Að sprengja konunginn alla leið til Skotlands
Frægasta tilraun til hryðjuverks á enskri grundu átti sér stað fyrir rúmum fjögur hundruð árum en merkingin sem ásjóna þess atburðar gefur til kynna hefur tekið miklum breytingum. Einn hataðasti föðurlandssvikari fyrri alda er nú orðinn að sameiningartákni gjörólíkra uppreisnarmanna. Skoðum nánar sögu hans í tilefni af 5. nóvember.
“Remember, remember,
the fifth of November,
the gunpowder treason and plot!
I know of no reason
why gunpowder treason
should ever be forgot!”
—enskt kvæði (höfundur ókunnur)
Kunnuglegt andlit? Án efa. Árið 2005 brosti það framan í bíógesti í kvikmyndinni V for Vendetta og í kjölfarið tóku netaðgerðarsinnarnir í samtökunum Anonymus það upp sem aðalsmerki sitt. Segja má að anarkistar hafi gert grímuna að sinni, eins og vinstri sinnar á hippatímanum gerðu með andlitsmynd Ché Guevara, en gríma þessi á sér mun lengri og flóknari sögu. Bretar setja hana upp að kvöldi 5. nóvember til að minnast manns sem handtekinn var árið 1605 fyrir að ætla að sprengja hús bresku lávarðadeildarinnar í loft upp og myrða sjálfan Jakob I., Englandskonung. Sá maður hét Guy Fawkes.
Trúarerjur í áratugi
Maðurinn sem átti hugmyndina að tilræðinu hét Robert Catesby og flestir af upprunalegu vitorðsmönnum hans tengdust honum ýmist með blóðskyldleika eða mægðum. Catesby hafði sem ungur maður mátt horfa upp á föður sinn fangelsaðan og sektaðan fyrir að neita að ganga til messu í ensku biskupakirkjunni. Ástæðan fyrir athæfi föður hans var sú að hann tilheyrði hinum útskúfaða trúarhópi kaþólskra Englendinga. Í stjórnartíð Elísabetar I. höfðu kaþólskar messugjörðir verið gerðar ólöglegar og öllum var gert að sækja messur mótmælenda eða sæta viðurlögum ella.
Segja má að kergjan milli kaþólskra og mótmælenda hafi hafist rúmum sjötíu árum fyrir sprengitilræði Fawkes, þegar Hinrik VIII. gafst upp á að reyna að sannfæra Vatíkanið um að ógilda hjónaband sitt við Katrínu af Aragon og skar á tengslin við páfagarð árið 1533. Stjórnartíð hans var kaþólikkum erfið og sömuleiðis stutt seta Edmunds sonar hans en þegar sá dó ungur tók systir hans við árið 1553. Hún hét María og var rammkaþólsk og ætlaði aldeilis að rétta hlut trúbræðra sinna og -systra. Hún gekk þó svo langt í þessari viðleitni að við ævilok hennar lágu um þrjú hundruð mótmælendatrúaðir einstaklingar í valnum og mannkynssagan hefur stimplað á hana viðurnefnið Blóð-María (e. Bloody Mary).
Kúgun kaþólikka
Systir Maríu, sem tók við af henni árið 1558, hlaut hins vegar titilinn Meydrottningin (e. the Virgin Queen) af því að hún giftist aldrei. Hún hét Elísabet I. og sýndi kaþólsku fólki sams konar hörku og systir hennar hafði beitt mótmælendur. Það var í valdatíð Meydrottningarinnar sem Robert Catesby og vitorðsmenn hans komust á legg og höfðu þeir því alist upp við kúgun vegna trúar sinnar og eflaust höfðu þeir heyrt af því á yngri árum þegar Jesúítapresturinn Edmund Campion var líflátinn fyrir trúboð sitt og messuhald á árunum 1580-81.
Campion varð eins konar píslarvottur hins kaþólska málstaðar og eins og rómverski guðfræðingurinn Tertullian benti á í árdaga kristinnar kirkju þá er píslarvætti „útsæði kirkjunnar.“ Við andlát Elísabetar árið 1603 voru kaþólskir Englendingar reyndar vongóðir um að hinn skoski arftaki hennar, Jakob I., myndi snúa við blaðinu. En sú von brást árið eftir þegar opinber yfirlýsing barst frá honum, þar sem hann lýsti yfir megnri vanþóknun á kaþólskum sið og herti viðurlögin við fjarveru kaþólikka frá mótmælendamessum.
John Johnson flytur inn
Á fundi árið 1604 þar sem Robert Catesby kynnti tilræðishugmynd sína fyrir fyrstu vitorðsmönnunum segir sagan að einn sá frakkasti þeirra, frægi sverðakappinn Thomas Percy, hafi staðið upp og hrópað: „Ætlum við alltaf, herramenn, að tala en gera ekki neitt?“ Á þeim fundi var hermaðurinn Guido (Guy) Fawkes staddur og var hann valinn til þess að meðhöndla sprengiefnin vegna reynslu sinnar af púðri úr stríðinu. Hann var staðfastur kaþólikki og heillaðist, eins og aðrir viðstaddir, af sannfæringarhita og málsnilld Catesby.
Og ekki lét tækifærið bíða lengi eftir sér. Í mars árið 1605 var tvennt orðið ljóst; að þingið myndi fresta störfum sínum til 5. nóvember vegna plágufaraldurs og að íbúð væri laus til leigu í sömu höll og hýsti lávarðadeildina; nægur tími til að safna sprengiefni í kjallarann beint undir gólfi þingsalarins. Thomas Percy tók íbúðina á leigu þar sem hann átti í viðskiptum í London á þessum tíma og myndi ekki vekja neinar grunsemdir og Guy Fawkes flutti þar inn, dulbúinn sem þjónn hans. Hann notaðist við hið mikilfenglega dulnefni John Johnson.
Samsærið brestur
Í október var komin lokamynd á áætlunina; Fawkes átti að tendra kveikinn og koma sér í var hinum megin við Thames-ána og á meðan yfirvöld brugðust við tjóninu ætlaði hópurinn að ræna dóttur Jakobs konungs, Elísabet, og hefja uppreisn með stúlkuna sem höfuð hennar. En þegar vitorðsmennirnir voru orðnir þrettán fengu fáeinir þeirra bakþanka vegna þeirra kaþólsku manna sem kynnu að tapa lífinu í sprengingunni ásamt konunginum og þingheimi.
Nafnlaust bréf var sent til að vara einn þingmann við því að sækja fundinn og sú orðsending rataði í hendur konungs sem las milli línanna að líklega væri um sprengitilræði að ræða. Það var því ekki tilviljun að Guy Fawkes fannst í kjallaranum, þann fimmta nóvember 1605, við hlið þvílíks magns af sprengiefnum að sérfræðingar á síðari tímum hafa áætlað að það hefði ekki einungis dugað til að fyrirkoma öllum í lávarðadeildinni heldur beinlínis til að rústa gervallri byggingunni.
Járnhnefi réttvísinnar
Fawkes sagði kóngsins mönnum í fyrstu að hann héti John Johnson og viðurkenndi fúslega að hafa viljað sprengja konunginn og skoska félaga hans alla leið aftur til hlíða heimalands síns, eins og hann orðaði það. En fleira lét hann ekki uppi að sinni. Eftir einn sólarhring var hann færður yfir í turninn í London; einn frægasta pyntingarstað evrópskrar sögu. Þar segir sagan að hermaðurinn hafi haldið út svo lengi að kvölurum hans hafi þótt mesta furða. Þann níunda nóvember hafði hann þó verið búinn að segja til vitorðsmanna sinna og skrifa undir formlega játningu.
Undirskrift hans á því skjali er kannski óhugnanlegasti vitnisburðurinn um það sem hann hefur mátt þola. Sé hún borin saman við aðra undirskrift sem hann setti á blað fyrir yfirheyrslurnar sést að lítið var orðið eftir af honum þegar játningin leit dagsins ljós. Og þegar aftökudagur hans var runninn upp þurfti beinlínis að styðja hann þar sem hann gat ekki gengð sjálfur upp pallinn til að taka á móti lokarefsingu sinni. Sú refsing fól í sér hengingu, sundurlimun og annan hrylling, á almannafæri.
Eftirmálar
Félagar Fawkes vissu að honum hefði mistekist að koma sprengingunni af stað en þeir reyndu engu að síður að fá kaþólska bandamenn með sér í bardaga gegn kóngsins mönnum. Þær fyrirætlanir urðu að engu og þeim tókst ekki heldur að ræna Elísabet konungsdóttur. Catesby og Percy var að sögn á endanum grandað með einni byssukúlu í skotbardaga þann áttunda nóvember þannig að þeir sluppu við niðurlægingu böðulsins en höfuð þeirra voru fest á staura fyrir framan lávarðadeildina, öðrum uppreisnaraeggjum til varnaðar.
Þrátt fyrir blóðug örlög Fawkes er hans minnst af nokkrum gáska á bálnótt (e. bonfire night) þann 5. nóvember ár hvert með flugeldum og betli á smápeningum handa skúrknum (e. “Penny for the Guy?”) og trúarbroddurinn virðist að mestu kominn úr hátíðahöldunum. Og kannski er ekki að undra þótt ásjóna kaþólska hryðjuverkamannsins sé fremur tengd við frelsisbaráttu en trúarofstæki í dag, enda fasísku skúrkarnir í myndinni V for Vendetta kannski taldir nærtækari ógn við breskan almenning á 21. öldinni en brosandi brennuvargar.
Heimildir:
Fitzgibbon, Sinead. The Gunpowder Plot: History in an Hour. 2012.
Timewatch: The Gunpowder Plot (BBC 2). Sótt á youtube þann 14. október, 2018 á slóðinni: https://youtu.be/7I5sD56N294
Athugasemdir