Það þarf ekki að óttast myndlist vegna þess að hún ræðst ekki á neitt nema kannski egóið
und das ist super, sagði Jonathan Meese. Óþægileg myndlist ræðst á egóið. Hún ræðst á hugmyndakerfi, á það sem er viðtekið hverju sinni. Sem áhorfanda getur manni alveg sárnað án þess að vita endilega hvers vegna. Þessar hugmyndir eru kannski svo rótgrónar að þær eru orðnar eins og hluti af persónuleikanum. Ef einhver hæðist að þeim er eins og hann sé að hæðast að manni sjálfum. Eins og það sé persónulegt.
Til dæmis fjallar myndlistarmaðurinn Santiago Sierra um óþægilegan veruleika í mörgum verka sinna: Við sem skoðum sýningarnar hans erum yfirleitt lítill forréttindahópur á kostnað þess að um allan heim sveltur fólk, þrælar, þjáist og er beitt órétti. Hann er ekki félagsfræðingur heldur myndlistarmaður þannig að aðferðirnar sem hann notar eru ekki penar: Ekki gröf og skýrslur og mynd af stóreygu barni. Hann reynir ekki að höfða til samvisku okkar og bendir á reikningsnúmer. Hann uppfræðir ekki heldur reynir að hrista það sem við vitum upp úr sálinni og afbæla.
Hann sýnir okkur þennan raunveruleika í okkar samhengi og þannig fáum við að finna fyrir valdbeitingunni, hvernig hún virkar og hvað hún er í raun nálæg. Hún er nefnilega aldrei lengra í burtu en ódýri bómullarbolurinn sem við sofum í. Einmitt þá særist egóið. Einmitt þá verður þetta persónulegt. En ég er heimsforeldri. Gæti einhver hugsað. En þetta er einmitt ekki persónulegt. Viðteknu hugmyndirnar okkar og aðferðirnar við að horfa framhjá erfiðum sannleika eru ekki persónulegar heldur samfélagslegar.
Santiago Sierra opnaði stóra yfirlitssýningu í Hafnarhúsinu 2012. Í einu af verkum sínum hefur hann beðið nokkrar vændiskonur sem háðar eru heróini um að láta húðflúra á sig strik í skiptum fyrir þá upphæð sem þær eru vanar að fá fyrir kynlíf, upphæð sem dugar fyrir einum skammti af heróíni. Vídeóið af þessu er kannski það verk Sierra sem valdið hefur mestum óþægindum. Sem dæmi lét þáttastjórnandinn Egill Helgason þessi orð falla á bloggsíðu sinni:
„Það verður að segjast eins og er að listamaðurinn Santiago Sierra er hálfgert ógeð. (…) Er þetta list eða einungis ógeðslegt flipp þar sem er níðst á bjargarvana fólki sem er tilbúið að gera hvað sem er fyrir næstu máltíð eða næsta fix?“
En það er ekki Santiago Sierra sem er ógeð heldur kerfi sem viðheldur fyrirkomulagi þar sem eymd er nýtt til kynferðislegrar svölunar. Sierra er að sýna okkur það og mér finnst nokkuð ljóst að hann er ekki að flippa.
Það er bara svo miklu einfaldara að fordæma hann heldur en að hugsa málið lengra, hugsa um líf þessara kvenna. Kannski finnst manni dónaskapur við konur að taka af þeim völdin yfir eigin líkama og þess vegna er óþægilegt að sjá þær fá á sig varanlegt strik í skiptum fyrir einn skammt af heróíni. Þá kemur upp sú spurning hvort ekki hljótist varanleg mein af lífsbaráttunni sem fíknin þröngvar þeim til að há. Og hvenær er val yfirleitt frjálst? Hvenær er okkur sjálfrátt og hvenær hlýðum við stýrikerfi? Hver heldur þá á því o.s.frv. Fátt er eins óþægilegt og að efast um sinn frjálsa vilja.
„Það er bara svo miklu einfaldara að fordæma hann heldur en að hugsa málið lengra, hugsa um líf þessara kvenna.“
Í öðru vídeóverki eftir Sierra má sjá auða götu í stórborg. Tekið um nótt og gatan er mannlaus, allt með kyrrum kjörum. Í lýsingu á verkinu má síðan lesa að í raun eru hundrað atvinnuleysingjar í felum á vídeóinu, bakvið bíla og handan við horn. Myrka gatan breytist í einni andrá og það sem snertir mig við þetta verk, fyrir utan hina döpru ljóðrænu, er hversu vel það lýsir hlutskipti mannanna. Hvernig afneitun er leið til þess að lifa af, hvernig hún getur verið fullkomlega ómeðvituð, hvernig hægt er að detta úr henni annað slagið eða komast aldrei í afneitun og hvert sem maður lítur er harmur. Er harmur endilega sannari en gleði? Eða er þunglyndi kannski bara meira sannfærandi en kátína. Það eru til margar leiðir til þess að horfa á góð listaverk. Það að þau séu pólitísk útilokar ekki annan lestur rétt eins og ópólitísk verk eru það nú oft samt.
Einhver óþægilegasta myndlistarsýning síðari tíma hér á Íslandi
hét Koddu og átti upphaflega að vera í Listasafni Árnesinga 2010 en var ritskoðuð þaðan burt nokkrum dögum fyrir opnun. Sýningin fjallaði meðal annars um uppgang þjóðlegrar fagurfræði á Íslandi og hvernig hinar skapandi greinar komust í tísku við hrun. Á sýningunni sem var haldin ári síðar bæði í Alliance húsinu og í Nýlistasafninu voru verk eftir 46 listamenn. Sýningin var aftur ritskoðuð stuttu eftir opnun.
Ástæðan var sú að útgefandi bókar, sem notuð var sem hráefni í einu listaverkanna, hringdi í safnstjóra Nýlistasafnsins og sagðist halda að brotið væri á sæmdarrétti höfundar bókarinnar og minntist á lögfræðinga.
En bíðum nú aðeins hæg. Hér koma þrír aðilar að máli og mér finnst mikilvægt að sundurgreina aðeins ólíka aðkomu þeirra.
Árið 2008 kom út bókin Flora Islandica, eftir líffræðinginn Ágúst Bjarnason og myndlistarmanninn Eggert Pétursson í útgáfu forlagsins Crymogeu. Bókin var gríðarstór og glæsileg, handinnbundin og árituð. Hún hafði unnið til hönnunarverðlauna og í tilefni þess verið auglýst sem fegursta bók í heimi.
Sýningarstjórar Koddu, myndlistarmennirnir Hannes Lárusson, Ásmundur Ásmundsson og mannfræðingurinn Tinna Grétarsdóttir notuðu þessa bók sem eins konar léreft fyrir verk sitt, Fallegasta bók í heimi. Eintak af Flora Islandica var útatað matvælum og haft til sýnis á stöpli undir lampa gerðum úr nautspungi.
Bókaútgefandinn krafðist þess að verkið yrði tekið niður og því fargað í vitna viðurvist. Sýningarstjórarnir mótmæltu en viðbragð stjórnenda Nýlistasafnsins var að loka sýningunni í nokkra daga, svara engum fyrirspurnum listamanna og fela verkið sem um ræddi inni í læstri geymslu.
Eftir nokkra daga og mikið þref fengu sýningarstjórarnir verkið aftur í sínar hendur. Verkið var sett upp í hinum hluta sýningarinnar, í Alliance húsinu, en stjórn Nýlistasafnsins hafði ekkert vald yfir þeim hluta. Sýningarstjórnun er vandasamt verk og því hafði flutningurinn á verkinu keðjuverkandi áhrif á heildarmyndina. Nýlistasafnið sendi síðan frá sér yfirlýsingu þar sem eftirfarandi kom meðal annars fram:
„Nýlistasafnið fagnar allri málefnalegri umræðu um þolmörk listsköpunar, enda er stöðug krafa samfélagsins að listir séu greinandi og gagnrýnið afl í samfélaginu. En á meðan það getur á nokkurn hátt talist vafaatriði hvort lög landsins hafa verið brotin, mun Nýlistasafnið ekki hafa verkið „Fallegasta bók í heimi“ til sýnis í safnrými sínu.“
Þegar listin eru komin að þolmörkum listsköpunar má alveg gera ráð fyrir símtölum frá lögfræðingum eða að minnsta kosti símtali þar sem minnst er á slíkan. Í lýðræðissamfélagi sem stendur vörð um grundvallarmannréttindi á að gera ráð fyrir átökum. Einmitt þannig urðu og verða þessi réttindi til, í gegnum átök.
„Þegar listin eru komin að þolmörkum listsköpunar má alveg gera ráð fyrir símtölum frá lögfræðingum eða að minnsta kosti símtali þar sem minnst er á slíkan.“
Lagabókstafurinn er þarna fyrir okkur, svo við megum fikra okkur áfram. Að geta kært þann sem opinberlega vegur að sæmd náungans eða starfsheiðri er einn fjölmargra burðarása samfélags þar sem ríkir tjáningarfrelsi. Ég má segja það sem ég vil og mér má finnast það sem mér sýnist en ef orð mín skaða aðra persónu þá hefur hún rétt til þess að véfengja orð mín við dómara sem getur dæmt þau ómerk.
Þetta hefði getað orðið athyglisvert dómsmál að fylgjast með. Það hefði fjallað um tjáningarfrelsi, sæmdarrétt og þolmörk listsköpunar. Við hefðum kannski lært eitthvað af því.
Þess í stað gerðust þáverandi stjórnendur Nýlistasafnsins sekir um ritskoðun. Þegar stofnun brýtur á einstaklingum er fordæmi sett. Þegar tjáningarfrelsi er skert er það aldrei bundið við eitt atvik, eina persónu, heldur hefur það víðtæk áhrif á alla starfandi listamenn, menningarstarfsmenn og svo ég tali nú ekki um listnema.
Það er freistandi
að fjalla nánar um verkið sem olli þessum viðbrögðum. Fallegustu bók í heimi. Hinsvegar tel ég að hollt væri að reyna nýja nálgun.
Á sínum tíma var þetta rætt fram og til baka. Hvort og hver hefði brotið á hverjum. Eins og þetta væri persónulegt. Eins og einhver hefði verið sakaður um að vera ekki heimsforeldri. Eins og einhver væri ógeð að flippa. Eins og einhver væri hræsnari. Eins og einhver væri níðingur. Eins og einhver væri vondur. Eins og einhver væri góður. Eins og þetta væri ekki marglaga myndlistarverk. Talað var um að verkið Fallegasta bók í heimi eyðilegði sýninguna. Talað var um að sýningin Koddu væri svo sem óttalega ómerkileg. Einn útvarpsgagnrýnandi lýsti yfir mikilli vanþóknun án þess að hafa séð nema helminginn af henni. Annar útvarpsmaður líkti sýningarstjórunum við Láka Jarðálf, sem skemmir og skemmir til þess eins að skemma. Skrifuð var grein sem hét Tortímandinn. Þar voru sýningarstjórarnir sakaðir um að hafa eyðilagt frumverk. Uppi voru deildar meiningar um hvort hægt væri að kalla bók gefna út í 500 eintökum frumverk.
Hún er handinnbundin og eintökin tölusett og árituð, sögðu einhverjir.
Hún er með ISBN númeri og strikamerki, sögðu aðrir.
Á sýningunni Koddu var ýmislegt annað en Fallegasta bók í heimi. Þar voru meðal annars ljósmyndir af þjóðlífi í aðdraganda hruns, hruni og af afleiðingum hruns. Þessar ljósmyndir voru vandræðalegar rétt eins og öll upprifjun af stemningunni sem ríkti á þessum árum er vandræðaleg. Til er blaðaljósmynd af undirritaðri í hláturskasti með Björgólfi eldri, þá hafði hann styrkt Nýhil útgáfuna með því að kaupa ljóðabækur fyrir bókasöfn úti á landi. Á myndinni ræð ég mér ekki fyrir kæti og brosi eins og sólin. Ámóta myndir mátti sjá uppblásnar og stækkaðar á sýningunni Koddu. Það var ekkert þægilegt.
En á sýningunni voru listaverk eftir 46 myndlistarmenn og þar af leiðandi ekki um einhliða sýningu að ræða. Ýmis sjónarhorn komu fram, ólíkar víddir, en heildarverkunin var eins og af óþægilegum spéspegli á tíðaranda: Grátbroslegum vandræðagangi smáþjóðar.
Viðbrögðin við hruninu voru alveg eins mikið til umfjöllunar og sjálft góðærið eða hrunið. Þessi áhersla sem skyndilega var lögð á hinar skapandi greinar sem þjóðlega útflutningsvöru; sjálfsmyndina sem trosnaði og átti að staga í með lopapeysumynstruðum bankalógóum og hjali um sláturtöku og kleinubakstur.
Aðferðarfræði listarinnar er ólík aðferðarfræði akademíunnar eða pólitíkurinnar. Ákvarðanir listamanna eru alltaf að einhverju leyti fagurfræðilegar, líka þegar þeir vilja losna alfarið undan myndmáli skrauts eða tjá sig á pólitískan hátt. Listin kemst aldrei undan fagurfræðinni en hún er líka alltaf háð umhverfi sínu og samtíma. Túlkunin á henni breytist um leið og breytingar verða í samfélaginu. Um leið og verk er komið út í heiminn missir listamaðurinn stjórn á merkingu þess.
Þannig er alltaf mikilvægt að skoða listaverk á eigin forsendum en ekki bara sem álit sem hægt er að hengja á skapara þess. Um leið og við dæmum verk úr sögunni af persónulegri óbeit á listamanninum eða ímynduðum skoðunum hans, pólitískum eða trúarlegum, erum við farin að ofureinfalda svo dásamlega flókinn hluta af mannlífinu.
Í samfélagi eins smáu og því sem við lifum í og hrærumst er sjálfsagt erfiðara en ella að veita listamönnum það rými og frelsi sem hann þarfnast til að sinna starfi sínu. Nálægðin gerir að verkum að alltof auðvelt er að útskúfa listamönnum og skerða möguleika þeirra til afkomu ef þeir eru ekki þægilegir/þægir.
„Í samfélagi eins smáu og því sem við lifum í og hrærumst er sjálfsagt erfiðara en ella að veita listamönnum það rými og frelsi sem hann þarfnast til að sinna starfi sínu.“
Menningarstarfsmenn sinna þjónustustörfum fyrir fleiri en eina stofnun í einu og þannig þarf listamaður kannski að kvarta undan órétti sem hann var beittur á einum stað, einmitt við aðilann sem beitti órétti. Þess vegna er eins gott að styggja engan og kannski erfitt að mæta þeirri stöðugu kröfu samfélagsins að listir séu greinandi og gagnrýnið afl í samfélaginu.
Ritskoðun er yfirleitt vandlega dulbúin. Þeir sem velja inn verk eða hýsa sýningar geta hæglega sveigt fram hjá öllu því sem er óþægilegt og nefnt hvaða ástæðu sem er. Eitthvað varðandi reglugerðir, algerlega fýsísk vandamál, vantar innstungu þar sem verkið átti að vera og ekkert budget fyrir framlengingarsnúrum. Þar með eru vopnin slegin úr höndum okkar. Við segjum ritskoðun og virkum fyrir vikið vænisjúk. Sem dæmi má nefna sýningu sem nýlega var opnuð almenningi í Safnahúsinu, hún heitir Sjónarhorn og er lýst sem ferðalagi um íslenskan myndheim fyrr og nú en um er að ræða samstarfsverkefni milli margra ólíkra stofnana. Sýningarstjórinn Markús Þór Andrésson valdi gripi og listaverk frá ýmsum tímum á sýninguna, þar á meðal skúlptúrinn Holu eftir Ásmund Ásmundsson og neon-textaverkið Landið þitt er ekki til eftir Ólaf Ólafsson og Libiu Castro.
Hinsvegar setti yfirstjórn Þjóðminjasafnsins sig upp á móti einmitt þessum tveimur verkum af einhverjum alveg praktískum ástæðum.
Landið þitt er ekki til. Hola.
Ásmundur Ásmundsson
er ekki þægilegur listamaður. Það fyrsta sem ég heyrði um hans störf var frásögn af fyrirlestri sem hann hélt á ráðstefnu um gjörningalist í Helsinki árið 2001. Áður en hann byrjaði voru einhverjir í salnum sem bentu á að tími var kominn á hlé en Ásmundur brást ókvæða við. Þannig voru áhorfendur á móti honum alveg frá upphafi.
Fyrirlesturinn var grautur af fræðilegum tískuorðum og hrognamáli og hljómaði mjög svipað og fyrirlestrarnir sem á undan komu. Hins vegar var engin leið að finna þráð í fyrirlestri Ásmundar. Óvildin úr salnum varð sífellt meiri og samfara því varð Ásmundur óöruggari, hann fór að stama og svitna en hélt samt alltaf áfram að tala. Á endanum pissaði hann í buxurnar og lét sig síðan hverfa af ráðstefnunni án þess að nokkurn tíma yrði ljóst hvort um gjörning hefði verið að ræða.
Þannig ýkir Ásmundur í listsköpun sinni aðstæðurnar, dregur fram fáránleikann í þeim og hæðist að þeim, og sjálfum sér í leiðinni. Einnig málar hann út fyrir rammann vegna þess að mörkin eru óljós milli raunveruleika og gjörnings.
Koddu var óþægileg
myndlistarsýning vegna þess að hún særði egó listheimsins. Listheimurinn hafnaði sýningunni og notaði til þess persónugervingar. Myndlistarmennirnir Hannes Lárusson og Ásmundur Ásmundsson voru úthrópaðir níðingar og enn í dag hefur sýningin Koddu áhrif á líf þeirra og afkomu. Sem dæmi má nefna að fyrir nokkru voru uppi deilur vegna nýráðins rektors Listaháskóla Íslands sem Ásmundur blandaði sér inn í. Myndlistarmaðurinn Kristinn E. Hrafnsson skrifaði þá um Ásmund að hann væri þekktastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra. Ásmundur taldi vegið að starfsheiðri sínum og fór í meiðyrðamál við Kristin sem tapaðist bæði fyrir héraðsdómi og nú um síðustu áramót einnig fyrir hæstarétti.
Kristinn E. Hrafnsson, Hannes Lárusson og Ásmundur Ásmundsson voru allir félagar í myndhöggvarafélaginu en fyrir nokkrum vikum síðan lagði Kristinn fram óvænta tillögu á félagafundi um að Hannes og Ásmundur yrðu reknir úr félaginu. Rökstuðningurinn á bakvið tillöguna er nokkuð óljós en ásakanirnar alvarlegar. Óheilindi, misnotkun, þjófnaður, ofbeldi, ógnanir eru orðin sem koma fyrir.
Í flestum félögum væri þess líklega krafist að einhverjar sannanir fyrir ofangreindu væru færðar fram en sannleikurinn virðist hér vera aukaatriði. Í myndhöggvarafélaginu eru 170 meðlimir en aðeins þrjátíu manns mættu á fundinn. Sjö kusu gegn því að Ásmundur og Hannes væru reknir, átta kusu með því en ellefu sátu hjá. Kosningin fór fram með nafnleynd.
Haldi þessi niðurstaða er mikilvægt fordæmi sett: Hver sem er getur sagt hvað sem er og losnað þannig við kollega sinn. Þess vegna er best að gera þægilega myndlist og umfram allt vera sjálfur þægilegur, forðast átök og reyna frekar að vera jákvæður.
Oft er hamrað á því að listamenn verði að standa saman. Líkt og valdbeitingin komi einungis að ofan, eins og hún sé fjarlægt afl sem við góða fólkið þurfum að passa okkur á. Hins vegar held ég að valdbeitingin sé grafin í framheilann á okkur öllum og að alvarlegasta ritskoðunin gerist einmitt þar. Að alltof oft veigrum við okkur við að tjá hug okkar af ótta við að styggja. Það virðist nefnilega ekki þurfa að útskúfa nema einum einstaklingi til þess að heil stétt hafi sig hæga.
Athugasemdir