakna þess að komast ekki í laugina,“ segir Skúli Thor Ásgeirsson, 17 ára sundmaður úr Ægi, sem hefur æft sund í tíu ár og er vanur að æfa tvo og hálfan til þrjá klukkutíma á dag, sex daga vikunnar, og suma morgna líka. Hann segir erfitt að finna æfingar sem koma í staðinn fyrir sundið. „Það er í raun ekkert sem kemur í staðinn. Það eina sem við getum gert er að reyna að halda í þolið og styrkinn, þangað til við komumst aftur að synda.“

Hann fer út að hlaupa á hverjum degi, sem út af fyrir sig er áskorun. „Ég þyrfti helst að taka löng hlaup til að viðhalda þolinu en vandinn er að ég er ekki sérstaklega mikill aðdáandi þess að hlaupa, svo ég er kannski að taka 4 til 5 kílómetra, sem er svipað langt og ég syndi á æfingum. En hlaup eru ávanabindandi held ég, því nú er ég að verða vanur þeim og get ekki hætt. Svo geri ég styrktaræfingar og svoleiðis eftir prógrammi sem þjálfarinn lætur okkur hafa í hverri viku. Hann hefur líka verið að láta okkur hafa alls konar áskoranir á hverjum degi, einhver trix, jafnvægisæfingar eða eitthvað svoleiðis. Þá tökum við okkur öll upp að gera áskorunina, svo klippir hann þetta allt saman og setur á netið.“

Skúli Thor segir sjálfsagann hafa aukist í æfingaleysinu, sem sé þó jákvætt. „Það var orðin svo mikil rútína að fara alltaf á æfingu eftir skóla en núna þarf maður að bera ábyrgð á sér sjálfur. Það er mikil æfing í sjálfsaga að gera eitthvað á hverjum einasta degi.“ 

Hann segir hléið á æfingum þegar hafa haft áhrif á sundferilinn. „Íslandsmeistaramótið í 50 metra laug átti að vera í byrjun apríl en það varð ekki. Það er mikilvægasta mótið á tímabilinu. Svo áttum við að fara út að keppa í sumar. Svo þetta hefur klárlega sett strik í reikninginn.“

Hjálpast aðSysturnar Ester Amíra og Ebba Guðríður Ægisdætur hjálpast að við að leysa æfingar dagsins.

„Svo allt í einu slökknaði bara á öllu“

Þær Ester Amíra og Ebba Guðríður Ægisdætur eru 14 og 10 ára systur sem æfa handbolta með Haukum. Þær eru báðar miklar íþróttakonur og eru vanar því að fara á eina og oft tvær æfingar á hverjum degi. „Svo allt í einu slökknaði á öllu og við þurftum að fara að sinna þessu sjálfar,“ segir Ester Amíra. Viðbrigðin hafa verið mikil, segir hún, enda sé hún vön að fara á allt að tólf handboltaæfingar á viku. Hún æfir með sínum aldursflokki í 5. flokki, auk þess að spila með 4. flokki og vera í afreksskóla einu sinni í viku. Systir hennar, Ebba Guðríður, er á yngra ári í 6. flokki og mætir stundum líka á æfingar með 5. flokki. Þær eru því báðar vanar talsvert mikilli hreyfingu. 

Mamma þeirra systra, Díana Guðjónsdóttir, er yfirþjálfari handbolta kvenna í Haukum svo það er hún sem býr til heimaæfingarnar sem stelpurnar fara eftir. Þær gera fjölbreyttar æfingar og hjálpast að. „Það þarf ekki mikinn búnað til að æfa handbolta heima. Þú getur notað skó eða sokka sem keilur og ég held að flestir handboltaleikmenn eigi bolta heima hjá sér. Ég er heppin að hafa systur mína með mér í þessu. Við reynum að halda þessu fjölbreyttu svo við fáum ekki leiða á þessu, tökum kastæfingar og ímyndum okkur að það sé teigur hérna. Það er kannski helst þolið sem versnar þegar maður kemst ekki á æfingu,“ segir Ester Amíra. 

Báðar æfa þær líka golf á sumrin og eru farnar að hlakka til að geta farið að einbeita sér að því í sumar. 

Ebbu finnst þetta fyrirkomulag, að æfa að heiman, ekkert alslæmt. „Mér finnst þetta bara allt í lagi, að gera æfingar hérna heima. Síðan getur maður alltaf breytt til. Ég og mamma mín fórum til dæmis bara í fjallgöngu um daginn, í staðinn fyrir að taka æfingu og það var mjög gaman,“ segir hún. Ester segir að fjölskyldan hafi einmitt átt margar góðar stundir að undanförnu. „Við erum öll alltaf rosalega mikið á fullu en nú höfum við meiri tíma saman, sem er gott.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Covid-19

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár