Matur Lyf Peningar
Í flestum tilfellum eigum við mannfólkið ekki erfitt með að gera greinamun á því sem er rétt og rangt sérstaklega þegar munurinn er mjög augljós. Yfirlett gildir um það mikill samhugur á meðal fólks hvað sé siðferðilega rétt og hvað sé rangt. Ekki lemja, ekki meiða, ekki stela, ekki ljúga, aðstoða þá sem þurfa og biðja um hjálp og þar fram eftir.
Þar sem að við flest lifum samkvæmt þessum grunn siðferðilegu gildum þá er stundum eins og við teljum okkur stikkfrí frá því sem við gerum og tökum ákvarðanir um í okkar hversdagslega lífi. Þetta á vel við um viðhorf okkar gagnvart mat, lyfjum og peningum.
Við borðum dýr og afurðir þeirra í miklu magni þrátt fyrir að þessi dýr séu skyni gædd, félagslynd og hver um sig sé lifandi einstaklingur. Þar að auki virðist fólk ekki víla fyrir sér að kaupa sér beikon eða kjúkling þrátt fyrir að meðferð þessara dýra sé með öllu óverjandi. Í ofanálag er neysla þessa matar hvorki góð heilsu okkar né umhverfinu.
Við bönnum með lögum framleiðslu, innflutning og sölu á mörgum lyfjum eins og til dæmis kannabisefnum með þeim afleiðingum að allt það ferli fer fram í undirheimum með gríðarlega slæmum afleiðingum fyrir einstaklinga og samfélag. Þessu banni eru margir fylgjandi þrátt fyrir aragrúa raka, staðreynda og vísindarannsókna sem sýna fram á að mörg þessara lyfja, eins og til dæmis kannabis, séu í samanburðum skaðminni en áfengi og tóbak og að regluverki þeirra væri mun betur komið fyrir á löglegum markaði með tilliti til sjónarmiða heilsufars, fjárhags og borgaralegra réttinda.
Öll elskum við peninga og leggjum fram krafta okkar drjúgan hluta úr lífinu til þess að fá peninga. Enda eru peningar mjög öflugt fyrirbæri sem við getum skipt fyrir næstum hvað sem er, meðal annars mat og lyf. Þó við finnum mörg fyrir skyldu til þess að hjálpa fólki í neyð þá virðist sem það eigi hvað mest við um fólk sem við þekkjum eða er okkur nær. Tilhneiging okkar til þess að hjálpa virðist dvína þegar fólkið er fjær okkur í rúmi þrátt fyrir að yfirleitt þurfi mun minna til til þess að hjálpa því fólki. Eða, með öðrum orðum, við getum hjálpað mun fleira fólki í fátækum löndum fyrir pening sem myndi aðeins hjálpa mjög fáum hér heima við.
Matur, lyf og peningar þurfa að ná hærri siðferðisvitund hjá okkur með því að við borðum færri dýr, leyfum fleiri lyf og gefum meiri pening til bágstaddra. Þannig takmörkum við þjáningu dýra, hlúum að betra samfélagi og bætum líf og heilsu fólks.
Athugasemdir