Í dag er lýðræðið klætt í gult vesti
Krafan um að Bandaríkjamenn kysu Hillary Clinton árið 2016 til að afstýra sigri fáráðlingsins sem nú situr í Hvíta húsinu var hávær og skiljanleg. En gallinn við að kjósa auðvaldssinna til að koma í veg fyrir kosningu fasista er sá auðvaldssinninn oftúlkar umboð sitt og telur kosninguna þýða samþykki fyrir öllum þeim greiðum sem hann vill gera fyrir eignamenn á kostnað launafólks. Afleiðing þess er enn meiri óánægja en áður. Óánægja sem verður að háværum mótmælum. Og þau mótmæli mæta hörku yfirvalda og verða að óeirðum.
Sýnidæmi: Frakkland.
Emmanuel Macron lét hafa eftir sér þann 19. september síðastliðinn að hann myndi keyra stefnu sína í gegn í krafti þess að hafa verið kosinn:
Ég kynnti þessar umbætur vikum saman og var kosinn til að koma þeim í verk. Ég trúi á lýðræði. Og lýðræðið er ekki á götum úti. Þau greiddu mér atkvæði. Þannig að ég er mjög rólegur yfir því.
Honum skjátlaðist. Lýðræðið er víst á götum úti. Og það er klætt í gult vesti.
Mótmælaaldan rís
Þann 17. nóvember hófust fyrstu skærgulu laugardagsmótmælin þar sem efst á baugi var fyrirhugaður skattur á eldsneyti almennings. Viku síðar endurtók sig leikurinn og í þetta sinn tóku hundrað þúsund manns þátt í þeim víðs vegar í Frakklandi, þar af átta þúsund í París, og lögreglan mætti á svæðið eins og Marsbúarnir væru lentir. Fimm þúsund lögregluþjónar voru sendir af stað inn í höfuðborgina með táragas og háþrýstivatnsdælur. Nítján mótmælendur meiddust og fjörutíu voru handteknir.
Á fullveldisdegi okkar Íslendinga hafði enn aukist í hóp mótmælenda í Frakklandi og lögreglan mætti enn ákveðnari til leiks. Þá meiddust 260 manns og heil fjögur hundruð voru handtekin. Þrír létu einnig lífið í umferðaróhöppum tengdum átökunum. Á þessum tímapunkti er farið að lýsa mótmælunum sem þeim skæðustu frá stúdentaóeirðunum 1968 og íhaldsmaðurinn í forsætisráðuneytinu, Edouard Philippe, lýsir stjórnvöld reiðubúin að hefja samræður. Macron dregur til baka eldsneytisskattinn en í ljós kemur að þær álögur voru ekki það eina sem aðgerðir gulu vestanna snerust um. Mótmælendur vilja afsögn Macrons og leggja fram kröfur um margþættar samfélagsumbætur.
Stúdentar taka fullan þátt í þessari byltingu. Þeir settu upp víggirðingar fyrir inngang rúmlega tvö hundruð háskólabygginga og heimtuðu að fyrirhugaðar aðhaldsaðgerðir í menntakerfinu yrðu dregnar til baka. Lögreglan ruddist inn fyrir eina víggirðinguna í bænum Yvelines þann sjötta desember þar sem kveikt hafði verið í tveimur bílum og nemendum á táningsaldri var gert að krjúpa á kné með hendur á höfði fyrir framan lögregluþjóna sem báru hjálma, skildi og kylfur. Myndbönd af því dúkkuðu upp á netinu og vöktu mikla hneykslan í Frakklandi. Menntamálaráðherrann Jean-Michel Blanquer kvaðst hafa verið sjokkeraður sjálfur en bað fólk að hafa „samhengi” atburðanna í huga.
Almenningur taldi sig hafa alveg nógu skýran skilning á „samhengi” atburðanna.
Byltingarhitinn rauk upp úr öllu valdi.
Ekkert gengur að hemja þetta
Á fjórða laugardeginum, þann 8. desember, voru mótmælendurnir orðnir rétt um hundrað og þrjátíu þúsund og fjölmenn mótmæli áttu sér stað í Brussel í nágrannaríkinu Belgíu þar sem fjögur hundruð manns voru handtekin. Þriðjudaginn á eftir ávarpaði Emanuel Macron þjóðina í sáttatón, sagðist skilja gremju alþýðunnar og kvaðst ætla að hækka lágmarkslaun. Þó virðist vera borin von að friða hreyfingu fólksins í gulu vestunum með málamiðlunum. Hún er orðin að byltingarafli. Slík öfl verða oft til út frá síðasta hálmstráinu en þeim verður ekki útrýmt fyrr en tekist hefur verið á við kerfið í heild sinni. Til dæmis braust uppreisn út í Boston vegna skattastefnu Breta á tei árið 1773 en sú uppreisn varð að byltingu sem úthýsti Bretunum endanlega og gerði Bandaríkin sjálfstæð þremur árum síðar.
Hvar mun þetta enda í Frakklandi?
Vandi er um slíkt að spá. Auðvitað gæti þetta endað með sigri íhaldsmanna yfir sundruðum vinstri væng eins og eftir stúdentaóeirðirnar 1968 en eins og hagfræðingurinn Yanis Varoufakis bendir á þá endurtekur sagan sig aldrei nákvæmlega. Eitt fullkomlega fyrirsjáanlegt er reyndar komið á daginn nú þegar. Fyrst var það gagnrýni á að ekki væri skýrt hver stefna hreyfingarinnar væri og svo þegar hún gaf út óformlega stefnuskrá var sett út á að hún væri „ósamstæð.“
Munurinn á byltingarafli og stjórnmálaflokki
Á Íslandi bendir Egill Helgason á nokkur atriði sem honum þykir mótsagnakennd. Sumt sem hann setur út á er, þegar betur er að gáð, ekki eins ósamrýmanlegt og hann vill vera láta. Til dæmis felst engin mótsögn í því að krefjast stjórnarskrárbundins þaks á skatta við 25 prósent annars vegar og krefjast stóraukinna ríkisútgjalda hins vegar, að því gefnu að verið sé að meina þak á tekjuskatt en ekki fjármagnstekjuskatt. Við þurfum ekki að láta segja okkur að launþegar séu þeir einu sem geti borið skattbyrðar. Auðmenn eiga sér líka aðsetur í Frakklandi og Macron gæti hæglega afturkallað þá ákvörðun sína að fella auðlegðarskattinn niður. Það neitar hann enn að gera.
Ekki felst heldur nein þversögn í því að vilja annars vegar að Frakkland segi sig úr NATO og dragi sig úr öllum stríðsrekstri og vilja einnig að þeir alþjóðasamningar sem Frakkland sé aðili að séu virtir. Hernaðarsamningur hlýtur, eins og allir aðrir samningar, að vera uppsegjanlegur. Hann er ekki blóðeiður. Og þegar Egill gerir að því skóna að hreyfing sem þessi hljóti, vegna skorts á leiðtogaskipan, að lenda í klónum á lýðskrumara á borð við Trump þá hlýtur hann að vera að trolla.
En, gott og vel, því ber ekki að neita að það hafi verið viss mistök fyrir hreyfinguna sem kennir sig við gulu vestin að kubba saman stefnuyfirlýsingu. Þetta er auðvitað gert undir þeim þrýstingi sem er alltaf settur á róttækar hreyfingar; að þær smætti kröfur sínar um réttlæti niður í „gerlegar“ löggjafartillögur og stofni stjórnmálaflokk sem leggur þær fyrir þingið. Eins og mannfræðingurinn David Graeber bendir á þá snúast hreyfingar af þessu tagi ekki fyrst og fremst um stefnumál heldur um ákvörðunarrétt. Um vald.
Róttækni er frumkraftur sem leysir úr læðingi byltingu. Hún snýst um að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem eru til staðar svo að almenningur öðlist eitthvert vald yfir eigin lífi. Það er í raun ekki fyrr en krumla eignastéttarinnar hefur verið spennt upp og rifin af stýrinu sem hægt verður að ígrunda stefnumál almennilega. Fólkið fær ekki að ráða sér sjálft fyrr en sérhagsmunaöflunum hefur verið úthýst úr stjórnsýslunni. Þeir sem svara kröfum um róttækar breytingar með spurningalistum handa „leiðtogum” hreyfingarinnar um nákvæm útfærsluatriði vita ekki hvað orðið „lýðræði” þýðir.
Frelsishreyfing á ekki að standa í að svara spurningum sem ganga út frá forsendum ríkjandi skipunar. Samfélagið á að vinna saman að því að móta löggjafarstefnu eftir að lífsskilyrði raunverulegs lýðræðis hafa verið tryggð. Byltingarafl er ekki það sama og stjórnmálaflokkur. Þess vegna var þessi stefnuyfirlýsing vanhugsað útspil. Hreyfingin sem nefnd er Occupy Wall Street forðaðist frá fyrsta degi að falla í þessa gryfju og því þurfti áróðursherferð í fjölmiðlum og hrottalegt lögregluofbeldi til að útrýma tjaldbúðum þeirra í New York árið 2011. Fram að því höfðu vinsældir hreyfingarinnar verið í örum vexti.
Okkar byltingarsiðferði
Þegar búsáhaldabyltingin var í fullum blóma snerust fréttaskýringar meira og minna um það hvort skilgreina bæri mótmælin sem friðsamleg. Það vita allar sannar vættir að Íslendingar hafa ólíkar hugmyndir um hvað þetta þýðir. Allir eru sammála um að ekki sé hægt að kalla mótmæli friðsamleg ef þátttakendur beita aðrar manneskjur líkamlegu ofbeldi. Svo skilur að hvað varðar aðra áhættuhegðun.
Í hugum sumra eru eignaspjöll ofbeldi, þar með talið rúðubrot og veggjakrot. Örfáir eru svo róttækir að telja þetta ásættanlegar leiðir í knýjandi aðstæðum til að koma alvöru málsins til skila, svo fremi ekki sé verið að skemma eigur annarra en hinna ríku. Smásálarháttur sumra Íslendinga er aftur á móti á svo stjarnfræðilegum mælikvarða að mótmæli gegn Íraksstríðinu með leiknum mannslíkum á túninu fyrir framan stjórnarráðið og rauðri gerviblóðslettu yfir framhlið byggingarinnar sjálfrar þóttu lenda utan marka velsæmis.
Já, og lögreglan fjarlægir með vatnsbunu mótmælendur fyrir að kríta á stöpulinn undir fótum Jóns Sigurðssonar á Austurvelli.
Með krít.
Já, með þannig krít.
Orðfærið skipta fólk líka máli. Ókvæðisorð eru eins mismunandi og þau eru mörg og það sem einum þykir rætin persónuárás þykir öðrum fáguð pólitísk ádeila. Eitt lítið dæmi um þetta er sú gjá sem myndaðist milli þeirra sem þótti exem-brandarinn um xM vera hatursglæpur og þeim sem fannst hann vera sármeinlaus orðaleikur. Nú er ekki til neinn algildur mælikvarði á það hversu mikill ofsi sé ásættanlegur þegar upp úr sýður milli almennings og yfirvalda (sjálf landslög eru oftar en ekki ansi loðin í þeim efnum og túlkuð eftir hentisemi þeirra sem ráða) en ég tel að með sanni sé hægt að segja að til sé hópur Íslendinga sem vill bara alls ekki að verið sé að æsa sig út í stjórnvöld.
Á nokkurn einasta hátt.
Hinn gamalkunni íslenski ótti við ofsa
Borgaralegur ímugustur á öllum gjörningum sem opinbera heitar tilfinningar í garð kjörinna ráðamanna okkar er ekki heldur einskorðaður við hinn íhaldssama hægri væng stjórnmálanna. Maður býst við slíkri klígju frá kjósendum Sjálfstæðisflokksins en oftar en ég get talið hef ég lent í samræðum við fólk sem er sammála mér um að ójöfnuður sé okkar helsta þjóðfélagsmein en þykir jafnframt allt ákafara en 1. maí-ganga með útprentuðum messuskrám, tilskyldum leyfum og hófsömum (algjörlega ómarxískum) ræðuhöldum á Ingólfstorgi vera argasti hrottaskapur.
Þess vegna er ekki von að aðferðafræði gulu vestanna eigi sér marga málsvara á Íslandi. Ekki er einu sinni víst að allir verði sammála um það hver sú aðferðafræði er einu sinni. Frakkar eiga sér mótmælahefð sem nær aftur í aldir og kippa sér ekki upp við það að fólk komi saman í massavís og æsi sig í sameiningu. En hvers vegna sauð þá upp úr? Hvernig urðu mótmæli að óeirðum? Hægt væri að svara þeirri spurningu með annarri spurningu:
Gæti það hafa haft eitthvað með það að gera að lögregluþjónar voru sendir í þúsundatali inn í miðbæ Parísar með táragashylki og háþrýstivatnsdælur?
Eða telur fólk í alvöru að engin ögrun felist í því að búa sig eins og innrásarher til að mæta vopnlausu fólki þegar það nýtir lýðræðislegan og stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að láta óánægju sína í ljós? Auðvitað vill enginn sem þetta les að fólk meiðist. Það vill fólkið í gulu vestunum ekki heldur. En ef valið stendur á milli a) að halda ró sinni og koma skoðun sinni áleiðis eftir nokkur ár í næstu kosningum eða b) að hrinda af stað mótmælaöldu sem kemur til með að hætta á að einhver meiðist þá er a) ekki einu sinni valkostur. Kannanir sýna að rúm sjötíu prósent Frakka styðja mótmælin. Það er meira en tveir þriðjungar þjóðarinnar.
Almenningur er að tjá reiði sína.
Er of langt gengið?
Þegar þetta gerist skiptumst við alltof oft í skotgrafir eftir því hvort okkur þyki mótmæli „ganga of langt” eða ekki. Við skulum nú svæfa þá umræðu fyrir fullt og allt með því að benda á eina augljósa staðreynd: „Mótmæli” ganga aldrei „of langt.” Ef tilefni er til að andæfa gegn einhverju þá eiga mótmæli alltaf fullan rétt á sér og eiga að standa yfir uns ranglætið hefur verið sigrað.
Einstaklingar sem mótmæla ganga stundum of langt, satt er það. Sér í lagi ef þeir beita hótunum eða meiðingum til að ná fram markmiðum sínum. En ef maður lætur samúð sína með málstað fara eftir því hvort aðrir aðilar í baráttunni virði leikreglur hóflegrar háttsemi þá er maður ekki virkur þjóðfélagsþegn. Þá er maður áhorfandi raunveruleikaþáttar. Þá breytir maður aldrei neinu til hins betra.
Á laugardeginum 15. desember segja fréttamiðlar að dregið hafi úr fjölda mótmælenda í Frakklandi en rúmlega þrjátíu þúsund manns mættu engu að síður í fimmtu umferð þessara aðgerða. Auðvitað mun þessi gjörningur þó fjara út eins og allir aðrir og það er af hinu góða. Mótmælaalda þarf að fá að rísa og hníga náttúrulega, rétt eins og bylgjur hafsins. Sjórinn mun geta af sér fleiri toppa af þessu tagi. Það er óhjákvæmilegt í þeirri ólgu sem ójöfnuður getur af sér.
Athugasemdir