Þessi grein birtist fyrir rúmlega 6 mánuðum.

Á svig við reglurnar: Fengu risasamning eftir rándýra boðsferð til Singapúr

Danskt fyr­ir­tæki fékk ný­lega risa­samn­ing um smíði her­skipa fyr­ir danska flot­ann, án þess að regl­um um út­boð væri fylgt. Skömmu áð­ur en samn­ing­ur­inn var und­ir­rit­að­ur bauð fyr­ir­tæk­ið nokkr­um for­svars­mönn­um flot­ans í rán­dýra ferð til Singa­púr. Mál­ið lykt­ar af klíku­skap segja þing­menn og varn­ar­mála­ráð­herr­ann krefst skýr­inga frá flot­an­um.

Á svig við reglurnar: Fengu risasamning eftir rándýra boðsferð til Singapúr
Í apríl á þessu ári tilkynnti Innkaupa- og rekstrardeild hersins að samið hefði verið við fyrirtækið Danske Patruljeskibe um hönnun og smíði nýju skipanna. Danske Patruljeskibe er fyrirtæki sem gagngert var stofnað í kringum þetta nýja verkefni. Mynd: PensionDanmark

Árum saman, í lok síðustu aldar og á fyrstu áratugum þessarar aldar, bárust reglulega fréttir af bágu ástandi danska hersins. Eftir lok kalda stríðsins leit út fyrir að friðsamlegri tímar færu í hönd í henni veröld og ekki væri sama þörfin og áður á sífellt meiri og flóknari tækjum, tólum og mannskap.

Forsvarsmenn hersins gagnrýndu sífelldan niðurskurð, bentu á að tækjakosturinn væri kominn til ára sinna, einkum bílaflotinn sem einn yfirmanna hersins kallaði fornbílaklúbb. Stjórnmálamenn skelltu skollaeyrum við þessum kvörtunum og sögðu mörg verkefni brýnni, í friðsamlegum heimi, en að „moka peningum í herinn“ eins og einn þingmaður komst að orði. 

Wales fundurinn og tvö prósentin

Fyrir rúmum níu árum, í september 2014 hittust leiðtogar Nato ríkjanna í Wales. Fyrr á árinu höfðu Rússar lagt undir sig Krímskagann og leiðtogar Nato óttuðust að Rússar hygðu á frekari landvinninga, eins og átti eftir að koma á daginn. Anders Fogh Rasmussen, sem um þetta leyti var að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Nato, fór mörgum orðum um það í ræðu sinni að framlög aðildarríkjanna til hermála væru alltof lítil. Anders Fogh hafði margoft áður rætt þetta en þrátt fyrir það gerðist lítið.

Á áðurnefndum fundi í Wales urðu leiðtogarnir sammála um að stefna að auknum fjárveitingum til varnarmála og miða við 2 prósent af árlegri vergri þjóðarframleiðslu hvers lands. Stefna að stóð í yfirlýsingunni, var sem sé ekki skuldbinding. Þetta viðmið hafði oft áður verið nefnt.                                             

Seint og um síðir sneru Danir við blaðinu

Helle Thorning-Schmidt, þá forsætisráðherra Dana og formaður sósíaldemókrata, var meðal þeirra sem skrifuðu undir „viljayfirlýsinguna“ í Wales. Það breytti þó litlu þegar heim var komið og árið eftir voru framlögin til danska hersins enn skorin niður og námu þá 1,2 prósentum af vergri þjóðarframleiðslu, langt frá 2 prósenta markinu.

Eftir kosningarnar í Danmörku 2015 urðu stjórnarskipti, við tók minnihlutastjórn Venstre, undir forystu Lars Løkke Rasmussen, sú stjórn sat til ársins 2019. Árið 2018 náðist svonefnt breitt samkomulag á danska þinginu, Folketinget, um að auka framlögin til hersins í áföngum fram til ársins 2023 þannig að á þessu ári verði þau 1,5 prósent. Breitt samkomulag merkir að mikill meirihluti þingmanna standi að baki samkomulaginu. Síðan þessar línur voru lagðar hefur margt breyst.

Ákvörðun um þróunarverkefni

Í júní árið 2021 tilkynnti Trine Bramsen, þáverandi varnarmálaráðherra, að varnarmálanefnd þingsins hefði einróma samþykkt að hrinda af stokkunum nýju verkefni. Sannkölluðu stórverkefni sagði ráðherrann á fréttamannafundi. Í stuttu máli snerist verkefnið um að hanna og smíða nýja gerð eftirlitsskipa (patruljeskibe) fyrir herinn. Í kynningu á verkefninu kom fram að ætlunin væri, auk þess að gagnast danska hernum yrði hönnunin, og hugsanlega smíðin, útflutningsvara.

Á áðurnefndum fundi kom fram að næsta skref yrði að finna fyrirtæki sem gæti tekið verkefnið að sér. „Við erum fyrst og fremst að horfa til innlendra fyrirtækja,“ sagði ráðherrann, sem sagðist vonast til að ákvörðun um verkið lægi fyrir innan árs. Þegar spurt var um kostnað við verkefnið sagði ráðherrann að ekki væri hægt að svara þeirri spurningu en ljóst væri að þetta væri eitt fjárfrekasta verkefni hersins um langt árabil.

Samið við Danske Patruljeskibe

Í apríl á þessu ári tilkynnti Innkaupa- og rekstrardeild hersins að samið hefði verið við fyrirtækið Danske Patruljeskibe um hönnun og smíði nýju skipanna. Danske Patruljeskibe er fyrirtæki sem gagngert var stofnað í kringum þetta nýja verkefni. Að þessu fyrirtæki standa dönsku fyrirtækin Terma og Odense Maritime Technology, auk lífeyrissjóðsins Pension Danmark, eins stærsta lífeyrissjóðs Danmerkur. Terma hannar og framleiðir alls kyns tæknibúnað, einkum á sviði hernaðar. Odense Maritime Technology fyrirtækið hefur mikla reynslu af hönnun herskipa og hefur staðið fyrir hönnun og smíði fjölmargra slíkra skipa fyrir danska flotann og ennfremur fyrir breska flotann (Royal Navy) og þann ástralska. Skipin, sem nú stendur til að smíða, eru ný hönnun frá grunni, en byggð á áratuga reynslu, eins og komist var að orði þegar ákvörðun um smíðina var kynnt.

Samningurinn, sem gerður var án útboðs, var undirritaður í júní sl. og í honum kom fram að hönnunar- og þróunarkostnaðurinn nemi 5 milljörðum danskra króna (100 milljörðum íslenskum). Fram kom við undirritun samningsins að milljarðarnir 5 eru einungis fyrsta skrefið, kostnaður við smíði skipanna, sem gert ráð fyrir að verði fimm í fyrsta áfanga, er næsta skref. Forsvarsmenn flotans og Danske Patruljeskibe kváðust mjög ánægðir með samninginn og fram kom að miklar vonir væru bundnar við þessa nýju hönnun, sem gæti vel orðið verðmæt útflutningsvara, eins og það var orðað.

Hvað með útboðsreglur?

Þegar samningurinn áðurnefndi var undirritaður voru haldnar ræður og glösum lyft til að fagna því að nú væri stigið nýtt skref í dönskum varnar- og öryggismálum. En fljótlega vöknuðu ýmsar spurningar varðandi samninginn og hvernig að honum var staðið. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins, sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, ber að bjóða út verk þar sem kostnaður fer yfir tiltekna upphæð. Danski samningurinn fer langt umfram lágmarkið í þessum efnum og danskir fjölmiðlar, sem fjölluðu um málið, vildu fá skýringar.

Hvernig mætti það vera að varðandi svona stóran samning væri farið á svig við reglur. Innkaupa- og rekstrardeild hersins vísaði til öryggissjónarmiða, á óvissutímum þyrftu Danir ekki að vera háðir erlendum fyrirtækjum  með tæki og tól og þess vegna hefði þessi leið verið valin. Forsvarsmenn annarra skipasmiðja í Danmörku eru, sumir að minnsta kosti, ósáttir við að hafa ekki átt þess kost að bjóða í verkið. Lars Fischer, framkvæmdastjóri Orskov Yard í Frederikshavn sagði í viðtali við dagblaðið Børsen að málið lykti af klíkuskap, slíkt sé ekki boðlegt.

Boðsferð til Singapúr

Dagblaðið Politiken hefur að undanförnu fjallað ítarlega um herskipasamninginn. Sunnudaginn 12. nóvember sl. birtist í blaðinu löng grein og í liðinni viku hafa birst fleiri greinar um sama mál. Óhætt er að segja að umfjöllun Politiken hafi vakið mikla athygli og ekki síst að þegar frá því var greint að þrír háttsettir embættismenn frá Innkaupa- og rekstrardeild hersins og skipadeild hersins hefðu farið til Singapúr í boði Terma og Odense Maritime Technology, fyrirtækjanna sem ásamt Pension Danmark, hrepptu samninginn um smíði nýju herskipanna. Ferðin var farin tveimur mánuðum áður en títtnefndur samningur var undirritaður, og tilgangurinn var að sækja kynningar- og sölusýningu á hergögnum. 

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að árið 1995 samþykkti danska þingið tillögu Hans Hækkerup varnarmálaráðherra um að herinn geti í samvinnu við dönsk fyrirtæki unnið að þróun og sölu hergagna. Sérfræðingar sem blaðamenn Politiken ræddu við segja þetta ákvæði úrelt þótt það hafi ekki verið fellt úr gildi.

Þingmenn og ráðherra krefjast skýringa

Eins og fyrr var getið vakti grein Politiken um reisuna til Singapúr mikla athygli og margir þingmenn sem blaðið hefur rætt við segja þetta ekki samræmast vinnureglum dagsins í dag. Þeir hafa sömuleiðis óskað skýringa frá Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra.

Ráðherrann brást skjótt við og hefur krafist þess að yfirstjórn hersins geri grein fyrir málinu. Hann vildi, þegar blaðamaður Politiken ræddi við hann, ekki segja meira um málið, kvaðst bíða skýringa frá hernum.

Kjósa
28
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár