Hvernig mætti haga fisknum?
Margir hafa talað fyrir kerfisbreytingum í sjávarútvegi. Markmiðin eru misjöfn en flestir sem tala fyrir breytingum eru sammála því að þjóðin eigi auðlindina og eigi að ráðstafa henni til að ná eðlilegri auðlindarentu til þjóðarinnar, að útgerðin eigi að starfa á sterkum fjárhagslegum grunni, að mikilvægt sé að ná stöðugleika og fyrirsjáanleika í greininni og að allir eigi að geta haft jafna aðkomu.
Í dag birti Kjarninn lekið vinnuskjal sem Björt Framtíð og Viðreisn höfðu lagt fram sem tillögu inn í síðustu umferð stjórnarmyndunarviðræna. Það vinnuskjal er um margt ágætt, en sumt var þannig orðað í því að það var ruglingslegt eða skildi í það minnsta eftir töluvert svigrúm til túlkunar. Þó veit ég að þetta var tillaga til málamiðlunar, sem byggir ekki á ítrustu kröfum þeirra flokka sem lögðu skjalið fram. Af þeim ástæðum tel ég að það væri gagnlegt að fleiri flokkar lýstu sínum sjónarmiðum um hvað hefði verið hægt.
Að neðan lýsi ég kerfi sem er ekki byggt í einu og öllu á sjávarútvegsstefnu Pírata, og lýsir ekki okkar ítrustu kröfum. Þetta er öllu frekar mynd af þeirri útfærslu sem mér sýndist vera möguleiki að vinna að í síðasta umgangi stjórnarmyndunarviðræðna, byggt á ýmsu sem var rætt (en ekki samþykkt) í síðustu umferð. Ég legg hana fram hér með þeim fyrirvara að engin endanleg sátt hafði náðst, og þetta kann að vera í algjörri andstöðu við hugmyndir annarra um hvar við vorum stödd í umræðunni. Öll ábyrgð á hugmyndunum hér er mín, og sér í lagi er ekki ætlunin að gera öðrum upp skoðanir.
Til að byrja með yrðu innkölluð 5% aflamarks á ári, svokölluð fyrning. Hluti hvers kvóta í umferð væri þannig tekinn á hverju ári og settur í nýjan pott til úthlutunar. Prósentutalan er valin með tvennt í huga: hún má ekki vera of lítil, því það myndi skila af sér þunnum uppboðsmarkaði á hverju ári, sem myndi bjaga hann. Hún mætti heldur ekki vera of stór, því það gæti skaðað stöðu sjávarútvegsfyrirtækja.
Innkölluðu aflamarki yrði svo skipt niður með leyfisútboðum, en útboðið væri skipulagt þannig að allir myndu borga sömu upphæð fyrir hvert kíló að lokum, það er upphæð lægsta boðs sem tekið er. Þetta fyrirkomulag vilja sérfræðingar í uppboðsmálum meina að láti alla sitja við sama borð og auki mest líkurnar á að smærri aðilar komist að, ekki bara þeir fjársterku.
Þegar veiðileyfi hefur verið úthlutað með þessum hætti þá fær leyfishafinn að veiða fiskinn en greiðir svo gjaldið fyrir kvótann sinn í lok fiskveiðiárs. Þetta hefur þann tilgang að tryggja að leyfishafinn geti komið fiskinum í verð áður en til greiðslu kemur, sem ætti að koma í veg fyrir að stórar fyrirgreiðslur banka séu nauðsynlegar. Þetta styrkir stöðu smærri aðila.
Sá sem hlýtur svona leyfi heldur því þar til það fyrnist til fulls, en miðað við 5% fyrningu á ári tæki það 20 ár. Árgjald hvers árs er þó fengin á uppboðsmarkaðinum; allir greiða það gjald ár hvert sem ákvarðað er með uppboðunum. Þetta gerir það að verkum að eldri kvótar aðlagast í verði að breyttum markaðsforsendum, hvort sem það er upp eða niður.
Ágætt er að benda á að talan sem er á sveimi um 33 ár er reiknuð út frá 3% fyrningarhlutfalli; óljóst er af tillögu Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar hvort ætlunin væri að fyrna árlega um ákveðið hlutfall eða að láta hvert útboð gilda án fyrningar í 33 ár. Niðurstaðan er að flestu leyti sú sama óháð því hvaða leið er farin, en munurinn er mikill þegar litið er til markaðsdýptar og greiðslufyrirkomulags; því er árleg fyrning æskilegri að mínu mati.
Það tæki um 20 ár að skipta alfarið yfir í þetta kerfi til fulls. Á umskiptatímanum eiga áfram að vera veiðigjöld á eftirliggjandi kvóta, en eðlilegt er að þau miðist við sama markaðsverð og aðrir kvótar.
Þetta fyrirkomulag ætti að gilda um allan kvóta utan þeirra 5.3% sem nú eru frátekin í svokölluð félagsleg kerfi. Mörg þeirra kerfa eru úrelt eða hafa reynst illa, og mætti fella þau niður. Rækju- og skelbætur skiptu máli þegar brestur var á þeim tegundum, en hefur festst í sessi í stað þess að vera skammtímalagfæring. Línuívilnun skipti máli þegar línuveiðar voru óalgengar, en nú er lína eitt algengasta veiðarfærið í notkun. Byggðakvótinn er gagnslaus í ljósi þess að afla er oft landað í réttri byggð og svo ekið þvert yfir landið til vinnslu. Einu kerfin sem hafa virkað mjög vel, ef frá eru talin smákerfi eins og frístundaveiðar og áframeldi á þorski, eru aflamark Byggðastofnunar og strandveiðikerfið.
Eðlileg nálgun væri að strandveiðar tæku að mestu leyti yfir þessi 5.3%, sem gæti þýtt stækkun veiðipottsins úr 9.000 tonnum í nánast 29.000 tonn, ef miðað er við heildarafla ársins 2016. Aflamark Byggðastofnunar væri núllað út en tekið upp með öðrum hætti. Að styrkja strandveiðikerfið með þessum hætti myndi hleypa töluverðu nýju lífi inn í hinar dreifðu byggðir landsins, sér í lagi ef töluvert meira svigrúm væri gefið með því að fjölga veiðidögum og útvíkka veiðitímabilið.
Það er vel hugsanlegt að samstaða gæti náðst um að hækka hlutfallið á þessu úr 5.3% í 6%.
Fólk hefur mismiklar áhyggjur af því að uppboðskerfi af þessu tagi dugi ekki til að styrkja byggðir landsins. Þessum áhyggjum má auðveldlega svara með því að búa til sérstakar ávísanir sem mætti dreifa út til sveitarfélaga, til Byggðastofnunar, eða til annarra sem markmiðið er að geti ráðstafað þeim í þágu byggða. Þannig mætti líka bæta þeim hvers hlutur rýrist vegna niðurfellingar á t.d. rækju- og skelbótum og línuívilnunar. Hver slík ávísun gæti hljóðað upp á niðurfellingu á afgjaldi fyrir eitt þorskígildiskíló.
Þúsund ávísanir niðurfella þá gjöld á einu tonni kvóta, og þar fram eftir götunum. Það væri pólitísk ákvörðun hverju sinni hversu margar slíkar ávísanir færu í umferð. Fjölda ávísana og það hvernig þeim er ráðstafað mætti binda í lög, en rétt er að benda á að líklega myndu þær ganga kaupum og sölum – sem er ekki endilega vandamál. Strangt til tekið yrðu þessar ávísanir hliðargjaldmiðill í einhverjum skilningi. Þessi ávísanatillaga hafði ekki verið rædd mjög ítarlega, en hún uppfyllir það sem upp á vantaði til að ná öllum markmiðunum, meðal annars byggðarsjónarmiðum.
Ofangreint kerfi er þess eðlis að allir þeir flokkar sem hafa talað fyrir kerfisbreytingum í sjávarútvegi ættu að geta náð fram sínum pólitísku markmiðum með upptöku þess. Hvort af þessu, eða einhverju ámóta þessu yrði, er algjörlega háð því hversu mikil raunveruleg samstaða er um að ná fram kerfisbreytingum á annað borð.
Athugasemdir