Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Treystir Alþingi þjóðinni?

Treystir Alþingi þjóðinni?

Talsmenn ríkisstjórnarinnar telja að breytingar á stjórnarskrá verði að gerast í sátt allra stjórnmálaflokkanna. Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að sá flokkur sem skemmst vill ganga eigi að ráða förinni og Alþingi hafi tekið sér einkabreytingarrétt á stjórnarskránni. Enda hafa nokkrir þingmenn og ráðherrar látið hafa það eftir sér að þeir sjái ekki ástæðu til þess að þjóðin fái að koma að stjórnarskrárferlinu.

Það fór hins vegar fram þ. 20. okt. 2012 þjóðaratkvæðagreiðsla um drög að nýrri stjórnskrá sem var samin af Stjórnlagaráði í samvinnu við þjóðina upp úr 600 bls. skýrslu stjórnlaganefndar Alþingis sem reisti vinnu sína á niðurstöðum 1000 manna þjóðfundar. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar varð sú að 2/3 kjósenda vildi að ný stjórnarskrá yrði reist á tillögum Stjórnlagaráðs.

Drög stjórnlagaráðs eiga sér hins vegar marga öfluga andstæðinga í stjórnmálastéttinni. Þó ítrekað hafi verið eftir því leitað hefur lítið farið fyrir því að andstæðingarnir hafi lagt á borðið málefnalega gagnrýni á tillögum stjórnlagaráðs.

Þeim hefur hins vegar tekist að tefja málið með útúrsnúningum og lagatækni, en ekki síst á grundvelli breytingarákvæðis sem hefur verið að óbreytt frá dönsku stjórnarskránni sem var lögfest árið 1859 og beinir valdinu ofanfrá og niður. Í dag lifum við hins vegar í samfélagi þar sem uppspretta valds er hjá fólkinu sjálfu, en afstaða ríkisstjórnarinnar hefur framkallað þá spurningu hvort ríkisstjórnin ætli sér að viðurkenna lýðræðisleg grunngildi.

Andstæðingar breytinga á gömlu dönsku stjórnarskránni halda því að okkur að ástæðulaust sé að umbylta lýðveldisstjórnarkránni því hún sé „listilega smíðuð“ og sé hvorki meir eða minna en „helgur gjörningur“. En hvað sögðu leiðandi stjórnmálamenn þegar hin snögg þýddu dönsku konungsstjórnarskrá var afgreidd í snarhasti við lýðveldisstofnunina 1944 ?

Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis ... Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf.“

Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „... er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.

Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“

Í nýársávarpi sínu árið 1949 kvartaði Sveinn Björnsson forseti undan seinagangi á endurskoðun og hvatti þingheim og aðra til dáða : „Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. …Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

Stjórnmálamenn hafa hins vegar skipt um skoðun því þeir hafa áttað sig á því að hún óbreytt tryggi þeim völd og nánast einræði. Helsta vörn þeirra er breytingarákvæðið frá 1859, sem er svona: „Uppástungur, hvort heldur er til breytinga eður viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp, bæði á reglulegu alþingi og auka-alþingi. Nái uppástungan um breytingu á stjórnarskránni samþykki beggja þingdeildanna, skal leysa alþingi upp þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki hið nýkosna alþingi ályktunina óbreytta, og nái hún staðfestingu konungs, þá hefur hún gildi sem stjórnarlög.“

Það hafa margir áhyggjur af því fyrirkomulagi sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggur til um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrár, ekki síst í ljósi þess sem á undan er gengið. Í tillögunni gerir forsætisráðherra ráð fyrir að stjórnarskráin verði endurskoðuð á yfirstandandi kjörtímabili og því næsta í áföngum og hliðsjón verði höfð af niðurstöðum þjóðfundar, stjórnlaganefndar og Stjórnlagaráðs auk starfa stjórnarskrárnefnda árin 2005 til 2007 og árin 2013 til 2016, þeirri miklu samfélagslegu umræðu sem átt hefur sér stað, umræðu og nefndavinnu á Alþingi, auk afstöðu kjósenda að því marki sem hún hefur þegar komið fram.

Sé litið til yfirlýsinga núverandi stjórnarflokka um stjórnarskrárdrögin og hvernig þessum flokkum hefur tekist að koma í veg fyrir að lýðræðisleg niðurstaða lögmætra kosninga sé virt, þá er full ástæða til þess að ætla að hér sé enn eina ferðina verið að stöðva ferlið. Talsmenn stjórnarflokkanna fullyrða að tillögur stjórnlagaráðs séu það stórtækar að þær muni framkalla kollsteypu, en þeir hafa enn ekki lagt fram neinar málefnalegar skýringar. Enda liggur yfir liðlega 70% tillagna Stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar eru eins og í eldri stjórnskránni, en það er hins vegar búið að færa textann til nútíma orðalag og setja skýrara orðalag.

Það eru hins vegar ný ákvæði um náttúruna, kosningar og aðkomu þjóðarinnar að störfum Alþingis og það búið að kollsteypa á ákvæðum um störf forseta. Núverandi forseti hefur nánast grátbeðið um að tillögur stjórnlagaráðs verði samþykktar. Gildandi ákvæði í núgildandi stjórnarskrá um störf forseta segja m.a :

20. gr. Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla. Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni. Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það. Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk. Með lögum má undanskilja ákveðna embættismannaflokka auk embættismanna þeirra, sem taldir eru í 61. gr.

21. gr. Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.

29. gr. Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.

Ekkert af þessum greinum núgildandi stjórnarskrár stenst nútímann og er reyndar fjarstæða eins og nýr forseti hefur bent á og hann vill andstætt þingmönnum að starfssvið hans sé skýrt. Þrátt fyrir framangreind rök er því blákalt haldið fram í ræðustól alþingis að íslenska lýðveldið falli verði farið að tillögum Stjórnlagaráðs, stjórnlaganefndar, þjóðfundar og óskum núv. forseta.

Í ályktun á fjölmennum fundi Stjórnarskrárfélagsins nýverið kom fram m.a. Ef stjórnmálaflokkar á Alþingi treysta ekki þjóðinni, hví skyldi þjóðin þá treysta stjórnmálaflokkunum? Frumvarp að nýrri og endurskoðaðri stjórnarskrá lá fyrir fullbúið af hálfu Alþingis í mars 2013, frumvarp sem var efnislega í samræmi við niðurstöðu Þjóðfundar 2010, tillögur Stjórnlagaráðs og niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012.

Í frumvarpi Alþingis hafði jafnframt verið brugðist við athugasemdum Feneyjarnefndarinnar og fjölmargra annarra. Í því ljósi er fullkomlega ástæðulaust að draga endurskoðun stjórnarskrárinnar í heil tvö kjörtímabil, átta ár. Víðtæk sátt sýndi sig vera um tillögur að hinni nýju stjórnarskrá meðal almennings. Ósætti og ósamkomulag milli stjórnmálaflokka á Alþingi á ekki og má ekki standa í vegi fyrir þeirri sátt. Þrátt fyrir allt er enginn ágreiningur um að þjóðin er stjórnarskrárgjafinn þótt Alþingi samþykki að forminu til lögfestingu nýrrar stjórnarskrár.

Ljúka á stjórnarskrárferlinu með hliðsjón af því lýðræðislega ferli sem fæddi af sér nýju stjórnarskrána. Þeim, sem hafa hug á að endursemja og breyta tillögum ráðsins, er vandi á höndum, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur ráðsins.

Virkja á almenning til að ljúka stjórnarskrárferlinu og strax í byrjun. Takmarkið hljóti að vera að endurspegla sjónarmið borgaranna í stjórnarskránni svo hún gegni hlutverki sínu sem samfélagssáttmáli og grunnlög þjóðarinnar. Meira en sjötíu ára reynsla Íslendinga af stjórnarskrárnefndum þingsins hljóti að teljast sönnun þess að einskis árangurs er að vænta af slíkri nefnd.

Árið er 2018 er viðeigandi að hin nýja stjórnarskrá yrði lögfest á 100 ára fullveldisafmæli íslenska ríkisins þann 1. desember næstkomandi. Fullveldið er þjóðarinnar, þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og frá henni er allt ríkisvald sprottið.

Fyrsta verkefnið í endurskoðun stjórnarskrárinnar er augljóslega endurskoðun á ákvæði 79. gr. núgildandi stjórnarskrá um hvernig henni megi breyta. En það er alls ekki sama hvernig nýtt breytingarákvæði er. Það sem batt enda á stjórnarskrárferlið vorið 2013 var samþykkt þingsins á bráðabirgðaákvæði við stjórnarskrána einmitt um þetta atriði.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.