Haust

Haustið læðist að, lúmskt og ísmeygilegt. Rifsberin hafa gerjast og fuglarnir gætt sér á þeim, baðað sig í þakrennunni, bersýnilega ölvaðir, í hamslausum fögnuði, og nú er eins og þeir hafi gufað upp. Gamlar heimildir segja að farfuglar á borð við lóuna feli sig í gjótum yfir veturinn og liggi þar í hýði eins og birnir.
Grámi leggst yfir grasið á umferðareyjunum. Klambratúnið blekkir með sígrænu en kemur upp um sig með gulnandi litbrigðum inni á milli. Kvöldmyrkrið er tekið að læsa sinni grimmu kló um allt og hóta skammdegi. Bringsmalaskotta lumar sér í brjóstin. Maran hugsar sér til hreyfings úr djúpi sínu og langar að leggjast á einhvern sem sefur.
Geitungarnir eru að drepast. Þeir skögra eftir gangstígunum og náðu ekki einu sinni að þessu sinni að ráðast að okkur með heift þess sem veit sig feigan, óbilgirni þess sem álítur heiminn skulda sér eitthvað, sömu óbilgirni og við ölum sjálf með okkur á verri stundum.
Haustið ætlar okkur lifandi að drepa með tvíveðrungi sínum, það rignir, það gerir úrfelli sem þykist vera gróðurskúr, og svo kemur góðviðra, sól og svikalogn. Loftslagskvíðinn hellist yfir okkur. Hví getur haustið ekki bara komið almennilega fyrst það er að þessu? Með skafrenningi þar sem má grafa sig í fönn og finna sér hinsta var? Við huggum okkur við að aðrir standi sig enn verr en við í baráttunni. Við komum okkur upp staðfastri grunsemd um óheilindi náungans til að orna okkur við.
Gínurnar í búðargluggunum klæðast vetrarfötum eins og þær séu á leiðinni í langt ferðalag. Okkur verður ósjálfrátt hugsað hve hnignandi öllu fari og einkum okkur sjálfum. Áður áttum við ótal úrkosti, við höfðum virðingu og reisn, nú eigum við ekkert nema hnyttni og röfl. Eitt stundarkorn blæðir okkur í alvöru og það koma blettir í teppið. Við gerum örvæntingafulla tilraun til að birta leifturmyndir af gegndarlausri hamingju okkar, dugnaði og takmarkalausri velgengni á félagsmiðlum en þær blekkja engan í alvöru, taka að hljóma eins og skerandi neyðaróp í fuglabjargi.
„Vinir mínir fara fjöld / flestir á bakvið gluggatjöld.“ Makríllinn nennir okkur ekki og er á förum til heitu landana. Verði honum að því, helvítinu. Jafnvel Mike Pence hefur yfirgefið okkur með allt sitt fylgdarlið. Rétt hefði verið ef leyniskytturnar hans hefðu grisjað raðir okkar svolítið, ekki veitir af, verður okkur á að hugsa, af einlægni; í spartverskum hernaðarhofmóði sínum hélt hann vestur og lýsti sig stóránægðan með það sem okkar örmu ráðamenn sögðu ekki: Að við vildum ekki sjá neina samninga við Kínverja.
Einmitt þetta sagði Trump honum að gera: Hunsaðu bara rausið í þeim, láttu sem þú sjáir ekki regnbogafánana, komdu svo til baka og hrósaðu sigri yfir því sem þér sýnist: Þetta fólk veit ekki einu sinni að það er í útstillingargluggum.
Niðurlæging okkar er ekki einu sinni almennilegt skemmtiefni eins og niðurlæging annarra, grunar okkur að sé sannleikur. Við skerum niður öryrkjana okkar eins og hænsn og flissum. Hverju sætir endalaus fjölgun eldri borgara? spyrjum við. Tja, þessir andskotar virðast bara fjölga sér eins og kanínur og þurfa augljóslega kynfræðslu.
Þyngsl leggjast yfir allt. Ekki er að undra að þjóð sé dálítið öfgakennt þegar hún býr annað hvort í sólarhringsmyrkri eða endalausu ljósi. Við reynum fyrir okkur við samræður en erum fyrr en varir komin í íslenska glímu. Rétt skriðin yfir tvítugt erum við farin að takast á við líkamlega hrörnun, andlega hnignun. Við erum orðin ævagömul og það er haust. Það er ekkert stuð lengur. Sjálfur er ég með vélindabakflæði, mér er illt í síðunni, ég kann sáralítið í latínu, braut í mér tönn og er því bæði tannlaus og móðgunargjarn. Ég er hryllilega fyrirsjáanlegur, ekki síst ef ég reyni að vera ófyrirsjáanlegur. Flestum er meinilla við mig og ekki að ófyrirsynju. Ég held að ég sé að verða of feitur. Ég kenni ríkisstjórninni um það.
Haustið er komið með melankólíu sinni. Allt er mónótónía og dökknandi grámi. Allt eins og maður hafi séð það einhvers staðar áður. Gæti ekki eitthvað orðið betra? Sumarblómin standa grunlaus í garðinum. Hvílíkir bjartsýnisglópar. Hvað halda þau eiginlega? Að þau muni standa þarna til eilífðarnóns?
Það kemur aftur vor.
Athugasemdir