Hræddir ungir menn
Á Íslandi hafa menn áhyggjur af brottfalli drengja úr skólum og réttilega. Það dregur úr möguleikum þeirra í framtíðinni og ætti að vera vísbending um að skólakerfið og samfélagið sé ekki að mæta þörfum þeirra.
Hér í Miðausturlöndum er brottfall drengja mikið áhyggjuefni og öllu alvarlegra. Í skýrslu Unicef og Unesco frá því í fyrra kom fram að 21 milljón barna og unglinga í Arabaheiminum séu annað hvort ekki í skóla eða í brottfallshættu. Þessi tala hefur aukist um 40% á einungis 10 árum. Tugir milljóna ómenntaðra ungra manna og drengja allt niður í 14 ára, ráfa því um Arabaheiminn í leit að tilgangi og merkingarbæru lífi. Og eins og vatnið rennur niður á við, er auðveldast að finna tilgang með því að ganga til liðs við vopnaðar sveitir, glæpagengi og öfgahópa, eins og gerist í Írak, Yemen, Sýrlandi, Súdan og Lýbíu.
Ástæðuna má rekja aftur til 8. áratugsins þegar harðsvíraðir menn komust til valda og breyttu löndunum úr blómlegum menningarsvæðum í lögregluríki þar sem stjórnað var með ótta og harðræði.
Þessir drengir og ungu menn ólust upp við stanslausa skelfingu og óttinn litar líf þeirra. Þeir eru reiðir og hafa misst von um betra líf og því auðveld bráð fyrir öfgahópa og glæpagengi. Þetta er ástæðan fyrir því að samtökum eins og ISIS og Al-Qaeda vex fiskur um hrygg jafn hratt og raunin er. Enginn vill vera sífellt hræddur svo þetta er leið þeirra til þess að sigrast á óttanum. Að þeirra mati er betra að vera sá sem skelfir heldur en sá sem er skelkaður.
Þessara ungu manna bíður ekkert nema fátækt, útskúfun, heilsuleysi, niðurlæging og sársauki. Þeir hafa því engu að tapa og í raun er betra að deyja ungur og óhræddur fyrir málstað, heldur en að eygja einungis ömurlega framtíð. Í öfgahópunum er hverjum nýjum félaga tekið fagnandi sem jafningja. Loksins finnst þeim þeir tilheyra hópi og hafa tækifæri til að sanna sig, sem er meira en úti hinu stóra samfélagi.
Þetta er ekki endilega einskorðað við Arabalöndin. Ungir menn í Evrópu sem hafa ekki fundið sig í skólakerfinu flykkjast til Arabalanda til að vera hluti af einhverju sem gefur lífi þeirra merkingu. Framtíðarhorfur ungs fólks víða um heim eru lakari en áður vegna fátæktar, misréttis, lélegrar menntunar, félagslegra viðhorfa, snemmbæra hjónabanda, spillingar, ófriðar og aukinnar misskiptingar í kapitalískum heimi.
Ef núverandi stjórnvöld um allan heim vilja sporna við þessari þróun þurfa þeir að ráðast í langtíma samfélagsumbætur heima fyrir, stuðla að jöfnuði, sveigjanlegri menntun og auka félagslegt öryggi. Þótt stjórnvöld setji marga milljarða í baráttu gegn hryðjuverkahópum, mun það ekki breyta neinu fyrr en ráðist verður í þessar umbætur.
Ísland er ekki lögregluríki en samfélaginu er samt stjórnað með ótta að ýmsu leyti. Þar geta ungir menn og drengir hins vegar horfið inn í ímyndaðan heim tölvunnar, boðið óttanum birginn og slátrað þar heilu samfélögunum án þess að þeir sjálfir eða aðrir hljóti skaða af. Hér er þetta blákaldur veruleikinn.
Athugasemdir