Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Í tilefni dags íslenskrar náttúru : Hvað er hálendisþjóðgarður?

Í tilefni dags íslenskrar náttúru : Hvað er hálendisþjóðgarður?

Undanfarnar vikur hefur borið á margskonar harla einkennilegum fullyrðingum um þann skaða sem hugmyndir um þjóðgarða geti valdið íslensku samfélagi og hagkerfinu. Því er blákalt haldið fram haldið fram að með þjóðgörðum verði komið í veg fyrir nauðsynlegar virkjanaframkvæmdir, beitilandi verði tekið af bændum og gengið svo langt að fullyrða að með þjóðgarði á hálendinu verði komið í veg fyrir alla hugsanlega uppgræðslu og stór svæði verði þar af leiðandi örfoka land.

„Hálendi Íslands er mesta auðlind Íslands, hvernig sem á það er litið“, sagði Páll heitinn Skúlason fyrrv. háskólarektor í náttúrupælingum sínum og , „Við höfum stundum farið offari í því að umskapa og breyta náttúrunni og við ættum að fara mun varlegar í umgengni við náttúruna, t.d. virkjanaframkvæmdir. Okkar mikilvægasta auðlegð eru víðernin en lítið þarf til að spilla þeim.“

Hér á landi eru sex votlendissvæði sem njóta alþjóðlegrar verndar samkvæmt hinum svokallaða Ramsarsáttmáli þar sem 179 aðildarríki skuldbundu sig til þess að hlúa að og vernda þau votlendissvæði sem teljast mikilvæg á heimsmælikvarða. Þrjú slík svæði eru er á hálendinu : Snæfells- og Eyjabakkasvæðið, Guðlaugstungur og svo Þjórsárver. Innan þessara svæða eru merkustu rústa- og sífrerasvæði landsins, en lífríki þeirra er einstakt á heimsvísu.

Á hálendinu eru samankomin tíu mestu lindasvæði landsins og sex þeirra þau stærstu í heimi. Þau spanna stóran hluta af hálendinu og landsmenn hvers tíma ber ábyrgð á að þau séu varðveitt. Í hreinu vatni er án nokkurs vafa að finna ein mestu verðmæti hálendisins til framtíðar.

Í könnunum sem gerðar hafa verið meðal ferðamanna blasir við sú staðreynd að yfir 90% ferðamanna koma hingað vegna sérstæðra eiginleika íslenskrar náttúru. Umhverfishagfræðingar hafa bent á að ef verðmiði sé settur á íslenska náttúru, sama hversu hár hann sé, þá fái stóriðjusinnar í hendurnar viðmið og þannig fái þeir í hendurnar réttlætingu á því að fara í framkvæmdir. Það blasir hins vegar við að það er útilokað að verðmeta náttúruna í heild með óbeinum hætti. Stjórnmálamenn og orkufyrirtæki hika hins vegar ekki við að leggja efnahagslegt mat á náttúruna og oftast með óbeinum hætti.

Þar má t.d. vísa til margendurteknar fullyrðingar tiltekinna ráðherra og stjórnmálamanna um að náttúruverndarsinnar valdi þjóðinni miklum efnahagslegum skaða með því að stuðla að því að árnar renni til hafs án þess að skapa nokkur verðmæti. Í þeirra augum jafngildir verðmiði náttúrunnar semsagt skammtíma innkomu í ríkissjóð. Sannarlega mótsagnakennt því inn í íslenskt hagkerfi streyma árlega hundruð milljarða frá ferðaþjónustunni, töluvert meiru en öll stóriðjan skilar.

Arður eigenda álvera fer að mestu beint úr landi. Arður sjávarútvegsfyrirtækjanna skilar sér einungis að hluta til í hagkerfið. Arður af náttúrunni skilar sér hins vegar inn í íslenska hagkerfið og dreifist um allt samfélagið. Í könnunum hefur komið fram að 80% ferðamanna koma hingað vegna náttúru landsins og fjórðungur þeirra fer upp á hálendið. Ferðaþjónustan hefur skapað miklar fjárfestingar víða um land og mun fleiri ný störf en orkufrek fyrirtæki hafa gert. Jafnvel þótt öllum virkjanlegum náttúruverðmætum Íslands væri fórnað fyrir álver eða aðra stóriðju færu ný atvinnutækifæri þar aldrei yfir 2% af vinnuaflinu.

Umferð um hálendið þrýstir á þjóðarsátt um miðhálendisþjóðgarð. Markmiðum um verndun og nýtingu miðhálendisins verður einungis náð með skipulagslegri heild. Reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði sýnir fram á að í þjóðgarði felast mikil tækifæri til uppbyggingar og atvinnuþróunar nærsveitarfélaga. Þjóðgarður á miðhálendinu skapar sterka ímynd fyrir náttúruvernd og setur ramma um sjálfbæra ferðaþjónustu og nýtingu bænda á Íslandi þar sem náttúruvernd væri í fyrirrúmi samhliða því að almannaréttur er tryggður. Í framsetningu þeirra sem vilja stækkun þjóðgarða hefur aldrei komið fram að til standi að taka beitarlönd af bændum eða koma í veg fyrir þá svipaða nýtingu hálendisins og hún er í dag.

Í þessu sambandi má vísa til nágrannalanda okkar eins og t.d. Finnlands og Skotlands. Þjóðgarðar Finnlands eru ríkisreknir og öllum opnir án aðgangsgjalds. Kannanir sýna að hver evra sem Finnar verja til uppbyggingar þjóðgarðana skili 10 evrum í þjóðarbúið. Sama niðurstaða blasir við Skotum sem eiga marga og umfangsmikla og vel skipulagða þjóðgarða. Þeir hafa verið stækkaðir umtalsvert á síðustu áratugum og skapa gríðarlegar tekjur af ferðamennsku allt árið.

Í þjóðgörðunum eru margskonar mannvirki eins og bújarðir, vegir, brýr, hótel, tjaldsvæði og göngustígar og já jafnvel virkjanir og fjölmög þorp. Starfsmenn og stjórnendur þeirra hafa komið hingað og flutt erindi á ráðstefnum þar sem þeir hafa sýnt fram á að stærsti kostur þjóðgarða sé vel unnið heildarskipulag á tilteknu svæði sem kemur í veg fyrir að fámennir hópar, eða jafnvel einstaklingar, geti tekið ákvarðanir um framkvæmdir sem skaði náttúruauðæfi á stórum svæðum. Við okkur Íslendingum blasir þessi staða, og í mörgum tilfellum eru það erlendir auðjöfrar sem eru komnir í þá stöðu að geta tekið þessar ákvarðanir án nokkurs samráðs við okkur sem hér búum.

Nýir þjóðgarðar á hálendi Íslands mun ekki festa í sessi örfoka land, eins nokkrir embættismenn hafa haldið fram nýlega, og það verður hægt að græða upp land innan þjóðgarðsins og endurheimta gróðurþekju sem er eitt af mikilvægum verkefnum Íslands í baráttu gegn hlýnun jarðar. Það hefur farið fram mikil uppgræðsla í núverandi þjóðgörðum og hreint út sagt kostulegt að hlusta á fullyrðingar embættismanna og stjórnmálamanna að nú standi til vísa uppgræðslufólki á dyr.

Hálendisþjóðgarður eykur möguleika á endurheimt gróðurs og jarðvegs. Sauðfjárbeit eða veiðar verða ekki bannaðar innan þjóðgarðsins. Bændur, sem nýtt hafa hálendi landsins til upprekstrar munu því ekki þurfa að óttast að þeir tapi afréttum og almenningum sem þeir hafa nýtt frá landnámi. Skynsamasta leiðin er að gera miðhálendið að einni skipulagslegri heild og ná þjóðarsátt um rammann um vernd svæðisins. Tenging við heimamenn er grundvallaratriði í samfélagslegu samhengi m.t.t. sjálfbærrar atvinnuþróunar og nýtingar, framtíðarverðmæta og vöxt sveitarfélaganna sem þar eru.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni