Um Fernando Pessoa og þörfina fyrir að skilja ekki heiminn

Það er orðið nokkuð síðan Guðbergur Bergsson sendi frá sér þýðingu. Skáldið er eitt skrípatól: Um ævi og skáldskap Fernando Pessoa nefnist útgáfa hans á úrvali verka portúgalska ljóðskáldsins Fernando Pessoa. Þess virði er að nefna að bókin er vel útgefin: Rauð og svört kápa með teikningu af Pessoa, harðspjalda, svarti liturinn á innkápusíðum hittir á eitthvert gullinsnið og tónar fallega við rauða kápuna. Reyndar er þess virði að geta þess líka að síðasta þýðing Guðbergs, Popol Vúh, myndskreytt og stórmerkileg forn sköpunarsaga Maya-indíána, var ekki beinlínis vel útgefin, ræfilsleg kilja sem helst leit út fyrir að umbrotsmaður hefði lent í hreint svaðalegu óstuði. Þar á undan kom út safn portúgalskra ljóða árið 2009, Öll dagsins glóð. Það er stórmerkilegt safn. Lesanda hefði þó fyrirgefist að ætla sem svo að hann hefði í Portúgal uppgötvað land þar sem öll ljóðskáldin ortu eins og Guðbergur Bergsson. Hins vegar var Fernando Pessoa alfarið slaufað í þeirri útgáfu.
Bók Guðbergs um Pessoa er kyndugt kvikindi. Ekki er rétt að tala um ljóðaúrval með formála heldur breiðir formálinn úr sér inn í textann og aftur fyrir hann, stundum koma skýringar í fyrstu persónu inni á milli ljóðanna, skáletraðar, ýmist merktar upphafsstöfum þýðanda eða ekki, og aftast er að finna æviágrip Pessoa eftir ártölum og nafnaskýringar með þeim nöfnum sem koma fyrir í hinum eiginlega formála. Ljóðunum er skipt eftir höfundum sínum, en Fernando Pessoa átti 74 aukasjálf, sjálfstæð skáld sem ortu með sínum eigin hætti, samkvæmt eigin fagurfræði, og áttu eigin ævisögu, uppruna og feril. Þrjú þeirra eru helst, Alberto Caeiro, Álvaro de Campos og Ricardo Reis og fá hvert sinn kafla, auk þess sem ljóð sem Pessoa orti undir eigin nafni fær kafla. Sá kafli er tvær blaðsíður. Ekkert er hér úr Mensagem, ljóðabókinni sem Pessoa gaf út á sínum dögum (á portúgölsku) og reyndar ekki neitt valið í bundnu máli og ekki er hér heldur ljóðið sem titill bókarinnar er sóttur til (ljóðið Autopsicografia, línan „O poeta é um fingidor“). Þá er „látið fljóta með“ eitt leikrit.
Þetta nánast glundroðakennda form hæfir líklega efninu ágætlega. Eða er það fremur þjóðlegt en glundroðakennd? Eitthvað í ætt við það sem sagnaþáttasöfn verða stundum? Kenjótt og skringilegt? Efnið er ekki hvaða efni sem er. Fernando Pessoa mætti segja glundroðakenndan í hugsun, óskýran; hann gaf sáralítið út um dagana en setti öll sín skrif ofan í stóra kistu sem enn er verið að tína upp úr, flokka, ættfæra, setja saman í heildir og meta og raða. Hans merkasta prósabók er Bók óróleikans sem seint verður sögð straumlínulöguð í forminu. En svo er þessi bók hér raunar allt eins og jafnvel frekar bók eftir Guðberg en Pessoa og aukasjálf hans.
Það er gaman að lesa texta Guðbergs sem er enginn nýgræðingur þegar kemur að ritun formála að þýðingum. Þetta er frumspekileg, fagurfræðileg og hugmyndaleg greining. Rödd formálans og ítartextanna í bókinni um Pessoa býður þó sjaldnast upp á neina samræðu. Hún er skáldleg, vitur og fljúgandi en í samræðunnar stað — í stað þess að lesandinn fái að smjúga inn um glufur í textanum með eigin þankagang — er honum boðið upp á að móttaka, innbyrða eftir gleiðum landgangi, skilyrðislaust, og gott ef ekki falla fram og tilbiðja ofurmennið sem skrifar og stígur af og til fram með alhæfingar sem mætti meira en vel vefengja ef upp á það væri boðið, það er ekki eins og þær séu fræðilegar staðreyndir. Bókin hefur fengið einn ritdóm. Gauti Kristmannsson, prófessor, nefnir eina af þessum alhæfingum: „Aðeins eitt er víst: Skáldin skálda í því mikla skáldi sem samfélagið er.“ (bls. 64). Hvað þýðir það? Ritdómari virðist telja athugasemd Guðbergs merkilega fagurfræðilega pælingu. Þó býður slík lokun í textanum allt eins upp á að kalla hana bara, og alveg skætingslaust, orðagjálfur sem merki ekki neitt.
Það eru samsvaranir á milli raddarinnar í formálanum og skáldskapar Pessoa. Í báðum tilvikum er dulhyggja í fyrirrúmi, þörf fyrir að skilja ekki heiminn. Greining Guðbergs á afstöðu Pessoa er kannski ívið óvægin á köflum en þó háleit og glögg:
„Hann liðaðist sundur við yrkingar en rann um leið saman við hið þekkta og óþekkta í tilverunni. Mikið skáld yrkir ofar sjálfu sér og lyftist þannig upp á æðri við.“ (bls. 13).
Áttum okkur á þessu, samt. Hér fer maður sem birtir nánast ekki neitt í lifanda lífi, yrkir af þrotlausri þráhyggju — hugsýki, tvístruðu sjálfi — og stendur uppi sem sigurvegari að liðnu bókmenntalegu andrúmslofti sem Guðbergur lýsir skemmtilega kvikindislega nokkurn veginn sem svo að blaðamenn hafi strunsað fram á sjónarsviðið og eignað sér það með skrifum sem eru öllum gleymd í dag. Eftir stendur einn snillingur, Pessoa, gersamlega sniðgenginn á sínum tíma. Er þetta ekki alveg draumur? Draumur um raunverulegt gildi bókmennta? Einhver ára einsemdar og skáldskapar, hugsýki og tengsla við eitthvað stærra. Eitthvað er það sem heldur áfram að heilla lesendur Pessoa.
Reyndar var sá tími sem fyrst uppgötvaði Pessoa hrifnari af hugmyndinni um snilling en okkar tími. Nú ríkir fremur óbeit á hugmyndinni um snilling — svo ekki sé talað um ef snillingurinn er karlkyns. Sú óbeit er ekki ný af nálinni (onei, hún er eldgömul, bæði Dagur Sigurðarson og Kurt Vonnegut viðruðu hana meðan hún var róttæk og utangarðs). Tíminn leiðir í ljós hvort andúð á hugmyndinni um snilling leiðir til annars en upphafningar á meðalmennsku og göfgunar á flatneskju. Snillingar kunna að vera pirrandi en þó er vandséð hvernig útrýming hugmyndarinnar um að „sjá lengra“ en aðrir ætti að leiða til annars en að allir sjái jafn stutt. Mikið væri það nú ljómandi gott. Ha?
Coeiro er hrifinn af hugmyndinni um að náttúran merki ekki neitt, að ekkert geti verið tákn fyrir eitthvað annað. Hann var talsvert upptekinn af því að hugsa um hugmyndina um það að hugsa ekki neitt.
„Það felst talsverð frumhugsun í því að hugsa um ekki neitt.
Hvaða hugmynd geri ég mér um heiminn?
Hvað ætli ég viti um hugmynd mína um hann!
Ef ég yrði veikur leiddi ég hugann að slíku.“
(bls. 74)
Eða kannski öllu heldur:
„Ég hef aldrei gætt hjarða
en mér finnst ég hafi gert það.
Sál minni svipar til fjárhirðis
sem þekkir sólina og vindinn
og árstíðirnar vísa honum leið
þegar svipast er um í eftirleit.“
(bls. 68)
Maður hefði ætlað, svona í fyrstu, að hægt væri að gera sjálfan Fernando Pessoa ögn lýrískari á íslensku. En gott og vel — þetta flæðir. Guðbergur er innblásinn þýðandi en ónákvæmur. Hann býr til snið í hvert skipti og fylgir því eftir. Ljóðaþýðingar hans hafa stóra kosti, opna heilu heimana — í hátimbraða samhengi mætti segja að þær auðgi og frjóvgi — en þær eru líka sumpart sérstakar. Hann er t.d. orðinn furðu snokinn fyrir orðalaginu „hvað varðar“. Það er óttalega ljótt orðalag, hæfir betur stjórnmálamönnum en rithöfundum. Og látum vera með ýmsa skáldlega ónákvæmni, annað veldur manni bakþönkum: þetta með að einkum og sér í lagi í köflunum sem eignaðir eru Alberto Caeiro gerir þýðandi litla tilraun til að þétta textann, gera hann ljóðrænan, hnika til hversdagslegasta orðalagi (sem á portúgölsku er þó með hindrunum, með músik), búa til lýrískt lofttæmi — það er engin þráhyggja fyrir orðunum. Textinn hefur tilhneigingu til að vera gisinn prósatexti. Hér þýðir skáldsagnahöfundur ljóð. Þó eru næg tilefni til ýmissa æfinga í frumtexta, tónlist og hrynjandi myndu réttlæta ýmislegt.
Sú staðreynd að ekki er valið bundið mál gerir klassískari hliðarsjálf Pessoa ekki eins klassísk. Stílsniðið er nokkuð það sama á milli aukasjálfa Pessoa (enda þýðandi þeirrar skoðunar að þau séu öll eitt og sama skáldið) og þetta stílsnið hæfir leikritinu (einþáttungi sem nefnist Sjómaðurinn) kannski betur en ljóðunum. Leikrit Pessoa er þó ekki beinlínis gott sem slíkt, sem leikrit. Minnir helst á leikrit Ramón de Valle-Inclán sem fáir láta sér koma til hugar að setja á svið þótt textinn sé góður. Dylan Thomas skrifaði líka kvikmyndahandrit sem er gullfallegur prósi en það er með öllu ómögulegt að kvikmynda eftir því, það er ekki hægt að kvikmynda fallegar stemmningar í orðum.
En þó, ég ætla að bakka. Ég ætla að venda kvæði mínu í kross. Þessi prósakenndi ljóðastíll er kannski einmitt eitthvað sem vantar í íslenska ljóðagerð. Það yrkir enginn svona. Enginn er svona kærulaus með línuskiptingar og svona blygðunar- og hiklaus við frumspekilegar vangaveltur í ljóðlist. Nema kannski einmitt Guðbergur, og þá sérstaklega í ljóðabókinni Stígar. Eiginlega má segja að þetta hæfi Fernando Pessoa vel, hann hafi einmitt verið þannig skáld, ekki síst þegar ort var undir nafni Caeiro (burtséð frá ítrekuðum (svo ekki sé sagt endurtekningarsömum) fullyrðingum Guðbergs um að öll skáldin sem Fernando Pessoa hafi haft undir sínum fræga hatti hafi verið eitt og sama skáldið, Pessoa sjálfur). Og eiginlega er ekki hægt að skrifa öðruvísi bók en nákvæmlega svona um og eftir Pessoa á íslensku.
Ég mæli með henni, sérkennileg sem hún er. Það koma örugglega ekki út merkilegri skáldskaparþýðingar í bráð.
Athugasemdir