Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hvert eigum við að stefna?

Hvert eigum við að stefna?

Nú blasir við sú staðreynd að afleiðingar Covid-faraldursins verða gríðarlega umfangsmiklar. Ljóst er að árangur í baráttunni við Covid veiruna næst einungis með samfélagslegum aðgerðum. Þær þjóðir sem hafa reynt að víkja sér undan þessari staðreynd hafa kallað yfir sig skelfilegar afleiðingar. Endurreisn samfélagsins verður ekki framkvæmd á samfélagslegra aðgerða. Það blasir við að markaðskerfi án afskipta ríkisvaldsins fær ekki staðist til lengdar. Við verðum að víkja frá stefnu kapitalismans. Trúboð nýfrjálshyggjunnar hefur ekki staðist dóm reynslunnar og almenningur horfir í hratt vaxandi mæli til stjórnarhátta samtryggingarinnar sem Norðurlöndin reistu á síðustu öld.

Efnahagstefna ríkistjórna okkar frá árinu 1994 hefur einkennst af vaxandi nýfrjálshyggju og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Í þeirri vegferð hafa hagsmunir þjóðarinnar gleymst og allar áherslur miðaðar við sérréttindi þeirra sem eiga fjármagnið. Samfélagsleg gildi sem við höfðum í heiðri voru leyst upp með vaxandi einstaklingshyggju. Frjálshyggjan lagði áherslu á tryggingu frelsis einstaklingsins án tillits til hagsmuna samfélagsins. Alið var á mýtum með það að markmiði að þjappa fólki saman undir þessa samfélagskipan. Höfðað er til trúarbragða, þjóðernishyggju og alið á ótta. Engu máli skiptir í hugum hvort mýturnar feli í sér eitthvert sannleikskorn. Þær gegna einungis því hlutverki að ná tökum á samfélaginu og skara eld að köku fjármagnseigandans.

Á sama tíma og önnur lönd gripu til allra ráða til að sporna við flutningi fjár yfir í skattaskjól gerðu íslensk stjórnvöld hið gagnstæða. Það varð opinber stefna stjórnvalda að draga úr skattheimtu af auðfólki og fyrirtækjum og gera Ísland að skattaparadís hinna ríku og stóru. Auðlindir samfélagsins runnu til örfárra án réttláts endurgjalds. Þúsundum milljörðum króna hefur verið haldið utan skattskila og markvisst dregið úr getu skatteftirlits.

Frelsisbyltingin

Um „frelsisbyltinguna“ mátti m.a. lesa í Morgunblaðinu í apríl 2004 prýðilega lýsingu á þeim draumheim sem stjórnvöld síðustu áratuga hafa stefnt er að : „Samstaða hefur myndast um að brýnasta framfaramál Íslendinga er að knýja fram hagræðingu og samlegðaráhrif þjóðinni til heilla. Máttur kapítalismans verður að sönnu seint skilinn til hlítar. Hann getur umbreytt heilu samfélögunum á undraskömmum tíma. Kapítalisminn er fær um að leysa úr læðingi óheftalegan sköpunarkraft. Naglföst hugmyndakerfi milljónahundraða standast ekki framrás hans.

Auðhyggjan á rætur sínar í sammannlegu frumafli sem megnar að umsteypa viðteknum viðmiðum. Og kollsteypa viðmiða er ein mikilvægasta forsenda framfara. Því hefur jafnvel verið haldið fram að þannig verði byltingar á sviði vísindalegrar þekkingar. Umbreytingarkraftur auðhyggjunnar hefur birst Íslendingum á undanliðnum árum. Íslenska „frelsisbyltingin“ hefur á skömmum tíma kallað fram ný viðmið og aðrar leikreglur. Nýjar samsteypur fyrirtækja rísa enda „umbreytingarskeið“ hafið í íslensku viðskiptalífi, hagræðingarkrafan hljómar hvar sem komið er; fjölmiðlar flytja endalausar fréttir af peningum og tilfærslu á valdi fjármagnsins. Drifkraftar kapítalismans eru heillandi birtingarmyndir mannlegrar reisnar.“

Viðskiptaráð sendi skömmu fyrir Hrun frá sér skýrslu þar sem stóð m.a. „Íslensku fyrirtækin sem leitt hafa útrásina á undanförnum árum byggja öll meira eða minna á þeim kostum og einkennum sem við teljum okkur hafa sem þjóð í augum útlendinga. Við erum lítil þjóð, vel tengd innbyrðis, erum fljót að átta okkur á stöðu mála, erum hugmyndarík, tökum ákvarðanir strax og lærum fljótt og örugglega af reynslunni. Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.“

Samfélagsleg gildi

Verkalýðshreyfingin sendi frá sér kröftugar andmæli og aðvaranir þegar ríkistjórnin ákvað um síðustu aldamót að hverfa frá fastgengisstefnunni. Þær afleiðingar sem bent var á hafa allar komið fram. Aðilar vinnumarkaðsins bentu ítrekað á að ríkisstjórnin ætti að leggja fyrir hæsta kúfinn ef tekjunum í þenslunni. Þjóðin myndi þá eiga varasjóði í handraðanum til mögru áranna. Það væri út í hött að miða samfélagslegan rekstur þjóðarbúsins hæstu toppana og lækka skatta. Það myndi einungis verða til þess að auka þenslu og tekjur þjóðarbúsins myndu í niðursveiflum ekki standa undir nauðsynlegum lágmarks samfélaglegum rekstri. Frelsisbyltingin hafði þau áhrif að forsvarsmenn stjórnarflokkanna virtust telja að ríkisstjórnin hefði ekkert hlutverk í hagstjórninni sem varð til þess að við flugum fram af hengifluginu án nokkurra bremsufara. „Guð blessi Ísland, þetta reddast“

Samfélagsleg gildi sem við höfðum haft í heiðri á áratugunum eftir seinni heimstyrjöld fram að síðustu aldamótum hafa markvist verið leyst upp undanfarna áratugi með vaxandi einstaklingshyggju. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt áherslu á að tryggja frelsi einstaklingsins til að velja það sem honum sýndist án tillits til afleiðinga samfélagsins. Allar áherslur hafa einkennst af sérréttindum þeirra sem áttu fjármagnið. Alið hefur verið á mýtum til að þjappa fólki saman undir þessa samfélagskipan. Alið er á ótta í samfélaginu sem gegna því hlutverki að skara eld að köku fjármagnseigandans. Eftirsókn eftir gróða er allsráðandi og við blasir tortíming lífríkisins.

Í dag blasir við okkur ógn við það velferðarríki sem viljum búa í. Sama á um lífríkið og nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Núverandi staða hefur hins vegar þvingað að ríkisstjórnir til þess að víkja frá nýfrjálshyggjunni yfir í norræna módelið og vonandi verðum við áfram í því umhverfi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni