Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Eggaldinsúpa

Eggaldinsúpa

Ég elska súpur. Þær geta verið svo dásamlega einfaldar og margbreytilegar. Það kann að hljóma undarlega en súpur er uppáhalds maturinn minn. Ég segi súpur af því að það er ekki nein ein súpa sem númer eitt. Ég geri mismunandi súpur fyrir mismunandi tilefni. Sterka og iljandi sætkartöflusúpu þegar kalt er úti, með extra skammti af engiferi þegar ég finn að ég er að fá kvef. Taka-til-í-ísskápnum súpa þar sem allt grænmeti sem er komið á síðasta séns er nýtt. Flóknar súpur með mörgum hráefnum sem tekur  alltof langan tíma að gera.

Súpur geta verið léttar og þungar, forréttur og aðalréttur. Ég er hrifnust af þykkum, maukuðum súpum. Mjög stór hluti af súpuástinni er meðlætið sem að maður ber fram með súpunni. Yfirleitt er brauð með súpum og þegar ég sýni mikla fyrirhyggju þá baka ég brauðbollur eða Gló-brauð. Upp á síðkastið hef ég verið að prufa mig áfram með kolvetnissnauðar uppskriftir og hef því meðlætið eftir því. Þessi uppskrift er mjög einföld þó hún sé nokkuð tímafrek. Kosturinn við þessa uppskrift er að undirbúningurinn er mjög stuttur og auka plús er að henni fylgir takmarkað uppvask.

Eggaldinsúpa

Stórt eggaldin
Lítil gulrót
50 g sæt kartafla
Tveir stórir tómatar - ég er hrifnust af þykkum “kjötmiklum” tómötum (e. heirloom tomatoes)
Heill hvítlaukur
1 teningur af grænmetis- eða sveppakrafti
500 ml vatn
Jurtarjómi - ég nota Oatly rjóma
Ólífuolía
Salt & pipar
Ferskt basil

Aðferð

Kveikt á ofninum á 200°C. Eggaldin, gulrót, sæt kartafla og tómatar eru skorin í miðlungs stóra bita og raðað á ofnplötu. Ólífuolíu hellt yfir, u.þ.b. 1 msk, og svo bætt við klípu af salti og pipar.

Næst er toppurinn skorinn af hvítlauknum.

Mikilvægt er að losa ekki  hvítlauksrifin frá heldur eingöngu losa mest af hýðinu og skera svo efsta partinn af. Síðan er örlítið af olíu hellt ofan á laukinn ásamt salt og pipar. Hvítlauknum er svo pakkað létt í álpappír og settur á ofnplötuna með grænmetinu og inn í ofn í klukkutíma.

Þegar grænmetið er tilbúið er vatnið hitað upp að suðu með teningnum og grænmetinu bætt varlega út í. Álpappírinn er gætilega losaður utan af hvítlauknum og geirarnir kreistir úr. Þeim er svo bætt út í. Ég nota alla geirana en það má fækka þeim ef ekki er sóst eftir of miklu hvítlauksbragði. Grænmetinu er leyft að malla í pottinum í nokkrar mínútur og er potturinn svo tekinn af hitanum og leyft að kólna örlítið áður en allt er maukað saman, annað hvort með töfrasprota eða í blandara.

Súpan er svo aftur hituð upp að suðu og Oatly rjómanum bætt við til að þynna súpuna aðeins. Ég vil þykka súpu þannig ég bæti við uþb 2 msk af rjóma en fyrir þynnri súpu má nota meiri rjóma. Súpan er borin fram með ferskum basil, Oatly rjómanum og svo er dásamlegt að hafa eggaldin veikon með.

Það er tilvalið að undirbúa veikonið þegar grænmetið er komið inn í ofn. Til að spara mér uppvask þá nota ég sömu ofnplötu fyrir grænmetið og veikonið. Um leið og grænmetið er tilbúið og komið í pottinn þá skelli ég marineruðu eggaldinsneiðunum á plötuna og baka á meðan ég mauka súpuna. Þá er veikonið til á svipuðum tíma og súpan.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu