Bylting eða skrílslæti?
Bylting bók Harðar Torfasonar um baráttu hans og útifundina er merk og þörf samtímasaga. Textinn er skýr og skipulega fram settur þar sem hann styðst við dagbækur sínar. Hörður nær mjög vel fram hugarfari í líðan þeirra fjölmörgu sem sóttu fundina allt frá því að hann stóð fyrir útifundum á Arnahól við hús Seðlabankans og þann fyrsta 11. október 2008. Hann breytti fyrirkomulagi fundanna 25. október og flutti þá yfir á Austurvöll á laugardagseftirmiðdögum og fundað þar vikulega þar til hann hafði náð fram öllum markmiðum sínum í mars 2009.
Hörður lagði mikla áherslu á að fundirnir væru friðsamlegir og hann lagði mikla vinnu í að velja ræðumenn, en átti oft í útistöðum við aðila sem vildu komast í ræðustólinn og beittu til þess margskonar brögðum og hótunum. Þar var áberandi tangarsókn skipulögð af spunameisturum stjórnmálaflanna með það markmið að koma að ræðumönnum og færa útifundina þannig yfir í pólitískan hanaslag sem myndi verða til þess að almenningur myndi ekki mæta. Vel þekkt aðferð við að leysa upp óþægilega umræðu. Einnig settu leiðinlegan svip á fundina tiltölulega fáir einstaklingar sem mætti til leiks með hulin andlit og stóðu fyrir allskonar háværum uppákomum, sem andstæðingar útifundanna nýttu til þess að tala fundina niður og afgreiða þá sem ómerkileg skrílslæti.
Reynsla Harðar af fyrri baráttufundum sem hann hafði staðið fyrir hafði kennt honum að setja fram skýr og fá markmið í friðsamlegum mótmælum. Hann lagði áherslu á 3 kröfur og tókst að náði þeim öllum fram. Hann krafðist þess að ríkisstjórn Geirs H. Haarde færi frá og fram færu kosningar. Stjórnir Seðlabankans og fjármálaeftirlitsins færu frá og unnið væri að breyttum stjórnarháttum, m.a. með endurnýjun stjórnarskrárinnar. Samhliða fundum Harðar þróaðist hin svokallaða „Búsáhaldabylting“, sem var reyndar í upphafi kölluð „Flísbyltingin“, sem átti eftir að verða heimsfræg og hafa mikil áhrif á þróun mála hér á landi.
Kannanir sýndu að meirihluti landsmanna studdi þessa útifundi og það sem þar fór fram. Kjarni fundanna var fólk sem hafði lent í miklum vandræðum, jafnvel gjaldþrotum vegna stökkbreytingu lána, atvinnumissi sem fylgdi efnahagshruninu. Fjölmargir höfðu látið starfsmenn bankanna ginna sig út í endurfjármögnun undir slagorðunum : „Losaði eins mikið af peningum og þú getur og leggðu þá inn á eignastýringarreikningana okkar. Við munum láta peningana þína vinna fyrir þig.“ Þessir reikningar gufuðu allir upp í efnahagshruninu við fall bankanna og stað þess að vera í tiltölulega góðri efnahagslegri stöðu var þetta saklausa fólk orðið stórskuldugt.
Almenningur varð fljótt þreyttur á aðgerðaleysi stjórnvalda á meðan bankarnir hrifsuðu til sín allar eigur hverrar fjölskylduna á fætur annarri og setti þúsundir heimili í gjaldþrot og í óyfirstíganlegt skuldafangelsi. Í yfirliti opinberra aðila sem síðar var birt kom fram að 9200 heimili höfðu verið sett á nauðungarsölu, auk þess að fjöldi fólks og þá helst meðal eldri borgara töpuðu öllum sínum ævisparnaði sem búið var að færa inn á eignastýringarreikningana. Hrunið leiddi yfir þjóðina skelfilegar hörmungar og þær verða ekki þagaðar í hel sögðu ræðumenn á útifundunum, en Geir H. Haarde og ráðherrar hans reyndu að fela þetta ástand og hvergi komu fram merki um iðrun eða afsökun til þjóðarinnar.
Róttækir mótmælendur mættu á útifundina og reyndu að hleypa þeim upp. Ofbeldisfull árás gegn lögreglunni á útifundi í janúar 2009 varð til þess hinir friðsömu gengu fram og mynduðu mannlegan varnarvegg milli lögreglu og ófriðarsegganna. Þetta voru mjög sterk og skýr skilaboð frá miklum meirihluta fundarmanna um að þeir myndi ekki líða að útifundirnir yrði yfirteknir af ofbeldisfólki.
Af hverju ekki verkföll?
Hörður hóf alla fundi með áminningu um að hann vildi friðsöm mótmæli og fundarhaldið tengdist með engum hætti stjórnmálaöflum eða hagsmunasamtökum. Ég var ásamt mörgum öðrum trúnaðarmönnum verkalýðsfélaganna fastur gestir á fundunum. Í ræðum á fundum var oft vísað til verkalýðshreyfingarinnar sem varð til þess að umræðuefni fundanna og mótmælin rötuðu inn á félags- og stjórnarfundi innan hreyfingarinnar, þar sem m.a. var rætt um hvort verkalýðshreyfingin ætti að hafa beina aðkomu að fundunum eða veita þeim fjárhagslegan stuðning. Þær umræður enduðu ávallt með tilvísun í upphafsorð Harðar á fundunum um að það mætti ekki tengja þessa baráttu með neinum hætti við einhver hagsmunasamtök, þá myndi hún leysast upp.
Spunameistarar stjórnvaldsins nýttu öll tækifæri til þess að saka Hörð um að vera leiguþý byltingarafla í þjóðfélaginu og gengi þannig gegn réttkjörnu stjórnvaldi með valdarán að markmiði, sem var einmitt helsta ástæða þess að hann taldi nauðsynlegt að vera ótengdur öllum hagsmunasamtökum. Þessi hræðsluáróður birtist víða.
Í umræðum um baráttu útifundanna voru oft send hvöss skeyti til verkalýðshreyfingarinnar og hún sökuð um að getu- og viljaleysi í baráttu almennings með því að grípa ekki til verkfalla og styrkja þannig stöðu mótmælafundanna. Verkalýðsleiðtogar væru getulausar landeyður, annað hefði verið upp á teningunum hér á árum áður þegar verkalýðsforingjar hefðu hiklaust beitt hiklaust verkfallsvopninu í baráttu við stjórnvöld. Í þessu sambandi er ástæða til þess að þessar ásakanir í garð verkalýðsforystunnar stóðst ekki þar sem Alþingi hafði vorið 1996 breytti vinnulöggjöfinni undir forystu Páls Péturssonar þáv. félagsmálaráðherra og sett svokölluð Pálslög.
Þar voru ný ákvæði um að ekki væri hægt að boða til verkfalls nema í tengslum við yfirstandandi kjaradeila og þá um vel skilgreind atriði sem hefðu verið kynnt félagsmönnum. Deilan væri formlega komin í hendur sáttasemjara og hann hefði gert árangurslausar tilraunir við að ná sáttum milli deiluaðila og síðast en ekki síst að félagsmenn viðkomandi stéttarfélags hefðu í allsherjaratkvæðagreiðslu samþykkt að fara í verkfall/verkbann. Í Pálslögum var þannig komið í veg fyrir verkfallsaðgerðir til þess að þvinga stjórnvöld til aðgerða. Helsta forsenda stjórnvaldsins fyrir þessum breytingum var einmitt að forysta verkalýðsfélaganna hefði ítrekað misnotað verkafallsvopnið til þess að koma höggi á pólitíska andstæðinga og ekki síður til þess að þvinga stjórnvöld til aðgerða í málum sem ekki væru tengd kjaradeilum. Ástæða er að halda því til haga að í flestum þeirra ríkja sem við viljum bera okkur saman við, búa ekki við svona hömlur á pólitískum mótmælum.
Öllum markmiðum náð
Búsáhaldabyltingin var á margan hátt einstakur atburður í sögu landsins og vakti heimsathygli og hingað streymdi fjöldi fjölmiðlamanna. Ræðuhöld og kröfur á fundunum urðu undirrót öflugrar umræðu í þjóðfélaginu um málefni sem lengi hafði staðið til að breyta. Mótmælin urðu til þess að stjórnmálamenn áttuðu sig á að þjóðin var tilbúin að rísa upp og sýna fram á að fólki var ofboðið. Þar kom fram hörð gagnrýni á þá stjórnarhætti sem höfðu viðgengust fyrir hrun. Talsmenn valdastéttarinnar kölluðu mótmælin gjarnan skrílslæti sem ætti að uppræta tafarlaust með hörku.
Almenningur náði hins vegar sínu fram þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt þann 29. janúar 2009. Skömmu síðar, eða 26. febrúar, var Svein Harald Øygard norskur sérfræðingur í efnahagsmálum settur í stól Davíðs Oddssonar sem bankastjóri Seðlabanka Íslands, eftir að lög um Seðlabankann voru samþykkt á Alþingi. Minnihlutastjórn Samfylkingar og VG tók við völdum.
Samstarfsyfirlýsing nýrra stjórnarflokka fól í sér markmið um að leysa fjölda þeirra mála sem höfðu verið gagnrýnd í mótmælunum. Fram að tíma búsáhaldabyltingarinnar höfðu stjórnvöld vanist því að þá sjaldan sem almenningur reis upp þá stóðu þau mótmæli ávallt einungis í örstuttan tíma og koðnuðu niður á skömmum tíma.
Búsáhaldabyltingin stóð hins vegar áfram og borgarar hafa ítrekað gripið til sinna ráða. T.d. þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáv. forsætisráðherra gekk fram af fólki í fréttaviðtali í Sjónvarpinu 3. apríl 2016 með augljósum ósannindum um bankareikninga sína á aflandseyjum. Það varð til þess að 22 þús. manns streymdu niður á Austurvöll og mótmæltu þar til Sigmundur Davíð sagði af sér.
Athugasemdir