Granóladuft
Granóladuft (e. granola dust) er hollur og sykurlaus morgunmatur sem tilvalið er að borða út á jógúrt eða með mjólk. Þessa uppskrift fann ég hjá Jamie Oliver og hún varð strax að uppáhaldi hjá okkur. Þetta er lítil fyrirhöfn og er dásamlega gott á bragðið. Einn skammtur dugar okkur hjónum í kringum tvær vikur og auðvelt er að gera stærri uppskrift.
Granóladuft
Ath að mælieiningarnar eru mjög frjálslegar og fer yfirleitt eftir því hvað ég á til hverju sinni
1-2 bollar hafrar - mér finnst gott að blanda grófum og fínum höfrum
1 1/2 bolli hnetur - nota yfirleitt 1 bolla kasjúhnetur og 1/2 bolla af möndlum og valhnetum
1/2 bolli fræ - ég notaði sólblómafræ, graskersfræ og chia
1/2 bolli kókosflögur
1 msk malað kaffi
1 msk dökkt kakó
1/4 bolli þurrkaðir ávextir - ég notaði döðlur og apríkósur
Aðferð
Setja hafra, hnetur, fræ og kókos á ofnplötu og baka í 10-15 mín á 200° eða þar til blandan er gullinbrún. Leyfa blöndunni að kólna örlítið. Setja þurrkaða ávexti, kaffi og kakó ásamt hafrablöndunni í matvinnsluvél og blanda saman þar til ákjósanlegum fínleika er náð.
Magn þurrkuðu ávaxtanna fer eftir krafti matvinnsluvélarinnar. Mín vél þolir illa að blanda döðlum og set ég því lítið af þurrkuðum ávöxtum. Hellið blöndunni í fallega krukku og njótið!
Hér er granóladuft út á hreina sojajógúrt með jarðaberjum, bönunum og kókosflögum
Athugasemdir