Atli Már flytur hressilegar skammir um verkefnin í Reykjanesbæ og sakir á fyrrverandi og núverandi bæjarstjórnir. Allir virðumst við vera mismunandi miklir aular. Bara fínt að minna mann á það☺
En gagnrýnin stendur saman af fullyrðingum sem eru að mínu mati einhverjar réttmætar, fleiri orka tvímælis og enn aðrar hrein della.
Allavega er ekki sanngjarnt að úthúða einstaklingi sem hefur barist fyrir byggingu USC kísilversins, vegna þess að hingað eru sendar fréttir af ætluðum misgjörðum hans í Danmörku án þess að heyra hans hlið á málum. Alvarlegra er ef hann ætlar að svíkja loforðið, sem jákvæðni bæjaryfirvalda byggði á, það er að verið væri að skapa störf sem skiluðu álíka launum og í álverum. Mjög lágt verð á kísilmörkuðum afsakar það ekki að mínu mati - og um margt mætti því kalla það forsendubrest. Við skulum fá þetta skýrar fram áður en dæmt er. Um fegurð eða ljótleika bygginga er erfiðara að hafa „almenna“ skoðun á en þar er ég nær Atla í fegurðarsmekk en ýmsum öðrum. Mörgu í útliti bygginga er hægt að breyta og mér finnst ekki búið að klára það mál gagnvart þessu verkefni. Fullyrðingar um „mengun“ er búið að rökræða og meirihluti kjósenda sagði sitt álit í íbúakosningu.
Það er algerlega út í hött að gera lítið úr uppbyggingunni á Ásbrú, sem hefur einmitt fóstrað flest af því frumkvöðlastarfi sem unnið er að í Reykjanesbæ, eða gera lítið úr Keili sem hefur veitt nær 3700 einstaklingum ný tækifæri með hagnýtri menntun. Tæknifræði og tenging við þjálfun starfsfólks í kísilverum er vissulega eitt þeirra tækifæra, rétt eins og Keilir kennir flugvirkjun og flugnám.
Nýleg könnun á meðal íbúa sýnir að á Ásbrú eru langflestir íbúar ánægðir með aðstæður. Sölu eigna eftir brotthvarf varnarliðsins var seinkað verulega meðal annars fyrir tilstilli bæjaryfivalda en nú eru fjölmargir aðilar að kaupa þar eignir og byggja upp. Það er rangt að dæma þá alla með því að segja slæmar sögur af einhverjum þeirra.
Þá er oft vinsælt að kenna „peningaköllunum“ um það sem menn eru ekki ánægðir með – eins og mæla í stað hemla hjá Hitaveitunni. Þeir eru ákvörðun HS veitna. Það er félag í meirihlutaeigu sveitarfélaga, og því ekki við neina „peningakalla“ að sakast. Mælar eru til dæmis notaðir í Reykjavík og verð á heitu vatni er mjög samkeppnishæft hér.
„Horfum á uppbygginguna síðasta áratug. Reykjanesbær á miklar eignir, myndarlegar skólabyggingar, íþróttamannvirki og menningarhús“
Um að hér sé búið að skemma alla innviði – er að mínu mati alger rökleysa. Horfum á uppbygginguna síðasta áratug. Reykjanesbær á miklar eignir, myndarlegar skólabyggingar, íþróttamannvirki og menningarhús, þótt form eignarhalds hafi verið í gegnum sameiginlegt félag margra sveitarfélaga, sem nú er að fullu í eigu Reykjanesbæjar. Hér er búið að byggja upp skólakerfi sem er á við hið besta í landinu. Reykingar, áfengis- og fíkniefnaneysla hefur stórlega dregist saman á meðal unglinga, þótt alltaf þurfum við að vera á verði. Hér eru góðar almenningssamgöngur, gatnakerfið og umhverfið til fyrirmyndar. Þetta eru sterkir innviðir til að byggja á. Bæjarfélagið er skuldugt vegna mikilla fjárfestinga af því að við vildum styrkja innviði og fjölga möguleikum í atvinnumálum. Það er hættulegt að byggja á einni atvinnugrein. Við þekkjum það úr fortíð- hvort sem hún hét „varnarliðið,“ „þorskkvóti,“ „ferðaþjónusta,“ „frumkvöðlastarf“ eða „verksmiðjur“ en fleiri stoðir geta tryggt íbúum betri og jafnari efnahag. Tekjur streyma nú inn til bæjarins vegna aukins íbúafjölda og fleiri atvinnutækifæra. Tekjurnar eru langt umfram áætlanir.
Að allt hið góða í samfélaginu sé að deyja hægt og bítandi er vonandi bara stundartilfinning Atla Más. Samfélag okkar er vaxandi og það er að blómstra. Á leiðinni höfum við barist og byggt upp, gert mistök en haldið áfram og á heildina litið byggt upp gott samfélag. Gagnrýni er samt nauðsynleg – hún lætur mann staldra við og spyrja sjálfan sig gagnrýnna spurninga.
Athugasemdir