Ég átti afmæli í gær og ég fór í KFC í gær,“ hrópaði Muhammed Zohair Faisal, sjö ára skólastrákur, í hljóðnema í skólanum sínum í Vesturbæ Reykjavíkur í febrúar árið 2020. Hann var glaður þó að viðstaddir vissu að skuggi hvíldi yfir. Það stóð nefnilega til að vísa Muhammed og fjölskyldu hans úr landi nokkrum dögum eftir sjö ára afmælið hans.
Það var margt fólk í Vesturbæjarskóla þennan dag í febrúar árið 2020. Fólkið sem kom til að sýna honum og foreldrum hans samstöðu. Fjölskyldan hafði búið á Íslandi í tvö ár. Nokkrum dögum síðar var fallið frá brottvísuninni en þá höfðu 14 þúsund manns skrifað nafn sitt undir bréf til dómsmálaráðherra þar sem farið var fram á að fjölskyldan fengi vernd á Íslandi. Það virkaði.
Muhammed var einn af þeim fáu heppnu því börn sem fá skjól hér eru miklu færri en þau sem vísað er úr landi.
Ali, Kayan, Saja og Jadin
Mánuði síðar var mótmælt á Austurvelli. Þá hafði kærunefnd útlendingamála hafnað beiðni um endurupptöku á máli ungra systkina frá Írak sem flúðu þaðan þremur árum fyrr ásamt foreldrum sínum. Systkinin Ali, Kayan, Saja og Jadin voru þá níu, fimm, fjögurra og eins árs. Foreldrar þeirra höfðu flúið pólitískar ofsóknir í Írak. Fjallað var um málið í fjölmiðlum. Nokkrum dögum síðar var fallist á endurupptöku í máli þeirra.
Þau sem hafa ákvörðunarvaldið. Þau sem eru mest meiri máttar ákváðu að veita foreldrum barnanna fjögurra sem öll eru minni máttar frekari áheyrn. Þau voru eins og Muhammed og fjölskylda meðal þeirra fáu heppnu.
Kevin Pepaj
Árið 2015 var birt mynd af Kevin, þriggja ára langveikum albönskum strák sem vakti mikla athygli.
Á henni stendur Kevin litli í útidyrum heimilis síns í Hlíðunum í Reykjavík. Hann heldur á tuskudýri sem var gjöf frá íslenskum vinum hans. Verið var að fjarlægja hann, fimm ára systur hans og foreldra þeirra af heimili sínu til að flytja hana úr landi. Blaðamaður og ljósmyndari fylgdu fjölskyldunni eftir út á flugvöll og lýstu atburðarásinni. Myndin af Kevin litla í dyragættinni, þar sem hann starir út í myrkrið og bíður eftir lögreglunni, vakti mikil viðbrögð í samfélaginu.
En Kevin var einn hinna örfáu heppnu. Hann fékk að koma aftur og er á Íslandi með fjölskyldu sinni.
Yazan Tamimi
„Þið hljótið að hafa farið með mig til himnaríkis,“ sagði Yazan Tamimi við foreldra sína þegar hann mætti í Hamraskóla í fyrsta skipti fyrir ári síðan en þar beið hans bréf þar sem krakkar í bekknum hans buðu hann velkominn.
Aðfaranótt mánudagsins 16. september síðastliðinn var Yazan vakinn að nóttu til þar sem hann svaf í Rjóðrinu, hjúkrunar- og endurhæfingardeild Landspítala fyrir langveik börn. Yazan er með hrörnunarsjúkdóm. Lögregla var komin til að fylgja honum og foreldrum hans í Leifsstöð og þaðan til Spánar.
Við þekkjum það sem gerðist í kjölfarið. Dómsmálaráðherra, sú sem er meiri máttar, ákvað að fresta brottför.
Hinar sögurnar sem eru miklu fleiri fáum við sjaldan að heyra. Sögur þeirra sem fá ekki að vera hér, þeirra sem eru send úr landi.
Árið 2017 var reglulega í fjölmiðlum fjallað um Leo litla. Hann var 18 mánaða. Mamma hans var ólétt þegar umsókn þeirra um alþjóðlega vernd var hafnað. Hún er írönsk, pabbinn íraskur en þau líta á sig sem Kúrda. Þau höfðu verið á Íslandi í tæp tvö ár og höfðu skírst til kristinnar trúar. Fyrst eftir að fjölskyldan var send úr landi dvaldi hún í tjaldi í skógi í Frakklandi.
Ekki hefur verið greint frá því hvar þau eru í dag.
Hjal hinna forréttindablindu
Yazan eins og hin sem bíða hér milli vonar og óttar um hvort þau verði send burtu eiga það sameiginlegt að vilja eiga heima hér.
Er ekki vilji allt sem þarf?
Hver er sinnar gæfu smiður og allt það.
Eða er þetta með að vilji sé allt sem þarf bara hjal fullorðins fólks sem er blint á eigin forréttindi?
Frænkan í skáldsögunni Dýralíf eftir Auði Övu Ólafsdóttur hafði að minnsta kosti litla trú á hinum fullorðnu í þessum heimi.
„Þótt frænka mín tryði ekki á manninn trúði hún á barnið.“
Hvað bíður þessara barna?
Fyrstu átta mánuði þessa árs var 225 börnum sem eru yngri en þrettán ára synjað um efnislega meðferð. Á sama tíma fékk 51 barn yngra en þrettán ára efnislega meðferð, samkvæmt tölfræði verndarsviðs Útlendingastofnunar.
Fimmtíu börnum á aldrinum 14 til 17 ára var synjað um efnislega meðferð á sínum málum, 27 fengu efnislega meðferð.
Alls var 275 börnum því synjað um efnislega meðferð fyrstu átta mánuði ársins. Við vitum ekki nákvæmlega hve mörgum þeirra er búið að vísa úr landi.
En við vitum að 275 börn sem vildu vera hér fá það líklega ekki.
275 sögur sem við fáum líklega aldrei að heyra.
Hvað bíður þessara barna er óvíst. Þau eru ýmist farin úr landi eða bíða milli vonar og ótta eftir að vera sagt að fara eða sótt, kannski í skjóli nætur. Þau vita kannski ekki hvenær. Við vitum það ekki, getum bara sótt tölur. Börnin eru tölfræði sem finna má á vef verndarsviðs Útlendingastofnunar.
En við vitum að um 50 milljónir barna í heiminum eru á flótta.
Við vitum að tvær milljónir barna fæddust inn í þann veruleika í fyrra.
Við vitum að hungur vofir yfir á þriðja hundrað þúsund börnum í Súdan.
Við vitum að tvö þúsund úkraínsk börn hafa verið drepin í átökum í landinu.
Við vitum að það er búið að drepa 14 þúsund börn á Gaza.
Við vitum að 10 milljónir barna í Súdan eru í miðju stríðsátaka.
Við vitum að börn eru líka að deyja daglega í átökum fullorðinna meðal annars í Burkina Faso og Kongó.
Ranglæti hinna meiri máttar
„Hann grét einsog börn gráta því aðeins þau verði fyrir ránglæti af þeim sem eru meiri máttar, sá er sárastur grátur á jörðu.“
Svo segir í fyrsta kafla Kraftbirtíngarhljóms guðdómsins í Heimsljósi Halldórs Laxness.
Aðeins örlítill minnihluti þeirra barna sem gráta sárast á jörðinni, börn sem hafa neyðst til að flýja heimili sín, koma til Íslands. Sömuleiðis lítill hluti þeirra sem láta á það reyna. Því hindranir á leiðinni hingað eru margar, bæði náttúrulegar og mannanna verk.
Sama gildir um að fá að vera hér ef þau hafa komið við annars staðar á leiðinni. Vísað er í reglugerð. Mannanna verk. Brottvísun á börnum í viðkvæmri stöðu er mannanna verk. Menn sem eru mest meiri máttar taka ákvörðun um að senda úr landi þau sem mega sín minnst.
Langar að skella í lás
Á sama tíma og fimmtíu milljón börn eru á flótta í heiminum eru mörg lönd að herða reglur í flóttamannamálum. Það er ekki búið að skella í lás en hurðin stendur í hálfa gátt. Og ýmsum hægriöfgaflokkum í Evrópu dreymir um að skella í lás. Hófsamir hægriflokkar víða um álfuna hafa svo verið að færa sig nær flóttamannastefnu öfgaflokkanna.
„Við höfum séð þetta alls staðar í Evrópu og þar með talið í Svíþjóð. Hefðbundnir hægriflokkar og flokkar á miðjunni hafa að einhverju leyti tekið upp svipaða orðræðu um flóttamannamál og flokkar sem eru yst á hægri vængnum. Í mörgum löndum hefur þetta orðið til þess að tekin er upp harðari flóttamannastefna,“ segir Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö, í Heimildinni í dag.
Hún og fleiri viðmælendur Heimildarinnar segja að það skipti líka máli hvaðan fólk komi. Sömu stjórnmálamenn og vilja herða reglur og lög vegna hælisleitenda og flóttafólks hafi ekki fett fingur út í komu úkraínsks flóttafólks. Og þau tala um menningarstríð.
„Það er ýjað að því að sumt fólk sem hingað kemur til að freista þess að fá hér skjól sé óæskilegt. Yfirleitt eru það hælisleitendur eða flóttafólk sem eru múslímar eða þau eru brún eða svört,“ segir Miriam Petra Ómarsdóttir Awad fjölmenningarráðgjafi.
Markaðssetji sig sem flokka hinna vinnandi stétta
Þá reyna stjórnvöld víða um heim að telja fólki trú um að flóttafólk og hælisleitendur muni ræna störfum þeirra, taka yfir samfélagið.
Einnig er tönnlast á því að kostnaður við hælisleitendakerfi sé gífurlegur. Ríkiskassinn þoli það illa. Þetta komi niður á fátæku innfæddu fólki, öryrkjum, einstæðum foreldrum, fólki á leigumarkaði.
„Öfgahægriflokkar sem eru með harða innflytjendastefnu markaðssetja sig sem flokk hinna vinnandi stétta,“ segir Gunnhildur Lily, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö.
„Þeir stilla því þannig upp að ekki sé hægt að taka á móti flóttamönnum og á sama tíma halda uppi sæmilegu velferðarkerfi. Þennan málflutning má heyra um alla Evrópu,“ segir hún.
Yngri kynslóðir fái hatursorðræðu beint í æð
Þessi umræða hefur oft verið nokkuð hávær á Íslandi. Sumir stjórnmálamenn hafa nefnt þetta oft. Kostnaður var einhvers konar lykilstef í umræðu um hælisleitendur í fyrra og innviðir sem séu að bresta.
Og athugasemdakerfi samfélagsmiðla eru stundum löðrandi í slíku tali. Þar má einnig reglulega lesa afar hatursfull ummæli í garð flóttafólks og hælisleitenda. Miriam Petra Ómarsdóttir Awad fjölmenningarráðgjafi segir að neikvæð orðræða stjórnmálafólks á Íslandi um flóttafólk og hælisleitendur leki yfir allt samfélagið, komi sér meðal annars fyrir í skólastofum grunnskóla. Hún segir að slík orðræða smiti hættulega mikið út frá sér. „Það er mjög mikilvægt að ráðamenn tali af virðingu um allt fólk hvaðan sem það kemur. Við megum ekki líta fram hjá því að yngri kynslóðir eru líka að fá þetta beint í æð.“ Þetta eigi við um orðræðu sumra stjórnmálamanna en einnig sumra fullorðinna sem láti út sér hatursfull orð í garð hælisleitenda og flóttafólks.
Við sofum í hlýjum rúmum og erum aldrei svangar
Þessi tónn í umræðunni er þó ekki nýr af nálinni þó búið sé að hækka styrkinn í græjunum síðustu ár. Það hefur gerst í takt við aukinn fjölda fólks sem leitar skjóls hér.
Í dag hafa 5,2 milljónir sýrlenskra barna neyðst til að flýja. Rúmur helmingur flúði úr landi. Hin eru á vergangi í Sýrlandi.
Árið 2015, þegar tæpar 4 milljónir Sýrlendinga höfðu neyðst til að flýja stríðsátök í heimalandinu, fór af stað umræða hér um að við þyrftum nú fyrst að setja súrefnisgrímuna á okkur áður en við færum að bjarga öðru fólki. Talað var um að þessi þróun væri hættuleg fyrir fátækt fólk á Íslandi.
Þá settist Hlédís Sveinsdóttir, einstæð móðir á Akranesi, við tölvuna og skrifaði status.
„Hæ. Ég heiti Hlédís og er einstæð móðir (meiri að segja bara eina foreldrið) og í leiguhúsnæði. Ég tók á mig gríðarlegan skell fjárhagslega fyrir fjórum árum sem ég er að klára að vinna mig út úr. Ég á að vera sú stærð sem hefur hvað verst kjör. Gott og vel.
Við mæðgur erum ekki í lífshættu, enginn hefur ætlað sér að drepa okkur, ég hef vinnu, dóttir mín fær góða þjónustu frá hinu opinbera, við sofum í mjúkum og hlýjum rúmum og við erum aldrei svangar.
Umræða sumra um að við getum ekki hjálpað flóttafólki því við eigum svo bágt gerir mig sorgmædda. Hún er okkur til minnkunar, okkur öllum en sérstaklega þeim sem láta þetta út úr sér. Okkur er ekki vorkunn.
Manneskjunum, ungum sem öldnum, er vorkunn sem þurfa að yfirgefa land sitt og láta lífið við það vegna framtaksleysis okkar. Þetta er ekki heimsmynd sem ég vil skýra út fyrir 4 ára dóttir minni. Getum við - vinsamlega - hafið okkur yfir þetta og hjálpað. Takk.“
Athugasemdir