Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Jackfruit-vængir

Jackfruit-vængir

Nú hlýtur hverjum þeim sem les þetta blogg að vera ljóst að ég elska jackfruit. Allavega er þetta þriðja uppskriftin hér sem byggð er á þessum undraávexti. Í þetta skipti gerði ég jackfruit-vængi eða KFJ (Kentucky Fried Jackfruit). Það er viðeigandi að kalla þessa uppskrift KFJ þar sem að ég prófaði að nota kryddblöndu sem á að vera „nákvæm“ eftirlíking af sjálfri kryddblöndu Sanders ofursta. Uppskriftin á víst að hafa fundist í myndaalbúmi hjá ættingjum Sanders skrifuð á lítinn miða. Téðir ættingjar sverja fyrir að þetta sé hin eina sanna kryddblanda. Eftir að ég las þessa grein fannst mér tilvalið að prófa þetta með jackfruit-vængjunum. 

Jackfruit-vængir

Ég rakst á þessa uppskrift (frá Zacchary Bird) fyrir nokkrum árum og vorum við hjónin mjög hrifin af útkomunni. Sérstaklega eftir að ég prófaði hana með KFC kryddblöndunni. Ég hafði áður rekið mig á að nota annað hvort of bragðlitla kryddblöndu eða alltof sterka. Þessi er akkúrat passleg. 

Lyktin af blöndunni er mjög sannfærandi. Sérstaklega eftir djúpsteikingu. 

Í upprunalegu uppskriftinni býr maður til ‘bein’ úr blómkáli til að líkja frekar eftir hefðbundnum kjúklingavæng nema þetta bein má borða með. Það geri ég einungis þegar ég hef þeim mun meiri tíma til að undirbúa matinn. Það er skemmtilegt að bera fram vængina á þennan hátt en yfirleitt sleppi ég blómkálinu. 

Þessi uppskrift er tímafrek og örlítið snúin þannig ég myndi mæla með að gefa sér góðan tíma fyrir hana og jafnvel útbúa jackfruit blönduna daginn áður til að dreifa álaginu.

Jackfruit-vængir:

2 dósir jackfruit

1 1/2 bolli „kjúklinga-soð“ - ég nota vegan kjúklingakraft en einnig er hægt að nota grænmetis- eða sveppakraft

1 tsk laukduft

1/4 tsk liquid smoke

2 msk næringarger

Blómkálshaus

Olía til steikingar - u.þ.b. 500 ml ( ég notaði sólblómaolíu)

KFC kryddblanda:

2 bollar hveiti

2/3 tsk salt

1/2 tsk timjan

1/2 tsk basil

1/3 tsk oregano

1 tsk sellerí salt

1 tsk svartur pipar

1 tsk sinneps krydd

4 tsk paprikukrydd

2 tsk hvítlauks salt

1 tsk engifer krydd

3 tsk hvítur pipar

Aðferð:

Skola jackfruit-ið og hreinsa burt öll fræ og harða enda. Soði, jackfruit, laukdufti, næringargeri og liquid smoke blandað saman í pott. Hita upp að suðu og lækka svo á miðlungshita og leyfa blöndunni að malla í 10 mínútur. Lækka svo hitann og elda þar til allur vökvinn hefur gufað upp. 

Ef blómkálið er notað þarf að skera það til og hreinsa laufin af. Ekki þó skera of nálægt hausnum, því nóg er að taka eingöngu harða endann af stilknum.

Því næst er blómkálið skorið varlega í fjórðunga. Stærstu blómin eru skorin af og geymd, þannig að einskonar ‘bein’ verður eftir. 

Plastfilma er svo klippt til og blómkálsbeinin lögð ofan á hvern sinn ferninginn. Þegar jackfruit blandan er tilbúin er blöndunni skipt jafnt á blómkálsbeinin. Passa að setja ekki of mikið í hvern skammt því þá helst það illa á beininu. Ef það er afgangur af jackfruit blöndunni er henni skipt jafnt og mótuð í bollur. 

Því næst er plastfilman vafin þétt utan utan um og þá er hægt að móta vængina betur. Jackfruit-vængirnir eru svo kældir í frysti í um það bil klukkustund. Athugið að ef jackfruit-blandan er gerð fyrirfram er betra að geyma blönduna í ísskáp.

Næst er öllum kryddunum blandað saman við hveitið í miðlungsstóra skál. Í aðra skál er hellt vökva af einni kjúklingabaunadós (aquafaba). 

Fyrir næsta skref er mikilvægt að hafa allt tilbúið. Ég mæli með að hafa viskastykki eða handklæði til að hreinsa hendurnar til að minnka sóðaskapinn. Einnig er gott að byrja strax að hita olíuna í þykkum, djúpum potti.

Jackfruit-vængirnir eru losaðir varlega úr plastfilmunni og þá er gott að þétta blönduna ef þarf. 

Fyrst þarf bleyta jackfruit-vængina með aquafaba. Mér finnst best að bleyta fingurna uppúr aquafaba og maka því á jackfruit-ið. Svo leggur maður vænginn varlega í kryddblönduna og snýr þar til blandan þekur alveg. Þá ætti að vera óhætt að velta upp úr aquafaba án þess að hætt sé við að jackfruit-blandan detti í sundur. Síðan er aftur velt upp úr kryddblöndunni. Ég þek jackfruit-vængina tvisvar en það er í góðu lagi að fara fleiri umferðir.

Þegar búið er að þekja alla bitana eru þeir djúpsteiktir. Hægt að sjá hvort olían er tilbúin með því að henda örlitlum brauðbita út í. Ef að bitinn skoppar við yfirborðið og verður stökkur er olían tilbúin. 

Mikilvægt er að hafa ekki fleiri en tvo vængi í pottinum í einu.  Snúið vængjunum reglulega svo að þeir steikist jafnt í 3-5 mínútur. Þegar þeir eru tilbúnir eru þeir veiddir varlega uppúr og lagðir á eldhúsrúllu.

Ég bar jackfruit-vængina fram með maís, heimagerðum frönskum, brúnni sósu og bökuðum blómkálsbitum.

Bakaðir blómkálsbitar

Eftir að ég skar úr blómkálsbeinin fannst mér tilvalið að nýta blómin til að bera fram með jackfruit-vængjunum. Ég hellti örlítilli ólífuolíu yfir blómin og tók svo hálfan bolla af kryddblöndunni og velti blómkálsblómunum upp úr kryddinu og olíunni. Því næst setti ég bitana á ofnplötu og bakaði í 45 mín á 190°C. Þegar blómin voru tilbúin hellti ég BBQ sósu yfir og blandaði saman. Einfalt og gott!

Innihald:

Blóm af einum blómkálshaus

1/2 bolli KFC kryddblanda

Olífuolía

ca. 2 msk BBQ sósa

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu