Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Legslímuhúð á flakki

Legslímuhúð á flakki

Legslímuhúð er afar sérstakur líkamsvefur sem þekur innra lag legsins hjá konum. Hjá konum á barneignaaldri þá vex legslímuhúðin og þykknar og brotnar síðan niður og er skolað útúr líkamanum í gegnum leggöngin í ferli sem er þekkt sem blæðingar eða túr. Þessi hringrás, sem er þekkt sem tíðarhringurinn, á sér stað með reglubundum hætti á um 28 daga fresti. Ef að frjóvgað egg á leið framhjá legslímuhúðinni á réttu augnabliki (á um það bil degi 21-23 í tíðarhringnum) þá getur það fest rætur í legslímuhúðinni. Þá brotnar legslímuhúðin ekki niður og skolast út heldur tekur þátt í að búa og hlúa að fóstri meðal annars með því að byggja upp fylgjuna.

Þótt legslímuhúð megi finna í öllum fylgjuspendýrum þá eru afar fá fylgjuspendýr sem losa sig við niðurbrotna legslímuhúðina líkt og við mannfólkið heldur taka þau hana upp í gegnum líkamann og fara því ekki á eiginlegar blæðingar. Þær tegundir, fyrir utan mannfólk, sem fer á blæðingar eru apategundirnar fjórar sem eru náskyldastar okkur, simpansar, bonobo, górillur og órangútanar. Önnur dýr sem sýna líkamleg tilbrigði sem líkjast blæðingum eru ávaxtaleðurblökur og fílasnjáldrur en óvíst er hversu sambærilegar blæðingar þeirra eru blæðingum manna og annarra apa.

Eftir að konur byrja á blæðingum getur komið fyrir að frumur úr legslímuhúð nái að festa rætur fyrir utan legið, yfirleitt í legholinu; til dæmis við þvagblöðruna, á eggjastokkunum, eða í rými á milli legs og endaþarms. Þar halda þessar legslímuhúðfrumur sýnu hefðbundna lífsmynstri; byggjast upp og brotna niður samtsíga tíðarhringnum á röngum stað í líkamanum og losna ekki út. Konur með slík tilvik eru með sjúkdóm sem nefnist legslímuflakk eða endómetríósa. Þótt sjúkdómurinn legslímuflakk sé búinn að vera þekktur lengi og rannsakaður að takmörkuðu leiti þá er ekki vitað með vissu hvernig hann er tilkominn. Helsta og líklegasta skýringin er að þegar legslímuhúðin brotnar niður þá flæðir hún að hluta upp eggjaleiðarana og inn í legholið. Þessi skýring er þó ekki fullnægjandi því margar konur verða fyrir þesskonar bakflæðisblæðingum án þess þó að þróa með sér legslímuflakk.

Helstu einkenni legslímuflakks eru sársauki í kviðnum, meðal annars óbærilegur sársauki í kringum blæðingar sem og sársauki við samfarir. Sársaukinn sem getur fylgt legslímuflakki í kringum blæðingar er ekki í líkingu við hefðbundna túrverki þar sem væg verkjalyf sýna litla sem enga virkni og konur geta verið rúmfastar og frá vinnu nokkra daga í hverjum mánuði. Önnur alverleg eikenni legslímuflakks er ófrjósemi. Sjaldgæfari einkenni eru sársauki við hægðir og þvaglát. Einkenni legslímuflakks eru mismunandi og mismikil á milli tilvika en öllum ætti að vera ljóst af þessari upptalningu, sem ekki er tæmandi, að þau eru afar lýjandi fyrir konur sem hafa þau.

Meðferð við legslímuflakki er verulega ábótavant en þó eru til lyf sem ná að lina sársaukann fyrir suma einstaklinga en lyfjunum fylgja þó gjarnan óæskilegar aukaverkanir. Fyrir konur sem glíma við ófrjósemi getur hjálpað að reyna tæknifrjóvgun. Gegn sársaukanum og til að auka líkur á barneign geta konur gengist undir speglunarskurðaðgerð þar sem legslímuhúðfrumur utan legs eru fjarlægðar. Eina leiðin til að bera kennsl á sjúkdóminn af einhverju öryggi er einnig með speglun. Vegna þess hve erfitt er að greina sjúkdóminn og vegna þess að fagmenn innan læknastéttarinnar eru ekki nógu meðvitaðir um sjúkdóminn þá líða oft mörg ár, að jafnaði um 5-7 ár, frá því að einkenni koma fram og þar til greining fæst. Ekki er ýkja langt síðan að stúlka segir frá því að hún var send heim frá Barnaspítalanum með þá greiningu að hún væri með prófkvíða þegar hún var í raun með verki sem hún var búin að glíma við í mörg ár vegna legslímuflakks.

Legslímuflakk er miklu algengari sjúkdómur heldur en fólk gerir sér grein fyrir ef það þá yfirleitt veit af tilvist hans en talið er að um 5-10% kvenna á barneignaaldri sé með legslímuflakk. Það gerir um 170 milljón konur á jörðinni. Það er erfitt að áætla nákvæmann fjölda þeirra kvenna sem eru með legslímuflakk en ljóst er að þetta er algengur sjúkdómur og haft hefur verið á orði að ef sambærilegur sjúkdómur myndi hrjá karlkynið myndu allir vita af honum, rannsóknir væru í forgangi og sjúklingar myndu nær allir fá víðtækan stuðning frá ríki, vinnuveitendum, vinum og fjölskyldu. 


Haft hefur verið á orði að ef sambærilegur sjúkdómur myndi hrjá karlkynið myndu allir vita af honum, rannsóknir væru í forgangi og sjúklingar myndu nær allir fá víðtækan stuðning frá ríki og vinnuveitendum.


Það er ótækt að svo margar konur þjáist af þessum sjúkdómi og hafa gert í hundruðir ára. Og ef þessi sjúkdómur er jafn slæmur og raun ber vitni fyrir þær konur sem búa í velmegandi og þróuðum ríkjum þá er ekki erfitt að ímynda sér að hann er líklega mun verri þar sem réttindi kvenna eru hverfandi og blæðingar einar og sér eru algjört tabú. Samtök um endómetríósu er félag á Íslandi sem hefur það að markmiði að veita konum með legslímuflakk og aðstendendum stuðning og fræðslu og á mikið hrós skilið.

Ég hef ákveðið að leggja mitt af mörkum til að hjálpa þeim sem glíma við legslímuflakk með því að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og safna áheitum til styrktar Samtök um endómetríósu. Díllinn er að ég borga 4900 krónur fyrir að taka þátt í hlaupinu og hleyp 10 km og það eina sem þið þurfið að gera er að heita á mig, eða hvern annan sem hleypur fyrir sama málstað, með fjárframlögum. Hvert framlag skiptir sköpum og hefur mætti til að hjálpa mörgum einstaklingum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni