Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar. Byltingin sem aldrei varð

Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar. Byltingin sem aldrei varð

Ég las um helgina bók Styrmis Gunnarssonar „Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar, byltingin sem aldrei varð.“ Bókin er skilmerkileg lýsing á þeim þáttum sem Styrmir telur hafa valdið því að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur fallið um helming á síðustu áratugum. Ég kannast vel við margt sem Styrmir lýsir, enda einn þeirra sem yfirgaf flokkinn á þessum tíma. Mér fannst af þeim sökum ég vera boðflenna þegar Styrmir talar í seinni hluta bókarinnar til sjálfstæðismanna í dag um innri vanda flokksins á afskaplega hreinskilinn hátt.

Styrmir telur Sólstöðusamningana vera vendipunktur í sögu okkar og ekki síst í sögu Sjálfstæðisflokksins. Grunn sólstöðusamninganna er að finna í því að það virtist fram bjart framundan í efnahagsmálunum árið 1976, kaupmáttur hafði aukist um 3% og sigur unnist í landhelgisdeilunni og alþjóðleg viðurkenning á 200 mílna landhelgi. Launþegar sem höfðu tekið á sig umtalsverða kjaraskerðingar árin 1974 – 1976 og töldu að nú væri þeirra tími kominn til að endurheimta eitthvað af töpuðum kaupmætti. Árið 1977 var sett íslandsmet í vinnustöðvunum og skráðar 292 vinnustöðvanir af ýmsum toga.

Samstaða vinnuveitenda brást aldrei þessu vant þegar vinnuveitendur á Vestfjörðum sömdu 13. júní við Alþýðusamband Vestfjarða um umtalsvert kostnaðarmeiri launahækkun en var í boði í tillögu sáttanefndar. Samtök vinnuveitenda og ríkisstjórnin gáfust í kjölfar vestfjarðasamningsins upp eftir 35 tíma langan fund í Karphúsinu og undirrituðu hina svokölluðu „Sólstöðusamninga“ þ. 22. Júní. Laun ASÍ félaga hækkuðu um 26% á árinu 1977 og kaupmáttur jókst að sama skapi fyrst í stað. Fljótlega kom þó í ljós að menn höfðu verið of bjartsýnir og kjarasamningarnir voru afnumdir í febrúar 1978 með þeim hætti að ríkisstjórnin felldi gengi krónunnar um 13% og helmingaði verðlagsbætur með því að breyta mælistiku verðbótavístölu.

Stundum var þessari aðferð lýst þannig að ríkisstjórnin hefði stytt tommustokkinn um 20 cm. en héldi áfram að nota hann eins og ekkert hefði í skorist. Verkalýðshreyfingin mótmælti kröftuglega „kaupráninu.“ Skæruverkföll voruð skipulögð fyrri hluta ársins 1978 ásamt útflutningsbanni. Ríkisstjórnin setti bráðabirgðalög í maí 1978 þar sem lægstu daglaun eru hækkuð, en yfirvinnuálög jafnframt skert. Það þýddi í raun umtalsverða kjaraskerðingu þar sem liðlega þriðjungur launa allflestra var tilkominn vegna yfirvinnu. Hér var einnig vísað til nýja tommustokksins.

Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn sátu í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar frá haustinu 1974 voru á fundum verkalýðsfélaganna nefndir „Kaupránsflokkarnir“ og náðu nýjum hæðum í óvinsældum. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði meirihluta sínum í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningum vorið 1978 í fyrsta skipti í hálfa öld og kaupránsflokkarnir guldu afhroð í þingkosningunum í júní. Sjálfstæðisflokkurinn hafði þá frá stofnun fengið að jafnaði 39-40% fylgi, en fékk nú einungis 32,7%. Fjórum árum fyrr hafði Sjálfstæðisflokkurinn fengið í þingkosningum 42,7% og hann var þannig að tapa 10% eða um fjórðung af fylgi sínu, sem þykir kannski ekki mikið miðað við fylgið sem flokkurinn hefur þegar þetta er ritað.

Sumarið 1978 olli þáttaskilum í sögu Sjálfstæðisflokksins, ekki einungis vegna kosningatapsins heldur komu einnig fram á þessum tímamótum ungir menn sem áttu eftir marka djúp spor í sögu flokksins fram að hruninu haustið 2008. Heimdallur félag ungra sjálfstæðismanna hélt í framhaldi af niðurstöðu alþingiskosninganna fund þar sem komu fram formaður félagsins Kjartan Gunnarsson ásamt frummælendunum Davíð Oddsson og Friðrik Sophusson. Þessi hópur sendi ári síðar frá bókina „Uppreisn frjálshyggjunnar“ þar sem framantaldir rituðu greinar ásamt Geir H. Haarde og Hannes Hólmsteini Gissurarsyni. Ástæða er að halda því til haga að á þessu ári komu fram hugmyndafræðilegar sviptingar meðal hægri manna í Bandaríkjunum og Bretlandi með Ronald Reagan og Margrét Thatcher í broddi fylkingar og augljóst að það var margt sem hinir ungu Heimdellingar sóttu til þeirra.

Í uppgjöri Styrmis kemur fram að það skortir alþjóðleg lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildahagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera.

Kerfið eins og það er nú tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus. Það eru fyrirtækin sem stjórna ríkisstjórnunum með sína hagsmuni í fyrirrúmi. Þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga okkar eru að glatast og viðhorf fjármálanna hafa tekið yfir.

Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex. Þeim fjölgar sem ekki hafa aðgang að vatni. Mannfyrirlitning fjölþjóðafyrirtækjanna er kominn inn á íslenskan vinnumarkað.

Opnir óheftir markaðir leiddu Ísland, eina ríkustu þjóð Evrópu, í gjaldþrot og fleiri eru á leiðinni. Gjaldþrot auðhyggjunnar og nýfrjálshyggjunnar blasir við hvert sem litið er. Til að styðja þá fullyrðingu var bent á að fylgi þess flokks sem hafði boðað frjálshyggjuna hér á landi hafði fallið um helming eða frá um 42.7% niður í 23,7% í kosningunum sumarið 2009 og hefur síðan verið á þeim slóðum. Það er auðvitað gersamlega ófullnægjandi útkoma fyrir flokk sem hafði verið og taldi sig vera kjölfestan í íslenskum stjórnmálum, eins og Styrmir Gunnarsson segir.

Þeir sem höfðu barist fyrir aukinni frjálshyggju höfðu ekki gert sér grein fyrir því hvernig markaðsöflin gátu virkað og stóðu því skyndilega frammi fyrir þeirri staðreynd að þessi öfl höfðu snúist gegn þeim og þeir höfðu ekkert pólitískt afl til þess koma böndum á þau. Efnahagsreikningar bankanna á námu við hrunið 1500% af vergri landsframleiðslu Íslands og hrunið á Íslandi hlutfallslega það versta í heimsögunni.

Við vorum innilokuð í hugmyndafræðilegu fangelsi öfgafullrar frjálshyggju. segir Styrmir í bók sinni og vísar einnig til ummæla Davíðs Oddssonar „Ég var dyravörðurinn sem hleypti þeim út.“

Þeir sem hafa áhuga á pólitískri umræðu og þróun samfélagsins eiga að lesa bók Styrmis.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni