Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Fólkvangur í ruslflokki

Fólkvangur í ruslflokki

Meðfylgjandi myndir tók ég í gær í Seltúni þegar ég kom gangandi af Sveifluhálsinum eftir Ketilstíg. Sveifluhálsinn er í miklu uppáhaldi hjá mér með sínar mögnuðu móbergsmyndanir og  hálendislandslag. Alveg stórkostlegt gönguland sem og Krýsuvíkur- og Trölladyngjusvæðið allt, sem er innan Reykjanesfólkvangs. Ekki er óalgengt að þessi sjón mæti manni í Seltúni en hverasvæðið þar dregur að sér sífellt fleiri ferðamenn. Þá fer þeim greinilega fjölgandi sem hafa uppgötvað hversu skemmtilegt gönguland þetta svæði er.  Fyrir nokkrum árum mætti maður aldrei nokkrum manni á göngu uppi á Sveifluhálsi en í dag teldst það mjög óvenjulegt.

Fyrir um þremur árum stóð stjórn Reykjanesfólkvangs fyrir talningu á ferðamönnum sem koma í Seltún og voru þeir að meðaltali um eittþúsund dag hvern. Þarna væri upplagt tækifæri til uppbyggingar í ferðaþjónustu með byggingu Krýsuvíkurstofu. En því miður virðist metnaðurinn í þeim málum hjá sveitarfélögunum vera  á núlli.  Þau eiga sína fulltrúa í stjórn Reykjanesfólkvangs en virðast oft á tíðum ekki ætlast til neins af þeim enda fjármagnið til fólkvangsins skorið við nögl.  Í stjórninni hafa setið einstaklingar með metnað og hugmyndir til að auka veg fólkvangsins en yfirleitt fá þeir dræmar undirtektir eða þeim er skipt út fyrir einhvern annan. Í  svokallaðri friðlýsingu sem Reykjanesfólkvangur á að njóta er í raun kveðið á um að svæðið sé útivistarsvæði þangað til annað kemur í ljós. Býsna margt var tekið út fyrir sviga í friðlýsingunni, m.a. möguleikinn á jarðhitavinnslu. Sveitarfélögin og orkufyrirtækin hafa ávallt horft hýru auga til hennar og af þeim sökum hefur Krýsuvík aldrei fengið þann sess sem svæðið ætti að njóta sem fólkvangur.

Samkvæmt nýlegum fréttum hafa Hafnarfjarðarbær og HS Orka hafið á ný viðræður um hugsanlega orkuvinnslu í Seltúni og þær fréttir valda manni ónotum. Þær hugmyndir sem uppi eru um jarðhitavinnslu í fólkvanginum eru algjörlega glórulausar.  Sumir hafa haldið því fram að í lagi sé að virkja í Krýsuvík því þangað komi hvort eð er svo fáir. Þeir hinir sömu verða að koma með önnur rök því þessi eru algjörlega haldlaus eins og ofangreindar staðreyndir sýna.
Upphaflega stóð til að Krýsuvík yrði meginstoðin í orkuöflun fyrir álver í Helguvík en nú er ljóst að þeir villtu draumar eru úti. Það dregur samt ekki úr viljanum til að virkja – og eyðileggja.  Ekki dregur það heldur úr virkjanafíklunum að Krýsuvík var sett í ruslflokk (orkunýtingarflokk) í  2. áfanga rammaáætlunar.

Í Hafnarfirði er mikil þverpólitísk andstaða gegn virkjunum í Krýsuvík enda þykir mörgum bæjarbúanum afar vænt um þetta magnaða svæði. Svo er að sjá hversu mikið þor fólk hefur til að láta þær skoðanir í ljós þegar á reynir.

Í meðfylgjandi tengli má skoða myndir frá Krýsuvík og nálgast meiri fróðleik um svæðið.
 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Innflytjendur á Íslandi
Samtal við samfélagið#15

Inn­flytj­end­ur á Ís­landi

Ís­land hef­ur tek­ið um­tals­verð­um breyt­ing­um und­an­farna ára­tugi. Eft­ir að hafa löng­um ver­ið eitt eins­leit­asta sam­fé­lag í heimi er nú svo kom­ið að nær fimmti hver lands­mað­ur er af er­lendu bergi brot­inn. Inn­flytj­end­ur hafa auðg­að ís­lenskt sam­fé­lag á marg­vís­leg­an hátt og mik­il­vægt er að búa þannig um hnút­ana að all­ir sem hing­að flytja geti ver­ið virk­ir þátt­tak­end­ur á öll­um svið­um mann­lífs­ins. Til að fræð­ast nán­ar um inn­flytj­enda hér­lend­is er í þess­um þætti rætt við Dr. Löru Wil­helm­ine Hoff­mann, nýdoktor við Menntavís­inda­svið Há­skóla Ís­lands, þar sem hún tek­ur þátt í verk­efn­inu “Sam­an eða sundr­uð? Mennt­un og fé­lags­leg þátt­taka flótta­barna og -ung­menna á Ís­landi.” Hún starfar einnig sem stunda­kenn­ari við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri og Há­skól­ann á Bif­röst. Sjálf er Lara þýsk en rann­sókn­ir henn­ar hverf­ast um fólks­flutn­inga, dreif­býli, tungu­mál og list­ir en hún varði doktors­rit­gerð sína í fé­lags­vís­ind­um við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri ár­ið 2022. Tit­ill doktors­rit­gerð­ar­inn­ar er „Að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi: Hug­læg­ar vís­bend­ing­ar um að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi byggð­ar á tungu­máli, fjöl­miðla­notk­un og skap­andi iðk­un.“ Guð­mund­ur Odds­son pró­fess­or í fé­lags­fræði við HA ræddi við Löru en í spjalli þeirra var kom­ið inn á upp­lif­un inn­flytj­enda af inn­gild­ingu, hlut­verk tungu­máls­ins, stærð mál­sam­fé­laga, sam­an­burð á Ís­landi og Fær­eyj­um og börn flótta­fólks.