Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Deilan um fjölmiðlalögin

Deilan um fjölmiðlalögin

  Í sambandi við aðförina að ritfrelsinu undanfarna daga er ástæða að rifja upp átökin um fjölmiðlalög Davíðs Oddssonar og deilunnar um 26. gr. stjórnarskrárinnar. Bakgrunn fjölmiðlalaga Davíðs er að finna í þeirri grundvallarbreytingu sem varð á íslenskum dagblaðamarkaði árið 2001 þegar Fréttablaðið hóf göngu sína.

Blaðinu var dreift ókeypis um allt land og varð fljótt mest lesna dagblað landsins. Baugsfjölskyldan eignaðist Fréttablaðið og í framhaldi af því síðdegisblaðið DV og keypti síðan meirihlutann í fjölmiðlafyrirtækinu Norðurljósum. Þar með voru flestir einkareknu ljósvakamiðlarnir komnir í eigu einnar fjölskyldu og hér var skyndilega komið fjölmiðalveldi í einkaeigu sem ógnaði veldi þeirra sem stóðu að Morgunblaðinu á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Fjölmiðlaveldi Baugsfjölskyldunnar

   Átökin milli Davíðs Oddssonar þáv. forsætisráðherra og Baugsfjölskyldunnar voru umfangsmikil bæði í fjölmiðlum og fyrir dómstólum. Vendipunktur varð á deilunni haustið 2003 þegar Davíð Oddsson tilkynnti að hann vildi láta setja lög til þess að kom í veg fyrir samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og tryggja að fjölmiðlar væru sjálfstæðir og óháðir. Í framhaldi af því var samþykkt á Alþingi að skipa fjölmiðlanefnd, en þegar hún skilaði áliti var þar að mati Davíðs ekki kveðið nógu fast að orði um eignarhald á fjölmiðlum.

   Það varð til þess að hann lagði fram á ríkisstjórnarfundi frumvarp til laga um eignarhald á fjölmiðlum. Ljóst varð að lögfesting frumvarpsins þýddi einfaldlega endalok eignarhalds Baugsfjölskyldunnar fjölmiðlum sínum. Stjórnarandstaðan lýsti yfir miklum efasemdum um frumvarpið og nokkrir lögmenn töldu frumvarpið ganga gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um eignarrétt og tjáningarfrelsi. Ríkisstjórnin var hins vegar með góðan meirihluta og Davíð taldi það nánast vera formsatriði að keyra málið í gegn á Alþingi.

Mat Davíðs Oddssonar á stöðunni reyndist hins vegar vera fjarri öllum veruleika og málið varð gríðarlega umdeilt og fyrirferðarmikið í þjóðmálaumræðunni. Það snerist ekki einungis um einokunarstöðu Baugsfjölskyldunnar eins og Davíð vildi halda fram, heldur varð deilan að miklu hitamáli og snérist um nokkur ákvæði stjórnarskrárinnar þ.á.m. um rit- og tjáningarfrelsi og ekki síst um rétt forseta landsins til að hafna undirritun laga og vísa málinu til þjóðarinnar.

Fjölmiðlasambandið og Þjóðarhreyfingin

   Deilan snerti einnig atvinnuöryggi fjölmargra starfsmanna fjölmiðlanna. Stéttarfélög starfsmanna fjölmiðla höfðu vorið 1998 stofnað til formlegs samstarfs undir merkjum Fjölmiðlasambandsins. Stéttarfélögin sem stóðu að því voru Blaðamannafélag Íslands, Félag bókagerðarmanna, Félag grafískra teiknara, Starfsmannasamband RÚV, Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Rafiðnaðarsambandið, eða gríðarlega öflug samtök. Samtals voru félagsmenn aðildarfélaga Fjölmiðlasambandsins um 35. þús., en reyndar starfaði einungis hluti þeirra við fjölmiðla. Markmið sambandsins var samvinna um gerð kjarasamninga, fagleg málefni, réttindamál þar sem hæst bar deila um höfundarrétt og endurgjald fyrir birtingar.

Trúnaðarmenn Fjölmiðlasambandsins töldu að ef fjölmiðlalögin yrðu að veruleika væri atvinnuöryggi allt að 1.000 starfsmanna í fjölmiðlaheiminum stefnt í mikla óvissu. Það varð til þess að Fjölmiðlasambandið skipulagði marga stóra og fjölmenna fundi þar sem vinnubrögð forsætisráðherra og ríkisstjórnar við gerð fjölmiðlalaganna voru fordæmd. Viðhorfin í samfélaginu urðu til þess að Davíð forsætisráðherra gerði nokkrar gerðar breytingar á fjölmiðlafrumvarpinu og kom því í gegnum Alþingi þ. 24. maí 2004. Þar var lagt við bann um að sömu aðilar gætu átt ljósvakafjölmiðla og dagblöð og ýmsar skorður settar við rekstur ljósvakamiðla.

Mikill meirihluti þjóðarinnar taldi frumvarpið meingallað, þar sem í því væru ákvæði sem takmörkuðu rit- og málfrelsi.

Fjölmargir áhrifamenn í samfélaginu höfðu mjög ákveðna skoðanir á fjölmiðlamálinu og sameinuðust undir merkjun Þjóðarhreyfingarinnar sem var stofnuð af Ólafi Hannibalssyni blaðamanni, fyrrv. skrifstofustjóra ASÍ og þingmanni Sjálfstæðisflokkssins.   

Framangreind samtök ákváðu að standa að undirskriftasöfnun og skora á forsetann að nýta sér 26. gr. stjórnarskrárinnar og staðfesta ekki fjölmiðlalögin. Full þörf væri á nýjum fjölmiðlalögum, en það þyrfti að undirbúa þau mun betur og ná um þau almenna sátt. Í undirskriftarsöfnuninni náðust um 32 þúsund undirskriftir, sem varð til þess að 2. júní 2004 ákvað Ólafur Ragnar Grímsson forseti að nýta sér í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins málskotsrétt sinn um að hafna að staðfesta lög Alþingis og vísa málinu til þjóðarinnar.

Átök forsetans og forsætisráðherrans

   Það er óhætt að fullyrða að hér spiluðu vitanlega inn langvinn átök Davíð Oddssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar. Ágreiningur þeirra magnaðist mikið árið 2004 þegar halda átti upp á aldarafmæli heimastjórnarinnar. Þar kom Davíð Oddsson forsætisráðherra því þannig fyrir að allur undirbúningur vegna hátíðarhaldanna fór fram á vegum forsætisráðuneytisins og undir hans stjórn. Ólafi Ragnar þótti sér þar vera stórlega misboðið sem forseta landsins og handhafa æðsta valdsins. Hann sætti sig ekki við að forsætisráðherra kæmist upp með yfirtaka undirbúning hátíðarhaldanna og viðburðurinn færi fram án nokkurs samráðs við embætti forseta landsins.

Ólafur Ragnar fékk boð um að hann ætti að sitja einhversstaðar umkomulaus út í sal og hlýða á forsætisráðherra flytja sérstaka hátíðarræðu við athöfnina. Það varð til þess að Ólaf Ragnar taldi tíma sínum betur varið í annað og ákvað hann að sitja fund í New York um málefni norðurslóða og fara í framhaldi af því ásamt eiginkonu sinni í skíðafrí í Klettafjöllunum. Á meðan Ólafur Ragnar skemmti sér á skíðum boðaði Davíð fyrirvaralítið til ríkisráðsfundar á hátíðardaginn 1. febrúar.

Enn gat Davíð ekki stillt sér um að hafa ekkert samráð við forseta landsins og hann hélt fundinn í Ráðherrabústaðnum við Tjörnina í stað þess að halda í fyrri venjur um að ríkisráðsfundir færu fram á Bessastöðum. Og Davíð gekk enn lengra og niðurlægði embætti Ólafs Ragnars með því að fá Halldór Blöndal forseta Alþingis til þess að stýra þeim fundi. Ágreiningur forsetans og forsætisráðherra í kringum heimastjórnarafmælið var þannig greinilega forsmekkur að heiftarlegum deilum þeirra í fjölmiðlamálinu.

Þegar synjun forsetans á staðfestingu fjölmiðlalaganna lá fyrir ríkti mikil óvissa og ringulreið meðal stjórnarliða ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar um hvernig bregðast ætti við stöðunni. Ljóst var að mikill meirihluti þjóðarinnar var ákaft fylgjandi málskotsrétti forsetans og ætlaði sér síðan að hafna fjölmiðlalögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Gallupkönnun sem fór fram í lok maí sýndi að ríkisstjórnin nyti einungis stuðnings um 40% kjósenda.

Þjóðin nær undirtökum

   Í þessari stöðu varð Davíð ljóst að hann væri búinn að kveikja marga hættulega elda. Við blasti að þjóðin var þarna búin að ná undirtökunum um að hafa möguleika á miklum réttarbótum í endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ná fram málskotsrétti, geta haft aðkomu að höfnum laga og skerða þannig ráðherraræðið.

Fylgismenn fjölmiðlalaganna sáu að við þessu yrði að bregðast af fullkominni hörku. Ríkisstjórnin hafði öruggan meirihluta á Alþingi og Davíð Oddsson forsætisráðherra reyndi af fullri hörku í nokkrar vikur að ná samstöðu í stjórnarflokkunum um ný lög um þjóðaratkvæðagreiðslu og endurskoðun á fjölmiðlalögunum.

Ljóst er að Halldór Ásgrímsson ásamt Framsóknarflokknum hafnaði því alfarið að fylgja Davíð áfram á þessari braut. Þjóðin margefldist samhliða því í andófi sínu og hávær mótmæli risu um allt samfélagið sem varð til þess að ríkisstjórnin var kominn út í horn og neyddist þ. 20. júlí að draga fjölmiðlalögin tilbaka.

Krafan um endurskoðun stjórnarskrárinnar

   Útreið ríkisstjórnarinnar í fjölmiðladeilunni var skelfileg og varð m.a. til þess að forsetanum var afhent mun meira vald en stjórnskráin veitti honum. Davíð hafi óviljandi komið sér í þá stöðu að afhenda Ólafi Ragnari forseta neitunarvald þar sem Davíð vék sér undan lagalegri skyldu sinni um að bera fjölmiðlalögin undir þjóðina í samræmi við ákvæði Stjórnarskrárinnar. Barátta almennings hafði skilað fullkomnum sigri og tryggt málskotsréttinn.

Þessi staða varð til þess að kynda enn frekar undir kröfum þjóðarinnar um endurskoðun á gömlu stjórnarskránni og gagnrýnin beindist nú að þeim starfsháttum sem höfðu þróast á Alþingi. Þessi óheillavænlega þróun hafði orðið til þess að þingmenn voru í raun nánast valdalausir en ráðherraræðið þróast út fyrir ramma þingstjórnar og lýðræðis. Ríkisstjórnir störfuðu þannig undir gerræði og geðþóttaákvörðunum ráðherra. Setja ætti skýrar reglur um málskotsréttinn og ákvarða það hlutfall almennra kjósenda sem gæti án afskipta forseta eða Alþingis skotið málum til þjóðarinnar.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar fullyrtu hins vegar í nánast vonlausri stöðu að ráðherra hefði einn rétt til þess að úrskurða um störf forseta og synjunarvald hans. Þeir vildu að Alþingi lögfesti 75% þátttökulágmark í þjóðaratkvæðagreiðslum.

Andstæðingar ríkisstjórnarinnar bentu á að þetta slík skilyrði stæðist enga veginn lögfræðilega, þar sem það myndi færi í bága við 26. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Slíkar takmarkanir væru brot á mannréttindum og lýðræðishefð þar sem slík regla gæti ekki tryggt almennan og jafnan kosningarrétt allra atkvæðisbærra manna.

Í þessari stöðu var almennri skynsemi og réttlætiskennd þjóðarinnar misboðið þegar ráðherrar stigu fram og vildu setja sér hagstæðar og nýjar leikreglur í miðjum klíðum þegar mikilvæg mál væru tekin til umfjöllunar. Einsýnt væri að styðjast ætti við þá lýðræðishefð, sem lengi hefur ríkt í landinu, m.a. við forsetakosningar. Í þessu tiltekna dæmi kallast á margs konar sérfræðiviðhorf og heilbrigð skynsemi sem mynduðu öflugt mótvægi gegn hugmyndum eða tilraunum af þessu tagi.

Það kom fram hjá andstæðingum fjölmiðlalaganna að full ástæða væri til þess að rannsóknir færu fram á starfs- og rekstrarumhverfi fjölmiðla og jafnframt brýnt að fram færi umræða um hvaða breytingar þurfi að gera til þess að fjölmiðlar gætu sinnt aðhaldshlutverki sínu. Samþjöppun á eignarhaldi, markaðsvæðing og harðnandi samkeppni hefur sett mark sitt á fjölmiðla hér á landi og afskiptum fjármálaafla eins og víðast annars staðar.

Um þetta er m.a. fjallað í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og það þarf að ræða stöðuna á fjölmiðlamarkaði og koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun. Ekkert af þessu var gert og Mannréttindadómstóll Evrópu átti ítrekað eftir að dæma íslenska ríkið brotlegt gagnvart tjáningarfrelsi blaðamanna. Sama á við um Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni