Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Blómkálsbaka

Blómkálsbaka

Upp á síðkastið hef ég mikið verið að skoða uppskriftir sem eru hollar og næringarríkar en ekki kolvetnisríkar. Það getur verið ögn snúið, þar sem að grjón, pasta eða kartöflur er yfirleitt miðja máltíðanna minna. En nýlega prófaði ég að gera blómkáls 'hrísgrjón' og þau heppnuðust mjög vel. Einnig keypti ég mér grænmetisskera sem gerir ræmur þannig að hægt er að elda 'spagettí' úr t.d. kúrbít.  

Nýja uppáhaldið okkar hjóna er blómkálsbaka. Þessi réttur er tilvalin sem pizzu staðgengill fyrir þá sem vilja minnka kolvetni í matarræðinu og þá sem eru með glútenóþol þar sem að í bökunni er einungis blómkál, chiafræ, möndlumjöl og krydd. 

Blómkálsbaka

Stór blómkálshaus
3 msk chia fræ
6 msk vatn
1/2 bolli möndlumjöl - einnig hægt að nota kókoshveiti

Krydd að eigin vali. Ég nota:
1 tsk salt
1 tsk hvítlaukskrydd
1 tsk oreganó
1 tsk rósmarín

Ofan á bökuna

Ég reyni að nýta afgangs grænmeti í álegg á bökuna. 

Sósa - ég notaði tapenade en það er hægt að nota pizzasósu, tómatpúrru eða pestó.

Grænmeti - ég þurrsteikti þunnar sneiðar af sætri kartöflu, brokkolí og rauða og græna tómata. 

Grænar ólívur

Næringarger

Klettasalat

Aðferð

Hitið ofninn í 200 gráður. Byrjað er að skola og hreinsa blómkálið og skera svo 'blómin' af og setja í matvinnsluvél. Vinnið blómkálið þar til það líkist hrísgrjónum.

Ég þarf að setja blómkálið í skömmtun í mína matvinnsluvél. Blómkálsgrjónin þarf svo að setja í ostaklút (e. cheese cloth) og kreista úr allan vökvann. Það er líka hægt að nota nælonsokk eða jafnvel lítinn óhreinatauspoka úr Ikea. Það er magnað hversu mikill vökvi er í blómkálinu og þetta er ágætis líkamsrækt að ná mestum vökvanum burt. 

Hér má sjá allan vökvann sem kom úr blómkálinu

Því næst þarf að útbúa chia 'egg'. Þremur matskeiðum og chia er blandað við sex matskeiðum af vatni í litla skál. Blandan látin standa í nokkrar mínútur eða þar til myndast hefur nokkurs konar gel.

Síðan er blómkálsgrjónunum, möndlumjölinu, chia-egginu og kryddunum blandað saman. Mér finnst best að kreista blönduna saman með höndunum til að ganga úr skugga um að allt blandist saman. 

Setjið bökunarpappír í form eða á bökunarplötu og fletjið blönduna vandlega út, eins þunnt og hægt er án þess að göt myndist. Bakið þar til bakan er gullinbrún - uþb 20-30 mínútur. Þá er bakan tekin úr ofninum, álegginu bætt við og bakan sett aftur inn í ofn og bökuð í 7-10 mínútur. 

Þegar bakan er tilbúin er klettasalatinu bætt við ásamt næringargeri.

Njótið!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu