Æ, hafðu vit á að hætta
Ef ég vildi vita hvernig best væri að slökkva eld myndi ég spyrja slökkviliðsmann.
Ef ég vildi vita hvernig best væri að losna við rottur úr kjallaranum myndi ég spyrja meindýraeyði.
Og ef ég vildi vita hvernig best væri að stemma stigu við nýfasisma myndi ég spyrja einhvern annan en manneskjuna sem tapaði fyrir appelsínugulum prótó-fasista í bandarísku forsetakosningum fyrir tveimur árum.
„Nýi popúlisminn”
Já, Hillary Clinton er aftur sprottin fram á sjónarsviðið og að þessu sinni er hún með hugmyndir varðandi það hvernig leysa beri það vandamál sem sumir kalla „nýja popúlismann.” Í fyrsta lagi vil ég gera örlitla athugasemd við það orðalag. Þar sem um er að ræða er uppgangur hægri öfgaafla þarf maður ekki annað en örlitla þekkingu á sögu fjórða áratugar tuttugustu aldarinnar til að sjá að ekkert „nýtt” er þar á ferðinni.
En að tala um fasisma sem eitthvað annað en fasisma gerir ekkert annað en að grugga umræðuna.
Og „popúlismi”? Nú er það ekki ætlun mín að hártoga orð. Það getur orðið að tilgangslausu þrasi. En að tala um fasisma sem eitthvað annað en fasisma gerir ekkert annað en að grugga umræðuna. Og ef „popúlismi” (lýðhyggja) er samheiti yfir allt það sem einhver stór hópur fólks getur orðið spenntur yfir er þá Jon Bon Jovi popúlisti? Hann lét jú eitt sinn hafa eftir sér að hundrað milljón Bon Jovi aðdáendur gætu ekki haft rangt fyrir sér.
Evrópa er búin að skila sínu
En aftur að Hillary. Hver er ráðlegging hennar á þessum óvissutímum? Jú, fyrst verðum við að greina vandann. Hvar stendur hnífurinn í kúnni að mati Hillary? Gefum henni orðið:
„Ég dáist að hinni örlátu og samúðarfullu nálgun sem leiðtogar, sér í lagi Angela Merkel, fylgdu eftir, en ég tel satt að segja að Evrópa sé búin að skila sínu, og þurfi að senda mjög skýr skilaboð — „við munum ekki lengur geta útvegað skjól og stuðning” — af því að ef við tökumst ekki á við innflytjendamálin munu þau áfram valda ólgu innan þjóðanna.”
Fasisminn sprettur sem sagt af innflutningi fólks til Evrópu. Ef við gætum bara haldið þessu brúna fólki utan við landið yrðu ekki fleiri fasistar til. Hún er sem sagt sammála Trump að einu leyti: að innflytjendur leiði af sér vandræði. Við þurfum ekkert að taka það til skoðunar hvort ójöfnuður eða ofríki valdi gremju í samfélaginu sem brjótist út í þjóðernisrembingi. Nei, það er bara það að fólk af ólíkum uppruna getur ekki búið saman án þess að hatur hreiðri um sig.
Hillary er sammála fasistunum.
Gengst við forsendum þeirra alla vega.
Goldwater-stelpan
Þetta kemur þeim á óvart sem líta á Hillary sem höfuðandstæðing Trumps af þeirri einföldu ástæðu að hún bauð sig fram á móti honum í forsetakosningunum árið 2016. En þeir sem þekkja feril hennar eru ekkert hissa. Það er aðeins í samhengi stjarnfræðilega skakkrar stjórnmálaumræðu sem fígúra eins og Hillary Clinton gæti nokkurn tíma öðlast þá ímynd að vera samfélagslega meðvitaður pólitíkus. Í landi þar sem „vinstri” flokkurinn (demókratar) er hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn og hægri flokkurinn líkist meir flatjarðarsinnuðum sértrúarsöfnuði en stjórnmálaafli.
Hún sagðist hafa kunnað vel við Goldwater þar sem hann væri „harðger einstaklingshyggjumaður sem synti upp í strauminn í stjórnmálunum.” Svona lýsa áhangendur Trumps einmitt sínum manni.
Hillary hóf feril sinn í stjórnmálum árið 1964 sem stuðningsmanneskja repúblíkanans Barry Goldwater;. Hann var öldungadeildarþingmaður sem barðist gegn mannréttindalöggjöf Lyndons B. Johnsons sem miðaði að því að færa blökkumönnum réttindi á við hvítt fólk. Hún sagðist hafa kunnað vel við Goldwater þar sem hann væri „harðger einstaklingshyggjumaður sem synti upp í strauminn í stjórnmálunum.” Svona lýsa áhangendur Trumps einmitt sínum manni. Og fylgismenn Marine LePen. Og Victors Orban. Svona mætti lengi telja. „Nýi popúlisminn” er einfaldlega ný markaðssetning á gömlu stjórnmálafyrirbæri; leiðtogadýrkun. Fyrirbæri sem Hillary dáðist að á sjöunda áratuginum.
Tilkoma Bills
Í ævisögu sinni segist hún hafa orðið vinstrisinnuð í háskóla fjórum árum síðar og má það vel vera. Þó viðurkennir hún jafnframt að hafa staðið með eiginmanni sínum í öllum stefnumálum hans í demókrata-flokknum, þar á meðal í stofnun leiðtogaráðs demókrata (Democratic Leadership Council) árið 1985. Þau samtök voru hugsuð til að færa flokkinn til hægri svo að hann gæti hlotið kosningafé frá fyrirtækjum í sama mæli og repúblíkanarnir.
Bill Clinton varð forseti árið 1992 og áherslubreytingarnar komu fljótt í ljós. Tveimur árum síðar kom hann í gegn löggjöf sem herti refsingar í bandaríska réttarkerfinu og stuðlaði, eftir því sem hann sjálfur viðurkennir, að þeirri hrikalegu fangelsunartíðni sem fylgdi í kjölfarið. Í þessum efnum gekk hann enn lengra en repúblíkanar höfðu leyft sér.
Áherslumál Hillary
Hillary studdi löggjöfina með ráð og dáð og sagði opinberlega að hún gengi út á að tosa í ólina á þeim sem brjóta lögin (e. bring them to heel). Vitaskuld hafði það sitt að segja að eiginmaður hennar var forseti. En stuðningur hennar við þessa örlagaríku löggjöf var ekki í fyrsta eða síðasta skiptið sem hún sýndi af sér mannfjandsamlegar áherslur í stjórnmálum.
Hillary hefur aldrei fyrirhitt stríð sem henni hefur ekki líkað við.
Í hvert einasta skipti sem Bandaríkin hafa ákveðið að ráðast á Írak hefur Hillary sýnt fullan stuðning. Þetta á jafnframt við um loftárásir á Balkanskaga og innrásina í Afganistan 2001, og sem utanríkisráðherra árið 2011 stóð hún bak við sprengjuárásirnar á Lýbíu. Hillary hefur aldrei fyrirhitt stríð sem henni hefur ekki líkað við. Stuðningur hennar við Ísrael og andstaða við alþjóðlegar sniðgönguaðgerðir gegn hernámi þess ríkis í Palestínu liggja einnig fyrir.
Gild og ógild gagnrýni
Ofangreindir gagnrýnipunktar byggja á skrásettum staðreyndum. Því ber þó ekki að neita að Hillary hefur einnig orðið fyrir mikilli óverðskuldaðri gagnrýni, aðallega blammeringum, dylgjum og tilefnislausum ásökunum repúblíkana. Þær árásir litast oft af kvenfyrirlitningu og eru samsæris-kenningarnar flestar svo fáránlegar að enginn manneskja án alvarlegra ranghugmynda gæti lesið um þær án þess að skella upp úr. Þá sem bera blak af Trump með því að segja að „kerlingin hefði verið verri” ber auðvitað ekki að taka alvarlega frekar en þeir sem tala um Obama sem „múlatta.”
Ég get meira að segja sagt að ég dáist að Hillary Clinton að einu leyti. Á svipaðan hátt og Margaret Thatcher sýndi hún mikla þrautseigju í að kljást við fjandsamlegan karlaklúbb til að ryðja sér til rúms á stjórnmálasviðinu. Það þýðir þó ekki að hennar pólitík sé mér að skapi. Ef Alexandria Ocasio Cortez ákveður að tjá sig um innflytjendamál í Evrópu mun ég leggja við hlustir. En hið örlátasta sem ég get sagt um Hillary Clinton er að hún er búinn með sinn tíma í stjórnmálum. Hún hefur ekkert fram að færa nema bragðlausar tuggur frá gærdagspólitíkinni og ég skil ekkert í vefmiðlum eins og The Guardian að spyrja hana álits.
Athugasemdir