Ekki allir vondir
Þegar ég var að segja fjórtán ára syni mínum frá ferðinni til Palestínu, sagði hann, ‚Mamma, það eru ekki allir bara vondir eða góðir.‘ Það er því viðeigandi að enda þessa umfjöllun mína um Palestínu á því að minnast á margt ungt fólk í Ísrael telur ástandið vera ömurlegt.
Unga fólkið sem við töluðum við hafði á orði að með veggnum og aðskilnaðinum eru engin tækifæri til að efla skilning milli þessara tveggja þjóða. Ísrealar mega ekki fara til Vesturbakkans og Palestínumenn mega ekki fara til Ísraels.
Hugmyndir Ísraela af Palestínumönnum mótast því af umfjöllunum í fjölmiðlum, sem eru til þess fallnar að réttlæta veru landnema á svæðinu. Við vitum hvernig fjölmiðlar á Íslandi eru notaðir til að móta skoðun fólks. Á sama hátt eru fjölmiðlar í Ísrael og á Vesturlöndum notaðir til að réttlæta vopnvæðingu Ísraels og viðhalda þeirri mýtu að múslimar vilji Ísraela feiga. Það er fjarri sannleikanum. Þeir vilja bara frið og óttalaust og öruggt líf. Hver vill það ekki?
Einu sinni fór ég á ráðstefnu í Háskólanum um aðkomu kvenna að friðarferli og hversu mikilvægt það er að hafa konur með slíkum viðræðum. Þar hélt fyrirlestur ísraelsk kona sem sagði frá frumkvæði menntaðra ísraelskra og palestínskra kvenna sem leitast við að efla samskipti milli þessara tveggja menningarheima. Samskipti efla skilning og samkennd. Aðskilnaður eflir tortryggni og vanþekkingu. Það er miklu auðveldara að heilaþvo ungmenni í hernum ef þau hafa aldrei leikið við palestínsk börn. Á sama hátt verða palestínsk börn herskárri gagnvart ísraelum ef einu samskiptin við þá eru við hermenn sem leitast við að stjórna þeim með ótta, hefta ferðir þeirra og sitja með byssur ofan á heimilum þeirra.
Ein falleg minning situr eftir sem vinnur gegn þessu. Þegar við heimsóttum heimili eitt í Hebron, sem bjó undir ruslasendingum landnema, voru fjórir hermenn þar fyrir utan. Netið sem strekkt hafði verið yfir götuna náði ekki nógu langt til að þekja innganginn þeirra og þegar við komum lá tóm mjólkurferna á jörðinni. Hlutverk hermannanna var að gæta þess að ekki syði upp úr þegar landnemarnir storkuðu íbúum með ruslasendingum sínum. Börn íbúanna voru þarna að leik og það gaf mér von að sjá hvernig hermennirnir komu fram við börnin. Þeir léku við þau og töluðu vingjarnlega við þau. Líklega var þetta líka svona á Íslandi þegar breskir hermenn gengu hér um götur og áttu samskipti við heimamenn, nema þeir voru bandamenn.
Hermennirnir eru flestir barnungir einstaklingar, um 18 ára aldur, því herskyldan byrjar þá. Þeir geta frestað því að ganga í herinn fram yfir háskólapróf, en þá verða þeir að vera í fjögur ár. Flestir kjósa að fara strax 18 ára og vera bara í eitt ár. Þess vegna þurfti fimm eða sex hermenn, karla og konur, eða kannski frekar stráka og stelpur á hvern póst í Jerúsalem. Ég sá enga kvenhermenn í Hebron, en hins vegar var meirihluti þeirra sem stjórnuðu umferðinni um landamærin konur.
Ég vona heitt og innilega að ungt fólk í Ísrael fái hugrekki til að breyta núverandi fyrirkomulagi og koma á eðlilegum samskiptum milli þessara þjóða. Berlínarmúrinn féll. Aðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku leið undir lok. Ég er sannfærð um að einn góðan veðurdag verður veggurinn á Vesturbakkanum rifinn. Hvort það verður eftir 10 ár eða 50 ár, skal ekki segja.
Athugasemdir