Langsóttar tilgátur Bjarna og Björns
Nú nýlega hefur fráfarandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, lýst því yfir að það hafi verið „mistök“ að veita tveimur albönskum fjölskyldum íslenskt ríkisfang. Þessu lýsti hann yfir í kjölfar fyrirspurnar frá sagnfræðingnum Þóri Whitehead, varðandi það hvort hælisleitendum hér á landi hefði fjölgað í kjölfar þessa atburðar. Mér þykir það leitt að forsætisráðherra hafi veitt Þóri vafasamar upplýsingar um orsakasamhengi milli þessa atburðar og fjölgunar hælisleitenda, því ég er viss um að honum er umhugað um að fá upplýsingar sem byggja á gögnum en ekki á getgátum Bjarna Benediktssonar.
Fleiri hafa reyndar viðhaft þá kenningu að fjölgun hælisleitenda frá Albaníu og Makedóníu stafi af þessari ákvörðun um veitingu ríkisfangs til þessara tveggja fjölskylda. Svo virðist sem sá sem var fyrstur til að setja fram þessa kenningu sé Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Af umræðu þeirra frænda að dæma virðast mistökin felast í því að þessi afgreiðsla hafi valdið aukningu á umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi, sér í lagi meðal fólks frá Albaníu. Svo virðist sem það sé orðin viðtekin söguskoðun að fréttir af veitingu íslensks ríkisfangs fyrir þessar tvær fjölskyldur hafi valdið því að hingað hafi leitað mikill fjöldi albanskra hælisleitenda í kjölfar ákvörðunarinnar. Við fyrstu sýn gæti þetta ef til vill sýnst rökrétt, þar sem mikil fjölgun varð á umsóknum um alþjóðlega vernd milli áranna 2015 og 2016 og fjöldi umsækjenda var mestur frá Albaníu og Makedóníu. En þegar nánar er að gáð er ekkert skýrt orsakasamhengi að sjá milli veitingar ríkisfangs fyrir þessar tvær albönsku fjölskyldur og aukningar hælisumsókna.
Eins og sjá má á grafinu hér að neðan á fjölgun sér stað á hælisumsóknum um mitt sumar 2015, en fjöldinn helst nokkuð stöðugur þar til í ágúst árið eftir þegar enn meiri fjölgun á sér stað. Alþingi samþykkti veitingu ríkisfangs fyrir albönsku fjölskyldurnar í desember 2015. Eins og sjá má fylgir engin fjölgun hælisumsókna þeirri ákvörðun. Aukning þeirra á sér ekki stað fyrr en í september, níu mánuðum síðar. Upplýsingar um fjölda umsækjenda frá tilteknum löndum eru ekki til staðar á vef Útlendingastofnunar fyrir árið 2015, eingöngu heildarfjöldi umsókna, en ef árin 2016-2017 eru skoðuð er ekki hægt að sjá neina afgerandi fjölgun hælisumsókna fólks frá Albaníu í kjölfar veitingar ríkisfangsins. Eins og sést hefur hælisumsóknum fólks frá Albaníu fjölgað minna en hælisumsóknum almennt.
Vissulega var um að ræða fjölgun frá árunum þar á undan, en eins og sjá má hefst sú fjölgun nærri hálfu ári áður en albönsku fjölskyldunum var veitt ríkisfang. Því er nærtækast að leita annarra skýringa á þeirri fjölgun.
Albanir hafa jafnan verið ofarlega á listum um fjölmennustu hópa hælisleitenda í Evrópu. Árið 2016 voru þeir fjölmennasti hópur hælisleitenda í Frakklandi, næst fjölmennastir í Lúxemborg og þriðji fjölmennasti á Írlandi og Hollandi, eða á milli 8% og 11% umsókna í þessum löndum. Árið 2015 voru Albanir næst fjölmennasti hópur umsækjenda í Þýskalandi, á eftir Sýrlendingum, eða 53.805 talsins, en árið eftir voru þeir 14.853 og fækkaði því um 72% milli ára á meðan umsækjendum frá öðrum löndum fjölgaði milli 2015 og 2016 í Þýskalandi. Árin 2012 og 2013 voru hælisleitendur frá Makedóníu einnig fjölmennir í Þýskalandi, eða fjórði algengasti hópur hælisleitenda hvort ár.
Þegar við skoðum nánar fjölmennustu hópa hælisleitenda hér á landi síðan í janúar 2016 eru það Albanir, Makedóníumenn, Georgíumenn, Írakar og Sýrlendingar. Fæstir þessara hópa eru mjög fjölmennir en þó er greinilegt að Makedóníumönnum fjölgaði hratt á tímabilinu ágúst-nóvember 2016 en fækkaði álíka hratt í lok árs. Nú er hugsanlegt að þessir Makedóníumenn tilheyri albanska minnihlutanum í landinu og hafi því mögulega haft af því fréttir að Ísland hafi veitt tveimur fjölskyldum frá Albaníu ríkisfang. Hvers vegna mikill fjöldi þeirra ákveður að koma níu mánuðum eftir þá ákvörðun skýrir það þó ekki. Af gögnunum að dæma get ég því ekki séð annað en að það sé fremur langsótt tilgáta að fjölgun Makedóníumanna stafi af þessum eina atburði.
En hver getur skýringin á þessari miklu fjölgun á stuttum tíma þá verið? Berum aðeins saman gröf um hælisleitendur á Íslandi og í Þýskalandi. Ekki eru birtar tölur um fjölda umsókna eftir mánuðum á Íslandi árið 2014 svo í því grafi eru eingöngu tölur frá 2015 og 2016.
Þýskaland:
Ísland:
Þegar Ísland og Þýskaland eru borin saman kemur í ljós að heildaraukning hælisleitenda á Íslandi virðist eiga sér stað um sama leyti og fjöldi þeirra dregst saman í Þýskalandi, eða í ágúst-október 2016. Fram að því hafði hælisleitendum fjölgað jafnt og þétt í Þýskalandi frá því um vorið 2015 og svo aftur um haustið 2015, rétt eins og gerðist hér.
Hvað gerðist í Þýskalandi, og reyndar í Evrópu allri á þessum tíma? Árið 2015 fór mikill fjöldi fólks sem flúið hafði átökin í Sýrlandi að leita til Evrópu, þó einungis um hluta flóttamanna frá Sýrlandi væri að ræða. Á sama tíma héldu áfram átök víðs vegar annars staðar, sem og ógnarstjórn hryðjuverkahópa á tilteknum svæðum og ofstæki stjórnvalda annars staðar fór ekki batnandi. Því varð ekki lát á flóttamannastraumi sem hafði verið viðvarandi frá ýmsum óstöðugum svæðum, en við bættist mikill fjöldi fólks frá Sýrlandi. Framan af voru tvö lönd talin taka sérlega vel á móti sýrlenskum flóttamönnum, Svíþjóð og Þýskaland. Í báðum löndum skapaði sú stefna andóf meðal öfgahópa og þjóðernissinnaðra stjórnmálaflokka. Í kjölfar þess, og líka til að létta álagi af hæliskerfinu, tóku þessi lönd um stranga stefnu í málum fólks frá öðrum löndum, þar með talið löndum sem seint geta talist stöðug eða örugg, svo sem Afganistan, Írak og Íran. Um önnur lönd tekur því vart að tala. Nígería varð skyndilega fullkomlega örugg, þrátt fyrir mikinn uppgang hryðjuverkasamtakanna Boko Haram á sama tíma og svæðisbundinna átaka. Magreb löndin voru skilgreind sem örugg, og Líbýu, sem var í molum eftir að stjórn Gaddafi hafði verið steypt af stóli, var treyst fyrir því að gæta öryggis flóttafólks. Evrópusambandið gerði samkomulag við tyrknesk stjórnvöld um að endursenda ætti hælisleitendur til Tyrklands, þrátt fyrir að orðspor og ásýnd Tyrklands í mannréttindamálum versnaði með hverjum deginum. Og svo má áfram telja.
Seinni hluta árs 2015 setti Þýskaland Albaníu og Makedóníu á lista yfir örugg ríki. Þar setti ríkisstjórnin einnig fram frumvarp í byrjun árs 2016 þar sem reglur um hælisumsóknir voru hertar, sér í lagi gagnvart fólki frá öruggum ríkjum. Þetta frumvarp var svo afgreitt af þýska þinginu sumarið 2016, skömmu áður en hælisumsóknum í Þýskalandi fækkaði snarlega en þeim fjölgaði hér. Gögn og tölur geta auðvitað ekki sýnt fram á orsakasamhengi, en þarna passar tímasetningin betur en í tilfelli ríkisfangsveitingarinnar. Undanfarin ár, eða fram til 2015, höfðu stórir hópar Albana og Makedóníumanna jafnan sótt um hæli í Þýskalandi, en árið 2016 fækkaði þeim mjög, eða um 72%.
Það sem gerist óhjákvæmilega þegar lög og reglur eru hertar til muna á einum stað, er að fólk leitar eitthvert annað. Ef reglur eru hertar í löndum eins og Þýskalandi, leitar fólk lengra út á jaðarinn, til landa eins og Íslands. Það hlýtur að teljast ólíklegt að þeir Albanir og Makedóníumenn sem hingað hafa leitað geri það vegna mikillar vonar um að hljóta vernd því hér er um 100% neitun á umsóknum frá þeim löndum.
Það má líka alveg hafa það í huga að á bak við þessar tölur er oftast bara ósköp venjulegt fólk sem reynir það sem það getur til að komast af, hvort sem það er vegna ótta við ofsóknir eða vegna skorts á möguleikum til að lifa mannsæmandi lífi. Það er algjör óþarfi að taka því svo að allir sem hingað komi séu bara að reyna að „misnota velvild Íslendinga“ eins og fráfarandi dómsmálaráðherra komst að orði. Að minnsta kosti er óþarfi að geta sér til um ástæður fólks án þess að hafa nokkur haldbær rök máli sínu til stuðnings.
Athugasemdir