Afsögn Assads engin lausn
Þeir Sýrlendingar sem ég hef rætt við hér í Beirut og á leiðinni hingað eru sammála um að það sé engin lausn að Assad forseti fari frá völdum í Sýrlandi. Þeir segja að það muni einungis leiða til upplausnar og svipaðs ástands og er nú í Írak. Menn eru sammála um að miklu mikilvægara sé að byggja upp innviði og grunnþjónustu við íbúa landsins, heldur en að koma forsetanum frá völdum. Assad sé einungis birtingarmynd miklu stærra kerfis og verði honum bolað frá völdum muni ríkja stjórnleysi, sem myndi líklega smitast yfir til nærliggjandi landa, eins og til dæmis Líbanon. Proxy stjórn eins og í Írak væri líka léleg lausn sem myndi ekki leiða til betra ástands, eins hefur sýnt sig í Írak.
Í upphafi stríðsins voru mótmælendur að stórum hluta vel menntað fólk sem krafðist lýðræðisbreytinga. Margir voru ósáttir við að Alavítar, minnihlutahópur með Assad í fararbroddi, héldi um stjórnartaumana með harðræði og ólýðræðislegum vinnubrögðum. Fyrir stríð skipti ekki máli hvort fólk var Súnní eða Shía múslímar, en eftir því sem stríðið vatt upp á sig varð þörfin fyrir aðgreiningu meiri, sérstaklega að frumkvæði leiðtoga Súnní múslima sem töldu 60% íbúa fyrir stríð.
Hinn 12. september s.l. hófst vopnahlé í Sýrlandi sem varð að endast í fimm daga til að hægt væri að fara í frekari friðarviðræður. Forsendur fyrir vopnahléinu voru að stjórnarherinn réðist eingöngu á ISIS liða og hópa tengda Al-Queda. Sama með Bandaríkin og Rússland. Þegar þetta er skrifað lítur út fyrir að vopnahléið hafi haldist og Rússland hefur nú sagt sig reiðubúið til að framlengja um þrjá sólarhringa.
Núverandi vopnahlé er öðruvísi en vopnahléð sem mistókst í febrúar. Assad er viljugri til samstarfs, svo framarlega sem hann þurfi ekki að víkja. Stuðningur við hann og Alavíta hefur aukist úr hópum Shía múslima, kristinna og annarra minnihlutahópa. Flestum hrís hugur við að Súnní múslimar nái völdum í Sýrlandi, þar sem þeir hafi talsvert minna umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum. Verði Assad hrakinn frá völdum og völdin falli í skaut Súnni múslima, er hætta á að Sýrland verði enn ólýðræðislegra en fyrir stríð. Þess vegna er Assad besti kosturinn nú.
Meira að segja Tyrkir og Bandaríkjamenn eru sáttari við að Assad haldi völdum, að minnsta kosti fyrst um sinn. Í samningnum fyrir núverandi vopnahlé var forðast að fjalla um framtíð forsetans heldur einungis minnst á friðarferli í framhaldinu.
Einn möguleikinn væri að hafa lýðræðislegar kosningar, vaktaðar af alþjóðasamfélaginu, þar sem Assad gæti boðið sig fram. Hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst yfir vilja til að hafa kosningar strax á næsta ári. Þá er óskandi að fólk geti hætt allri aðgreiningu og orðið Sýrlendingar aftur.
Miklar vonir eru bundnar við vopnahléið og að friður komist á í Sýrlandi. En vopnahléið er ekki síður merkilegt að því leyti að hinir fornu féndur Bandaríkin og Rússland hafa samþykkt að samhæfa aðgerðir gegn ISIS og Al-Qaeda hópum. Þeir hafa meira að segja sammælst um að setja á laggirnar sameiginlega miðstöð til að sporna gegn hryðjuverkahópum. Menn binda því vonir um að þetta gæti leitt til frekara samstarfs af þeirra hálfu og ekki endilega í stríðsrekstri.
Athugasemdir