Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Heimagerðir kleinuhringir

Heimagerðir kleinuhringir

Ég hef aldrei steikt kleinur. Ég hef tvisvar sinnum gert Berlínarbollur og það var mjög tímafrekt og vandasamt. Einhvern vegin hef ég gert samtengingu þar á milli og aldrei lagt í kleinubakstur. Þó á ég kleinujárn, en ég hef notað það mikið í súkkulaðiskreytingar. En nýlega gerði ég kleinuhringi sem minntu þó nokkuð á kleinur og þeir voru mjög einfaldir í gerð og fljótgerðir og standa undir nafninu kleinu-hringir.

Smá útúrdúr um orðið kleinuhringir. Venjulegir kleinuhringir sem fást í bakaríum neitar maðurinn minn að kalla kleinuhringi. Í staðinn segir hann enska orðið donuts, sem hefur alltaf farið í taugarnar á mér. Því að auðvitað á maður að nota íslenska orðið ef að maður getur. Maðurinn minn rökstuddi orðavalið sitt þannig að 'kleinuhringir' úr bakaríi væri mjög ólíkir t.d. súkkulaðihúðuðu kleinuhringjunum frá Ömmubakstri sem eru keimlíkir kleinum. Þannig við erum sammála um að vera ósammála. En að okkar mati standast kleinuhringirnir í þessari uppskrift svo sannarlega undir nafni. Útkoman er mjög svipuð Amerískum 'donuts' en minna þó skemmtilega á íslenskar kleinur.

Kleinuhringir

50 g jurtasmjör

120 ml haframjólk eða sojamjólk

2 msk ljós olía

250 g hveiti

50 g sykur

1 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

1/2-1 l steikingarolía - ég nota sólblómaolíu

50 g sykur til að velta kleinuhringjunum upp úr

Hérna í Hollandi er mjög algent að kleinuhringir úti í búð séu annað hvort alveg súkkulaðihjúpaðir eða með sykri og fyrir þessa uppskrift finnst mér best að velta þeim upp úr sykri. Þó er vel hægt að búa til einfaldan glassúr eða hjúpa þá með súkkulaði.

Glassúr: Uþb 50 g af flórsykri blandað við örlítið vatn í litla skál. Þynna eða þykkja eins og þarf. Við þessa blöndu er hægt að bæta við matarlit eða kakó.

Aðferð

Smjör, mjólk og olía er brætt saman í potti á miðlungshita. Þurrefnum er blandað saman í skál og hola mynduð í miðju skálarinnar. Smjörblöndunni hellt í holuna og öllu blandað saman en passa þarf að ofvinna deigið ekki. Hellið olíu í háan pott á miðlungsháum hita. Athugið að nota ekki of stóran pott þvi þá þarf ennþá meira af olíu.

Til að móta kleinuhringina tekur maður smá hluta af deiginu, myndar úr því bollu og býr til gat í miðjuna. Þetta er hægt að gera með fingrunum en mér finnst best að nota matarprjón. Áður en hafið er að steikja þá er mikilvægt að hafa bakka með eldhúsrúllu tilbúinn nálægt steikingarpottinum ásamt sykrinum sé hann notaður. 

Til að athuga hvort að olían sé tilbúin setur maður lítinn brauðbita út í og ef að bitinn bubblar og flýtur á yfirborðinu þá er olían tilbúin. Setjið kleinuhringina varlega ofan í pottinn og steikið á hvorri hlið í uþb 30 sekúndur eða þar til þeir verða fallega gullinbrúnir. Takið þá upp úr og leggið á eldhúsrúlluna. Ef þið notið sykurhjúp þá þarf að velta kleinuhringjunum mjög fljótlega upp úr sykrinum svo að hann haldist á.

Leyfið kleinuhringjunum að kólna aðeins og njótið svo!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu