Samfylkingin mælist með fleiri þingmenn en stjórnarflokkarnir til samans

Ef kos­ið yrði í dag myndu stjórn­ar­flokk­arn­ir þrír fá 19 þing­menn en Sam­fylk­ing­in 21. Sam­eig­in­legt fylgi flokk­anna sem mynda rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur hef­ur aldrei mælst minna.

Samfylkingin mælist með fleiri þingmenn en stjórnarflokkarnir til samans
Horft til himins Flokkur Kristrúnar Frostadóttur fer áfram með himinskautum í skoðanakönnunum nú þegar styttast fer í kosningar. Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er eini flokkurinn utan Samfylkingarinnar sem bætt hefur við sig fylgi á kjörtímabilinu. Mynd: Golli

Samfylkingin mælist með mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan í apríl 2009, eða í 15 ár. Alls segjast 30,9 prósent aðspurðra að þeir myndu kjósa flokk Kristrúnar Frostadóttur ef kosið yrði í dag. Yrði það niðurstaða kosninga myndi fylgi Samfylkingarinnar rúmlega þrefaldast frá síðustu kosningum sem fram fóru í september 2021 og þingflokkurinn færi úr sex í 21 manns. Frá þessu er greint á vef RÚV.

Fylgið er nánast það sama og allir ríkisstjórnarflokkarnir mælast með til samans, en 31,1 prósent landsmanna segja að þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn eða Vinstri græna. Það er minnsta sameiginlega fylgi sem þeir hafa mælst með frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð seint á árinu 2017, 2,3 prósentustigum minna fylgi en flokkarnir þrír mældust með fyrir mánuði og 23,3 prósentustigum minna en í síðustu kosningum. 

Vegna þess kosningakerfis sem er í gildi, og hyglir stórum flokkum á kostnað þeirra sem fá minna fylgi, myndi það fylgi þó skila stjórnarflokkunum færri þingmönnum en Samfylkingunni, eða 19 samtals. 

Allir í vanda og samstarfið í uppnámi

Könnunin birtist á sama tíma og stjórnarsamstarfið er í uppnámi vegna þess að forsætisráðherrann sem leiðir ríkisstjórnina, Katrín Jakobsdóttir, er að hugleiða af mikilli alvöru að bjóða sig fram til forseta Íslands.

Miðað við stöðu mála í könnuninni þá myndi hún skilja við flokk sinn í fremur erfiðri stöðu, en fylgi Vinstri grænna mælist einungis 5,6 prósent. Það myndi skila flokknum þremur þingmönnum samkvæmt útreikningum Gallup sem er þremur fleiri en Vinstri græn mældust með í lok febrúar þegar stuðningur við flokkinn fór undir fimm prósent í fyrsta sinn frá því að fyrirtækið hóf að mæla fylgi hans. 

Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með rétt yfir 18 prósent fylgi í þriðja sinn á fjórum mánuðum í könnunum Gallup og missir 1,7 prósentustig frá síðustu mælingu sem skilar honum í 18,2 prósent fylgi. Það myndi þýða að þingmönnum flokksins myndi fækka úr 17 í tólf. Framsóknarflokkurinn fær sína verstu mælingu síðan í september 2020 og nýtur nú stuðnings 7,3 prósent kjósenda, sem myndi skila honum fjórum þingmönnum, eða níu færri en settust á þing fyrir hann eftir kosningarnar 2021 þar sem flokkurinn vann stórsigur með 17,3 prósent atkvæða. 

Miðflokkurinn áfram á siglingu

Miðflokkurinn er eini flokkurinn fyrir utan Samfylkinguna sem hefur bætt við sig fylgi á kjörtímabilinu. Hann mælist nú með nánast sama fylgi og hann var með fyrir mánuði, eða 12,9 prósent. Það er umtalsverð bæting frá síðustu kosningum þegar flokkurinn fékk 5,4 prósent og þingmönnum hans myndi fjölga úr tveimur í tíu. Í þeim tölum er tekið tillit til þess að Birgir Þórarinsson yfirgaf flokkinn og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn skömmu eftir kosningarnar 2021 eftir ágreining við flokksforystuna. 

Píratar mælast nú með 7,8 prósent fylgi, Viðreisn með 7,1 prósent og Flokkur fólksins með 6,2 prósent. Það myndi skila Pírötum fimm þingmönnum en hinum tveimur fjórum þingmönnum hvor. Sósíalistaflokkur Íslands mælist svo með 3,9 prósent fylgi en heilt ár er liðið síðan að hann mældist með yfir fimm prósenta fylgi sem myndi duga til að ná kjördæmakjörnum manni inn á þing.

Kapall ef forsætisráðherra fer í forsetaframboð

Komið hefur skýrt fram hjá forystufólki stjórnarflokkanna að endurmeta þurfi stjórnarsamstarfið ef Katrín ákveður að fara í forsetaframboð, sem þykir afar líklegt sem stendur. Hvað það þýðir nákvæmlega á þó eftir að koma í ljós en fyrir liggur að nær útilokað er að Vinstri græn haldi forsætisráðherrastólnum láti Katrín verða af framboði. Hún er langvinsælasti stjórnmálamaðurinn innan flokksins og sá ráðherra sem flestir landsmenn treysta. Seta hennar á forsætisráðherrastóli byggir á persónufylgi hennar, sem er þverpólitískt, og sambandi hennar við leiðtoga hinna stjórnarflokkanna. Líklegast er að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, yrði þá forsætisráðherra.

Ofan á þessa krísu þarf stjórnin að takast á við vantrauststillögu á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra vegna hvalveiðimálsins í næstu viku. Til að höggva á þann hnút þyrfti Svandís að færa sig til og gæti þá tekið við innviðaráðuneytinu af Sigurði Inga og annar úr þingflokki Vinstri grænna yrði kallaður til inn í matvælaráðuneytið.

Takist ríkisstjórninni ekki að finna lausn á brotthvarfi Katrínar og sigla í gegnum vantrauststillöguna á Svandísi blasir ekkert annað við en kosningar. Verði niðurstaða þeirra í takt við könnun Gallup er öruggt að sitjandi ríkisstjórn er kolfallinn. 

Fjögurra flokka stjórn í kortunum

Samfylkingin, sem mælst hefur stærsti flokkur landsins í öllum könnunum Gallup frá því í byrjun síðasta árs, væri þá í langbestu stöðunni til að mynda ríkisstjórn. Þar ætti hún möguleika á að mynda tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum en fátt bendir til þess að Kristrún Frostadóttir sé að horfa til þess. Hún sagði í viðtali við Kjarnann árið 2022 að það lægi fyrir að neit­un­ar­valdið gagn­vart þeim aðgerðum sem Samfylkingin vill ráð­ast í hefur legið hjá Sjálf­stæð­is­flokkn­um. „Ég væri að binda hendur mínar stór­kost­lega gagn­vart öllum stærstu umbótum sem þarf að gera ef ég myndi fara í rík­is­stjórn­ar­sam­starf og fjár­mála­ráðu­neyt­inu yrði haldið óbreyttu. Mið-vinstri­st­jórn er aug­ljós­lega það sem við viljum sjá. Það er það sem þarf að ger­ast. Það þarf að breyta um for­ystu og það þarf jafn­að­ar­menn í hana. Mér finnst það lyk­il­at­rið­ið.“

Miðflokkurinn liggur ansi fjarri Samfylkingunni í áherslum og því er sennilegast að horft yrði til þess að mynda stjórn með öðrum flokkum en honum. Þar koma margir til greina í stöðunni eins og hún er nú, en Samfylkingunni vantar að óbreyttu ellefu þingmenn til að geta myndað minnsta mögulega meirihluta. Þá þyrfti hún að sækja til að minnsta kosti þriggja af fimm flokkum sem saman mælast með 20 þingmenn. Þeir eru Píratar með sína fimm þingmenn, Framsókn, Viðreisn eða Flokkur fólksins með sína fjóra hver eða Vinstri græn sem mælast með þrjá. 

Kjósa
41
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu