Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Vill Alþingi stríð?

Vill Alþingi stríð?

Hugmyndin að baki svokallaðri rammaáætlun var að innan hennar yrði virkjanakostum á Íslandi raðað í flokka eftir því hvort þeir teldust fýsilegir og hagkvæmir án verulegra náttúruspjalla eða hvort rétt væri að vernda þá vegna sérstöðu sinnar í þágu komandi kynslóða.

Um þetta ferli hefur ríkt nokkuð góð sátt í nokkur ár þótt stjórnmálin hafi alltaf tekist á við vísindin um röðun í flokkana og gengur þar sök nokkuð jafnt yfir þá flokka sem ráðið hafa hverju sinni.

Eitt kjarnaatriði þessa vinnulags voru þó allir sammála um. Nefnilega það að áður en virkjunarkostum yrði skipað í flokk merktan bið, nýting eða verndun þá yrði að vera lokið tilteknum grunnrannsóknum og meðferð hjá stjórn rammaáætlunar.

Þetta samkomulag hefur atvinnuveganefnd Alþingis nú rofið með því að leggja til færslu tveggja virkjanakosta úr biðflokki í nýtingarflokk án þess að tilskildar rannsóknir hafi farið fram. Þeir staðir sem þarna um ræðir eru annars vegar Skrokkölduvirkjun sunnarlega á Sprengisandi og hinsvegar Hagavatnsvirkjun sunnan Langjökuls.

Báðir þessir staðir tilheyra hálendi Íslands. Nýleg skoðanakönnun leiddi í ljós að 60% aðspurðra studdu hugmyndina um þjóðgarð sem tæki til alls hálendis Íslands. Þær auðnir og víðerni sem þar er að finna eru ótvírætt sterkasti segullinn sem dregur sífellt fleiri ferðamenn til landsins. Þeir koma til þess að upplifa ósnortnar víðáttur, ógrónar auðnir og þann framandleika og smæð sem flestir upplifa þegar þeir standa andspænis einhverju sem er eins stórt og náttúran sjálf.

Undir merkjum Landverndar hefur myndast breiðfylking náttúruverndarfólks sem berst fyrir friðun hálendisins. Þar sameinast margvísleg félög útivistarfólks og ferðamanna og hafa fundið þann kraft sem felst í sameinuðum her frekar en dreif fámennra flokka.

Ferðaþjónustan hefur ákaft hvatt til þess að hálendisins verði gætt sérstaklega til þess að ekki spillist sú góða ímynd sem landið hefur haft í þessum efnum til þess. Svo er að sjá að augu margra hafi opnast fyrir því að villt land og ósnortið er dýrmætara en virkjað.

Ekkert er eins hættulegt íslenskri náttúru og duglegir menn. Duglegir menn hafa grafið fram mýrar, virkjað ár, lagt háspennulínur og búið til vegi og slóða hvert sem þeim sýnist í íslenskri náttúru. Þeir vilja gjarnan halda áfram að böðlast áfram í stjórnlausu uppbyggingaræði og brjóta náttúruna undir sig í þeirri blekkingu að þannig séu þeir að vinna þjóð sinni gagn.

Svo er ekki. 

Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis vinnur ekki með þjóðarhag að leiðarljósi. Þeir vinna fyrir þá sem hafa greitt í flokkssjóðinn og vilja nú fá eitthvað í staðinn. Við þurfum að sýna þessum mönnum að það er hvorki vilji þjóðarinnar né hagur að leyfa huldumönnum með djúpa vasa að byggja virkjanir á hálendi Íslands. Við höfum rödd- við skulum kalla svo hátt að þeir heyri. 

Mótmæli verða á Austurvelli í dag og þar gefst tækifæri til þess að láta rödd sína heyrast.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni