Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Bilun í eilífðarvél Trumps?

Sviðsmyndir“ — orðið er á góðri leið með að verða að pólitískri klisju. Svona svipað og „innviðir“. „Framtíðarsýn“ er á útleið sem hugtak. Sviðsmyndir? Gott og vel. Spáum í komandi kosningar í Bandaríkjunum. Það má stilla upp tveimur ólíkum sviðsmyndum:

1) Demókratar í Bandaríkjunum koma sér saman um frambærilegt forsetaefni sem sigrar kosningarnar.

2) Kosningarnar snúast mest um persónu Donald Trump og hann gersigrar þær.

Fyrir nokkrum dögum sakaði dálkahöfundurinn E. Jean Carroll Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að hafa nauðgað sér undir lok síðustu aldar. Hvíta húsið og Trump neituðu þessu, Trump sagðist aldrei hafa séð manneskjuna. Hún er ekki mín týpa, sagði Trump. En Carroll var fljót að afhjúpa það sem lygi og sýna ljósmyndir sem sönnuðu að þau höfðu hist.

Skemmst er frá því að segja að enda þótt Trump hafi ekki verið ásakaður um svo alvarlegan glæp áður varð málið ekki að forsíðufrétt í neinu blaði. Mótframbjóðendur Trumps í Demókrataflokknum í forsetakosningunum á næsta ári fordæmdu hann — en nánast eins og af skyldurækni. Elisabeth Warren sagði hreint út að ekkert við persónu Trumps kæmi á óvart, héðan af kæmu aðeins fram smáatriði. Áhrifin á kosningabaráttuna, sem er enn sem komið innbyrðis á milli mótframbjóðenda, voru nánast engin. Pólitískir keppinautar Trump vilja ekki gera slíka uppákomu að kosningamáli.

Manni verður á að hugsa með sér að kannski sé þetta eins gott, ef maður er ekki áfram um að Trump verði forseti. Manni verður á að hugsa að kannski hafi mótframbjóðendurnir komið auga á bilun í eilífðarvél Trumps.

Eilífðarvélin virkar nokkurn veginn svona: Trump segir eða gerir eitthvað algerlega forkastanlegt; í stað þess að asnastrikin velti honum úr sessi gulltryggja þau að Trump er miðpunktur athyglinnar í öllum fjölmiðlum. Umræðan snýst um hann. Hann sakar fjölmiðla um að vera á móti sér, þeir koma fram með fleiri asnastrik hans, vélin heldur áfram að malla. Enginn mótframbjóðandi getur sigrað slíka vél.

Því kjósendurnir — og kannski er þetta að renna upp fyrir fólki — eru kannski sumir hverjir þeirrar gerðarinnar að þeir treysta engri stofnun samfélagsins og engum stjórnmálamanni, þeir hugsa bara með sér að þeir geti alveg eins kosið það sem komi sér verst fyrir samfélagið. Ellegar af þeirri gerðinni að þeim leiðist það sem þeir upplifa sem tepruskap menntastéttarinnar í borgunum; í það minnsta var ekki að sjá að „grab em by the pussy“ hefði nein áhrif til ills fyrir síðustu kosningar, nema síður sé. Sennilega græddi hann á því. Þeim mun meira sem Trump er núið upp úr afglöpum sínum, þeim mun betur gengur honum.

Sé málið af siðferðislegum toga en ekki hugmyndalegum, þá græðir Trump.

En það hefur minna verið gert af því að takast á við Trump á málefnalegum grundvelli, spyrja til dæmis hvort efnahagsstefnan hans sé góð. Að sleppa því að sýna fram á að maðurinn sé asni (sem andstæðingar hans vita fyrir og hinir kæra sig ekki um að heyra) en halda sig við hugmyndir.

Sumir af mótframbjóðendunum hafa boðað verulega metnaðarfullar aðgerðir í loftslagsmálum. Vafalaust er það erfið söluvara fyrir marga af kjósendum Trumps. En samt. Er ekki meira hugmynafræðilegt innihald í því en síendurteknum fréttum af asnaskap?

Kannski hefur fólk loksins fengið upp í háls af fréttum af fábjánahætti. Kannski hefur loksins komið í ljós að enda þótt Trump beri enga virðingu fyrir sannleikanum og álíti þær fréttir sem hann vill helst heyra vera sannastar er ekki ósvipað komið fyrir andstæðingum hans: Sennilega verður aldrei vitað hvort Trump nauðgaði E. Jean Carroll né heldur vitað fyrir víst hvort hann áreitti allt það kvenfólk sem hefur sakað hann um áreiti, það hefur ekki stoppað fjölmiðla í að birta af því fréttir.

Og þeim fréttum kýs fólk að trúa af því að það vill trúa þeim. Sannleikurinn er það sem maður vill heyra.

Furðu lítið hefur enn sem komið er borist til Evrópu af fréttum af bandarísku kosningunum miðað við síðast. Kannski af því að ekki er komið á hreint hverjir bítast um bitann. Sennilega er sviðsmynd 2 miklu líklegri en sviðsmynd 1: Kosningarnar snúast mest um persónu Donald Trump og hann gersigrar þær.

En mikið væri nú ágætt ef einhver hefði komið auga á bilunina í eilífðarvélinni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni