Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Besta vegan beikonið

Besta vegan beikonið

Beikon. Það virðist svo oft vera það sem fólk skýlir sig á bakvið þegar það segist ekki geta hætt að borða kjöt. Ég man sjálf eftir að hafa sagt fyrir mörgum árum ég gæti sleppt öllu kjöti en bara ekki blessaða beikoninu. Nú eru liðin um það bil þrjú ár síðan ég borðaði síðast kjöt og ég sakna þess ekki vitund, ekki einu sinni beikonsins. Í rauninni fannst mér kjötið sjálft aldrei neitt spes. Það kjöt sem ég kaus að borða var yfirleitt reykt, saltað eða mikið unnið og var því í raun mjög ólíkt upprunalega bragði kjötsins. Þetta reykta, salta bragð er eitt af því fáa sem ég hef sótt í eftir að ég hætti að borða kjöt. Nýlega komst ég að því hvað það er auðvelt að líkja eftir þessu bragði. 

Bakað eða steikt grænmeti getur verið skemmtilega líkt beikoni. Þó svo að áferðin geti verið töluvert ólík beikoni þá er þetta bragðgott og passar yfirleitt vel í hvers kyns rétti í stað beikons til dæmis í samlokur eða með pönnukökum og hlynsírópi. Það sem er mikilvægast í þessum uppskrifum er svokallað liquid smoke, sem gefur mikið reykbragð.

Þar sem að ég er duglegri að sanka að mér girnilegum og áhugaverðum uppskriftum af netinu heldur en að prófa þær ákvað ég að skella mér í stóreflis samanburð á nokkrum tegundum vegan-beikons, hér eftir kallað veikon.

Ég hef yfirleitt gert eggaldinveikon en ég bar saman veikon gert úr eggaldin, gulrótum, kúrbít, tófu og hríspappír. Útkoman var áhugaverð. Sumt varð mun betra en ég hafði gert mér í hugarlund en annað olli vonbrigðum. Vert er að taka fram að ofninn minn er ekki sérlega góður. Hér í Hollandi virðist ekki vera hefð fyrir að hafa gamaldags bakaraofna í eldhúsum heldur eru nokkuð algengir svokallaðir combi-ofnar. Það eru sumsé ofn og örbylgjuofn í einni græju sem ég bölva að minnsta kosti einu sinni í viku. Ég held að hann verði aldrei alveg nægilega heitur þannig bökunartími gæti verið styttri í fullfærum ofnum.

Varðandi marineringarnar þá er ekki heilagt hvað fer í blönduna. Sumir vilja minna liquid smoke bragð en aðrir meira. Einnig er hægt að stjórna saltmagninu með því að sleppa salti eða minnka tamari/sojasósu þó að það muni auðvitað hafa áhrif á beikon-bragðið. Persónulega er ég mjög hrifin af því að bæta hvítlauks- og paprikukryddi í flestallan mat, eiginmanni mínum til takmarkaðrar gleði. 

Nota má sömu blöndu fyrir allar uppskriftirnar hér fyrir neðan þó svo að ég noti mismunandi útgáfur.

Eggaldin-veikon

1 meðalstórt eggaldin

Marinering:

2 msk balsamik edik

3 msk tamari sósa eða soja sósa

1 msk hlynsíróp

1 tsk liquid smoke

1/2 tsk salt

1/2 tsk pipar

1/2 tsk paprikukrydd

Gamla góða eggaldin veikonið. Hér sker maður eggaldin í þunnar sneiðar og leyfir að “svitna” í uþb hálftíma ( til að láta eggaldin “svitna” þá stráir maður vel af salti yfir hverja sneið og viti menn, fljótlega spretta dropar á yfirborð eggaldisins).Þá er komið að marineringunni. Blanda öllu í litla skál og hræra saman. Að hálftíma loknum eru sneiðarnar skolaðar og þurkaðar og svo raðað á ofnplötu. Olíublöndunni er penslað á eggaldinið og bakað í ofni á 200° í 12 mín. Þegar tíminn er hálfnaður er sneiðunum snúið við. Mikilvægt er að fylgjast vel með sneiðunum þar sem þynnri sneiðarnar geta auðveldlega brunnið. 

Hér má sjá eggaldin eftir 'svitnun' 

Eggaldin penslað.

Gulróta-veikon

1 stór gulrót

Marinering:
1 msk tahini
1 msk ljós olía
1 msk hlynsíróp
1 tsk liquid smoke
1,5 tsk tamari sósa eða soja sósa
0,5 tsk salt 

Þessa uppskrift hafði ég ‘pinnað’ fyrir alllöngu á Pinterest og var í raun spenntust að prófa. Stór gulrót er skorin í þunnar sneiðar, ég notaði grænmetisskrælara í verkið. Því næst er marineringunni skellt í blandara og blandað saman. Gulrótasneiðunum er raðað í mót og marineringunni hellt yfir. Passa að allar sneiðarnar séu baðaðar í blöndunni. Sneiðarnar þurfa svo að fá að slappa í baðinu í um það bil 30 mín. Að biðinni lokinni eru gulræturnar veiddar uppúr, raðað á ofnplötu og restinni af marineringunni hellt yfir. Síðan er bakað á 200° í 15-25 mín. Best er að fylgjast vel með og passa að gulræturnar brenni ekki. 

Kúrbíts-veikon

1 meðalstór kúrbítur

Marinering:
2 msk balsamik edik
3 msk tamari sósa eða soja sósa
1 msk hlynsíróp
1 tsk liquid smoke
1/2 tsk salt
1/2 tsk pipar
1/2 tsk paprikukrydd

Kúrbít á ég yfirleitt í ísskápnum mínum og þurrsteiki gjarnan með hvers konar mat, þá allra helst með súpum. Ég hafði ekki mikla reynslu af því af baka kúrbít en ákvað að skella þessu með. Eins og áður skar ég kúrbítinn í þunnar sneiðar og raðaði á ofnplötu. Ég notaði sömu marineringu og ég nota fyrir eggaldin. Kosturinn við þessa uppskrift er að hún er mjög fljótgerð. Einfaldlega pennsla sneiðarnar báðu megin uppúr marineringunni og baka á 200° í um það bil 10 mín, gott er að snúa sneiðunum við einu sinni. 

Tófú-veikon

Hálfur tófú klumpur

Marinering:

2 msk tamari sósa eða soja sósa
1/2 msk hlynsíróp
1 tsk liquid smoke
1 tsk hvítlauksduft
1 tsk laukduft
1/2 tsk salt
1/2 tsk pipar
1/2 tsk paprikukrydd

Þetta er án efa tímafrekasta uppskriftin því tófúið þarf að pressa í rúma klukkustund og svo þar það að fá að liggja í marineringunni í að minnsta kosti 30 mín. Til að pressa tófúið er hægt að nota þartilgerða tófupressu eða vefja tófuklumpinum inn í viskastykki, leggja vatnsheldan bakka eða bretti yfir og skella svo nokkrum þungum bókum ofan á. Leyfa þessu að standa í um klukkustund og eftir það ætti mest allur vökvinn að vera ‘kreistur’ úr tófúinu. Í raun væri best að undirbúa þetta kvöldið áður og leyfa tófúinu að marinerast yfir nótt. Ég lét tófúið marinerast í 45 mín eftir að hafa skorið í þunnar sneiðar. Því næst er tófu sneiðunum raðað á ofnplötu og bakað á 190° í 20 mín, sneiðunum snúið við þegar bökunartíminn er hálfnaður.

Fyrst vef ég tófúinu í viskastykki, set það svo á bakka og hleð bókum ofan á.

Hríspappírs-veikon

4-6 blöð hríspappír

Marinering:
1/2 msk hvítlauksduft
1/4 tsk pipar
1/4 tsk paprikukrydd
2 msk næringarger
3 msk tamari sósa eða soja sósa
1/4 tsk liquid smoke
1/2 msk hlynsíróp

Þessi uppskrift var snúnari en ég gerði ráð fyrir. Ég sá þessa uppskrift hjá YouTube bloggara sem ég hef fylgt um nokkuð skeið sem heitir EdgyVeg. Byrjað er á að gera marineringuna og hún höfð tilbúin með pennsli. Fyrir þessa uppskrift er best að hafa tvo pennsla, einn fyrir marineringuna og annan fyrir vatn. Því næst eru tekin tvö hrísblöð sem eru lögð saman og með beittum skærum er klippt þvert á miðjuna og svo er hvor helmingurinn skorinn í nokkuð jafnar sneiðar. Mikilvægt er að leggja samstæðu blöðin saman frá sér svo auðvelt sé að taka tvo búta sem eru nokkurnvegin af sömu stærð. Síðan eru tveir bútar af sömu stærð pennslaðir saman með vatni svo þeir festast nokkurn vegin saman og svo bæði fram- og afturhliðin pennsluð með vatni. Varast skal að nota of mikið vatn því það gerir pappírinn of blautan til að bakast almennilega. Ég lagði vatnpennsluðu bitana á olíuborna plötu og reyndi að pensla marineringunni mjög fljótlega þar sem áferðin á hríspappírnum breytist mjög eftir að hann blotnar og erfiðara er að færa bútana til. Pappírinn er svo bakaður á 190° í 7-8 mín. Hér er mjög mikilvægt að fylgjast vel með því hríspappírinn getur auðveldlega brunnið.

 

Samanburður

Þegar ég prófa nýja uppskrift fær maðurinn minn að vera sérstakur smakkari fyrir mig. Ég verð of samdauna tilrauninni og finnst afurðin annað hvort frábær eða gjörsamlega ömurleg. Í þessum samanburði fannst mér yfirleitt allt gott en maðurinn minn var mun krítískari.

Við vorum sammála um að kúrbíturinn væru sístur þar sem að sneiðarnar urðu annað hvort of mjúkar eða brunnu í endana. Eggaldinið var mjög ofarlega eins og vanalega. Það á þó það sameiginlegt með kúrbítnum að það verður fljótt mjúkt og passa þarf að sneiðarnar séu ekki of þykkar.

Eftir fyrstu tilraunina með hríspappírinn ætlaði ég að gefa þeirri uppskrift falleinkunn, því útkoman var mjög stökk hrísblöð sem minntu meira á snakk. En ég gafst ekki upp og gerði aðra tilraun þar sem ég þykkti marineringuna aðeins með hlynsírópi, og pennslaði blöðin vel án þess að gera of mikið. Bökunartíminn lengdist aðeins en útkoman varð stökk en þó ekki um of og mjög bragðgóð.

Gulræturnar þurftu líka tvær tilraunir hjá mér. Í fyrstu gleymdi ég að hella restinni af marineringunni yfir áður en ég bakaði og útkoman voru seigar gulrótasneiðar sem þó urðu betri þegar þær kólnuðu. Í seinni tilrauninni passaði ég mig að nota alla marineringuna og útkoman varð allt önnur. Fljótlega fór að ilma mjög góð lykt sem minnti mig mikið á jólin hjá mömmu og pappa þegar ég var yngri og svína hamborgarhryggur var í jólamatinn. Við hjónin voru sammála um að þessi áferð væri lang líkust hefðbundnu beikoni og kom mest á óvart.

Það sem við vorum ánægðust með var tófúið. Sneiðarnar voru þéttar og bragðmiklar, og jafn góðar eintómar og sem meðlæti.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu