Náttúruparadísin í hlaðvarpanum

Reykjanesskaginn býr yfir mörgum mögnuðum náttúruperlum í námunda við mesta þéttbýli landsins. Svæðið hefur að geyma fjölbreytta náttúru og forvitnilega jarðfræði. Möguleikarnir til útvistar og náttúruupplifunar eru óteljandi í nálægð við þéttbýlið. Í því felast verðmæt lífsgæði. Náttúruauðlind er ekki eingöngu sú sem hægt er að bora til fjandans eða sökkva í uppistöðulón. Lítt snortin náttúra er líka auðlind.
Ef við tökum Reykjanesfólkvang sem dæmi er í honum að finna mörg áhugaverð náttúrufyrirbæri: Hverasvæðin með allri sinni litadýrð, víðerni og hálendislandslag, eitt fallegasta fuglabjarg landsins, allar gerðir af gosminjum; eldborgir, gígaraðir, móbergshryggi og tilkomumiklar gjár, svo eitthvað sé nefnt. Krýsuvíkur- og Trölladyngjusvæðið er hreint út sagt magnað gönguland og nýtur mikilla vinsælda sem slíkt. Í mínum huga ætti fólkvangurinn að vera þjóðgarður en ekki fólkvangur enda vantar ekkert nema jökulinn til að svæðið sé fyllilega sambærilegt við þjóðgarðinn á Snæfellsnesi.
Því miður er þessari náttúruparadís ógnað vegna virkjanaáforma.
Sömu sögu er því miður að segja af flestum náttúruperlum Reykjanesskagans. Í öðrum áfanga Rammaáætlunar voru aðeins þrjú svæði sett í verndarflokk af þeim 12 sem voru til umfjöllunar og til viðbótar hafa fjögur svæði nú þegar verið tekin undir virkjanir. Ef villtustu framtíðardraumar orkufyrirtækjanna rætast mun nánast samfelld röð jarðvarmavirkjana „prýða“ Reykjanesskagann frá Reykjanestá að Þingvallavatni. Ömurleg framtíðarsýn.
Í meðfylgjandi myndbandi, sem ég gerði nýlega fyrir Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, bregður fyrir mörgum af þeim náttúruperlum sem ógn eyðileggingarinnar vofir yfir, s.s. Trölladyngju, Krýsuvík og Eldvörpum. Þessu stutta myndbandi er ætlað að vekja almenning til umhugsunar og hvetja til náttúruverndar. Náttúran þarf sannarlega á liðsauka að halda í þeirri náttúruverndarbaráttu sem framundan er á næstu árum. Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands bjóða alla náttúruvini velkomna í hópinn. Hægt er að skrá sig í félagið á heimasíðu þess, www.nsve.is
Athugasemdir