Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Tillögur Stjórnlagaráððs

Tillögur Stjórnlagaráððs

Í umræðum vegna komandi kosninga hafa stjórnarskrármál verið ofarlega á baugi. Í tilefni af því langar mig til þess að fara í stuttu máli yfir störf og niðurstöður Stjórnlagaráðs. Þegar þjóðaratkvæðagreiðslan um niðurstöður stjórnlagaráðs nálgaðist var fleytt út í umræðuna margskonar fullyrðingum um hvað breytingar á stjórnarskránni myndu hafa í för með sér. Margir klifa áfram á þessum klisjum þó oft sé búið að gera tilraunir til þess að leiðrétta málsmeðferð. Reynt var að þyrla upp moldviðri óttans og hræða sem flesta frá því að mæta á kjörstað. Því var m.a. haldið fram að til stæði að leggja niður þjóðkirkjuna og þá um leið jólin ásamt löggiltum frídögum og taka krossinn úr íslenska fánanum. Það væri hlutverk kjörinna fulltrúa að sjá um breytingar á stjórnarskránni. Á móti var spurt hver vegna ekki væri hægt að semja nýja stjórnarskrá án aðkomu stjórnarmálaaflanna. Í afstöðu stjórnmálaflanna opinberaðist óttinn við að hagsmunir allra yrðu settir ofar sérhagsmunum.

 

Jöfnun atkvæðavægis og persónukjör

Á þjóðfundi árið 2010 og síðar í stjórnlagaráði kom fram áberandi vilji til þess að jafna atkvæðavægi í landinu og tryggja kjósendum jafna möguleika til þess að ráða sem mestu um hverjir veljist til þingsetu. Núgildandi kosningafyrirkomulag skerti frelsi kjósenda um val á frambjóðundum. Þetta er afleiðing þess að kjósendur fá einungis að velja á milli flokkslista í viðkomandi kjördæmi. Kosningakerfið í frumvarpi stjórnlagaráðs hins vegar felur sér kjördæmavarið landskjör. Það er ekki verið að afnema kjördæmin, þvert á móti er verið að auka sveigjanleika kjósenda.

Hér á landi hefur ríkir of mikið ráðherra- og flokksræði sem gerir þingmenn valdalitla, það þarf að efla þingræðið. Yfirgnæfandi vilji er í landinu fyrir því að landið verði eitt kjördæmi þannig er tryggt að atkvæðin vegi jafnt sama hvaða af landinu þau koma. Í núgildandi stjórnarskrá segir að kjördæmi skuli vera 6 til 7, en í tillögum Stjórnlagaráðs er lagt til að þau geti verið eitt til átta talsins. Í tillögum stjórnlagaráðs er tryggður lágmarksfjöldi þingmanna í hverju kjördæmi. Frambjóðendur geta boðið sig fram á kjördæmis- og/eða landslista sömu samtaka. Kjósandi velur lista í sínu kjördæmi, en getur einnig með persónukjöri valið frambjóðendur á lista í sínu kjördæmi ásamt því að geta valið frambjóðendur úr öðrum kjördæmum. Velji kjósandi sér t.d. þrjá frambjóðendur, t.d. tvo úr flokki A en einn úr flokki B. Þá skiptist atkvæði hans þá í sama hlutfalli milli þessara tveggja flokka. Þetta fyrirkomulag leysir hin óvinsælu prófkjör af hólmi. Kosningafyrirkomulag stjórnlagaráðs tryggir þannig persónukjör og leysir af hólmi hin umdeildu prófkjör samfara því að flokksræðið minnkar.

 

Í umræðum um stöðu dreifbýlis gagnvart þéttbýlinu á SV-horninu hefur dreifbýlisfólk gjarnan stillt málum upp með þeim hætti að því sé gert að búa við einhverskonar samsæri af hálfu þéttbýlinga. Til þess að vinna gegn þessu samsæri verði að viðhalda mismunandi vægi atkvæða og þar með sé stuðlað að öflugri atvinnutækifærum í dreifbýlinu. Það minnki atvinnuleysi og slaka félagslega stöðu í dreifbýlinu. Í þessu er mikil mótsögn sakir þess að um áratugaskeið hafi verið mikið misvægi atkvæða hér á landi og þrátt fyrir þá staðreynd er atvinnuleysi hér á landi mest í úthverfum höfuðborgarinnar. Sama eigi við um slaka félagslega stöðu, hún er langmest á sömu stöðum í þéttbýlinu.

 

Í skoðanakönnunum undanfarin ár hefur komið ítrekað fram að um 85% ungs fólks sættir sig ekki við þau kjör sem því er búið á Íslandi í dag. Ísland er að dragast aftur úr nágrannalöndunum. Fólk er ekki einungis að flýja dreifbýlið, það er á leið úr landi og reyndar koma flestir þeirra sem flytja til útlanda frá þéttbýlissvæðum. Vægi atkvæða hefur þannig ekkert með atvinnu- eða kjaramál að gera. Það eru allt önnur atriði sem ráða því hvar fólk velur sér búsetu og hvert fyrirtækin leita þegar þau eru að koma sér fyrir og byggja upp starfsemi sína.

 

Auðlindirnar

Umræða um náttúruna og auðlindir landsins og var eitt af aðalmálum þjóðfundar með ákalli um sérstakt auðlindaákvæði í stjórnarskránna. Þjóðin hefur ekki verið sátt við hvernig þessi mál hafa þróast. Stjórnlagaráð leggur áherslu á verndun náttúru Íslands. Hún sé undirstaða lífs í landinu og tryggir landsmönnum heilnæmt umhverfi. Samfara því að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið með því að náttúruminjar, víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Haga eigi nýtingu náttúruverðmæta þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og umleið komandi kynslóða sé virtur.

 

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja, beint eða óbeint. Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi. Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum. Tillögur stjórnlagaráðs í auðlindamálum eru skýrar og miða að því að þjóðin endurheimti aftur yfirráðaréttinn yfir fiskimiðunum. Tillögurnar tiltaka ekki nákvæmlega hvernig auðlindastjórn skuli háttað yrði henni breytt. Það er vísvitandi gert með með heildarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

 

Þjóðaratkvæðagreiðslur

Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá eru ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lagafrumvörp frá grasrótinni og að frumkvæði kjósenda er tvímælalaust djarfasta nýmælið í tillögum stjórnlagaráðs um beint lýðræði. Gert er ráð fyrir að 10% kjósenda fái rétt til þess að vísa lögum í þjóðaratkvæði. Þar fær þjóðin sama rétt og forsetinn hefur, að undanskildum lögum um skatta, fjárlög, þjóðréttarskuldbindingar og ríkisborgararétt. Alþingi getur leitað eftir málamiðlun við forsvarsmenn undirskriftarsöfnunarinnar fallist þingheimur ekki á frumvarpið óbreytt. Náist hún ekki fer frumvarp kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu, en einnig gagntillaga sem Alþingi kann að leggja fram.

 

Hlutverk forseta

Í tillögum Stjórnlagaráðs er vægi forseta áþekkt núverandi skipulagi, en staða hans og hlutverk er gert skýrara. Hingað til hefur helsta vald forseta þótt felast í málskotsréttinum, sbr. 26. gr. stjórnarskrárinnar. Með því að færa það vald til ákveðins hlutfalls kjósenda, er dregið úr valdavægi forsetans í stjórnskipan landsins. Hinn hluti tillögu Stjórnlagaráðs um beint lýðræði er tillaga um að 2% kjósenda geti lagt mál fyrir Alþingi, sem fer á dagskrá þingsins og er þar jafnrétthátt öðrum málum sem fyrir þinginu liggja. Í þessu tilfelli getur Alþingi fellt tillöguna, en þá ekki fyrr en eftir eðlilega málsmeðferð. Stjórnlagaráð telur að Alþingi eigi að setja lög um framkvæmdina og hvernig undirskriftasöfnun geti farið fram og stigið mikilvægt skref í valddreifingu með hæfilegri blöndu af fulltrúalýðræði og beinu lýðræði fólksins.

 

Þjóðkirkjan

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni var spurt um hvort ákvæði um þjóðkirkju ætti að vera í nýrri stjórnarskrá. Þar var ekki spurt um hvort aðskilja ætti kirkju og ríki eins sumir héldu fram og hvort í stjórnarskrá ætti að vera kveðið um þjóðkirkja. Spurningin snérist um hvort það væri ástæða að tilgreina í nýrri stjórnarskrá ákveðna trúarskoðun umfram aðra. Mál þjóðkirkjunnar hafa verið ofarlega í þjóðmálaumræðunni. Stjórnlagaráð komst að þeirri niðurstöðu að fara svipaða leið að og nágrannaþjóðir Íslands höfðu farið með því að gera ekki einni trúarskoðun hærra undir höfði en öðrum í stjórnarskrá. Áberandi væri vilji meðal þjóðarinnar að gera öllum trúarskoðunum jafnt undir höfði og þjóðin ætti að geta breytt þessu í samræmi við tíðarandann án þess að breyta stjórnarskránni.

 

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. okt. 2012 varð :

  • 67,4% vildu að tillögur stjórnlagaráðs yrði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

  • 81.3% vildu að náttúruauðlindir sem eru ekki í einkaeigu yrðu lýst sem þjóðareign.

  • 76.4% vildu aukið persónukjör við Alþingiskosningar.

  • 57% vildu að ákvæði um þjóðkirkju væri í stjórnarskrá.

  • 70,5% vildu að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.

  • 55,6% vildu að atkvæði kjósenda vegi jafnt sama hvar þeir byggju.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni