Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

„Það er nýtt Ísland að vaxa þarna undir“

Stjórn­andi hjá vísi­sjóði seg­ir að ef þeir sem stýra mál­um í fyr­ir­tækja­heim­in­um fari ekki að átta sig á því að eins­leit teymi séu ekki rétta leið­in, þá muni þeir senni­lega tapa. Þetta sé ein­fald­lega ekki góð­ur bis­ness.

„Það er nýtt Ísland að vaxa þarna undir“
Stofnandi Jenný Rut Hrafnsdóttir er ein þeirra kvenna sem stofnuðu Crowberry Capital. Mynd: Crowberry Capital

Lög um kynja­kvóta í stjórn­um ís­lenskra fyr­ir­tækja tóku gildi fyr­ir tíu ár­um síð­an. Í út­tekt sem Heim­ild­in hef­ur gert ár­lega á þeim ára­tug sem lið­inn er frá þeim tíma­mót­um kem­ur fram að hlut­fall kvenna sem stýra fjár­magni á Ís­landi hef­ur far­ið úr því að vera sjö pró­sent í að vera 14,7 pró­sent. Af 115 störf­um sem út­tekt­in nær til gegna kon­ur 17 en karl­ar 98. Hægt er að lesa um þá úttekt hér til hliðar.

Jenný Ruth Hrafnsdóttir, einn stofnenda íslenska vísisjóðsins Crowberry Capital sem fjárfestir í ungum tæknidrifnum nýsköpunarfyrirtækjum, segir að það séu fleiri konur í vísifjárfestingum á Íslandi í dag en karlar. „Fyrir mér er það framtíðin, við erum að fjárfesta í fyrirtækjum framtíðarinnar. Í fyrirtækjum sem eru ekki skráð núna en verða það eftir einhver ár. Kannski ekki skráð á Íslandi, enda flest þeirra að horfa til skráningar annars staðar eða að verða seld til annarra og stærri fyrirtækja, en það verða alltaf starfsstöðvar hér og blómleg starfsemi. Þar er miklu jafnari leikvöllur og við getum verið bjartsýnar og minnt á þessa stöðu, þótt það sé pirrandi að vita af þessum hlutföllum sem koma fram í úttektinni ykkar.“

Hún segir að nýtt kerfi sé að verða til. „Það er oft talað um að það sé mikið af „alpha males“ í fjármálageiranum og að það sé karllægur bransi. Þar sé mikið keppnisskap í fólki og mikið af til dæmis íþróttafólki leiti þangað. Ég held að það sé alveg umdeilanlegt hvort það skapi mesta ávöxtun eða mestan hagvöxt fyrir samfélagið. Að það sé alltaf besta leiðin að vera í einhverju bræðralagi og fara svo í bjórinn eftir vinnu. Ég held frekar að það sé gott að liggja yfir hlutunum, vera með góða strategíu og búa til sterk fyrirtæki sem skipta meira máli til langs tíma. Þar hefur innsæi, þekking á markaði og skilningur á viðskiptavinum miklu meira að segja.“

„Þeir vilja breyta þessu, ég heyri það.“

Aðspurð hvað sé hægt að gera til að hraða því að fleiri konur komist til áhrifa í íslenskum fjármálaheimi, segir Jenný að það snúist mikið um fyrirmyndir. Aðgerðir skipti meira máli en tal. „Við erum með marga rosalega flotta kvenfjárfesta og ég hef líka mikla trú á körlunum sem eru að starfa í vísisjóðum og nýsköpunarfyrirtækjunum. Þeir vilja breyta þessu, ég heyri það. Það er nýtt Ísland að vaxa þarna undir en það er ekki alveg búið að brjótast upp. Það mun gerast. Ég er rosalega bjartsýn á það. En ég er líka óþolinmóð og þetta má alveg breytast hraðar.“

Jenný minnir á að Ísland er að mörgu leyti fyrirmynd í heiminum þegar kemur að jafnréttismálum. Við séum að gera margt rétt, til dæmis þegar kemur að fæðingarorlofi karla. Í öðrum samfélögum, til dæmis í Þýskalandi og í Bandaríkjunum, sé miklu karllægri menning en hér. „Ef þeir sem stýra málum í þessum fyrirtækjaheimi, sem eru ekki með fjölbreytt stjórnendateymi, fara ekki að átta sig á því að þetta er ekki rétta leiðin, þá munu þeir sennilega tapa. Þetta er einfaldlega ekki góður bisness.“

Kjósa
13
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu