Hélt að þau myndu segja „Guð blessi Grindavík“
Lífinu snúið á hvolf Hulda segir lífið komið á hvolf eftir að hún þurfti að flýja Grindavík. Dagarnir líði hjá jafnvel án þess að hún hafi gert neitt. Mynd: Golli
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 3 mánuðum.

Hélt að þau myndu segja „Guð blessi Grindavík“

„Við er­um fólk í áfalli. Það er eitt­hvað sem ekki hef­ur ver­ið nægi­lega mik­ið horft til,“ seg­ir Hulda Jó­hanns­dótt­ir. Í nóv­em­ber stýrði hún leik­skóla í Grinda­vík, fór í sturtu alla daga og eld­aði öll kvöld. Ekk­ert af þessu á leng­ur við. Huldu fannst ráð­herr­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar sýna Grind­vík­ing­um virð­ing­ar­leysi á íbúa­fundi sem hald­inn var í vik­unni. Þar tóku Grind­vík­ing­ar völd­in.

„Ég er í öruggu skjóli. Það eru ekki jarðskjálftar hér. Ég á ekki von á því að það gjósi í bakgarðinum hjá mér. En það er ekkert öryggi í mínu lífi. Ég veit ekkert hvað verður,“ segir Hulda Jóhannsdóttir sem flúði heimili sitt, og líf sitt í Grindavík þann 11. nóvember. 

Hún mætti á íbúafund sem stjórnvöld, fulltrúar almannavarna og fleiri stóðu fyrir í byrjun vikunnar, fund sem átti raunar að halda nokkrum dögum fyrr en var frestað eftir að maður féll ofan í sprungu í Grindavík og lést. 

Hulda segir Grindvíkinga hafa reynt að sýna aðgerðum frá ríkisstjórninni þolinmæði og forðast að gagnrýna „því þá fær fólk að heyra að allir séu að gera sitt besta og því er sagt að hætta með þessa neikvæðni.“ En á fundinum hafi íbúar tekið stjórnina og látið í ljós reiði sína, pirring og sorg. 

Grindvíkingar tóku stjórnina

Fundurinn var haldinn í Laugardalshöll þriðjudaginn 16. janúar klukkan 17, í sal á annarri hæð. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, voru meðal fjögurra frummælenda en í sjö manna pallborði þar á eftir voru til að mynda Þórdís Kolbrún Reykfjörð fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. Þarna voru einnig fulltrúar frá Náttúruhamfaratryggingum, Veðurstofu Íslands, Verkís og fleiri. Gert var ráð fyrir að fundurinn stæði í um klukkustund, mögulega eina og hálfa, en hann var í hálfan þriðja tíma. Klukkan var ekki orðin fimm þegar byrjað var að bæta við fleiri stólum fyrir fundargesti og einhverjir hreinlega stóðu.

Þegar byrjað var að taka við spurningum úr sal voru þær í fyrstu einmitt það, spurningar, en breyttust brátt í erindi, beiðnir og óskir; lýsingar á líðan og stöðu fólksins sem þurfti að flýja samfélag og veit ekki hvar það kemur til með að eiga heima til framtíðar. Á einum tímapunkti sagði fundarstjóri, Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, að fólk þyrfti að stytta mál sitt til að hægt væri að halda tímann, en það stoðaði lítið. Fólk vildi tala, deila, jafnvel gráta. 

„Fólkið tók stjórnina. Því það þurfti á því að halda“

„Ég held að þau hafi ekki átt von á þessu. Þá hefðu þau aldrei haldið þennan fund,“ segir Hulda. „Fólkið tók stjórnina. Því það þurfti á því að  halda. Þarna kom margt fram sem ég hafði ekki heyrt áður,“ segir hún. Þarna vísar Hulda til þess sem Grindvíkingarnir höfðu fram að færa á fundinum. Hún gefur heldur minna fyrir það sem ráðherrarnir sögðu, og er ekki ein um það. 

Ýmsar tilfinningar bærðust með Grindvíkingum sem mættu á fjölmennan íbúafundinn.

Fólk var sturlað af hræðslu

„Eftir öll þessi erindi sem haldin voru þá stóð einfaldlega eftir að það er ekkert búið að ákveða neitt um það sem við viljum að gert verði til að við getum aftur farið að lifa lífi okkar. Líf okkar allra er núna bara á pásu,“ segir hún. Það eina sem hafi verið nýtt hvað ríkisstjórnina varðaði að verið væri að gera allt til að það sama myndi gilda um lántaka hjá bönkunum og svo hjá lífeyrissjóðunum. 

Til hvers að halda íbúafund og segja ekki neitt?“

„Þau hafa haft tvo mánuði til að finna út úr okkar málum. Síðan sögðu þau þarna að nú þyrfti að fara að spýta í lófana. Ég varð bara sármóðguð, finnst þetta hafa verið virðingarleysi hjá þeim að halda þennan íbúafund þar sem það eina nýja var um lífeyrissjóðslánin. Þau hefðu alveg getað bara sagt það í fréttunum. Þarna var líka talið upp hversu margar íbúðir sé búið að kaupa. Við vitum þetta alveg. Til hvers að halda íbúafund og segja ekki neitt?“ spyr hún. Síðan hafi þau talað um hvað ýmsar aðgerðir kosti, að það þurfi að skrifa frumvörp „og það fyrsta sem þau tala yfirleitt um er stuðningur við fyrirtækin. Það erum við fólkið sem erum innviðirnir.“

Hulda var ekki eini Grindvíkingurinn sem fannst fátt sem ekkert nýtt koma frá ráðherrum á fundinum.

Hulda segir að eftir eldgosið á sunnudag, sem rann inn í bæinn þar sem þrjú hús brunnu, hafi margir sem hafi ætlað að snúa aftur ekki lengur séð það sem raunhæfan kost. „Eignirnar okkar eru núll virði. Ef fólk treystir sér ekki til að búa þarna öryggis síns vegna, lífsöryggis síns vegna, þá á einfaldlega að borga fólk út. Hvað hef ég til að snúa til? Ég var byrjuð að skipuleggja starfslok,“ segir Hulda sem er nýkomin á sjötugsaldur. „Allt lífið er komið á hvolf. Margir voru búnir að setja húsin sín á sölu því fólk var sturlað af hræðslu yfir jarðskjálftunum,“ segir hún. 

Eigum of mikið af hlutum

Hulda og eiginmaður hennar leigja nú íbúð í Reykjavík þar sem þau eru nálægt dóttur sinni, sem einnig bjó í Grindavík, og syni sínum; auk barnabarnanna. „Við erum hjá Íslandsbanka og erum því ekki líka að greiða af lánunum okkar núna,“ en bankalánin hafa verið fryst út apríl. „En við erum að borga leigu. Við erum í húsi sem annað fólk á. Við fengum það strax en síðan kom það heim um jólin og við vorum á hrakhólum. Fórum austur til fjölskyldu mannsins míns til að halda jólin. Fórum líka heim að sækja eitthvað af dóti. Ég sótti líka ýmislegt persónulegt til að hafa uppi þar sem við búum núna. Ég fann að það skipti máli. En búslóðin er bara í Grindavík. Ég get ekki líka borgað leigu til að láta geyma það.“

Hún segir þau einfaldlega með það allra nauðsynlegasta með sér. „Ég tók albúmin okkar, fékk að geyma þau í bílskúr hjá kunningjafólki. Þegar ég fór í fyrsta skiptið tók ég alls konar hluti sem mér fannst kannski skrýtið að vilja taka með; ýmislegt sem amma og mamma höfðu saumað út og ég var með á veggjunum. Ég var ekki að hugsa um peningaleg verðmæti heldur tilfinningalegt. Við eigum tvö sjónvörp og þau eru bæði heima. Við erum bara með hluta af fötunum okkar. Margir Grindvíkingar hafa sagt að þetta sýni kannski að maður á allt of mikið og hefur ekki þörf fyrir nema hluta af því.“

Daglegt líf orðið fólki um megn

Það var margt sem brann á fólki á íbúafundinum. Ein konan sagðist hreinlega óska þess að húsið hennar hefði farið undir gosið þannig að hún gæti fengið það greitt út og byrjað nýtt líf. Fjöldi fólks tók undir kröfu um að ríkið kaupi þau út; út úr óvissunni og stöðnuninni. Það gagnrýndi hugmyndir um áframhaldandi húsnæðisstuðning, jafnvel næstu ár miðað við þá óvissu sem er uppi, frekar en að nota peningana í að kaupa af þeim húsin í Grindavík. Þá gagnrýndi það hvernig húsnæðisstuðningurinn væri reiknaður út. Það sagði ósanngjarnt að þurfa að borga tryggingar samkvæmt nýju brunabótamati en fá bætur samkvæmt gömlu mati. Grindvíkingar borga enn fyrir rafmagn og hita á yfirgefnu heimili sínu en líka þar sem þeir búa nú. Ein konan sagðist meira að segja borga meira fyrir hitann í Grindavík en þegar hún bjó sjálf í húsinu. Foreldrar sögðust eyða meira af bensíni því þau þyrftu að keyra börnin sín í skóla sem eru á ólíkum stöðum. Og margir áttu erfitt með að finna taktinn sinn. Þarna kom til að mynda fram að margir hefðu ekki eirð í sér til að elda og lifðu að mestu á aðkeyptum tilbúnum mat. 

Reglulega stóð fólk upp og klappaði fyrir því sem fundargestir höfðu að segja við ráðamenn.

„Við erum enn í áfalli og svo margt í daglegu lífi sem er okkur um megn. Það er nóg fyrir mig að reyna að halda út daginn. Frá 10. nóvember hef ég eldað kannski fjórum sinnum, og ég eldaði á hverju einasta kvöldi. Við erum þannig hjónin, viljum bara fá heitan mat; það er siður sem við höfum haldið í. En núna erum við bara að grípa í eitthvað í næsta súpermarkaði eða kaupa tilbúinn mat hér og þar.“

„Um daginn áttaði ég mig síðan á því að ég var hætt að nenna í sturtu á hverjum degi eins og ég gerði alltaf“

Og það eru fleiri hversdagslegir hlutir sem reynast fólki um megn þegar það veit ekki hvað gerist á morgun, í næstu viku eða í næsta mánuði. „Ég hitti fólk á íbúafundinum sem sagðist ekki koma sér út á morgnana. Fólk sem hafði keypt sér kort í ræktinni en var ekki byrjað að nota það. Fólk kemur sér ekki í neitt. Ég ætlaði að passa að halda rútínunni nú þegar ég er ekki að vinna. Um daginn áttaði ég mig síðan á því að ég var hætt að nenna í sturtu á hverjum degi eins og ég gerði alltaf. Í gær ætlaði ég bara að bleyta hárið en var ákveðin og sagði við sjálfa mig: „Nei, nú ferð þú í sturtu. Þú veist að þér líður betur á eftir.“ Það er margt svona sem maður getur bara einhvern veginn ekki. Dagarnir líða hjá, allt í einu er komið kvöld, og maður er ekki búinn að gera neitt. Þetta er svo skrýtin tilfinning.“

Tilfinningarnar eiga líka til að grípa völdin af fólki, oft réttilega. „Ég grét í tvo daga eftir síðasta gos. Ég grét allt kvöldið á sunnudeginum og allan mánudaginn.“ Þegar margir héldu að nú væri hægt að snúa aftur breyttist skyndilega allt á ný. Þetta var áfall ofan í áfall, ofan í áföll.

Þurfa sálfræna aðstoð fagfólks

Hulda er leikskólastjóri einkarekna heilsuleikskólans Króks en starfsemi hans var raunar lögð niður við endurskipulagningu leikskólastarfs fyrir börnin úr Grindavík, starfsfólkið án atvinnu en síðan auglýst eftir fólki sem vildi vinna hjá bæjarfélaginu á öðrum leikskólum sem höfðu verið fluttir annað. Hún segist undrandi á því hvernig að þessu hafi verið staðið, en vill ekki fara frekar út í þá sálma að sinni. „En það var líka áfall þegar leikskólanum var lokað. Ég er alltaf að hugsa um skólann minn og starfsfólkið mitt. Við reynum að hittast reglulega til að knúsast og bara vera saman, því það er það sem við þurfum – þessa rútínu.“

Rætt hefur verið um mikilvægi þess að grípa þau sem urðu fyrir því áfalli að missa heimilið sitt, tengslin sín, samfélagið sitt. Hulda hefur þó ekkert heyrt af slíkri þjónustu fyrir Grindvíkinga utan þeirrar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins veita, sem hún vill þó alls ekki gera lítið úr. „Við þurfum að fá aðstoð fagfólks. En ég veit ekki einu sinni hvar ég ætti að leita að slíku, eða hvort það er í boði fyrir okkur. Ég veit ekki um neinn sem hefur nýtt sér slíkt.“

„Við erum bara í því að spyrja hvert annað“

Aðgengi að sálgæslu er eitt af fjölmörgu sem Huldu, og fleiri Grindvíkingum, finnst mikilvægt að geta fundið upplýsingar um á aðgengilegan hátt. „Við erum búin að biðja um að það sé sett upp einhvers konar upplýsingasíða. Af hverju er ekki bara ein síða þar sem við getum fengið allar þessar praktísku upplýsingar svo við þurfum ekki að vera að leita um allt, því það er það sem við höfum verið að gera. Við erum bara í því að spyrja hvert annað,“ segir hún. 

Sökuð um vanþakklæti

Í stað upplýsingasíðu sem starfrækt væri af stjórnvöldum nota Grindvíkingar Facebook. Síðurnar „Íbúar Grindavíkur“ og „Aðstoð við Grindvíkinga“ eru þar mest nýttar. „Þarna er fólk að skiptast á upplýsingum um hverju við eigum rétt á og hvernig hægt er að sækja um það. Margir hafa verið í vandræðum með leigustyrki. Íbúar hafa tekið þetta í sínar hendur. Bókasafnsfræðingur tilkynnti þarna að hún tæki að sér að leiðbeina fólki til að finna ýmsar upplýsingar og fasteignasali úr Grindavík bauð einnig fram sína aðstoð. Ég sótti um styrk hjá Vinnumálastofnun. Allt fólkið sem starfar á þeim stöðum sem við höfum þurft að leita til hafa staðið sig ótrúlega vel. Þegar ég sótti um styrkinn setti ég inn ranga tölu og þau bara hringdu í mig til að láta mig vita og fá réttar upplýsingar. Þetta gekk líka hratt fyrir sig. Við sóttum um að morgni og fengum nánast strax greitt.“

Huldu finnst yfirvöld ekki hafa tekið stöðuna í Grindvík og hjá Grindvíkingum nægilega alvarlega.

Hulda segist þakklát fyrir að hafa getað fundið leiguíbúð þar sem aðrir fjölskyldumeðlimir eru nærri. En þetta er bara tímabundið, eins og annað í lífi þeirra sem áður bjuggu í Grindavík. „Við getum verið hér út maí en við vitum ekki hvað verður eftir það. Ég vil fá fjárhagslegt öryggi aftur, geta keypt íbúð, verið áfram nálægt fólkinu mínu. Barnabörnin löbbuðu bara til mín í Grindavík og þó þau geti það ekki hér í Reykjavík þá er samt stutt að fara.“

„Þetta er nógu erfitt fyrir“

Eðli málsins samkvæmt vilja Grindvíkingar flestir búa nálægt fjölskyldunni, vinum og vinnustaðnum, en margir störfuðu utan Grindavíkur á suðvesturhorninu. „Grindvíkingum hafa verið boðnar íbúðir víða um land. Við höfum verið gagnrýnd fyrir að vilja ekki íbúð á Vestfjörðum. Fólk segir: „Hvað, það er verið að bjóða ykkur íbúð á Flateyri og þið viljið hana bara ekki?“ eins og við séum bara vanþakklát. Ég get ekki hugsað mér að fara langt í burtu þar sem ég hef ekki fólkið mitt. Þetta er nógu erfitt fyrir. Ég þekki fólk sem hefur þurft að vera í bústað úti í sveit og því líður mjög illa. Það hefur engan hjá sér.“

„Guð blessi Grindavík“

Hulda ítrekar ákall íbúafundarins um aðgerðir strax fyrir Grindvíkinga, alvöru aðgerðir. „Mér finnst þessu ekki vera tekið nógu alvarlega. Eftir að hættan var ljós reiknaði ég með því að útsending yrði rofin hjá Ríkissjónvarpinu og að ríkisstjórnin kæmi saman þar sem þau segðu ekki „Guð blessi Ísland“ heldur „Guð blessi Grindavík“ en ekkert kom. Þau hafa líklega bara farið í fósturstellingu og hugsað um ríkissjóð.“

Þó hún gagnrýni skort á svörum ráðamanna á íbúafundinum fannst henni fundurinn vera afar gagnlegur og góður. „Mér finnst lýsandi að Grindvíkingar tóku völdin. Þarna var raunveruleikinn okkar. Mér finnst að upptakan af þessum íbúafundi ætti að vera skylduáhorf. Fyrst ætlaði ég bara að horfa á fundinn í streymi en ákvað síðan að ég yrði að mæta og sýna stuðning,“ segir hún. 

Margt gott hafi sannarlega verið gert, og ef hún ætti að benda á eitthvað eitt þá þarf hún ekki að hugsa sig um tvisvar: „Fyrst og fremst er það íslenska þjóðin. Það er fólkið sem  hefur gripið okkur, og það er svo ótrúlega nærandi að fá að upplifa það.“

Kjósa
16
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Reykjaneseldar

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár