Fer Trump í taugarnar á þér?
Eins og ég sagði margoft í eigin framboði, endurspeglar sá forseti sem kosinn er, hvar þjóðin er stödd í þroska.
Nú hafa Bandaríkin kosið í æðsta embætti mann sem endurspeglar nákvæmlega gildi Bandaríkjanna, einstaklingshyggju, kapítalisma og Darwinisma (survival of the fittest). Niðurstöður kosninganna ætti því ekki að koma neinum á óvart.
Þroski þjóðar er eins og pendúll, sveiflast milli framfara og afturfara. Þegar pendúllinn sveiflast lengst til hægri ofbýður þeim sem vilja jöfnuð fyrir alla. Þetta gefur þeim aukinn styrk til að magna upp óánægjuraddir og mótmæli nægilega til að sveigja pendúlinn næst til vinstri. Þá verða vinstrisinnaðir værukærir og hægri öfgamönnum finnst að sér vegið og mótmæla þar til pendúllinn sveiflast næst til hægri.
Í Íran sveiflaðist pendúllinn í átt til vestrænna áhrifa þegar keisarinn hugðist koma Íran inn í nútímann. Konur tóku sífellt virkari þátt í samfélaginu og menntunarstigið jókst. Olíupeningum var dælt inn í samfélagið til að skapa störf og velmegun. En almenningur stjórnast af ótta og er ekki hrifinn af breytingum yfirhöfuð, fyrir utan að keisarinn ofmetnaðist all svakalega, svo að lokum var honum steypt af stóli og við tók Ayatolla Khomeini sem leiddi landið eins langt í hina áttina og hægt var.
Sama gerðist á Íslandi. Eftir hrunið varð merkileg þróun þegar nógu stór hluti þjóðarinnar krafðist endurskoðunar á kerfinu, meiri sanngirni, gagnsæis og betri stjórnarhátta. Meira að segja var vel völdum einstaklingum falið að semja nýja stjórnarskrá sem skyldi verða stökkpallurinn að hinu nýja Íslandi. En eins og í Íran stjórnast samfélagið af ótta, þjóðin missti kjarkinn og pendúllinn sveiflaðist lengst í hina áttina, í átt til áframhaldandi spillingar, einkavæðingar og misskiptingar. Hvenær pendúllinn sveiflast næst í átt til framfara er ekki ljóst, en miðað við stjórnarmyndun nú á dögunum er langt þar til það verður.
Hinn nýi forseti Bandaríkjanna er ekkert verri eða betri en við hin. Þótt lægri hvatir hans séu meira áberandi en margra, virkar hann eins og spegill á þá sem eru sjálfir að glíma við þessar hvatir. Þeir sem pirrast hvað mest út í Trump eru því þeir sem sjá sjálfan sig hvað mest í honum.
Trump er því ekki bara lexía fyrir Bandaríkjamenn sem þurfa að horfast í augu við eigin gildi, heldur fyrir alla sem vilja ekki viðurkenna eigin ótta, hatur, hroka, frekju, eigingirni eða sjálfsdýrkun.
Athugasemdir