Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Erfitt nema fyrir fjandans aur að fá

Erfitt nema fyrir fjandans aur að fá

Almennt er fólk sammála um að góðir lagahöfundar semji góð lög og slæmir lagahöfundar semji slæm. Stundum skiptast þeir þó á hlutverkum; tónsnillingur sendir frá sér eitthvað óttalegt prump og laglaus gutlari sendir frá sér stórkostlega grípandi melódíu. En örsjaldan hendir það söngvasmið (góðan eða slæman) að semja lag sem fangar eitthvað úr upphimni og verður fyrir vikið ódauðlegt. Lag sem tjáir eitthvað sem engum hafði tekist (eða hugkvæmst) að koma í orð og söng áður. Eitt slíkt á Magnús Eiríksson.

Ég er tæplega einn um að skynja kaldhæðnina sem felst í notkun orðsins „Braggablús” yfir hneykslismál varðandi hégómlegan fjáraustur í framkvæmdum á vegum borgarinnar. Texti Mannakornalagsins er kannski eitthvert hjartnæmasta dæmi um skilning á hlutskipti fátækra Íslendinga síðan Davíð Stefánsson orti um konuna sem kynti ofninn hans. Braggablúsinn snýr ekki bara á haus orðræðu eftirstríðsáranna um „ástandið” — með því að beina athyglinni frá púrítanskri kynferðispólitík að þeim bágu kjörum sem margar konur í „ástandinu” bjuggu við á þeim tíma — heldur kraumar hann um leið af glettni og léttleika. Þetta er ljóðlistarígildi þess að halda bolta á lofti á meðan maður sagar strativaríus.

Bragginn var táknmynd neyðar og braggalyktin sem hlaust af húshitun með olíu (sem var svona erfitt nema fyrir fjandans aur að fá) ótvírætt merki þess að einstaklingur væri fátækur. Auðvitað er ekki þar með sagt að hann geti aldrei táknað neitt annað. Orðræða er ekki steingert fyrirbæri. En þegar ákveðið var að breyta einum Nauthólsvíkurbragganum í nýsköpunaraðstöðu fyrir Háskólann í Reykjavík var óneitanlega á ferðinni viss viðsnúningur. Táknmynd fátæktar átti að verða að táknmynd velsældar.

Nú verður byggingin aldrei neitt annað en táknmynd forréttindablindu.

Þegar formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, benti á Facebook-vegg sínum á misræmið milli þess að fara tvö hundruð og fimmtíu milljón krónum fram úr kostnaðaráætlun við að tryggja nýsköpunaraðstöðu fyrir nemendur HR og þess að borga leikskólakennurum ekki laun „sem duguðu til eins og neins” misskildi einn lesandi færsluna á þann veg að verið væri að gera lítið úr framtakinu í Nauthólsvík. Eftir því sem ég kemst næst var formaður Eflingar einfaldlega að benda á þá staðreynd að hlutir sem kallast „frumkvöðlastarf” og „sprotastarfsemi” séu teknir alvarlegar í fjármálum borgarinnar en hlutir eins og umönnun og menntun barna. En ég skil hvers vegna sumir bregðast svona við.

Þetta verkefni lítur út fyrir að hafa verið skemmtilegt og að fólkið sem hafi sett það saman hafi verið skapandi og innblásið. Bragginn lítur mjög vel út (sem og Stráin©) og ég efast ekki um að margt áhugavert og gefandi verði planlagt og framkvæmt undir þaki (boga?) þessarar gömlu herliðsbyggingar. Ég er ekki heldur þeirrar skoðunar að ekki megi leggja pening í neitt menningarlegt fyrr en allir séu orðnir jafnir í samfélaginu. Slík annaðhvort/eða-hugsun er einfeldningsleg. En ég finn skítalykt af því að sömu borgaryfirvöld sem ríghalda í pyngjuna til að þurfa ekki að láta af hendi mannsæmandi kjarabætur handa leikskólakennurum (og öðru starfsfólki á sínum vegum) skuli horfa í gegnum fingur sér með tvö hundruð og fimmtíu milljón króna þeysireið fram úr fjárlögum við byggingu nýsköpunarseturs handa nemum í HR.

Annað hvort eru til peningar í borginni eða ekki. 

Þegar stjórnmálamenn velta því fyrir sér hvernig traust í þeirra garð hafi náð að réna eins mikið og raun ber vitni þurfa þeir ekki að skipa nefnd og leggja á ráðin um almannatengslaaðgerðir. Ástæðan fyrir því að almenningur treystir ekki stjórnmálamönnum kristallast í tilfellum sem þessu. Forréttindablinda þeirra sem leyfðu þessari framkvæmd að fara einhver hundrað og fimmtíu prósent fram úr áætlun er algjör. Vandamálið er ekki einstaklingsbundið heldur kerfislægt. Við þurfum að hafa raunverulega fulltrúa almennings við stjórnvölinn í Ráðhúsinu, (sem og á Alþingi) til þess að fólk finni fyrir því að ráðamenn beri hag þess fyrir brjósti. Fólk sem hefur þurft að horfa í klinkið til að ná endum saman milli mánaða er nefnilega mikið líklegra til þess að gera athugasemd við það að opinberu fé sé migið svona upp í vindinn.

Við höfum ekki horn í síðu frumkvöðlaseturs eða sprotamusteris eða hvað þetta er annars kallað. Magga þarf bara líka að fá olíu á helvítis skúrinn sinn. Hún er alveg staur þessa dagana.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni