Stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkjuna
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur Stjórnlagráðs þ. 20. okt. 2012 var spurt um hvort þjóðin teldi ástæðu að í nýrri stjórnskrá væru ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi. Þar var ekki verið að spyrja um hvort aðskilja ætti kirkju og ríki og þaðan af síður hvort þjóðkirkja ætti að vera í íslensku samfélagi eða ekki. Spurningin snérist einfaldlega um það hvort þjóðin teldi ástæða til þess að í nýrri stjórnarskrá ætti að taka ákveðna trúarskoðun umfram aðrar.
Mál þjóðkirkjunnar hafa verið ofarlega í þjóðmálaumræðunni undanfarin misseri. Stjórnlagaráð komst að þeirri niðurstöðu að fara ætti svipaða leið og nágrannaþjóðir okkar hafa farið með því að setja ekki ákvæði í nýja stjórnarskrá og gera þannig einni trúarskoðun hærra undir höfði en öðrum. Ítrekað hefur komið fram að það er áberandi vilji meðal þjóðarinnar um að gera öllum trúarskoðunum jafnt undir höfði. Stjórnlagaráð vildi fylgja þeirri leið og ganga þannig frá málum að þjóðin gæti breytt þessu í samræmi við tíðarandann hverju sinni án þess að þurfa að fara í gegnum umfangsmikið ferli og breyta stjórnarskránni.
Í núgildandi stjórnarskrá stendur:
62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.
79. gr. Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.
Í tillögu Stjórnlagaráðs eru þessi ákvæði svona :
18. gr. Trúfrelsi
Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga. Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi. Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.
19. gr. Kirkjuskipan
Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins. Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.
Villandi umræða
Í umræðunni um tillögur Stjórnlagaráðs var m.a. fullyrt að Stjórnlagaráð ætlaði sér að leggja þjóðkirkjuna niður, og jafnframt að leggja niður jólin ásamt löggiltum frídögum og taka krossinn úr þjóðfánanum. Svo vitnað sér í ummæli þáv. formanns stærsta stjórnmálaflokksins.
Öll vitum við hvernig þetta er í nágrannalöndum okkar, þrátt fyrir að þau hafi fyrir margt löngu breytt ákvæðum í sínum stjórnarskrám með svipuðum hætti og Stjórnlagaráð lagði til og íslenska þjóðin samþykkti í með auknum meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Sé litið til frétta undanfarna daga blasir við öllum að þróunin hér á landi staðfestir að niðurstöðu Stjórnlagaráðs er í samræmi við vilja þjóðarinnar.
Athugasemdir