Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Eiturlyfin og glæpaklíkurnar

Höfn­in í Antwerpen í Belg­íu er stund­um köll­uð „Stór­mark­að­ur Evr­ópu“. Sú nafn­gift er ekki út í loft­ið, þar koma ár­lega á land 12 millj­ón vör­ugám­ar. Ekki er allt inni­hald þeirra lög­legt. Evr­ópu­lög­regl­an tel­ur hafn­ir í álf­unni veik­an hlekk í eft­ir­liti með inn­flutn­ingi.

Þegar minnst er á Napóleon Bónaparte og Belgíu í sömu andránni kemur orrustan við Waterloo árið 1815 líklega fyrst upp í hugann. Keisarinn reið, eins og kunnugt er, ekki feitum hesti frá þeirri orrustu, sem batt enda á veldi hans. Færri vita líklega að það var sá sami Napóleon sem fyrstur kom auga á möguleika Antwerpen sem hafnarborgar og fyrirskipaði gerð fyrstu skipakvíarinnar þar,  Bonapartedok. Napóleon hefur þó tæplega grunað að rúmum 200 árum síðar yrði Antwerpen næst umsvifamesta höfn Evrópu, á eftir Rotterdam. Sú staðreynd er athyglisverð, í ljósi þess að Antwerpen liggur ekki beint að sjó. 

Belgía og Holland

Hafnirnar í Antwerpen í Belgíu og Rotterdam í Hollandi eru þær umsvifamestu í Evrópu eins og áður sagði. Um þær fer jafnframt mest magn þess kókaíns sem flutt er til Evrópu, fyrst og fremst frá Suður-Ameríku. Enginn veit með vissu hve magnið, sem um hafnirnar fer, er mikið en yfirvöld í Belgíu og Hollandi telja víst að það aukist með hverju ári. Í Belgíu var á síðasta ári lagt hald á 110 tonn af kókaíni, að langstærstum hluta í Antwerpen. Kristian Vanderwaeren, framkvæmdastjóri hjá belgísku tollgæslunni, sagði í viðtali við flæmsku sjónvarpsstöðina VRTAntwerpen væri „númer eitt“ áfangastaður fyrir eiturlyfjasmyglara. Hann sagði jafnframt að einungis 2 prósent af öllum þeim varningi sem kæmi til Antwerpen væri skoðaður með þar til gerðum tækjum (skannaður). Augljóst væri að það kókaín sem tollurinn kæmi höndum yfir væri aðeins lítið brot af því sem kæmi til landsins. „Við þurfum að stórauka  eftirlitið, en það kostar peninga, sem ekki liggja á lausu,“ sagði framkvæmdastjórinn. 

Ein ástæða þess að Antwerpen nýtur „vinsælda“ eiturlyfjasmyglara er að um höfnina fer mikið af alls kyns ávöxtum, sem þurfa að fara hratt gegnum tollafgreiðslu og þá er eftirlitið minna. Mörg dæmi eru um að eiturlyfjum hafi verið komið fyrir innan um bananasendingar svo dæmi sé tekið.                                                                                                                

Átök um markaðinn 

Hinn 9. janúar síðastliðinn lést ellefu ára stúlka í Merksem, sem er úthverfi Antwerpen, eftir að skotið var á íbúðarhús fjölskyldu hennar. Stúlkan var frænka belgísku bræðranna Othman og Younes El Ballouti, en þeir eru eftirlýstir í Evrópu og víðar fyrir eiturlyfjasmygl og peningaþvætti. Belgíska lögreglan telur að bræðurnir haldi sig í Dubai og stjórni eiturlyfjaviðskiptunum þaðan. „Þegar það er sprengt og skotið í Antwerpen er það í flestum tilvikum skipulagt af mönnum sem halda sig í Dubai,“ sagði belgíski dómsmálaráðherrann Vincent Van Quickenborne nýlega í viðtali. Ráðherrann nýtur stöðugrar lögregluverndar síðan  glæpagengi reyndi að ræna honum og fjölskyldu hans í fyrra. Átök um eiturlyfjamarkaðinn hafa farið vaxandi í Antwerpen þar sem handsprengjur, byssur og molotovkokteilar hafa komið við sögu. Í fyrra voru skráð tilfelli af því tagi 81 í borginni, helmingi fleiri en árið áður. Átökin snúast um peninga, mjög mikla peninga. Engar áreiðanlegar tölur um veltuna í eiturlyfjabransanum eru til, en vitað að hún er gríðarleg. 

Hafnarstarfsmennirnir í Árósum og blóðprufurnar

Stærsta flutningahöfn Danmerkur er í Árósum. Um hana fara rúmlega 70 prósent þeirra gáma sem fluttir eru til Danmerkur. Stærsti viðskiptavinur hafnarinnar er Mærsk skipafélagið sem á APM Terminals sem annast upp- og útskipun í höfninni. 

StærstUm höfnina í Árósum fara rúmlega 70 prósent þeirra gáma sem fluttir eru til Danmerkur.

Yfirmenn APM höfðu um skeið haft grun um að hluti þeirra starfsmanna sem unnu við upp- og útskipun hjá fyrirtækinu væru iðulega undir áhrifum fíkniefna. Kvöld eitt í janúar á þessu ári tók hjúkrunarfræðingur frá fyrirtækinu Falck (sem annast m.a. öryggisgæslu og sjúkraflutninga) blóðprufur hjá hópi starfsmanna APM. Komið var fram á kvöld þegar því var lokið og hjúkrunarfræðingurinn (kona) ákvað að fara með blóðprufurnar heim til sín og skila þeim á rannsóknarstofuna morguninn eftir. Þegar hún ætlaði að taka töskuna morguninn eftir greip hún í tómt, óboðnir gestir höfðu brotist inn í húsið, þeir höfðu tekið töskuna með blóðprufunum en látið allt annað ósnert. Töskuþjófnaðinn tókst ekki að upplýsa. 

Félagar í Hells Angels meðal starfsmanna

Stjórnendur APM fyrirtækisins höfðu lengi haft grun um að félagar í glæpasamtökunum Hells Angels væru meðal starfsmanna við höfnina í Árósum. Í viðtali við dagblaðið Berlingske fyrir nokkrum dögum staðfesti Keith Svendsen, framkvæmdastjóri APM, að allt að 30 starfsmenn fyrirtækisins (sem eru 400) væru félagar í, eða tengdir, Hells Angels.

Stjórnendur APM eru ósáttir við að við ráðningu starfsfólks við höfnina skuli lögregla ekki kanna sérstaklega bakgrunn viðkomandi umsækjanda, „udvidet baggrundskontrol“, en einstök fyrirtæki hafa ekki heimild til þess. Slík bakgrunnsrannsókn er gerð á Kastrup-flugvelli og hefur gefist vel. Í  bakgrunnsrannsókn felst meðal annars að lögreglan fær sakaskrárupplýsingar frá löndum þar sem viðkomandi umsækjandi hefur búið síðastliðin fimm ár. Fyrirtæki á Kastrup geta ekki ráðið starfsfólk sem ekki fær „grænt ljós“ frá lögreglu. Jessica Larsen, sérfræðingur við rannsóknastofnunina DIIS, tekur undir með APM, um nauðsyn bakgrunnsupplýsinga, og bendir á að meðal viðskiptavina hafnarinnar í Árósum sé NATO. Bandalagið valdi fyrir nokkru, í samkomulagi við dönsk stjórnvöld, að höfnin í Árósum yrði miðstöð vopna- og tækjaflutninga NATO. Þangað koma skip með alls kyns búnað og NATO hefur til umráða sérstakt athafnasvæði við höfnina. Áðurnefnd Jessica Larsen segir ekki nóg að hafa afmarkað svæði sem sé vandlega gætt ef maðkur sé í starfsmannamysunni. 

Hafnirnar eru veiki hlekkurinn

Í nýrri skýrslu frá Evrópulögreglunni, Europol, kemur fram að hafnir séu veikasti hlekkurinn þegar kemur að ólöglegum innflutningi eiturlyfja og ólöglegs varnings. Samkvæmt skýrslunni hefur glæpasamtökum tekist að koma „sínum mönnum“ með einhverjum hætti að starfsemi hafna víðs vegar um heim. Í flestum tilvikum með mútum en einnig hótunum. Yfirstjórn Mærsk skipafélagsins og APM segir að aukin smyglstarfsemi sé vaxandi vandamál og þar sé Danmörk ekki undanskilin. Keith Svendsen, framkvæmdastjóri APM, sagði í viðtali við Berlingske að flutningafyrirtæki og yfirvöld yrðu að leggjast á eitt til að bregðast við vandanum, þótt það væri hægara sagt en gert. 

Kjósa
20
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • SSS
    Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
    „Við þurfum að stórauka eftirlitið, en það kostar peninga, sem ekki liggja á lausu,“

    Má ekki fastlega gera ráð fyrir að það myndi sparast stókostlega meiri peningur úti í þjóðfélaginu, helur en sá kostnaður sem fæli í sér að stórauka eftirlitið í höfnunum ?
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár