Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Íbúar Kristjaníu vilja glæpagengin burt

Íbú­ar Kristjan­íu í Kaup­manna­höfn hafa feng­ið nóg af yf­ir­gangi glæpa­sam­taka í hverf­inu og vilja upp­ræta starf­semi þeirra. Sam­tök­un­um fylg­ir auk­ið of­beldi þar sem tek­ist er á um yf­ir­ráð vímu­efna­mark­að­ar­ins.

Íbúar Kristjaníu vilja glæpagengin burt
Fríríkið Næstum 52 ár eru síðan að Kristjanía varð til. Nú vilja íbúar breytingar. Mynd: AFP

Stór hluti þeirra ferðamanna sem leggja leið sína til Kaupmannahafnar líta við í Kristjaníu. Margir til að líta augum þetta sérstaka samfélag en sumir til að kaupa varning sem þar er á boðstólum en er vandfundnari annars staðar: vímuefni. 

Í næsta mánuði verða 52 ár síðan hópur fólks lagði undir sig fyrrverandi umráðasvæði hersins á Kristjánshöfn. Á svæðinu sem er um það bil 34 hektarar að stærð voru fjölmargar byggingar sem höfðu tilheyrt hernum en stóðu nú auðar og ónotaðar. Hópurinn sem lagði undir sig svæðið gaf því nafnið Kristjanía (Christiania). Í Kaupmannahöfn var mikill skortur á húsnæði og margir tilbúnir að setjast að á þessu nýja sjálfsstjórnarsvæði, eða í fríríkinu, eins og íbúarnir hafa kosið að kalla svæðið. 

Öðruvísi taktur

„Fríríkið“ Kristjanía var formlega stofnað 26. september 1971 og tæplega eitt þúsund manns settust að á svæðinu. Hópurinn var fjölbreyttur en átti það sameiginlegt að vilja þak yfir höfuðið og frjálslegra og annars konar samfélag. Á árunum í kringum 1970 var hassneysla orðin all útbreidd og Kristjanía varð brátt einskonar dönsk sölumiðstöð þessarar ólöglegu neysluvöru. Vitað var að í „fríríkinu“ væri auðvelt að verða sér úti um „grasið“ eins og það var kallað. Allt frá upphafi voru viðskiptin að mestu leyti takmörkuð við eina tiltekna götu „Pusher Street“. 

Fréttir af þessu fyrirbæri, eins og sumir kölluðu Kristjaníu, bárust víða og frá upphafi varð svæðið vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Marga fýsti að líta augum þetta sérstæða samfélag og það hefur ekki breyst. Á síðasta ári var Kristjanía fjórði fjölsóttasti viðkomustaður þeirra ferðamanna sem lögðu leið sína til Kaupmannahafnar og þannig hefur það verið árum saman. Mannlífið er skrautlegt og það sama má segja um húsagerðina á svæðinu, þar hefur ímyndunarafl (og kannski fjárráð) ráðið meiru en strangar byggingarreglugerðir. 

Lengi verið höfuðverkur stjórnmálamanna

Þegar Kristjanía varð til, árið 1971, vissu stjórnmálamenn vart hvaðan á þá stóð veðrið og hvernig ætti að bregðast við. Þannig hefur það reyndar lengst af verið. Það flækti öll mál varðandi Kristjaníu að svæðið er innan Kaupmannahafnar en var í eigu ríkisins þegar Kristjanittarnir lögðu það undir sig. Árum saman hafa heyrst raddir sem kröfðust þess að „hreinsað yrði til“. 

Árið 1989 samþykkti danska þingið, Folketinget, lög, Kristjaníulögin eins og þau voru kölluð. Þar var að finna ákveðin skilyrði um notkun svæðisins. Fimmtán árum síðar, 2004, var lögunum breytt og þar var meðal annars kveðið á um að hús sem byggð hefðu verið án formlegs leyfis, eftir lagasetninguna 1989, skyldu rifin. Friðaðar byggingar, sem voru og eru fjölmargar, yrðu gerðar upp og endurbættar. Þótt íbúum Kristjaníu þætti ýmislegt gott í viðbótarlögunum frá 2004 var annað sem þeim féll miður. Til dæmis það að rífa skyldi íbúðarhús á svæðinu enda gekk hægt að framfylgja þessu lagaákvæði.  

Stóra skrefið árið 2012

Í júlí árið 2012 undirrituðu fulltrúar danska ríkisins og íbúa Kristjaníu kaupsamning. Seljandinn var danska ríkið og kaupandinn var sjóðurinn „Fristaden Christiania“. Samningur þessi var mikilvægur fyrir báða aðila. Fyrir ríkið var mikilvægt að fá einhvern botn í áralanga óvissu og ljúka deilum um tilveru Kristjaníu. Fyrir kaupandann var samningurinn ekki síður mikilvægur, með honum var framtíð Kristjaníu tryggð. Í samningnum var kveðið á um að yfirbragð svæðisins yrði með svipuðum hætti og verið hafði allt frá upphafi. Kristjanittar skuldbundu sig til að hlíta ýmsum reglum, til dæmis íbúaskráningu, byggingarreglugerðum og almennum skipulagsreglum sem gilda í Kaupmannahöfn. Fyrst reyndi fyrir alvöru á þetta samkomulag árið 2017, þegar nýr reiðhjólastígur var lagður þvert yfir hluta Kristjaníusvæðisins. Þótt Kristjanittarnir væru andsnúnir þessari framkvæmd breytti það engu, stígurinn kom og þúsundir hjólreiðamanna fara daglega um hann.

Viðbótin

Í samkomulaginu frá árinu 2012 var ákvæði um að 10 árum síðar skyldi samkomulagið endurskoðað. Vorið 2022 gerði danska ríkið Kristjanittunum tilboð, samkvæmt því skyldu byggðar leiguíbúðir á 15 þúsund fermetra svæði sem tilheyrir Kristjaníu. Íbúðirnar yrðu leigðar út samkvæmt úthlutunarreglum Kaupmannahafnarborgar. Kristjanittunum bauðst að kaupa aukið landsvæði ásamt byggingum sem þar voru fyrir. 

HlutabréfÞegar íbúar Kristjaníu keyptu svæðið árið 2012 útbjuggu þeir hlutabréf sem allir gátu keypt. Bréfunum fylgdi ekki atkvæðisréttur.

Miklar umræður urðu um málið í þinginu og margir og langir fundir voru haldnir um málið í Kristjaníu. Á endanum samþykktu íbúar Kristjaníu að ganga að tilboði ríkisins. Óljóst er hvenær framkvæmdir við byggingu leiguíbúðanna hefjast. 

Miklir fjármunir skipta um hendur í vímuefnaviðskiptum

Eins getið var um fyrr í þessum pistli varð Kristjanía nánast allt frá stofnun helsti sölustaður hassins í Kaupmannahöfn. Í upphafi voru það einkum „smákaupmenn“ sem stóðu innan við búðarborðið, ef svo mætti segja, í verslanagötunni Pusher Street.

Margir runnu á „peningalyktina“ og eins og ýmsir höfðu óttast renndu glæpagengin (oft kennd við mótorhjól) hýru auga til þessara viðskipta. Smám saman tókst þessum gengjum að ná undir sig nær öllum vímuefnamarkaðnum í Kristjaníu og hafa ekki látið sér nægja að selja „grasið“ en selja jafnframt margt sterkara, til dæmis amfetamín. Tilkomu glæpagengjanna í Kristjaníu hefur fylgt ofbeldi og glæpir, og á seinni árum morð. 

Íbúarnir vilja glæpagengin burt

Óánægja og ótti íbúa Kristjaníu vegna ástandsins í Pusher Street hefur farið vaxandi á síðustu árum, en fengið lítið að gert. Lögreglan hefur sömuleiðis, að mati íbúanna, lítið gert til að takast á við vandann. Einstaka „rassíur“ sem gripið hefur verið til hafa litlu sem engu breytt. Íbúarnir hafa fram til þessa ekki verið trúaðir á að stöðug viðvera lögreglu myndi nokkru breyta. Nú heyrast þó æ fleiri raddir sem krefjast þess að lögreglan láti til sín taka. Lögreglan segir sífellt meiri hörku einkenna „fíkniefnaheiminn“.  

Lokuðu Pusher Street 

Aðfaranótt síðastliðins þriðjudags (8. ágúst) tók hópur Kristjanitta sig saman og lokaði öllum helstu aðgönguleiðum að Pusher Street. Mikil leynd hvíldi yfir undirbúningi þessara aðgerða, sem um eitt hundrað manns tóku þátt í. Til verksins voru notaðir stórir vörugámar og stóreflis steinsteypuklumpar. Þetta vakti mikla athygli og fréttir af aðgerðum íbúanna birtust í öllum dönskum fjölmiðlum. Ekki síst vegna þess að þetta var í fyrsta skipti sem íbúarnir létu skoðun sína á ástandinu í ljós, með svo afgerandi hætti. Lokun Pusher Street stóð ekki lengi því innan örfárra klukkustunda voru gámarnir og steypuklumparnir á bak og burt og viðskiptin héldu áfram eins og áður. 

Aðgerðin táknræn og sýndi hug íbúanna

Þótt lokun Pusher Street hafi einungis varað í nokkrar klukkustundir var hún ekki tilgangslaus, að mati þeirra íbúa sem danskir fjölmiðlar ræddu við. Þeim bar saman um að nauðsynlegt væri að bregðast við sífellt auknu ofbeldi og nauðsynlegt væri að binda enda á ofbeldið og hrekja glæpagengin burt úr Kristjaníu. Einn talsmaður íbúanna sagði í viðtali við danska útvarpið, DR, að Kristjanía í höndum glæpagengja væri ekki sú Kristjanía sem íbúarnir kærðu sig um. „En við ráðum ekki við þetta ein og óstudd, við verðum að ná eyrum stjórnmálamannanna, og lögreglunnar.“

Preben Bang Henriksen þingmaður Venstre hefur farið fram á að Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra komi á fundi með yfirmönnum lögreglunnar í Kaupmannahöfn til að fara yfir málefni Kristjaníu. Hann sagði í viðtali við danska útvarpið að þótt lögreglan hefði vakandi auga með Kristjaníu hrykki það bersýnilega ekki til. „Grenndarstöð lögreglunnar, sem væri opin í að minnsta kosti 15 klukkustundir á viku væri stórt skref í rétta átt“ sagði Preben Bang Henriksen. Þetta kemur ugglaust til kasta þingsins þegar það kemur saman að loknu sumarleyfi. 

Kjósa
13
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár